Frumdrættir og fyrirmyndir í Listasalnum

Kristín, Ólöf, Jean og Guðbjörg sýna í Listasal Mosfellsbæjar.

Kristín, Ólöf, Jean og Guðbjörg sýna í Listasal Mosfellsbæjar.

Myndlistarsýningin Frumdrættir og fyrirmyndir var opnuð í Listasal Mosfellsbæjar í húsakynnum Bókasafns Mosfellsbæjar í Kjarnanum, Þverholti 2, Mosfellsbæ laugardaginn 17. október.
Sýningarheitið vísar til teikningarinnar sem tjáningarmiðils. Sýningin er samstarfsverkefni og stefnumót listamannanna Guðbjargar Lindar, Jean Larson, Kristínar Geirsdóttir og Ólafar Oddgeirsdóttur. Viðfangsefni og hugmyndaleg nálgun listamannanna eru ólík en verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að í þeim eru kannaðir og nýttir möguleikar teikningarinnar.
Listamennirnir eiga að baki langan og fjölbreyttan feril, fjölda einka- og samsýninga bæði hér heima og erlendis. Guðbjörg, Kristín og Ólöf hafa oft unnið saman en þetta er í fyrsta sinn sem Jean Larson kemur til liðs við þær. Jean er frá Michigan í Bandaríkjunum og er mikill heimshornaflakkari. Hún hefur um nokkurt skeið dvalið á Íslandi og á nú athvarf á Flateyri þar sem hún hefur unnið verkin fyrir þessa sýningu.

Í tengslum við sýninguna verður boðið upp á listamannaspjall laugardaginn 31. október kl. 15:00 – það er jafnframt Dagur myndlistar.