Fjölbreytileikinn í fyrirrúmi

fanneydogg

Fanney Dögg Ólafsdóttir snyrtifræðimeistari og eigandi snyrti-, nudd- og fótaaðgerðastofunnar Líkama og sálar segir ávinning af varanlegri förðun vera svipmeira útlit sem undirstrikar fegurð einstaklingsins.

Varanleg förðun eða förðun framtíðarinnar er byltingarkennd meðferð sem felst í innsetningu lita undir yfirborð húðar til þess að skerpa línur andlits og undirstrika fegurð. Meðferðirnar eru tiltölulega sársaukalitlar og eru ávallt gerðar í samráði við viðskiptavini bæði hvað varðar litaval og lögun.
Ein af þeim sem hefur ástríðu fyrir förðun sem þessari er Fanney Dögg Ólafsdóttir, snyrtifræðimeistari, en hún notar liti frá Nouveau Contour sem hafa verið prófaðir fyrir litastöðuleika, öryggi og útkomu og teljast þeir bestu á markaðnum í dag.

Fanney Dögg er fædd í Reykjavík 21. september 1981. Foreldrar hennar eru þau Hugrún Þorgeirsdóttir snyrti-, nudd- og fótaaðgerðafræðingur og Ólafur Sigurjónsson verslunarstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Fanney Dögg á eina systur, Jónu Björgu, sem er fædd 1979.

Alltaf líf og fjör hjá afa og ömmu
„Ég er alin upp í Mosfellsbæ og vil hvergi annars staðar eiga heima. Björg föðuramma mín og Sigurjón afi bjuggu í næstu götu við okkur og það var dásamlegt að fá að alast upp svona nálægt þeim.
Ansi oft fylgdi okkur systrum stór vinahópur sem mætti í Álmholtið til þeirra og þar var alltaf líf og fjör og vel tekið á móti öllum.“

Kafaði gjörsamlega niður á botn
„Á mínum yngri árum var maður mikið út að leika í hinum ýmsu leikjum eða að renna sér í brekkunni fyrir neðan Lágholtið.
Áður en Sorpa kom til sögunnar þá voru ruslagámar rétt hjá hesthúsahverfinu. Ég gekk gjarnan þangað, fór upp í gámana og kafaði gjörsamlega niður á botn og fann alltaf einhverja flotta hluti sem ég tók að sjálfsögðu með mér heim,“ segir Fanney Dögg og skellir upp úr.
„Foreldrar mínir voru lítt hrifnir af þessu uppátæki mínu, hvað þá að gjöfunum sem ég færði þeim eftir hverja ferð.“

Týpísk nútíma fjölskylda
„Ég gekk í Varmárskóla og fór síðan í Gaggó Mos. Við æskuvinkonurnar höfum haldið hópinn og ég er einstaklega heppin að eiga frábærar og traustar vinkonur.
Foreldrar mínir skildu þegar ég var fimmtán ára. Þau eignuðust síðan nýja maka og í kjölfarið eignaðist ég sjö stjúp­systkini svo mín nánasta fjölskylda stækkaði ansi mikið. Þetta er þessi týpíska nútíma fjölskylda,”“segir Fanney Dögg og brosir. „Allt er þetta dásamlega gott og skemmtilegt fólk og samband okkar er gott.“

Eyddi frítíma mínum í hestamennsku
„Allan minn tíma í grunnskóla æfði ég knattspyrnu með Aftureldingu og svo var ég líka í Skólakór Varmárskóla.
Við fjölskyldan vorum í hestunum og í hesthúsinu eyddi ég öllum mínum frítíma og á frábærar minningar þaðan. Hestamennskan er yndislegt fjölskyldusport og í Herði er mikið lagt upp úr barna- og unglingastarfi.
Við í unglingahóp Harðar vorum með hestasýningu í Vestmannaeyjum 1995 þar sem við sýndum m.a. skrautsýningu, fánareið, hlýðniæfingar, hindrunarstökk og fleira. Þessi ferð var afar vel heppnuð og rataði meira að segja í blöðin.“

Flutti til Danmerkur
„Eftir gagnfræðaskólann lá leið mín á Laugarvatn þar sem ég var í tvö ár en svo flosnaði ég upp úr skóla og fór að vinna.
Sumarið 1999 flutti ég til Danmerkur og fór að læra snyrtifræði í Cidesco cosmetologskolen í Kaupmannahöfn. Þetta var skemmtilegur tími og ég varð sjálfstæðari og þroskaðri við þessa dvöl mína. Ég flutti heim eftir námið og við tók nemasamningur á Snyrtistofunni Líkama og sál, sveinsprófið klárað ég árið 2002.
Ég kláraði stúdentinn og sjúkraliðann frá Menntaskólanum við Ármúla 2005 og svo tók ég meistararéttindin í snyrtifræði 2008 og bætti svo förðunarfræðingnum við 2011 svo það er búið að vera nóg að gera.“

Bestu stundirnar fólgnar í einfaldleika
„Ég kynntist eiginmanni mínum, Guðmundi Þór Sævarssyni, sölustjóra hjá Emmess ís, árið 2007. Það má segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við giftum okkur 2009 í Lágafellskirkju og héldum veislu í Kjósinni, frábær dagur í alla staði.
Gummi gekk dóttur minni, Andreu Rós, í föðurstað þegar hún var fjögurra ára og samband þeirra er sterkt og gott. Árið 2008 eignumst við soninn Aron Þór, en yngst er Eva Dögg, hún er fædd 2010.
Hvað finnst fjölskyldunni skemmtilegast að gera saman? „Okkur finnst gaman að ferðast innanlands sem utan, fara í sumarbústaðaferðir, göngutúra, skíði og bara hverskyns samvera. Á planinu er svo að vera með tvo hesta í húsi fram á sumar.
Það er nú ekki mikill tími aflögu í þessu hraða þjóðfélagi sem við lifum í en við reynum að nýta vel þær stundir sem við eigum saman og njóta þeirra. Oft eru bestu stundirnar fólgnar í einfaldleikanum.“

Líkami og sál 20 ára
„Snyrtistofan Líkami og sál var stofnuð af móður minni árið 1996 svo fyrirtækið verður 20 ára í ár. Ég keypti stofuna árið 2011 og nú starfar mamma hjá mér og okkur finnst dásamlegt að vinna saman. Jóna Björg systir útskrifaðist sem fótaaðgerðafræðingur s.l. haust og nú hefur hún bæst í hópinn. Auk okkar starfa tveir aðrir starfsmenn á stofunni.“

Meðferðirnar henta báðum kynjum
Er boðið upp á margar meðferðir á stofunni? „Já, hjá okkur er fjölbreytileikinn í fyrirrúmi og meðferðirnar henta bæði konum og körlum. Það er gleðilegt að segja frá því að við sjáum mikla aukningu hjá körlum sem er frábært því þeir þurfa jafn mikið á meðferðunum að halda og konur.
Í byrjun árs 2015 klárað ég mastersnám í varanlegri förðun (tattú). Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri og þarna liggur mín ástríða. Við notum liti frá Noveau Contour sem eru náttúrulegir og endast lengi. Allt er þetta framkvæmt eftir óskum hvers og eins og útkoman er eðlileg og undir­strikar fegurð einstaklingsins.
Varanleg förðun getur breytt miklu t.d. fyrir manneskjur sem hafa gisnar augabrúnir og þurfa að fara í litun mjög ört eða hafa misst hárin vegna lyfjameðferðar. Það er vert að geta þess að Tryggingastofnun tekur þátt í kostnaði sem hlýst af svona meðferðum fyrir sjúklinga.
Þetta er sem sagt nýjasta viðbótin hjá okkur og ég er stolt að geta boðið upp á þessa meðferð,“ segir Fanney Dögg að lokum er við kveðjumst.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs