Gefur sjálfri sér bók í afmælisgjöf

Steinunn með sjálfsævisögu sína.

Steinunn með sjálfsævisögu sína.

Steinunn Marteinsdóttir myndlistarkona á Hulduhólum hefur gefið út veglega bók um ævi hennar og verk.
Bókin nefnist Undir regnboganum og rekur Steinunn sögu sína í máli og myndum. Hún fjallar um uppvöxt sinn í Reykjavík, nám sitt og störf. Bregður upp minnisstæðum svipmyndum af fjölskyldu, vinum og öðru samferðafólki og lýsir farsælum myndlistarferli.
Bókin er litprentuð og í stóru broti, prýdd fjölmörgum ljósmyndum og myndum af listaverkum Steinunnar, sem lýsa vel þróuninni í myndlist hennar. Samantekt á ensku er birt í bókarlok, auk þess sem allir myndatextar eru bæði á ensku og íslensku.

Bók í áttræðisafmælisgjöf
„Ég var búin að ákveða að gefa sjálfri mér það í afmælisgjöf að gefa út bók um verk mín,“ segir Steinunn sem verður áttræð í byrjun næsta árs. „Fyrst ætlaði ég að fá Árna Bergmann til að skrifa við mig viðtal en sjálfur var hann svo upptekinn við eigin bók. Ég fór þá að punkta niður sjálf og fannst það mjög skemmtilegt. Það endaði því þannig að ég skrifaði allan textann sjálf.
„Þetta hefur verið mikil vinna undanfarið eitt og hálft ár en ég hef verið heppin með samstarfsfólk og er virkilega sátt við útkomuna.“

Ekki sest í helgan stein
Steinunn byrjaði sem krakki að teikna mikið og mála. Síðustu áratugi hefur hún verið afkastamikil í listmálun og leirlist. Vinnustofa Steinunnar er á heimili hennar á Hulduhólum og segist hún sækja innblástur úr ýmsum áttum, þó aðallega úr náttúrunni.
Steinunn er hvergi nærri sest í helgan stein eftir útgáfu bókarinnar og undirbýr nú næstu sýningu sína sem sett verður upp á nýju ári. „Nú fer maður að hafa meiri tíma fyrir keramikið og myndlistina,“ segir Steinunn að lokum.
Bókina Undir regnbogann má nálgast í öllum helstu bókaverslunum sem og á vinnustofu Steinunnar að Hulduhólum.