Mikið hefur mætt á snjó­moksturstækjum bæjarins

steinimæló

Vetur konungur hefur heldur betur látið að sér kveða í desember. Í byrjun mánaðarins kyngdi niður snjó í miklu magni á stuttum tíma. Þegar slíkar aðstæður skapast mæðir mikið á snjómoksturstækjum og þeim mannskap sem þeim stýra en Þjónustustöð Mosfellsbæjar ber ábyrgð á snjómokstri í bænum.
Mosfellingur hafði samband við Þorstein Sigvaldason sem stýrir Þjónustustöðinni. „Við vinnum bæði á eigin vélum bæjarins og eins eru ráðnir verktakar til starfsins þegar á þarf að halda.
Skipulega er gengið til verks og liggur fyrir snjómokstursáætlun sem forgangsraðar verkefnum. Þar er í fyrsta forgangi að ryðja stofngötur, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur. Áhersla á að ryðja stígakerfi bæjarins hefur aukist síðustu ár. Stígakerfi til og frá skólum og þau sem tengja saman hverfi eru í fyrsta forgangi.“

GPS sendar í moksturstækin
Þorsteinn sagði einnig frá nýjung í starfseminni sem snýr að því að nýverið voru settir GPS sendar í moksturstækin. Þannig er hægt að fylgjast betur með þeim svæðum sem búið er að ryðja. Markmiðið með þessu er að gera vinnuna við snjómokstur og önnur verkefni skilvirkari og þjónustuna betri.
„Þessi tækni mun jafnvel geta falið í sér að íbúar gætu farið inn á netið og séð hvar vélarnar eru í rauntíma. Það bætir upplýsingaflæði og gerir þjónustuna gegnsæa,“ segir Þorsteinn bjartsýnn áður en hann þurfti að snúa sér aftur að þeim mörgu verkefnum sem fylgja vetrinum og jólunum hjá Þjónustustöðinni.

 


HÁLKUVARNIR
Hálka er nú mjög víða og eru bæjarbúar hvattir til að fara varlega. Hjá Þjónustustöð bæjarins við Völuteig 15 geta íbúar fengið sand til að bera á plön og stéttir við heimahús. Aðgengi er opið að sandinum og er bæjarbúum velkomið að taka það sem til þarf (muna að taka með sér poka eða ílát). Hægt er að senda ábendingar um það sem betur má fara á mos@mos.is eða hringja í þjónustumiðstöð 566 8450.

Erfitt að horfa upp á barnið sitt svona veikt

mosfellingurin_orri1

Orri Freyr Tómasson greindist með afar sjaldgæfan erfðasjúkdóm fljótlega eftir fæðingu. Einungis einn einstaklingur hefur greinst áður hér á landi með þennan sjúkdóm svo vitað sé.

Orri Freyr hefur á sinni stuttu ævi barist við afar sjaldgæfan erfðasjúkdóm sem nefnist Osteo­petrosis. Fljótlega eftir fæðingu kom í ljós að hann var með lágt kalk og D-vítamín í líkamanum. Nokkrum mánuðum síðar mældist höfuðmál hans óvenju stórt og við nánari rannsókn kom í ljós að hann var með vatnshöfuð, einnig hafði milta hans stækkað óverulega.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræða foreldrar Orra um sjúkrasöguna, dvölina ytra og ástand sonar síns í dag.

Orri Freyr fæddist 6. ágúst 2012. Foreldrar hans eru þau Agnes Ósk Gunnarsdóttir og Tómas Pétur Heiðarsson. Hann á eina systur, Fanneyju Emblu, sem er sex ára.

Ventli komið fyrir í höfðinu
Fljótlega eftir fæðingu Orra Freys kom í ljós að hann var með lágt kalk og D-víta­mín í líkamanum. Hann fékk viðeigandi lyf og dafnaði vel. „Þegar við fórum með hann í fimm mánaða skoðun kom í ljós að höfuð­mál hans var orðið óvenju stórt og í ljós kom að hann var með vatnshöfuð,“ segir Agnes Ósk, móðir Orra Freys.
Daginn eftir fór hann í aðgerð þar sem ventli var komið fyrir í höfðinu eins og vant er í slíkum tilfellum. Eftir aðgerðina virtist allt vera í lagi nema hann þyngdist hægt og lengdist mjög lítið. Hann var seinn í hreyfiþroska og var sendur til sjúkraþjálfara.“

Grunur vaknaði hjá læknunum
„Orri Freyr var oft mjög veikur og virtist fá hverja umgangspestina á fætur annarri. Þrátt fyrir það fannst okkur hann sýna framfarir en hann vildi alls ekki stíga í fæturna og það fannst okkur skrítið.
Við fórum með hann til læknis sem fann fyrir einhverju óvenjulegu í kviðnum á honum sem reyndist vera stækkað milta. Þegar öll einkenni barnsins voru tekin saman þá vaknaði grunur hjá læknunum. Teknar voru blóðprufur og röntgenmyndir til að sannreyna hvort grunurinn væri á rökum reistur, það er að segja að hann væri með sjúkdóm sem nefnist Osteopetrosis, og það reyndist rétt. Greininguna fengum við í kringum eins árs afmælið hans.“
Ákveðinn léttir að
fá greininguna
Sjúkdómurinn er genagalli og er Orri sá eini sem hefur greinst með þennan sjúkdóm á Íslandi í 40 ár, þetta er samt annað tilfellið sem vitað er um hér á landi.
Hvernig varð ykkur við? „Að fá greininguna var ákveðinn léttir en svo fórum við að gera okkur grein fyrir alvarleika sjúkdómsins og þá kom upp mikið stress. Okkur var ráðlagt að hitta sjúkrahúsprestinn og það hjálpaði okkur mikið að geta talað við hann.“

Beinin verða stökk og brothætt
Hvernig lýsir sjúkdómurinn sér? „Það eru tvær gerðir af beinfrumum í beinmergnum. Önnur byggir upp beinin en hin sér um að brjóta þau niður svo þau endurnýi sig og formist rétt.
Í Orra tilfelli eru niðurrifsfrumurnar ekki virkar og þar af leiðandi formast beinin hjá honum ekki rétt og verða kubbsleg í laginu. Beinin verða stökk og brothætt og það þrengist mjög að beinmergnum sem gerir það að verkum að starfsemi hans minnkar. Ástæða fyrir stækkun miltans er sú að miltað hefur tekið við stórum hluta starfsemi beinmergsins.“
Fóru til Svíþjóðar í aðgerð
„Eina lækningin við þessum sjúkdómi eru beinmergsskipti en ef genagallinn er stökkbreyttur þá er ekkert hægt að gera og lifa þá flest börn sem bera þennan sjúkdóm yfirleitt ekki lengur en til 6-10 ára aldurs.
Það var ljóst að við þyrftum að fara með Orra Frey til Svíþjóðar í aðgerð. Strax var farið að leita að merggjafa fyrir hann og var Fanney Embla systir hans fyrsti kostur en því miður gekk það ekki eftir. Það var vitað fyrirfram að við foreldrarnir gætum ekki gefið honum merg svo fljótlegasta leiðin var að leita í evrópskum gagnagrunni.“

Merggjafinn fannst á Englandi
„Þann 1. desember 2013 eða um leið og merggjafi fannst þá fórum við fjölskyldan út og reiknuðum með að dvelja í þrjá mánuði en það er yfirleitt tíminn sem þetta ferli tekur en sá tími átti eftir að lengjast töluvert.
Inga hjúkrunarfræðingur tók á móti okkur en hún aðstoðar fjölskyldur í aðstæðum eins og okkar. Hún sýndi okkur hús sem við gátum búið í og er ætlað fyrir aðstandendur sjúklinga sem koma langt að og þurfa að dvelja lengi á staðnum.
Fyrsta vikan fór í rannsóknir en svo fór Orri Freyr í einangrun þar sem beinmergur hans var brotinn niður. Þann 18. desember fékk hann svo nýja beinmerginn sinn sem kom frá gjafa á Englandi.
Aðgerðin við að fá nýja merginn er tiltölulega einföld en mergnum er sprautað í æð. Mesta áhættan var ef líkami Orra myndi hafna nýja mergnum. Hann var hafður á höfnunarlyfjum til að stjórna höfnuninni en á þeim þurfti hann að vera í eitt ár.“

mosfellingurin_orri2Þurftum að fara í einangrun
„Orri var mjög kvefaður og slappur eftir aðgerðina og var settur í rannsókn. Þá kom í ljós að hann var með svínaflensu. Það þurfti að setja okkur í einangrun og við máttum ekki nota eldhúsið eða neitt af sameiginlegu rýmunum vegna smithættu.
Við fengum svo að vita að nýju frumurnar væru farnar að vinna og næstu daga stigu öll blóðgildi hratt. Allt stefndi í það að við myndum losna úr einangrun fljótlega en svo stoppaði allt og gildin fóru að falla. Nokkrum dögum seinna kom svo í ljós að Orri hafði hafnað mergnum og ekkert annað að gera en að byrja upp á nýtt.“

Var eingöngu á sondunæringu
„Það þurfti að hafa samband við merggjafann til að fá frá honum stofnfrumur og við biðum í mánuð eftir þeim en þá tók við önnur lyfjameðferð. Það leið ekki nema rúm vika þar til þær frumur tóku við sér. Tölurnar fóru hratt upp en fljótlega var hann komin með höfnunareinkenni á húðinni frá nýju frumunum. Orri var eingöngu á sondunæringu því hann var svo slæmur í maganum út af höfnuninni. Í lok mars var hann svo útskrifaður af sjúkrahúsinu og var þá farinn að borða aðeins sjálfur.“

Fengum þjálfun í að gefa honum lyf
„Við vorum flutt á íbúðarhótel í miðbæ Stokkhólms, læknarnir vildu ekki leyfa okkur að búa áfram í húsinu þar sem Orri mældist ennþá með svínaflensu.
Við fórum í apótekið og leystum út fjórtán mismunandi lyf sem Orri þurfti að taka tvisvar á dag og sum lyfin fjórum sinnum en við fengum þjálfun í að gefa honum lyfin áður en að útskrift kom. Það var að mörgu að hyggja, það fylgdi heil A4 síða með stundatöflu yfir lyfjagjöfina. Við þurftum að mæta á sjúkrahúsið tvisvar í viku í blóðprufur og lyfjagjafir.
Þá daga sem við þurftum ekki að mæta áttum við fyrir okkur og þá var reynt að lifa eðlilegu lífi. Það var nú ekki alltaf auðvelt þar sem Orri mátti ekki vera innan um fólk. Við gátum t.d. ekki farið með hann í lest, strætó eða í búðir vegna smithættu.“

Veitti okkur frelsi að hafa bíl
„Við tókum bíl á leigu og það veitti okkur mikið frelsi. Það fór eftir heilsu Orra hversu mikið við gátum farið.
Fanney Embla var hjá okkur af og til en hún varð að fá að komast heim inn á milli til að fara í leikskólann og losna undan þessu læknaumhverfi. Það var jafn mikil vinna að sinna henni og veita henni þá athygli sem hún þurfti á meðan á öllu þessu stóð.“

Undirbreiðslur voru staðalbúnaður
„Orri var á sondunæringu en þá nærist hann í gegnum slöngu sem fer í gegnum nef og ofan í maga en hann borðaði aðeins sjálfur með. Fljótlega fór að bera á magavandamálum og matarlystin var lítil og endaði með því að hann hætti alveg að borða.
Um miðjan maí kom bakslag þegar Orri greindist með nóróveiru og það fór alveg með magann. Hann fékk mikinn niðurgang og það þurfti að skipta á honum 15-17 sinnum á sólarhring.
Undirbreiðslur voru orðin staðalbúnaður, þær voru í bílstólnum, í barnakerrunni og í rúminu þar sem bleyjan hafði ekki undan öllum þessum ósköpum.“

Fékk stera í æð
„Þegar komið var fram í júní var Orri ennþá mjög slæmur, það endaði með því að hann var lagður inn. Hann mátti ekki taka inn nein lyf eða fæðu í gegnum munn, allt fór í gegnum æð.
Hann fékk stera sem áttu að hjálpa maganum að ná sér en við það hækkaði blóðþrýstingurinn og var kominn í 210 í efri mörkum sem er margfalt meira en eðlilegt þykir. Það endaði með því að hann var lagður inn á gjörgæsludeild þar sem starfsfólkið á almennri deild réð ekki við ástandið. Á gjörgæslunni þurfti hann að fá mjög öflug blóðþrýstingslyf og var undir ströngu eftir­l­iti. Þaðan fór hann svo á barnadeild og útskrifaðist tveimur vikum seinna.“

Pöntuðu flug eftir tíu mánaða dvöl
„Sondunæringin var tekin og næring í æð kom í staðinn og fengum við þá heimahjúkrun þegar þurfti að tengja og aftengja næringuna. Eftir tvær vikur máttum við svo fara að gefa honum vatn og epladjús.
Ástandið hélst óbreytt alveg þangað til við fórum heim til Íslands hvað varðar magann, næringuna og það að vilja ekki borða neitt sjálfur. Læknarnir vildu ekki senda okkur heim fyrr en öll blóðgildi hjá Orra væru búin að vera stöðug í ákveðinn tíma en þau voru búin að vera rokkandi. Það kom svo að því og við gátum pantað okkur flug heim eftir tíu mánaða dvöl.“

Við sáum strax batamerki
„Það var mikil gleði að komast heim og hitta ættingja og vini. Það var samt langt því frá að við værum að koma heim í einhverja slökun. Við lærðum á allt í sambandi við næringu í æð og lyfjagjafir og svo voru tíðar sjúkrahúsferðir, sjúkraþjálfun og talmeinafræðingur, allir dagar voru í raun þéttskipaðir.
Ennþá voru magavandræði á Orra og ákváðu læknarnir hér heima að byrja aftur á núlli með sondunæringuna. Næring í æð var aukin og sondunæringin var sett á sídreypi. Þarna fóru hlutirnir að gerast og við sáum strax batamerki. Tæpum þremur mánuðum seinna var hann farinn að borða sjálfur.“

