Alltaf haft brennandi áhuga á stjórnmálum

annasiggavefur

Anna Sigríður hefur verið virk í starfi Samfylkingarinnar til margra ára og gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir flokkinn. Hún situr í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og hennar helstu áherslumál snerta málefni barna og ungmenna ásamt íbúalýðræði og stjórnsýslu.

Anna Sigríður er fædd í Reykjavík 22. júlí 1959. Hún er dóttir hjónanna Katrínar ­Ólafsdóttur tækniteiknara og húsmóður og Guðna Guðmundssonar fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík en þau eru bæði látin.
Hún er fimmta í röðinni af sjö systkinum en þau eru Guðmundur Helgi, Guðrún, Ólafur­ Bjarni, Hildur Nikólína, Sveinn Guðni og Sigurður Sverrir. Fjölskyldan bjó fyrstu fjögur ár Önnu á Óðinsgötu í Reykjavík en fluttist síðan á Laufásveginn.

Líf og fjör á heimilinu
„Í sjö systkina hópi er ávallt líf og fjör eins og vænta má. Skýrustu æskuminningarnar tengjast samveru fjölskyldunnar í gleði, hlátri og söng. Við fórum oft í göngutúra með pabba niður á höfn, svo í bíltúra eftir að bíll koma á heimilið. Skuturinn á Skodanum var fylltur af börnum, engin bílbelti og allir áhyggjulausir.
Kakó með rjóma og fjall af smurðu brauði á sunnudagskvöldum, þar sem iðulega duttu inn vinir og kunningjar á kvöldgöngu, er yndisleg minning.“

Hófu búskap í Reykjavík
Anna Sigríður hóf skólagöngu sína í Miðbæjarskólanum í Reykjavík sem hýsir nú Kvennaskólann en síðan lá leiðin í Austur­bæjarskóla en vorið 1975 tók hún landspróf frá Vörðuskóla. Hún lauk stúdentsprófi árið 1979 frá Menntaskólanum í Reykjavík og síðar námi í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands.
Anna Sigríður er gift Gylfa Dýrmundssyni rannsóknarlögreglumanni. Börn þeirra eru Guðni Kári fæddur 1976, tvíburasysturnar Ásdís Birna og Kristrún Halla eru fæddar 1993 og yngstur er Gunnar Logi fæddur 1996. Þá teljast einnig til fjölskyldunnar læðan Milla og tíkin Kolka.
Þau hjón hófu sinn búskap við Bergstaðastrætið í Reykjavík og bjuggu þar til ársins 1992.

Minnumst dvalarinnar með mikilli gleði
Anna og Gylfi dvöldu með elsta son sinn í Michigan í Bandaríkjunum um tveggja ára skeið, þar sem Gylfi var við nám. „Að búa í öðru landi er mjög lærdómsríkt, við kynntumst fjölda fólks víða að úr veröldinni sem hafði aðra siði og venjur en við og opnaði augu okkar fyrir fjölbreytileika mannlífsins á okkar kæru jörð. Við gátum ekki hugsað okkur að ílengjast ytra en minnumst dvalarinnar með mikilli gleði.
Ég held að það lærdómsríkasta sem ungt fólk geti gert sé að hleypa heimdraganum, ferðast til fjarlægari landa og helst að prófa að búa erlendis áður en það festir rætur.“
Eftir heimkomu fluttu þau til Hafnarfjarðar og síðar til Reykjavíkur en í júní 1999 flutti fjölskyldan í Mosfellsbæ og hefur búið þar síðan.

Börnin völdu öll knattspyrnu
„Þegar maður flytur í nýtt bæjarfélag þar sem maður þekkir engan er nauðsynlegt að finna sér vettvang fyrir félagsstörf til að komast inn í samfélagið. Fyrir utan þátttöku í foreldrasamfélagi í Varmárskóla þá má segja að þátttakan í sjálfboðastarfi innan Aftureldingar hafi opnað samfélagið fyrir okkur hjónin og við höfum kynnst fjölmörgum bæjarbúum og eignast góða vini.
Ég sat í stjórn BUR og var síðan kjörin í aðalstjórn Aftureldingar árið 2009, lengst af sem ritari eða til ársins 2013. Börnin þrjú völdu sér öll knattspyrnu sem sína íþróttagrein og við foreldrarnir fylgdum náttúrulega með. Það má segja að við höfum dvalið langdvölum öll sumur á mismunandi fótboltavöllum víða um land. Upp úr stendur bara indæl samvera og þroskandi íþróttaiðkun barnanna.“

Lifandi og fjölbreyttur vinnustaður
Anna Sigríður stundaði framhaldsnám í upplýsingamiðlun á heilbrigðissviði við Háskólann í Wales á árunum 2004-2006 en söðlaði síðan um og hóf meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands meðfram vinnu og vinnur hún nú að meistararitgerð sinni.
Anna hefur lengst af starfað á heilbrigðis­vísindabókasafni Landspítalans og starfar þar enn. Í tvígang hefur Anna hætt á spítalanum og skipt um starfsvettvang en í bæði skiptin komið til baka enda segir hún Landspítalann vera sérlega lifandi og fjölbreyttan vinnustað.

Allir hafi jöfn tækifæri
„Ég hef allt frá unglingsaldri haft brennandi áhuga á stjórnmálum, enda pólitík talsvert rædd á mínu æskuheimili. Foreldrar mínir voru jafnaðarmenn og má segja að ég hafi drukkið þá lífssýn í mig með móður­mjólkinni.
Jafnaðarstefnan felur í sér að skipuleggja samfélagið þannig að allir hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfileika sína til að ná markmiðum sínum, leita lífshamingju og að lifa með reisn. Efnahagsleg staða má til dæmis ekki standa í vegi fyrir því að ungmenni sæki sér menntun og fólk á ekki að þurfa að teysta á ölmusu eða brauðmola sem hrjóta af borðum hinna velmegandi til að draga fram lífið.“

Tveir fulltrúar í bæjarstjórn
Anna Sigríður hóf ekki þátttöku í pólitík fyrr en eftir að hún flutti í Mosfellsbæinn. Hún hefur starfað með Samfylkingunni allt frá árinu 2004 og hefur setið í nefndum fyrir flokkinn, þá lengst af í fræðslunefnd. Hún hefur setið í stjórn og var formaður um árabil. Hún hefur einnig verið formaður kjördæmisráðs SV-kjördæmis, verið varaformaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og varamaður í fyrstu stjórn kvennahreyfingar flokksins.
Hún skipaði fyrsta sætið á framboðslista Samfylkingarinnar vorið 2014 í bæjar­stjórnar­kosningunum en flokkurinn náði tveimur kjörnum fulltrúum inn, hinn fulltrúinn er Ólafur Ingi Óskarsson.

Samtalið er mikilvægt fyrir lýðræðið
Hvað varðar bæjarstjórnarmálin þá segir Anna Sigríður það bæði auðga og dýpka umræðuna um bæjarmálin að ræða við fólk sem aðhyllist aðrar stjórmálaskoðanir og horfi á viðfangsefnið frá annarri hlið. Hún segir það þó ekki þýða að það náist sameiginleg niðurstaða eða skilningur í öllum málum. Mismunandi áherslur og ágreiningur sé eðlilegur í stjórnmálum en samtalið sjálft sé mikilvægt fyrir lýðræðið.
„Samræða um hugmyndir, forgangsröðun og leiðir að markmiðum er leið til betri ákvarðana því lýðræðið getur aldrei falist í því að meirihlutinn virði ekki minnihlutann viðlits, það heitir bara yfirgangur og eru löngu úrelt vinnubrögð.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs