Prestar Lágafellssóknar sendir í leyfi til áramóta

Sr. Ragnheiður og sr. Skírnir að störfum.

Sr. Ragnheiður og sr. Skírnir að störfum.  Mynd/RaggiÓla

Séra Ragnheiður Jónsdóttir sóknarprestur og séra Skírnir Garðarsson prestur verða í leyfi frá Lágafellssókn til áramóta. Tveir nýir prestar hafa þegar tekið til starfa tímabundið og munu þjóna söfnuðinum næstu vikurnar.
Samkvæmt heimildum Mosfellings hefur óánægja ríkt í töluverðan tíma innan sóknarinnar og því gripið til þess ráðs að gefa báðum prestunum frí meðan unnið er að úrbótum. Ágreiningur hefur ríkt meðal þjóna kirkjunnar og komst Biskupsstofa að þeirri niðurstöðu á dögunum að ráða inn tvo afleysingapresta.
„Ég get staðfest það að báðir prestarnir eru í leyfi fram til áramóta. Þetta er niðurstaða af samtali við þau bæði og vinnur nú Biskups­stofa að farsælli lausn,“ segir Þorvaldur Víðisson biskupsritari.

Sr. Birgir og sr. Kristín leysa af
Ragnheiður var skipaður prestur í Mosfellsprestakalli 1. mars 2004 og Skírnir hefur starfað sem prestur í Mosfellsbæ frá ársbyrjun 2009.
Athygli hefur vakið að sá síðar­nefndi hefur sótt um tvö önnur prestaköll á síðustu misserum.
Séra Birgir Ásgeirsson og séra Kristín Pálsdóttir munu leysa þau af til áramóta. Séra Birgir þjónaði um árabil í Mosfellsprestakalli og þjónaði síðast sem prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Séra Kristín hefur víðtæka reynslu sem prestur í sóknum og á stofnunum, síðast í Árbæjarprestakalli.

 

Hér fyrir neðan er hægt að lesa Mosfelling (12. nóv. 2015)