Lífið er töluvert rólegra núna
„Lyfin sem Orri var búinn að vera að taka tíndust út eitt og eitt, sterarnir voru trappaðir niður og í kjölfarið duttu blóðþrýstingslyfin út líka. Steraútlitið hvarf og Orri byrjaði svo að lengjast aftur en hann hafði ekki lengst í rúm tvö ár.
Hann byrjaði í sjúkraþjálfun og byrjaði svo að ganga í maí s.l. þá tæplega þriggja ára gamall.
Orri byrjaði í leikskólanum Huldubergi í ágúst og hefur tekið miklum framförum bæði hvað varðar hreyfiþroska og tal.
Lífið er töluvert rólegra hjá okkur núna, við mætum með hann einu sinni í mánuði á Barnaspítalann, svo mætum við í sund en það hjálpar honum mikið með styrk og samhæfingu.“

Þakklæti efst í huga
Orra líður vel í dag, hann unir sér vel í leik og starfi og það er mikill léttir fyrir okkur foreldrana að þurfa ekki að vera með hann umvafinn í bómull. Tómas vinnur við jarðgangagerð í Noregi og ég hóf störf aftur á leikskólanum Hlíð núna í desember,“ segir Agnes.
Við viljum fá að nota tækifærið til að koma fram þökkum til allra þeirra Mosfellinga og annarra sem studdu okkur í gegnum allt þetta ferli með því að leggja inn á styrktarreikning Orra sem góðir vinir stofnuðu til. Einnig viljum við þakka World Class í Mosfellsbæ fyrir þeirra framlag.
Við erum með opna Facebook-síðu á nafninu hans Orra ef fólk vill fylgjast með honum.
Það hefur verið ómetanlegt að lesa allt það sem fólk hefur sett þar inn, það veitti okkur mikinn styrk að vita til þess að fólk heima hugsaði til okkar, algjörlega ómetanlegt.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

 

Endurnýjanleg orka

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Þjóðir heims gerðu með sér sögulegt samkomulag í París í síðustu viku. Það snýst um að hugsa betur um jörðina á margvíslegan hátt, meðal annars með því að einblína á endurnýjanlega orkugjafa. Vindorku frekar en olíu, til dæmis. Vonandi munu allir standa sig í stykkinu svo sett markmið náist.

Ég er mjög mikið að velta fyrir mér orku núna. Mér fannst ég sjálfur óvenjulega orkulítill í seinni hluta nóvember, tók sjálfan mig í greiningu og ákvað að gera breytingar. Fyrsta skrefið var kaffið. Mér finnst gott kaffi mjög gott. En ég á erfitt með að halda mér innan skynsamlegra kaffimarka og þarna í nóvember var ég farinn að drekka ansi marga kaffibolla á hverjum degi. Ég ákvað að hætta alveg að drekka kaffi og sjá hvaða áhrif það hefði.

Fyrstu tveir dagarnir voru erfiðir, hausverkur og önnur fráhvarfseinkenni, magnað hvað kaffið slær mann þegar maður hættir að drekka það. Er núna á þriðju viku, sakna svarta vökvans lítið. Breytti líka aðeins til í mataræðinu, borða núna sem dæmi bara ávexti fyrir hádegi. Þessar tvær breytingar eru að gera mér gott, ég finn það, sef betur og er allur einbeittari. Fyrir mér er líkaminn eins og jörðin, við eigum að hugsa jafn vel um okkur sjálf og jörðina. Jörðin hefur sinn ryðma, við okkar. Við eigum að vakna úthvíld eftir góðan nætursvefn, borða passlega og rétt, hreyfa okkur sem mest og styrkja okkur líkamlega.

Þetta er grunnurinn að góðu lífi, góð líkamleg orka. Góð líkamleg orka gefur okkur kraft til þess að sinna verkefnum og áskorunum dagsins og gott betur. Við fáum aukaorku til þess að gera eitthvað skemmtilegt með okkar nánustu og sinna skapandi og gefandi hlutum. Við höfum eina jörð og verðum að fara vel með hana. Þú hefur bara einn líkama, farðu vel með hann.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. desember 2015

Bæjarbúar geta kosið Mosfelling ársins

12395235_10208246843876931_306067238_n

Val á Mosfellingi ársins 2015 stendur yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Allir Mosfellingar koma til greina í valinu og er öllum frjálst að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is. Er þetta í ellefta sinn sem valið fer fram á vegum Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins. Áður hafa hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo og Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir. Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði næsta árs, fimmtudaginn 7. janúar.

 

Það verður að vera gaman að því sem maður gerir

simmimosfellingur

Simmi Vill eins og hann er oftast kallaður hefur víðtæka reynslu af atvinnulífinu og hefur ávallt mörg járn í eldinum. Hann er maðurinn við stjórnvölinn í Keiluhöllinni í Egilshöll en nýjasta verkefni hans og viðskiptafélaga hans er að opna lúxushótelsvítur á efstu hæð Turnsins við Höfðatorg í Reykjavík og eru framkvæmdir hafnar.
Sigmar segir mikinn vöxt í ferðatengdri þjónustu hérlendis og nú sé rétti tíminn til að hrinda af stað gömlum draumi.

Sigmar er fæddur í Reykjavík 3. janúar 1977. Foreldrar hans eru þau Gerður Unndórsdóttir og Vilhjálmur Einarsson skólastjóri. Sigmar á fimm bræður, Rúnar fæddur 1958, Einar fæddur 1960, Unnar fæddur 1961, Garðar fæddur 1965 og Hjálmar fæddur 1973.
Fjölskyldan flutti frá Reykholti í Borgarfirði til Egilsstaða þegar Sigmar var þriggja ára en faðir hans var fyrsti skólastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum.

Íþróttahúsið var okkar annað heimili
„Ég á hlýjar og góðar æskuminningar að austan, á sumrin var alltaf troðfullt af ferðamönnum og því var mikið líf og fjör.
Við félagarnir æfðum allar íþróttir sem í boði voru og á veturna var íþróttahúsið okkar annað heimili. Ég keppti reglulega á mótum enda fátt annað sem komst að.
Við höfðum frjálst aðgengi að veiðistöðum og veiddum reglulega í Eyvindará og vötnum í Skriðdal og Eiðaþingá.
Eftirminnilegar eru líka ferðir okkar fjölskyldunnar í Mjóafjörð þar sem við dvöldum alltaf að sumri. Þá var farið á trillu og veitt á handfæri, svo var farið í berjamó og unnið úr aflanum á kvöldin.“

Flutti til Svíþjóðar
„Þegar ég var 13 ára fluttum við fjölskyldan til Svíþjóðar og bjuggum þar í þrjú ár þar sem faðir minn fór í endurmenntunarnám.
Ég fermdist í Svíþjóð ásamt öðrum Íslendingi í norsku sjómannakirkjunni í Gautaborg. Við þurftum að kunna trúarjátninguna upp á hár því það var engin leið að mæma þar sem við vorum bara tveir í fámennri athöfn en allt gekk þetta nú eftir,“ segir Sigmar og glottir.

