Það er geðveikt að grínast í Mosó

midisland

Grínhópinn Mið-Ísland þarf vart að kynna en hann hefur ráðið lögum og lofum í íslensku uppistandi undanfarin ár. Mið-Ísland frumsýndi nýtt uppistand í byrjun árs og þann 31. mars næstkomandi ætlar hópurinn að troða upp í Hlégarði í Mosfellsbæ.
„Það er geðveikt að grínast í Mosó. Þar sleit ég grínbarnsskónum,“ segir Mosfellingurinn Dóri DNA, einn af meðlimum hópsins. Auk hans koma fram á sýningunni þau Ari Eldjárn, Björn Bragi, Jóhann Alfreð og Anna Svava, en hún kemur í stað Bergs Ebba sem er búsettur í Kanada um þessar mundir.
„Við höfum aðeins einu sinni áður verið með sýningu í Mosó og það eru mörg ár síðan. Ég hlakka mikið til,“ segir Dóri.

Uppistand sem slegið hefur í gegn
Óhætt er að segja að nýja uppistandið hafi slegið í gegn en sýningin fékk fimm stjörnur í DV á dögunum og hefur hópurinn sýnt fyrir fullum Þjóðleikhúskjallara fimm sinnum í viku frá því í byrjun árs. Fjöldi sýninga er að nálgast 50 og gestafjöldinn er kominn yfir átta þúsund. „Þetta er búið að ganga ótrúlega vel og við erum þakklát fyrir viðtökurnar,“ segir Dóri.
Síðustu tvær uppistandssýningar Mið-Íslands voru sýndar á Rúv og þá hafa meðlimir hópsins verið duglegir að koma fram á hinum ýmsu viðburðum. Dóri segir að á sýningunni í Hlégarði verði allir grínistarnir með nýtt efni. „Þetta verður ferskt svo það brakar. Ég lofa góðri skemmtun.“ Miðasala fer fram á Miði.is.