Undirbýr jólatónleika og nýja plötu

Greta Salóme hefur átt ævintýralegt ár á skemmtiferðaskipi.

Greta Salóme hefur átt ævintýralegt ár á skemmtiferðaskipi.

Greta Salóme er komin heim í bili eftir skemmtilegt ævintýri hjá Disney þar sem hún hefur verið með sína eigin sýningu um borð í skemmtiferðaskipum.
Hún hefur haft í nógu að snúast, sungið með hljómsveitinni Dimmu og Sinfóníu­hljómsveit Norðurlands auk þess sem hún var að gefa út lagið Fleyið. „Lagið var samið um miðja nótt í stúdíóinu sem ég var með um borð í Disneyskipinu. Ég fékk svo svakalega heimþrá og samdi þá þetta lag. Þetta lag ásamt fleirum sem ég hef verið að gefa út eru undanfari að plötu,“ segir Greta Salóme. „Það er nóg að gera hjá mér um þessar mundir, ég verð með stóra tónleika á Akureyri 17. desember og einleikstónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands 17. janúar þar sem ég verð m.a. með hluta af Disneysýningunni og önnur verk eftir mig. Svo verð ég með jólatónleika um allt land.“

Jólatónleikar í Hlégarði 3. desember
„Desember verður viðburðaríkur þar sem ég er að fara túra um landið ásamt hljómsveitinni Swing kompaníinu. Við munum halda tónleika í kirkjum um allt land í samstarfi við kóra á hverjum stað. Þetta er með skemmtilegri jólaprógrömmum sem ég hef tekið þátt í. Við verðum í Hlégarði 3. desember og ætlum að vera með mosfellska tónleikadagskrá. Þetta verða mjög flottir tónleikar og er það von mín að við náum að festa jólatónleika í Hlégarði í sessi, að Mosfellingar geti í framtíðinni gengið að því sem vísu,“ segir Greta Salóme. Auk hennar koma fram á tónleikum söngvararnir Jógvan Hansen og Diddú, hljómsveitin Swing kompaníið, Skólakór Varmárskóla og Kammerkór Mosfellsbæjar. Hægt verður að nálgast miða á þessa tónleika á midi.is.

20.000 manns sáu sýninguna í sumar
Greta Salóme hefur undanfarið eitt og hálft ár starfað á skemmtiferðaskipum hjá Disney og verið þar með sína eigin sýningu. „Í júlí 2014 fékk ég sjö vikna samning hjá þeim í gegnum umboðsskrifstofu í Bandaríkjunum. Ég var fyrst á skipinu Disney Dream sem tekur um 4.000 farþega. Þessar sjö vikur urðu að tæpum fimm mánuðum þar sem ég var með sýningu tvisvar í viku. Ég var bæði með verk eftir mig og aðra og einn söngvara með mér.“
Í kjölfarið var Gretu Salóme boðin svokallaður „headliner“ samningur. „Þá fékk ég leikstjóra frá Disney, búningahönnuð og grafískan hönnuð með mér til að skapa mína eigin sýningu. Í þessari sýningu var ég svo með fjóra dansara og einn söngvara.
Við sýndum þessa sýningu á skipi sem heitir Disney Magic, við sigldum frá Karíbahafinu til Evrópu og niður í Miðjarðarhaf. Þetta var ótrúlega gaman og telst mér til að um 20.000 manns hafi séð sýninguna mína í sumar. Það kom mér á óvart hve fjölbreytt mannlífið var um borð. Það var náttúrlega mikið af fjölskyldufólki, mikið af ungu fólki jafnvel í brúðkaupsferðum og svo harðir Disney-aðdáendur,“ segir Greta Salóme. Hún er þakklát fyrir þessa reynslu en er ánægð með að vera komin heim full tilhlökkunar fyrir komandi verkefnum og þá sérstaklega jólatónleikunum í Hlégarði.