Það besta sem gat komið fyrir mig
„Flutningur okkar til Svíþjóðar er sennilega ein mikilvægasta breytingin á mínum unglingsárum. Ég flutti úr vernduðu umhverfi þar sem ég var öruggur með mitt. Ég þekkti alla og allir þekktu mig. Ég var að einhverju leyti leiðtogi því ég stýrði því hverjum var strítt og hverjum ekki. Ég hafði það orðspor hjá eldri strákunum á Egilsstöðum að vera eitt leiðinlegasta barn á Íslandi en ég átti það til að standa verulega upp í hárinu á þeim.
Þegar ég flutti út þá var ég akkúrat í hinu hlutverkinu, mér var strítt og átti mjög erfitt fyrsta árið. Þegar ég náði svo tökum á sænskunni fór lífið að brosa við mér aftur.“

Einlæg afsökunarbeiðni
„Við fluttum svo aftur heim og lífið gekk sinn vanagang. Einn daginn var ég að horfa á þátt með Opruh Winfrey í sjónvarpinu um einelti og varð hugsað til baka. Ég áttaði mig á því hvað ég hafði gert, ég lagði manneskju í ljótt einelti án þess að gera mér grein fyrir því. Ég sá að mér og ákvað að setja mig í samband við viðkomandi og biðjast afsökunar á framkomu minni, það var mikilvæg stund.
Síðan þá hef ég hvatt alla sem hafa gert eitthvað á hlut annarra í æsku að gefa sig á tal og biðjast afsökunar. Maður veit nefnilega ekki hvað maður hefur mögulega lagt á fólk, einlæg afsökunarbeiðni getur breytt lífi og líðan,“ segir Sigmar alvarlegur.

Flutti snemma að heiman
„Ég flutti að heiman 17 ára, mér þótti Egilsstaðir ekki bjóða upp á nægilega mörg tækifæri. Það má því segja að ég hafi snemma þurft að sjá fyrir sjálfum mér og ég gerði það sem þurfti að gera hverju sinni.
Ég starfaði um tíma við ræstingar á nóttunni með námi, sinnti dyravörslu á skemmtistöðum, var pítsubílstjóri, vann í saltfiski, afgreiðslumaður í verslun og allt voru þetta störf sem gáfu mér mikið.“
Alltaf náð að skipuleggja fjölskyldulífið
Sigmar er giftur Bryndísi Björgu Einarsdóttur og saman eiga þau synina Einar Karl 13 ára, Vilhjálm Karl 9 ára og Inga Karl 6 ára og hundinn Bola Karl.
Við Bryndís höfum verið saman síðan 1998 og gift í 10 ár. Bæði höfum við haft mikið fyrir stafni, verið í rekstri fyrirtækja og virk í félagsstörfum en alltaf náð að skipuleggja fjölskyldulífið. Bryndís heldur samt traustataki utan um þetta allt saman því það er ekki mín sterka hlið.“

Leiðin lá í fjölmiðla
„Fjölmiðlar hafa alltaf heillað mig, snemma fékk ég tækifæri í útvarpsmennsku á Rás 2. Ég færði mig yfir á frjálsa stöð sem hét Mono en þaðan lá leiðin í sjónvarp þar sem ég og félagar mínir tókum við stöð sem hét PoppTíví. Í kjölfarið lá leiðin á Stöð 2 þar sem ég var einn stjórnenda Idol stjörnuleitar og fleiri þátta, samhliða þessu sinnti ég markaðsfulltrúastöðu.
Ég hóf störf hjá Landsbankanum en færði mig svo yfir til IP fjarskipta, sem framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs.
Árið 2010 stofnaði ég ásamt félaga mínum veitingastaðinn Íslensku Hamborgara­fabrikkuna, staðirnir eru í dag orðnir þrír talsins. Árið 2013 tók ég þátt í stofnun Lava sem er eldfjalla- og jarðskjálftasýning sem opnuð verður árið 2017 á Hvolsvelli.“

Skapa fjölskylduvæna stemningu
Ég spyr Sigmar út í Keiluhöllina en hann starfar þar sem framkvæmdastjóri. „Við erum fjórir eigendur, ég, Jóhannes Ásbjörnsson, Snorri Marteinsson og Jóhannes Stefánsson og fjölskylda í Múlakaffi.
Okkar markmið eru að auka veg og vanda keiluíþróttarinnar ásamt því að auka þjónustu við einstaklinga, hópa og fjölskyldur í leit að afþreyingu og góðum mat.
Keila er afþreying þar sem allir geta tekið þátt, amma og afi geta keppt við barnabörnin og allt þar á milli. Við ætlum okkur að skapa fjölskylduvæna stemningu hérna.“

Opna lúxushótelsvítur
„Næsta verkefni okkar er að opna lúxus­hótelsvítur efst í Höfðatorgsturni. Það verður hægt að leigja stök herbergi og eins verður möguleiki á að sameina svíturnar og leigja þannig stærri gistipláss. Hótelið er fyrir fólk sem vill láta lítið fyrir sér fara en mikið fyrir sér hafa.“
Það er ekki hægt að sleppa Sigmari nema að spyrja hann út í sjónvarpsstöðina Miklagarð og hvað fór úrskeiðis þar. Rúmum mánuði eftir að stöðin hóf útsendingar leituðu eigendurnir að nýju hlutafé til að styrkja reksturinn en á sama tíma var öllum starfsmönnum stöðvarinnar sagt upp störfum. „Það var einfaldlega lagt af stað með of lítið hlutafé en dýrmæt reynsla að baki og skemmtilegur tími er ég hugsa til baka,“ segir Sigmar að lokum.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Innbrotum og þjófnuðum fækkar í Mosfellsbæ

loggan

Nýlega komu forsvarsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fund bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ. Fundurinn er árlegur og þar er meðal annars farið yfir tölfræðiupplýsingar um þá þjónustu sem lögreglan veitir í sveitarfélaginu.
Innbrotum og þjófnuðum í Mosfellsbæ fækkar á milli ára á meðan meðaltal á höfuð­borgarsvæðinu hækkar. Tilkynningum um ofbeldisbrot og heimilisofbeldi hefur hinsvegar fjölgað talsvert milli ára. Að mati lögreglunnar og starfsmanna Fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar er það ekki endilega vegna fleiri ofbeldisbrota heldur má tengja það átaki lögreglunnar og barnaverndaryfirvalda um breytt verklagi í þeim málum, betri skráningu og almennri vakningu í samfélaginu um að slík mál beri að tilkynna.

