Opnar lögmannsstofu í Háholti

maggalog

Margrét Guðjónsdóttir, héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali, hefur opnað lögmannsstofu, MG Lögmenn ehf., á annarri hæð að Háholti 14, Mosfellsbæ.
Margrét hefur búið í Mosfellsbæ í 25 ár og er gift Kjartani Óskarssyni. Margrét hefur starfað á lögmannsstofu sem skrifstofustjóri til fjölda ára en tók sig svo til og skellti sér í laganám við Háskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist með fyrstu einkunn. Héraðsdómslögmannsréttindum lauk hún í apríl 2014.

Áratuga löng reynsla
Margrét hefur víðtæka þekkingu og áratuga reynslu í málum á sviði kröfuréttar og hefur í 25 ár haft yfirumsjón með löginnheimtu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, banka og lífeyrissjóði. Margrét er með IL+ innheimtukerfi lögmanna og getur aðlagað innheimtuferlið eins og hverjum kröfuhafa hentar og tekið að sér kröfur á hvaða innheimtustigi sem er.
Hún leggur áherslu á kurteisi en jafnframt ákveðni við innheimtu en mikilvægt er að tryggja langtímahagsmuni og góða viðskiptavild kröfuhafans. Jafnframt hefur Margrét fengist við mál á sviði erfða- og skiptaréttar svo sem frágang á dánarbúum. Auk þess sem hún hefur mikinn áhuga á eignarétti og komið að hinum ýmsu jarðamálum.

Persónuleg og sanngjörn þjónusta
Með opnun skrifstofu hér í Mosfellsbæ vonast Margrét til að geta aðstoðað einstaklinga og fyrirtæki með hin ýmsu lögfræðimál og veitt þeim persónulega og sanngjarna þjónustu.
Skrifstofan er opin virka daga frá 9:00-12:00 og 13:00-16:00 en auk þess býður Margrét upp á að pantaðir séu viðtalstímar milli 17:00-19:00 á fimmtudögum fyrir þá sem eiga erfitt með að komast á hefðbundnum vinnutíma. Sími MG Lögmanna ehf. er 588 1400.