Fengið frábærar viðtökur

Kalli Tomm tileinkar Línu konu sinni diskinn.

Kalli Tomm tileinkar Línu konu sinni diskinn.

Kalli Tomm hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu sem nefnist Örlagagaldur. Kalli er betur þekktur sem trommuleikari Gildrunnar og forseti bæjarstjórnar en þessa dagana keyrir hann túrista um landið á rútu.
Kalli rær því á önnur mið með þessari 12 laga plötu sem hefur fengið góðar viðtökur. „Níu lög eru eftir mig, tvö eftir Jóhann Helgason og eitt eftir Guðmund Jónsson. Þeir tveir hafa fylgt þessu verkefni með mér frá upphafi. Með okkur hefur myndast góð vinátta og sömdu þeir þessi lög sérstaklega fyrir Örlagagaldur,“ segir Kalli.
Kalli hefur unnið að plötunni í eitt og hálft ár og hefur hún greinilega átt hug hans allan. „Þetta hefur verið mikil áskorun þar sem ég hef hvorki samið sjálfur né sungið mikið þrátt fyrir að hafa verið í tónlist lengi. Þetta var því djúp laug sem ég stökk út í en Lína konan mín hefur hvatt mig óendanlega mikið. Platan er einmitt tileinkuð henni og margir textarnir gefa það glögglega til kynna.“

Örlagagaldur fyllir skarðið
Af hverju ákvaðstu að sökkva þér í þetta verkefni?
„Það kemur í kjölfarið þess að hljómsveitin okkar, Gildran, hætti óvænt störfum eftir 30 ára samstarf þegar Birgir og Sigurgeir yfirgáfu skútuna. Mér fannst ég þurfa að fylla það skarð og er mjög ánægður með útkomuna. Ætli nafn plötunnar, ­Ör­­laga­galdur, hafi ekki orðið til vegna þess.
Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir móttökur sveitunga minna. Þau viðbrögð hafa glatt mig mjög mikið.“

Diskurinn seldur beint frá býli
Hvernig tónlist er þetta?
„Platan er frekar lágstemmd heilt yfir þrátt fyrir nokkra spretti. Lögin eru í rólegri kantinum og minna rokk og ról en áður.
Hljóðfæraleikarar í grunninn eru Þórður Högnason kontrabassaleikari, Tryggvi Hübner gítarleikari og svo fékk ég gamla Gildrufélaga minn, Þórhall Árnason, á bassa og Gumma úr Sálinni á gítar.
Þá er ég með frábæra textahöfunda, Bjarka Bjarnason og Vigdísi Grímsdóttur með mér í liði á plötunni.
Svo er gaman að segja frá því að í laginu Góður dagur leiði ég saman þrjár kynslóðir Hólmara, þau Einar Hólm, Ólaf Hólm og Írisi Hólm sem öll eru úr Mosfellsbæ og góðir vinir míni.
Ekki má gleyma Pétri Baldvinssyni sem hannaði plötuumslagið sem hefur vakið verðskuldaða athygli,“ segir Kalli að lokum
Örlagagaldur er seldur beint frá býli í gegnum Kalla sjálfan en einnig er hægt að ná sér í eintak í Fiskbúðinni í Mosó.