Áhyggjur af afbrotum
Í könnun sem lögreglan gerir meðal íbúa kemur í ljós að 94% aðspurðra íbúa í Mosfellsbæ telja sig örugga í sínu hverfi. 62% íbúa segjast hafa haft áhyggjur af því að verða fyrir afbroti á síðasta ári.
Lögreglustöðin á Vínlandsleið í Grafarvogi hefur umsjón með þjónustu í Mosfellsbæ og 33% íbúa hefur haft samband við lögregluna með einhverjum hætti það sem af er ári. Það er lægra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu í heild. Flestir nýta sér samfélagsmiðla eða 71% til að hafa samband.
Lögreglan leggur mikla áherslu á sýnileika og góða þjónustu við íbúa í Mosfellsbæ og hvetur íbúa til að nýta sér allar færar leiðir til að hafa samband við sig sé óskað eftir aðstoð eða þjónustu lögreglunnar.

Jólasýning fyrir yngstu kynslóðina

töfratárið2Í nógu er að snúast hjá Leikfélagi Mosfellssveitar. Viðtökur á leikritinu Mæðrum Íslands fóru fram úr björtustu vonum, Leikgleði námskeiðin eru í fullum gangi og sýningar á nýju jólaleikriti fyrir yngstu kynslóðina eru hafnar.
Leikritið heitir Töfratárið og er eftir Agnesi Wild og í leikstjórn hennar. Töfratárið fjallar um stúlkuna Völu sem þykir fátt skemmtilegra en að leika sér með bangsann sinn. Það er aðfangadagur og móðir Völu sem er læknir þarf að fara í vinnuna. Völu þykir það ósanngjarnt, grætur og bangsi huggar hana. En það sem Vala vissi ekki er að allir bangsar eru gæddir töframætti og þegar barn grætur tárum sem það á alls ekki að gráta, geta bangsar lifnað við.
Töfratárið er fjörug, falleg og fræðandi sýning fyrir börn frá 3 ára aldri og fjölskyldur þeirra. Sýningar verða á sunnudögum til jóla og er hægt að panta miða í síma 566-7788.
Einnig er hægt að fylgjast með leikfélaginu á Facebook, Instagram og Snapchat undir nafninu leikmos.

Tíu þúsund fermetra Íslandslíkan í undirbúningi

Íslandslíkanið verður langstærsta sinnar tegundar í heiminum.

Íslandslíkanið verður langstærsta sinnar tegundar í heiminum.

Tíu þúsund fer­metra Íslands­lík­an í þrívídd gæti orðið að veru­leika inn­an tveggja ára ef áform Ketils Björnssonar forsprakka hug­mynd­ar­inn­ar ganga eft­ir.
Mosfellsbær kemur sterklega til greina sem staðsetning fyrir líkanið sem er í skalanum 1:4000. Líkanið mun þekja um einn hektara lands og verða eina sinnar tegundar í heiminum.
Verið er að kanna staðsetningu á Tungumelum en til að varpa ljósi á stærð þess má nefna að Hvannadalshnjúkur verður um 110 cm á hæð. Áætlað er að framleiða líkanið á staðnum og mun þurfa um 15 þúsund fermetra hús undir það.

Styrkir ferðaþjónustu á svæðinu
Bæjarráð hefur fengið formlegt erindi um málið og fól Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra að vera í samskiptum við forsvarsmenn verkefnisins um staðsetningu verkefnisins í Mosfellsbæ og hvernig Mosfellsbær getur lagt verkefninu lið.
„Mér líst mjög vel á þessa hugmynd og það er fagnaðarefni að Mosfellsbær komi til greina fyrir þetta verkefni. Það myndi sóma sér vel í sveitarfélaginu sem er í alfaraleið og því ákjósanleg staðsetning fyrir afþreyingu af þessu tagi. Ég bind vonir við að svona verkefni myndi styrkja ferðaþjónustu á svæðinu og þar með atvinnulífið og mun því leggja mitt af mörkum til að þetta geti orðið að veruleika,“ segir Haraldur.
Frum­kvæðið kemur frá Katli Má Björns­syni flug­virkja og hef­ur fyr­ir­tækjaráðgjöf PWC unnið að und­ir­bún­ingi máls­ins í sam­vinnu við hann og áhuga­sama fjár­festa.

3. desember

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég á góða vini sem eiga afmæli í dag, góðan frænda líka. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa gaman af fótbolta og vera síðastir heim úr gleðskap. Til lukku með daginn kappar!
En það eru fleiri góðir sem eiga afmæli í dag. Lífsförunauturinn minn, hún Vala, á líka afmæli í dag. Við kynntumst fyrir 24 árum og 2 dögum og höfum verið saman síðan. Ég, Árbæingurinn, bjargaði henni úr hinum svarthvíta Vesturbæ og eftir smá millilendingu í Danmörku höfum við búið í sveitinni fögru. Hvað hefur þetta með heilsu að gera? Á þetta ekki að vera heilsumoli? Rólegur minn kæri, þetta hefur allt með heilsu að gera. Góður maki skiptir þig og þína heilsu gríðarlega mikla máli. Ef makinn er letihaugur, hefur engan áhuga á hreyfingu, borðar allt sem að kjafti kemur, djammar allar helgar og sefur fram á miðjan dag, eru minni líkur á því að þú náir að lifa heilsusamlegu lífi.

Ef hins vegar þú ert svo heppinn, eins og ég, að eiga maka sem gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að vera heilsuhraustur, þá vænkast þinn hagur verulega. Það getur verið mjög skemmtilegt og hvetjandi að æfa saman. Við Vala náum vel saman í gegnum ketilbjöllurnar. Við höfum líka gaman af því að ganga saman úti í náttúrunni og synda í heitum sjó. Við æfðum Taekwondo saman í nokkra mánuði, líka brasilískt jiu jitsu. Spinning – sem hún elskaði og ég bara alls ekki. Squash var ævinóvemberem endaði með látum. Sums staðar nær maður saman í hreyfingu, annars staðar ekki. Aðalmálið er að makinn sé á svipaðri línu og þú varðandi heilsuna. Hvetji þig áfram, sendi þig á æfingu frekar en að reyna að halda þér heima í sófanum, æfi með þér, hrósi þér. Til hamingju með afmælið mín eina og takk fyrir árin 24!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. desmber 2015

Gummi Braga opnar vefsíðuna Skillsspot.net

Skillsspot.net er nýr vefur eða gagnagrunnur í eigu fyrirtækisins Football Associates Ltd. Guðmundur Bragason er eigandi vefsins ásamt Baldri Sigurðsyni.
„Hugmyndin kviknaði árið 2012 og hefur verið í þróun síðan. Samstarfsaðili minn hefur búið í Bretlandi síðan 1989 og hefur m.a. starfað sem milliliður við kaup og sölu fótboltaklúbba og umsýslu í kringum leikmenn,“ segir Guðmundur.
Skillsspot er í raun gagnagrunnur þar sem fótboltamenn og konur geta sett inn sínar ferilskrár, myndir, myndbönd, meðmæli og fleira sem tengist leikmönnunum. Gagnagrunnurinn verður síðan kynntur fyrir fótboltaklúbbum í Englandi sem auðveldar þeim finna leikmenn. Til að byrja með ætlum við að einbeita okkur að Englandi og fótbolta en framtíðarsýnin er að bæta við fleiri löndum og fleiri íþróttagreinum.“

