Undirbúa byggingu Helgafellsskóla

Vinna við undirbúning á byggingu skóla í Helgafellslandi er komin á fulla ferð. Búið er að auglýsa hönnunarútboð og er áætlað að jarðvinna hefjist í nóvember. Gert er ráð fyrir að skólinn verði byggður í fjórum áföngum á tíu ára tímabili.
Eins og lög gera ráð fyrir er búið að gera mat á fjárhagslegum áhrifum byggingarinnar á rekstur og fjárhagsstöðu Mosfellsbæjar. Niðurstaða þess er sú að Mosfellsbær muni áfram geta sinnt lögbundnum skyldum sínum þrátt fyrir byggingaráformin.
Skólinn verður leik- og grunnskóli og byggður eftir ítarlega þarfagreiningu á starfinu sem mun fara þar fram. Áætlað er að skólastarf hefjist haustið 2018.