Trjádrumburinn

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Maður verður góður í einhverju með því að einbeita sér að því, gera það vel og oft. En fjölbreytnin er líka skemmtileg. Síðasta vika hjá mér var fjölbreytt. Ég fór með fersku fólki í ketilbjöllugöngu á Reykjafellið í hávaðaroki á laugardeginum, við tókum að sjálfsögðu nokkrar æfingar á toppnum. Daginn eftir labbaði ég á Esjuna með elsta syni mínum, frábær stund. Við duttum í þann leik að taka fram úr göngufólki og gekk vel, kannski vegna þess að þetta var snemma og bara rólega fólkið mætt í fjallið. Tók styrktaræfingu með sjálfum mér á mánudeginum, fór á jiu jitsu æfingu með ljúfmennum á þriðjudagskvöld og í sjósund með vinnufélögum á miðvikudeginum. Sjósundið var mikil upplifun, klakaskán á sjónum í glampandi sól. Ég fékk leiðsögn í jógateygjum í vikunni frá upprennandi jógakennara og stýrði sjálfur nokkrum styrktaræfingum – það er alltaf jafn gefandi. Ég endaði vikuna á því að fara í ævintýraferð á Hengilssvæðið með góðum vinum. Fjallaskíði, göngur og fleira skemmtilegt kom þar við sögu.

Fyrir mig var þetta mjög lifandi vika. Frábær hreyfing af ýmsum toga, félagsskapur með ólíkum hópum, mikil útivera og súrefni. Náði líka að lauma inn mikilvægum en afar orkuhlaðandi afslöppunarstundum, þær vilja oft verða út undan. Tveir stuttir síðdegislúrar, slökun í heitum pottum og finnsk fjallasauna standa þar upp úr. Morgunrútínan, nokkrar liðleikaæfingar og stuttur göngutúr, er sömuleiðis orkuhlaðandi afslöppun fyrir mig. Það erfiðasta við fjölbreytnina er egóið, maður getur ekki verið góður í því sem maður gerir sjaldan. Fjallaskíðaferðir eru til dæmis mjög skemmtilegar, en miðað við skíðafélaga minn er ég eins og trjádrumbur í brekkunum. Einhvern tíma ætla ég að einbeita mér að því að læra almennilega að skíða, en þangað til mun ég njóta þess að skíða eins og trjádrumbur, fá á meðan stóran skammt af súrefni, hörkuæfingu og adrenalínkikk.
Njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. febrúar 2016