Margir íslenskir leikmenn sem gætu haft það gott í neðri deild í Englandi
„Við erum ekki umboðsmenn heldur milliliður á milli leikmanna og klúbba. Við komum til með að einbeita okkur að 3. efstu deild Englands og niður, þó svo að gagnagrunnurinn henti öllum deildum.
Það geta allir skráð sig þarna inn, ekki bara Íslendingar. Það er hellingur af leikmönnum hér sem annars staðar sem myndu spjara sig vel í neðri deildunum á Englandi og hafa það fínt. Það er þörf á þessari þjónustu bæði í deildunum í Englandi og fyrir fótboltastráka og stelpur sem hafa kannski ekki getuna í að spila í efstu deild en langar að upplifa að æfa og spila erlendis,“ segir Guðmundur en vefurinn og gagnagrunnurinn er hannaður og forritaður af íslenska fyrirtækinu Habilis.

Frí skráning til 5. desember
„Við erum búnir að kynna hugmyndina fyrir nokkrum klúbbum í Englandi og höfum fengið mjög góð viðbrögð. Klúbbarnir fá aðgang að gagnagrunninum og geta leitað þar að því sem þeir sækjast eftir.
Við hvetjum alla sem áhuga hafa til að skrá sig og setja inn meira en minna af upplýsingum. Árgjaldið fyrir skráningu er 50 pund eða um 10.000 kr. Við ætlum að bjóða lesendum Mosfellings fría skráningu til 5. desember, greiðslulykillinn er XNLGYBCB,“ segir Guðmundur að lokum. Skráningin fer fram á www.skillsspot.net.

Haldið upp á 70 ára afmæli Reykjalundar

Diddú situr í stjórn Hollvinasamtaka Reykjalundar.

Diddú situr í stjórn Hollvinasamtaka Reykjalundar.

Stærsta endurhæfingar- og meðferðarstofnun landsins, Reykjalundur, er 70 ára á þessu ári. Af því tilefni efna Hollvinasamtök Reykjalundar til hátíðar- og styrktartónleika í Grafarvogskirkju þriðjudagskvöldið 24. nóvember.
Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, situr í stjórn hollvinasamtakanna. Hún hefur fengið einvalalið listamanna til liðs við sig, sem kemur fram á tónleikunum. „Þarna verða margar af okkar skærustu og sígildu stjörnum, Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvalds, Hilmar Örn Agnarsson og kórar, Vala Guðna og Þór Breiðfjörð, Karlakór Reykjavíkur, Þórunn Lárusar, Palli bróðir og Monika, Gunni Þórðar, Bubbi, Egill Ólafs og svo náttúrlega ég,“ segir Diddú hlæjandi sínum dillandi hlátri. Kynnir á tónleikunum verður enginn annar en grínistinn Þorsteinn Guðmundsson.

Mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu
„Það er mikilvægt að styrkja starfsemi þessarar mikilvægu endurhæfingarmiðstöðvar. Reykjalundur er á landsvísu mjög mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu. Ég er ekki viss um að það geri sér allir grein fyrir því að meðalaldur þeirra sem fara þangað í margvíslega endurhæfingu er ekki nema um 50 ár. Þetta er fólk á vinnualdri sem lent hefur í alvarlegu slysi eða veikst lífshættulega og það er mjög mikilvægt að fólkið komist aftur út á vinnumarkaðinn. Það er mikilvægt fyrir sjúklinginn sjálfan, aðstandendur hans og samfélagið allt,“ segir Diddú.
„Ég hvet sem flesta til að koma og njóta ánægjulegrar kvöldstundar í Grafarvogskirkju og styrkja um leið gott málefni“ segir Diddú að lokum. Hægt er að kaupa miða á Miði.is og N1 í Mosfellsbæ.

Undirbýr jólatónleika og nýja plötu

Greta Salóme hefur átt ævintýralegt ár á skemmtiferðaskipi.

Greta Salóme hefur átt ævintýralegt ár á skemmtiferðaskipi.

Greta Salóme er komin heim í bili eftir skemmtilegt ævintýri hjá Disney þar sem hún hefur verið með sína eigin sýningu um borð í skemmtiferðaskipum.
Hún hefur haft í nógu að snúast, sungið með hljómsveitinni Dimmu og Sinfóníu­hljómsveit Norðurlands auk þess sem hún var að gefa út lagið Fleyið. „Lagið var samið um miðja nótt í stúdíóinu sem ég var með um borð í Disneyskipinu. Ég fékk svo svakalega heimþrá og samdi þá þetta lag. Þetta lag ásamt fleirum sem ég hef verið að gefa út eru undanfari að plötu,“ segir Greta Salóme. „Það er nóg að gera hjá mér um þessar mundir, ég verð með stóra tónleika á Akureyri 17. desember og einleikstónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands 17. janúar þar sem ég verð m.a. með hluta af Disneysýningunni og önnur verk eftir mig. Svo verð ég með jólatónleika um allt land.“

Jólatónleikar í Hlégarði 3. desember
„Desember verður viðburðaríkur þar sem ég er að fara túra um landið ásamt hljómsveitinni Swing kompaníinu. Við munum halda tónleika í kirkjum um allt land í samstarfi við kóra á hverjum stað. Þetta er með skemmtilegri jólaprógrömmum sem ég hef tekið þátt í. Við verðum í Hlégarði 3. desember og ætlum að vera með mosfellska tónleikadagskrá. Þetta verða mjög flottir tónleikar og er það von mín að við náum að festa jólatónleika í Hlégarði í sessi, að Mosfellingar geti í framtíðinni gengið að því sem vísu,“ segir Greta Salóme. Auk hennar koma fram á tónleikum söngvararnir Jógvan Hansen og Diddú, hljómsveitin Swing kompaníið, Skólakór Varmárskóla og Kammerkór Mosfellsbæjar. Hægt verður að nálgast miða á þessa tónleika á midi.is.

20.000 manns sáu sýninguna í sumar
Greta Salóme hefur undanfarið eitt og hálft ár starfað á skemmtiferðaskipum hjá Disney og verið þar með sína eigin sýningu. „Í júlí 2014 fékk ég sjö vikna samning hjá þeim í gegnum umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum. Ég var fyrst á skipinu Disney Dream sem tekur um 4.000 farþega. Þessar sjö vikur urðu að tæpum fimm mánuðum þar sem ég var með sýningu tvisvar í viku. Ég var bæði með verk eftir mig og aðra og einn söngvara með mér.“
Í kjölfarið var Gretu Salóme boðin svokallaður „headliner“ samningur. „Þá fékk ég leikstjóra frá Disney, búningahönnuð og grafískan hönnuð með mér til að skapa mína eigin sýningu. Í þessari sýningu var ég svo með fjóra dansara og einn söngvara.
Við sýndum þessa sýningu á skipi sem heitir Disney Magic, við sigldum frá Karíbahafinu til Evrópu og niður í Miðjarðarhaf. Þetta var ótrúlega gaman og telst mér til að um 20.000 manns hafi séð sýninguna mína í sumar. Það kom mér á óvart hve fjölbreytt mannlífið var um borð. Það var náttúrlega mikið af fjölskyldufólki, mikið af ungu fólki jafnvel í brúðkaupsferðum og svo harðir Disney-aðdáendur,“ segir Greta Salóme. Hún er þakklát fyrir þessa reynslu en er ánægð með að vera komin heim full tilhlökkunar fyrir komandi verkefnum og þá sérstaklega jólatónleikunum í Hlégarði.

