Framúrskarandi fyrirtæki í Mosfellsbæ

Sveinn Vilberg Jónsson framkvæmdastjóri Matfugls

Sveinn Vilberg Jónsson framkvæmdastjóri Matfugls

Creditinfo hefur unnið ítarlega greiningu sem sýnir rekstur hvaða íslensku fyrirtækja telst til fyrirmyndar. Alls komust 682 fyrirtæki á listann af þeim tæplega 36 þúsund sem skráð eru á Íslandi.
Creditinfo hefur birt lista framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010 en þá voru einungis 178 félög á listanum.
Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að vera skráð hlutafélög, hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára, einnig þurfa líkur á alvarlegum vanskilum að vera undir 0,5% og félögin þurfa að sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þriggja ára. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð og eignir yfir 80 milljónir þrjú ár í röð.
Hjálagt er að finna lista yfir þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi í Mosfellsbæ. Á listanum er að finna stór fyrirtæki, meðalstór og lítil. Fyrirtækin eru mörg búin að vera á listanum síðustu tvö ár en færri í fleiri ár en það. Nokkur fyrirtæki koma ný inn á lista líkt og Matfugl sem er í efsta sæti yfir meðalstór fyrirtæki.

framúr2„Við höfum náð góðum árangri”
Aðalstarfsstöð Matfugls er að Völuteig 2 og hóf þar rekstur árið 2003. Þar er slátrun, kjötvinnsla, fullvinnsla, lager og dreifing auk skrifstofu. Að auki er Matfugl með starfsstöðvar víða um land en hjá fyrirtækinu vinna að jafnaði um 140 manns.
„Við höfum eytt miklu púðri í að endur­nýja húsakost okkar, gert kjúklingahúsin bæði betri fyrir fuglinn og gagnvart sóttvörnum“, segir Sveinn Vilberg framkvæmdastjóri Matfugls. „Við höfum þannig náð góðum árangri og er kamfílóbakteríusýking orðin hverfandi.
Það var mikill skortur á kjúklingi þetta tiltekna ár, 2014, þannig að það voru ytri aðstæður sem gerðu árið mjög gott hjá okkur og salan gekk mjög vel.
Við erum stolt af þessari viðurkenningu og þetta sýnir að það er traust að eiga viðskipti við okkur.
Að Völuteigi höfum við afkastagetu upp á 21.000 kjúklinga á dag en erum ekki að nýta það dags daglega. Við eigum því ennþá inni möguleika á að stækka og dafna um ókomna framtíð,“ segir Sveinn Vilberg.