Samhjálp byggir ný hús í Hlaðgerðarkoti

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar í heimsókn.

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar í heimsókn.

Á þessu ári eru 43 ár síðan Samhjálp keypti Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal af Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og byrjaði rekstur meðferðarheimilis þar.
Hluti af húsakynnum Hlaðgerðarkots er kominn til ára sinna og þarfnast aukins viðhalds. Einnig er stefnt að því að fjölga innlagnarýmum vegna mikillar þarfar og eftirspurnar. Í Hlaðgerðarkoti eru að staðaldri um 30 manns í meðferð og að jafnaði eru 80 til 90 á biðlista.
Yfir 50% skjólstæðinga Hlaðgerðarkots eru á aldursbilinu 18 til 39 ára. Á síðustu árum hefur ungt fólk leitað æ ríkari mæli meðferðar í Hlaðgerðarkoti. Því miður annar Hlaðgerðarkot ekki þeim mikla fjölda sem þangað leitar.

Markmiðið að hefjast handa í sumar
Samhjálp stóð fyrir landssöfnun á Stöð 2­ 21. nóvember sl. og söfnuðust þar um 80 milljónir fyrir nýjum byggingum. Stór hluti upphæðarinnar eru loforð um efni og vinnu þegar framkvæmdir hefjast og á byggingastiginu.
Nú er verið að hanna nýju húsin og vinna að teikningum og er markmiðið að hefjast handa við framkvæmdir í sumar.
Samhjálp félagasamtök hafa starfað að góðgerðarmálum og hjálparstarfi í rúm 40 ár með góðum árangri og hafa allan þann tíma staðið vaktina fyrir það fólk sem minna má sín og hefur átt við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.
Á vegum samtakanna eru rekin nokkur úrræði og um 80 manns er tryggð næturgisting hjá Samhjálp á hverri nóttu allan ársins hring.
Á Kaffistofu Samhjálpar eru matargestir að jafnaði um 200 á dag allt árið um kring. Á síðasta ári gaf Samhjálp yfir 67 þúsund máltíðir á Kaffistofunni.
Samtökin reka einnig eftirmeðferðar- og áfangaheimilin Brú og Spor og stuðningsheimili að Miklubraut 18.
Síðastliðið haust heimsóttu fulltrúar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar Hlaðgerðarkot og kynntu sér aðbúnað.