Alltaf verið að breyta og bæta

Hákon Örn Bergmann heldur um taumana á Hvíta Riddaranum.

Hákon Örn Bergmann heldur um taumana á Hvíta Riddaranum.

Hákon Örn Bergmann er annar eigenda og rekstrarstjóri á Hvíta Riddaranum sem er veitingastaður í hjarta Mosfellsbæjar.
„Ég hef rekið staðinn frá áramótum og á þeim tíma hafa orðið þó nokkrar breytingar. Nú nýlega breyttum við opnunartímanum, nú opnum við kl. 11 og eldhúsið er opið til kl. 22. Staðurinn sjálfur er opinn til kl. 23:30 alla daga og til kl. 3:00 um helgar.
Þróunin frá áramótum hefur verið sú að við höfum lagt aukna áherslu á veitingastaðinn og matseðilinn frekar en að staðurinn sé bara bar og reynt að vera með fjölbreytta viðburði. Það hefur aukist mikið að fjölskyldufólk sæki staðinn og erum við bæði með barnamatseðil og sérstakt barnahorn sem hefur mælst vel fyrir,“ segir Hákon sem er ánægður með hve kúnnahópurinn er fjölbreyttur.

Hlaðborð í hádeginu
„Það er margt fram undan hjá okkur og nú erum við að byrja með hádegisverðarhlaðborð þar sem hægt verður að fá súpu, salat og fleira. Það er þörf fyrir þessa þjónustu og við erum að bregðast við því. Á næstu mánuðum ætlum við líka að gefa staðnum smá andlitslyftingu þ.e. nýtt gólfefni, skipta yfir í þægilegri stóla, uppfæra borðbúnað og þróa matseðilinn. Við ætlum að bæta inn á matseðilinn kjötréttum og einhverju fleira sem ekki hefur verið hægt að fá hjá okkur áður.“

Helgarleikirnir og meistaradeildin
„Það er alltaf stemning hjá okkur í kringum boltann, hér er góð aðstaða til að taka helgarleikina og meistaradeildina og eru allir velkomnir.
Við reynum að styðja vel við íþróttastarfið í bænum og tökum vel í allar beiðnir frá deildunum hvort sem það er með beinum stuðningi eða góðum tilboðum af matseðlinum hjá okkur,“ segir Hákon að lokum og vonar að Mosfellingar taki vel í þessar breytingarnar á Hvíta Riddaranum.

Fengið frábærar viðtökur

Kalli Tomm tileinkar Línu konu sinni diskinn.

Kalli Tomm tileinkar Línu konu sinni diskinn.

Kalli Tomm hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu sem nefnist Örlagagaldur. Kalli er betur þekktur sem trommuleikari Gildrunnar og forseti bæjarstjórnar en þessa dagana keyrir hann túrista um landið á rútu.
Kalli rær því á önnur mið með þessari 12 laga plötu sem hefur fengið góðar viðtökur. „Níu lög eru eftir mig, tvö eftir Jóhann Helgason og eitt eftir Guðmund Jónsson. Þeir tveir hafa fylgt þessu verkefni með mér frá upphafi. Með okkur hefur myndast góð vinátta og sömdu þeir þessi lög sérstaklega fyrir Örlagagaldur,“ segir Kalli.
Kalli hefur unnið að plötunni í eitt og hálft ár og hefur hún greinilega átt hug hans allan. „Þetta hefur verið mikil áskorun þar sem ég hef hvorki samið sjálfur né sungið mikið þrátt fyrir að hafa verið í tónlist lengi. Þetta var því djúp laug sem ég stökk út í en Lína konan mín hefur hvatt mig óendanlega mikið. Platan er einmitt tileinkuð henni og margir textarnir gefa það glögglega til kynna.“

Örlagagaldur fyllir skarðið
Af hverju ákvaðstu að sökkva þér í þetta verkefni?
„Það kemur í kjölfarið þess að hljómsveitin okkar, Gildran, hætti óvænt störfum eftir 30 ára samstarf þegar Birgir og Sigurgeir yfirgáfu skútuna. Mér fannst ég þurfa að fylla það skarð og er mjög ánægður með útkomuna. Ætli nafn plötunnar, ­Ör­­laga­galdur, hafi ekki orðið til vegna þess.
Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir móttökur sveitunga minna. Þau viðbrögð hafa glatt mig mjög mikið.“

Diskurinn seldur beint frá býli
Hvernig tónlist er þetta?
„Platan er frekar lágstemmd heilt yfir þrátt fyrir nokkra spretti. Lögin eru í rólegri kantinum og minna rokk og ról en áður.
Hljóðfæraleikarar í grunninn eru Þórður Högnason kontrabassaleikari, Tryggvi Hübner gítarleikari og svo fékk ég gamla Gildrufélaga minn, Þórhall Árnason, á bassa og Gumma úr Sálinni á gítar.
Þá er ég með frábæra textahöfunda, Bjarka Bjarnason og Vigdísi Grímsdóttur með mér í liði á plötunni.
Svo er gaman að segja frá því að í laginu Góður dagur leiði ég saman þrjár kynslóðir Hólmara, þau Einar Hólm, Ólaf Hólm og Írisi Hólm sem öll eru úr Mosfellsbæ og góðir vinir míni.
Ekki má gleyma Pétri Baldvinssyni sem hannaði plötuumslagið sem hefur vakið verðskuldaða athygli,“ segir Kalli að lokum
Örlagagaldur er seldur beint frá býli í gegnum Kalla sjálfan en einnig er hægt að ná sér í eintak í Fiskbúðinni í Mosó.

Alltaf haft brennandi áhuga á stjórnmálum

annasiggavefur

Anna Sigríður hefur verið virk í starfi Samfylkingarinnar til margra ára og gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir flokkinn. Hún situr í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og hennar helstu áherslumál snerta málefni barna og ungmenna ásamt íbúalýðræði og stjórnsýslu.

Anna Sigríður er fædd í Reykjavík 22. júlí 1959. Hún er dóttir hjónanna Katrínar ­Ólafsdóttur tækniteiknara og húsmóður og Guðna Guðmundssonar fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík en þau eru bæði látin.
Hún er fimmta í röðinni af sjö systkinum en þau eru Guðmundur Helgi, Guðrún, Ólafur­ Bjarni, Hildur Nikólína, Sveinn Guðni og Sigurður Sverrir. Fjölskyldan bjó fyrstu fjögur ár Önnu á Óðinsgötu í Reykjavík en fluttist síðan á Laufásveginn.

Líf og fjör á heimilinu
„Í sjö systkina hópi er ávallt líf og fjör eins og vænta má. Skýrustu æskuminningarnar tengjast samveru fjölskyldunnar í gleði, hlátri og söng. Við fórum oft í göngutúra með pabba niður á höfn, svo í bíltúra eftir að bíll koma á heimilið. Skuturinn á Skodanum var fylltur af börnum, engin bílbelti og allir áhyggjulausir.
Kakó með rjóma og fjall af smurðu brauði á sunnudagskvöldum, þar sem iðulega duttu inn vinir og kunningjar á kvöldgöngu, er yndisleg minning.“

Hófu búskap í Reykjavík
Anna Sigríður hóf skólagöngu sína í Miðbæjarskólanum í Reykjavík sem hýsir nú Kvennaskólann en síðan lá leiðin í Austur­bæjarskóla en vorið 1975 tók hún landspróf frá Vörðuskóla. Hún lauk stúdentsprófi árið 1979 frá Menntaskólanum í Reykjavík og síðar námi í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands.
Anna Sigríður er gift Gylfa Dýrmundssyni rannsóknarlögreglumanni. Börn þeirra eru Guðni Kári fæddur 1976, tvíburasysturnar Ásdís Birna og Kristrún Halla eru fæddar 1993 og yngstur er Gunnar Logi fæddur 1996. Þá teljast einnig til fjölskyldunnar læðan Milla og tíkin Kolka.
Þau hjón hófu sinn búskap við Bergstaðastrætið í Reykjavík og bjuggu þar til ársins 1992.

Minnumst dvalarinnar með mikilli gleði
Anna og Gylfi dvöldu með elsta son sinn í Michigan í Bandaríkjunum um tveggja ára skeið, þar sem Gylfi var við nám. „Að búa í öðru landi er mjög lærdómsríkt, við kynntumst fjölda fólks víða að úr veröldinni sem hafði aðra siði og venjur en við og opnaði augu okkar fyrir fjölbreytileika mannlífsins á okkar kæru jörð. Við gátum ekki hugsað okkur að ílengjast ytra en minnumst dvalarinnar með mikilli gleði.
Ég held að það lærdómsríkasta sem ungt fólk geti gert sé að hleypa heimdraganum, ferðast til fjarlægari landa og helst að prófa að búa erlendis áður en það festir rætur.“
Eftir heimkomu fluttu þau til Hafnarfjarðar og síðar til Reykjavíkur en í júní 1999 flutti fjölskyldan í Mosfellsbæ og hefur búið þar síðan.

Börnin völdu öll knattspyrnu
„Þegar maður flytur í nýtt bæjarfélag þar sem maður þekkir engan er nauðsynlegt að finna sér vettvang fyrir félagsstörf til að komast inn í samfélagið. Fyrir utan þátttöku í foreldrasamfélagi í Varmárskóla þá má segja að þátttakan í sjálfboðastarfi innan Aftureldingar hafi opnað samfélagið fyrir okkur hjónin og við höfum kynnst fjölmörgum bæjarbúum og eignast góða vini.
Ég sat í stjórn BUR og var síðan kjörin í aðalstjórn Aftureldingar árið 2009, lengst af sem ritari eða til ársins 2013. Börnin þrjú völdu sér öll knattspyrnu sem sína íþróttagrein og við foreldrarnir fylgdum náttúrulega með. Það má segja að við höfum dvalið langdvölum öll sumur á mismunandi fótboltavöllum víða um land. Upp úr stendur bara indæl samvera og þroskandi íþróttaiðkun barnanna.“

Lifandi og fjölbreyttur vinnustaður
Anna Sigríður stundaði framhaldsnám í upplýsingamiðlun á heilbrigðissviði við Háskólann í Wales á árunum 2004-2006 en söðlaði síðan um og hóf meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands meðfram vinnu og vinnur hún nú að meistararitgerð sinni.
Anna hefur lengst af starfað á heilbrigðis­vísindabókasafni Landspítalans og starfar þar enn. Í tvígang hefur Anna hætt á spítalanum og skipt um starfsvettvang en í bæði skiptin komið til baka enda segir hún Landspítalann vera sérlega lifandi og fjölbreyttan vinnustað.

Allir hafi jöfn tækifæri
„Ég hef allt frá unglingsaldri haft brennandi áhuga á stjórnmálum, enda pólitík talsvert rædd á mínu æskuheimili. Foreldrar mínir voru jafnaðarmenn og má segja að ég hafi drukkið þá lífssýn í mig með móður­mjólkinni.
Jafnaðarstefnan felur í sér að skipuleggja samfélagið þannig að allir hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfileika sína til að ná markmiðum sínum, leita lífshamingju og að lifa með reisn. Efnahagsleg staða má til dæmis ekki standa í vegi fyrir því að ungmenni sæki sér menntun og fólk á ekki að þurfa að teysta á ölmusu eða brauðmola sem hrjóta af borðum hinna velmegandi til að draga fram lífið.“

Tveir fulltrúar í bæjarstjórn
Anna Sigríður hóf ekki þátttöku í pólitík fyrr en eftir að hún flutti í Mosfellsbæinn. Hún hefur starfað með Samfylkingunni allt frá árinu 2004 og hefur setið í nefndum fyrir flokkinn, þá lengst af í fræðslunefnd. Hún hefur setið í stjórn og var formaður um árabil. Hún hefur einnig verið formaður kjördæmisráðs SV-kjördæmis, verið varaformaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og varamaður í fyrstu stjórn kvennahreyfingar flokksins.
Hún skipaði fyrsta sætið á framboðslista Samfylkingarinnar vorið 2014 í bæjar­stjórnar­kosningunum en flokkurinn náði tveimur kjörnum fulltrúum inn, hinn fulltrúinn er Ólafur Ingi Óskarsson.

Samtalið er mikilvægt fyrir lýðræðið
Hvað varðar bæjarstjórnarmálin þá segir Anna Sigríður það bæði auðga og dýpka umræðuna um bæjarmálin að ræða við fólk sem aðhyllist aðrar stjórmálaskoðanir og horfi á viðfangsefnið frá annarri hlið. Hún segir það þó ekki þýða að það náist sameiginleg niðurstaða eða skilningur í öllum málum. Mismunandi áherslur og ágreiningur sé eðlilegur í stjórnmálum en samtalið sjálft sé mikilvægt fyrir lýðræðið.
„Samræða um hugmyndir, forgangsröðun og leiðir að markmiðum er leið til betri ákvarðana því lýðræðið getur aldrei falist í því að meirihlutinn virði ekki minnihlutann viðlits, það heitir bara yfirgangur og eru löngu úrelt vinnubrögð.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs