Ein á viku

heilsumolar11

Við hjónin ákváðum yfir hátíðarnar að fara með fjölskylduna í eina fjallgöngu á viku árið 2018. Fell telja líka með, sem er praktískt þegar maður býr í Mosfellsbæ. Ástæðan fyrir ákvörðuninni var sú okkur fannst vanta aðeins meiri samverustundir, utandyra, með yngstu guttunum okkar. Við vorum dugleg í fjallaferðum með elstu syni okkar en áttuðum okkur á því að þeir yngri, sérstaklega sá yngsti, hafa fengið minni skammt en hinir. Það var alls ekki meðvitað og kom okkur eiginlega á óvart þegar við gerðum okkur grein fyrir þessu. Þetta bara gerðist, að við fækkuðum útivistarferðunum. Líklega vegna þess að það er margt í gangi hjá okkur og dagarnir þéttskipaðir. En það er engin afsökun fyrir því að nýta ekki þessa frábæru náttúru sem við höfum svo góðan aðgang að.

Í gær gengum við á Lágafell. Í fyrsta skipti! Það er ótrúlegt eftir að hafa búið í næstum 18 ár í Mosfellsbæ. Það hefur bara einhvern veginn ekkert togað okkur upp á Lágafellið. Við hófum gönguna í Krikahverfinu, fórum upp göngustíg sem liggur frá Litlakrika. Þaðan í roki, hálku og stundum rigningu upp á Lágafellið. Við fundum góðan snjó, gerðum skakkan snjókarl og nutum útsýnisins þegar við vorum komin á toppinn. Útsýnið af Lágafellinu er betra en maður gerir ráð fyrir. Síðan fórum við niður við Olíshringtorgið, komum við í bakaríinu til að ná okkur í munkabrauð og röltum svo í rólegheitum þaðan yfir brúna í Krikahverfið til að ná í bílinn.

Miklum rólegheitum verður að segjast, það var mjög hált og við lengi að koma okkur á milli staða. Allt í allt tók þetta um 2 klukkustundir. Komum hundblaut en katthress heim eftir góða samverustund í hressandi vetrarveðri í mosfellskri náttúru. Nú er bara að láta sig hlakka til næstu fjalla- eða fellagöngu. Þetta verður gott ár!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. janúar 2018

Býður sig fram til að leiða listann áfram

halli1

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri mun bjóða sig fram til að leiða lista sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum í vor. Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Mosfellsbæ tók ákvörðun um það fyrir nokkru að viðhaft skyldi prófkjör við val á lista og fer það fram 10. febrúar nk. Haraldur hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2002 og verið bæjarstjóri Mosfellsbæjar frá október 2007. „Ég hef brennandi áhuga á sveitarstjórnarmálum og vil bjóða fram krafta mína og reynslu til að vinna að málefnum Mosfellsbæjar á næsta kjörtímabili. Ég er Mosfellingur inn að beini og hef notið þess að vinna fyrir bæjarbúa sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri undanfarin ár og langar til að halda því áfram,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Haraldur er giftur Ragnheiði Gunnarsdóttur viðskiptafræðingi og forstöðumanni hjá Fjársýslu ríkisins og á hann þrjú börn Steinunni Önnu 36 ára, Valgerði 26 ára og Sverri 17 ára.

Bæjarbúar geta kosið Mosfelling ársins

mosfellingurársinsáheimasíðu2018

Val á Mosfellingi ársins 2017 stendur yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Allir Mosfellingar koma til greina í valinu og er öllum frjálst að senda inn tilnefningar hér að neðan. Þetta er í þrettánda sinn sem valið fer fram á vegum Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir og Guðni Valur Guðnason.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði næsta árs, fimmtudaginn 11. janúar.

Gefur kost á sér í 4.-6. sæti

solveigfrankl

Sólveig Franklínsdóttir gefur kost á sér í 4.- 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer 10. febrúar. Sólveig er markþjálfi frá Evolvia og starfar einnig sem klinka á tannlæknastofunni Fallegt bros. Hún er í fulltrúaráði Sjálfstæðis­flokks Mos­fells­bæjar og situr í þróunar- og ferðamálanefnd bæjarins og áður sem áheyrnar­fulltrúi í fræðslunefnd. Hún var áður formaður foreldrafélags Varmárskóla og hefur verið virk í sjálfboðaliðastarfi innan skóla- og skátasamfélags bæjarins. Sólveig gegnir einnig trúnaðarstörfum fyrir Skylmingafélag Reykjavíkur og situr í stjórn þess félags. Hún hefur brennandi áhuga á að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu bæjarins. Sólveig er ekkja og hefur búið í Mosfellsbæ í 15 ár. Sambýlismaður hennar er Örn Gunnarsson greiningar­sérfræðingur hjá Landhelgisgæslu Íslands og sonur hennar er Franklín Ernir 15 ára.

Rúnar Bragi gefur kost á sér í 4. sæti

runar4

Rúnar Bragi Guðlaugsson varabæjarfulltrúi gefur kost á sér á lista Sjálfstæðismanna í prófkjörinu 10. febrúar nk. „Ég hef ákveðið að sækjast eftir fjórða sæti listans, og óska ég eftir þínum stuðningi í prófkjörinu,“ segir í tilkynningu frá Rúnari Braga. „Ég er varabæjarfulltrúi, formaður íþrótta- og tómstundanefndar og einnig formaður þróunar- og ferðamálanefndar, ásamt því að gegna varaformennsku í heilbrigðisnefnd Kjósasvæðis. Ég hef tekið þátt í starfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá því við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 2006, hef verið í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Mosfellsbæ og er í dag í stjórn fulltrúaráðsins í Mosfellsbæ.“
Rúnar er giftur Bylgju Báru Bragadóttur og eiga þau tvö börn, Braga Þór 23 ára og Birtu Rut 16 ára. Rúnar starfar sem framkæmdastjóri hjá Einari Ágústssyni & Co.

Fyrirmyndin Rey

gaui21des

Áttu dóttur? 10 ára eða eldri? Bjóddu henni með þér á nýju Star Wars myndina. Þar fær hún að sjá virkilega öflugar fyrirmyndir. Heilsteyptar, yfirvegaðar, öruggar, leitandi, traustar og hugaðar konur sem eru í lykilhlutverkum í myndinni. Rey, aðalpersóna myndarinnar, fer þar fremst í flokki.

Það sem mér fannst best við kvenpersónurnar í myndinni var að þær eru fyrst og fremst persónur í stað þess að vera stillt upp sem kynþokkafullum gyðjum. Myndin snýst um jafnvægi, baráttu milli góðs og ills, á mörgum sviðum. Ég er enginn Star Wars aðdáandi og hef held ég bara séð fyrstu myndina – eða þá fjórðu, eftir því hvernig maður telur þær. Það var fyrir mörgum tugum ára. En þessi mynd er virkilega góð, það eina slæma við hana er íslenska hléið sem rífur mann hratt og örugglega út úr myndinni og hendir inn í raunheima með krafti. En maður var reyndar snöggur að komast aftur inn í myndina eftir hléið, hún er það grípandi.

Ég fór með 15 ára syni mínum. Þeir eldri voru búnir að sjá hana og sá yngsti aðeins of ungur enn. Ég á engar dætur en hefði að sjálfsögðu tekið þær með. Ég á litla frænku, en hún er bara tveggja ára og því nokkur ár í að hún fái að horfa á myndina. Kvikmynd eins og þessi sem gerir ekki út á týpísk hlutverk kynjanna, eins og oft verður í bíómyndum, ætti að vera skylduáhrif fyrir alla sem hafa aldur til. Hún sýnir manni að kynið skiptir ekki máli þegar kemur að því að hugsa, læra, meta aðstæður og taka yfirvegaðar ákvarðanir.

Hún sýnir manni að það sem skiptir máli er að vera trúr sjálfum sér og sínu fólki, þora að fylgja eigin samvisku, trúa á það sem skiptir máli og láta ekki aðra fara illa með sig.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. desember 2017

Vanda mig við að njóta hvers dags

elisabet_hreiðar

Elísabet Sigurveig Ólafsdóttir skrifstofustjóri hjá Ríkissáttasemjara segist lánsöm að eiga góða fjölskyldu og trausta vini. Hún segir það ekki sjálfsagt að fólk treysti sér til að styrkja aðra í erfiðum aðstæðum.

Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á í lífi Elísabetar Sigurveigar Ólafsdóttur síðastliðin tvö ár. Hún missti eiginmann sinn úr heilakrabbameini eftir 14 mánaða veikindi og sex ára barnabarn hennar greindist með bráðahvítblæði á árinu.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuárin á Vopnafirði, líflegan tíma á Hressingarskálanum, árin hjá Ríkissáttasemjara og veikindaferli eigin­mannsins.

Elísabet Sigurveig er fædd á Akureyri 9. júní 1955. Foreldrar hennar eru þau Þrúður Sigríður Björgvinsdóttir og Ólafur Pétursson en þau eru bæði látin. Þau hjónin voru lengst af bændur á Vopnafirði. Elísabet á hálfbróður, Sigurð Þór, fæddan 1938. Hann var bóndi á Vopnafirði en seldi jörðina og nýtur þess nú að ferðast um heiminn.

Hlakkaði til að fá borgarbörnin í sveitina
„Ég ólst upp á Vopnafirði þar sem veðrið er best á Íslandi á sumrin. Það var gott og áhyggjulaust að alast upp í sveitinni. Ég og bróðir minn ólumst ekki upp saman þannig að ég saknaði þess að eiga ekki systkini á svipuðum aldri. Ég hlakkaði mikið til á vorin þegar borgarbörnin komu til okkar í sveitina. Mér fannst alltaf skemmtilegast að vera úti og vinna með pabba. Elskaði hestana og kindurnar en mér fannst kýrnar alltaf­ frekar leiðinlegar.“

Vináttan dýrmætari með ári hverju
Elísabet var í heimavistarskóla á Torfastöðum og fór svo í gagnfræðaskóla Vopnafjarðar. „Mér fannst alltaf gaman í skólanum og stærðfræði var mitt uppáhaldsfag. Í dag er ég í félagi sem heitir „Skotveiðifélagið“ sem samanstendur af skólasystrum og vinkonum frá Vopnafirði. Við hittumst einu sinni í mánuði og vináttan verður dýrmætari með hverju árinu sem líður.
Ég tók landspróf í Reykholtsskóla sem var mikil upplifun og þaðan á ég marga góða vini.
Eins og margar stelpur í „gamla daga“ langaði mig til að verða búðarkona. Sá draumur rættist mörgum áratugum seinna þegar við vinkonurnar skelltum okkur í sjálfboðastarf hjá Rauða krossinum. Við fengum að starfa í búðinni þeirra á Laugaveginum. Ég held svei mér þá að ég hefði getað orðið ágæt búðarkona,“ segir Elísabet og hlær.

Kenndi mér að gera gott úr hlutunum
„Það er mikil frændrækni í fjölskyldum mínum og það voru því mikil samskipti við ættingjana á Vopnafirði. Af öllu þessu góða fólki langar mig að nefna föðursystur mína, Sigríði, sem var einstök kona. Við vorum miklar vinkonur og töluðum oft saman en hún varð 100 ára.
Sigga var jákvæðasta manneskja sem ég hef kynnst, alltaf bjartsýn, en samt raunsæ. Hún kenndi mér, öðrum fremur, að sjá björtu hliðarnar og gera gott úr hlutunum þótt eitthvað bjátaði á.“

Hressó var aðalstaðurinn
„Ég flutti til Reykjavíkur þegar ég var 17 ára og fór að vinna á Hressingarskálanum í Austurstræti sem var þá aðalstaðurinn. Það var lærdómsríkt fyrir sveitastelpuna og margt sem kom mér á óvart.
Hjá Búnaðarfélagi Íslands var ég í nokkur ár en þaðan fór ég til Kjararannsóknarnefndar og þegar embætti ríkissáttasemjara var stofnað 1980 óskaði þáverandi ríkissáttasemjari eftir því að nefndin flytti aðsetur sitt í sama hús og sáttasemjaraembættið til að auðvelda samstarfið og það varð úr.“

Er ennþá sátt og sæl með starfið mitt
Árið 1982 bauð Guðlaugur Þorvaldsson, þáverandi ríkissáttasemjari, mér síðan starf skrifstofustjóra hjá embættinu. Ég ákvað að þiggja boðið en ætlaði aldrei að vera nema í nokkur ár. Ég var þá ófrísk að Evu minni og byrjaði að vinna þegar hún var þriggja mánaða. Nú er hún allt í einu orðin 35 ára og ég er ennþá sátt og sæl með starfið mitt.”
Elísabet á tvö börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Jóni Arnari Guðmundssyni, en þau slitu samvistir árið 2000. Eva Hrönn er fædd 1982 og starfar sem hæstaréttarlögmaður og Stefán Óli er fæddur 1991 og er sagnfræðingur, fréttamaður og mastersnemi. Barnabörnin eru þrjú, þau Emilía Íris 9 ára, Viktor Óli 7 ára og Elísabet Eva sem er eins árs.

Honum leið vel í Mosó frá fyrsta degi
Í lok árs 2002 byrjuðu Elísabet og Hreiðar Örn Gestsson húsasmíðameistari og viðskiptafræðingur að rugla saman reytum. Þau voru bæði í háskólanámi á þessum tíma, Hreiðar í viðskiptafræði og Elísabet í opinberri stjórnun og stjórnsýslu. Hreiðar átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Heið­rúnu fædda 1983, Davíð Örn fæddan 1989 og Ingvar Örn fæddan 1992. Elísabet og Hreiðar Örn gengu lífsleiðina saman í 15 ár en í apríl sl. lést Hreiðar eftir erfið veikindi.
„Hreiðar sagði oft söguna þannig að ég hefði flutt hann inn í Mosó en bætti svo við að honum hefði liðið vel hér frá fyrsta degi enda var hann opinn og fljótur að aðlagast samfélaginu. Hreiðar var einlægur, glaðlyndur og vinamargur, mikið náttúrubarn og ástríðufullur veiðimaður. Hann var líka einstaklega barngóður og öll börn elskuðu hann. Hann lék við þau, kenndi þeim og gaf þeim tíma sem er það mikilvægasta af öllu.
Við ferðuðumst mikið bæði innanlands sem utan. Fyrstu árin ferðuðumst við með strákana okkar þrjá og eitt sumarið vorum við 30 nætur í fellihýsinu.“

Elísabet ásamt börnum sínum þeim Evu Hrönn og Stefáni Óla.

Elísabet ásamt börnum sínum þeim Evu Hrönn og Stefáni Óla.

Lagði áherslu á að njóta hvers dags
„Við lifðum skemmtilegu og innihaldsríku lífi, Hreiðar lagði alltaf mikla áherslu á að njóta hvers dags. Kannski hefur það viðhorf hans ráðist að einhverju leyti af því að pabbi hans fékk heilablóðfall þegar hann var 53 ára, lamaðist og missti málið.
Árleg ferð í Veiðivötn með fjölskyldu og vinum var hápunktur hvers sumars. Eftir þriggja daga veiði komu svo allir heim til okkar og við elduðum saman.
Við bjuggum nokkra mánuði í Danmörku veturinn 2006, þar sem ég var í skiptidvöl hjá danska ríkissáttasemjaraembættinu. Stefán Óli kom með okkur og var í fjarnámi frá Varmárskóla auk þess að vera í dönskum grunnskóla.“

Sjónvarpsþátturinn Hæðin
„Það örlagaríka ár 2008 tókum við þátt í sjónvarpsþættinum Hæðinni á Stöð 2. Verkefnið var að hanna og skipuleggja raðhús í Garðabæ og búa í húsinu á meðan. Við fluttum því í nokkra mánuði í Garðabæinn og helltum okkur í byggingabasl.
Þetta var mikil áskorun, nánast allt sem við gerðum var tekið upp. Þetta var skemmtilegt en reyndi stundum á þolinmæðina. Okkur gekk vel að vinna saman. En mikið var gott að flytja heim í Mosó aftur.
Þetta sama ár giftum við okkur og fórum í framhaldinu í brúðkaupsferð til Brasilíu.“

Áhugamálin margvísleg
„Áhugamál mín eru mörg, ferðalög bæði innanlands og utan, ég hef mikla ánægju af útivist og Hreiðar minn bætti við þá flóru með því að kenna mér að meta veiðar. Ég hef ánægju af þátttöku í félagsstarfi og hef starfað lengi með góðu sjálfstæðisfólki. Þegar Eva og Stefán voru yngri tók ég þátt í starfi Aftureldingar og Skátafélagsins Mosverja og var líka þátttakandi í starfi foreldrafélagsins í Varmárskóla.
Ég er líka í bókaklúbbi með skemmtilegum skátakonum og við hittumst reglulega. Ég er í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar og var önnur af tveimur fyrstu konunum sem gengu í klúbbinn. Um tíma starfaði ég líka með Lionsklúbbnum Úu.“

Var á bráðamóttökunni í marga daga
„Hreiðar átti sex systkini. Haustið 2014 dóu tveir bræður hans á besta aldri með fimm vikna millibili vegna hjartavandamála. Þetta var mikið reiðarslag fyrir fjölskylduna og í framhaldinu fóru systkinin í rannsókn. Sem betur fer var niðurstaðan sú að þau voru ekki með hjartagalla.
Rúmu ári síðar, í febrúar 2016, veikist Hreiðar mikið, fékk krampaflog og var á bráðamóttökunni í marga daga. Fyrstu mánuðina vissum við ekki hver ástæðan var. Það var talið að þetta væri annað hvort vírus í heila, heilabólga eða æxli.“

Læknarnir ekki sammála
„Við vorum búin að skipuleggja fjölskylduferð til Flórída í mars og Hreiðar tók ekki annað í mál en við héldum okkar striki. Eftir að hafa fengið samþykki lækna og ítarlegt læknabréf á ensku fórum við í ferðina og vorum óendanlega þakklát fyrir að hafa gert það.
Áður en við fórum út sendum við vinkonu okkar, sem er yfirlæknir á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg, niðurstöðu úr myndtökunum frá LSH. Þegar við komum heim lá niðurstaða hennar fyrir, að þetta væri krabbamein og hún og hennar teymi ráðlagði skurðaðgerð strax. Eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir tók við erfiður biðtími. Læknarnir á Landspítalanum voru ekki sammála þessari greiningu og vildu bíða í nokkra mánuði og sjá til.“

Boðaður í bráða heilaskurðaðgerð
„Í byrjun júní fengum við viðtal við heilaskurðlækni sem reyndi að sannfæra okkur um að það væri engin ástæða til að óttast, en til að róa okkur ákvað hann að senda Hreiðar í aðra myndatöku. Daginn eftir fékk Hreiðar svo símtal sem staðfesti niðurstöðu vinkonu okkar og var boðaður í bráða heilaskurðaðgerð. Þá hafði æxlið stækkað verulega og breyst í 4. stigs krabbamein. Ekki reyndist unnt að fjarlægja allt æxlið en tekið var eins mikið og læknarnir treystu sér til án þess að valda varanlegum alvarlegum skaða.
Þegar niðurstaða lá fyrir úr sýnatöku var hún mjög afdráttarlaus. Krabbameinið var ólæknandi og bráðdrepandi. Með það vorum við send heim og aldrei boðin nein aðstoð eða ráðgjöf til að vinna úr áfallinu.“

Þakka fyrir það sem ég hef
„Við ákváðum strax að segja fjölskyldu og vinum hvernig staðan væri og tala um krabbameinið. Það reyndi oft á, en við gátum ekki hugsað okkur að vera í einhverjum feluleik.
Næstu mánuði var Hreiðar bæði í lyfja- og geislameðferð, en í byrjun nóvember kom í ljós að æxlið var aftur farið að stækka og þá tók Hreiðar þá hugrökku ákvörðun að hætta í meðferðinni í þeirri von að honum liði betur. Hann sýndi aðdáunarvert æðruleysi í veikindum sínum.
Hann lést 6. apríl, 14 mánuðum eftir að veikindin gerðu fyrst vart við sig. Ég er óendanlega þakklát fyrir árin sem við áttum saman og er að vanda mig við að njóta hvers dags og þakka fyrir það sem ég hef.“

Ósanngirnispytturinn ekki langt undan
„Í janúar sl. greindist svo 6 ára gamall sonur Evu minnar með bráðahvítblæði og var strax settur í meðferð sem mun standa í tvö og hálft ár. Þetta varð okkur öllum mikið áfall og margar áleitnar spurningar sóttu á hugann. Ósanngirnispytturinn var ekki langt undan og stundum datt ég á bólakaf ofan í hann.
Með hjálp fjölskyldu og góðra vina tókum við á þessum breyttu aðstæðum. Gamli málshátturinn „Sá er vinur sem í raun reynist” öðlaðist nýja og dýpri merkingu því það er ekki sjálfsagt að fólk treysti sér til að styrkja aðra í erfiðum aðstæðum.
Ég er svo lánsöm að eiga allt þetta góða fólk að. Það er ómetanlegt að finna samúð og vináttu á svona erfiðum stundum og það verður seint fullþakkað.”

Mosfellingurinn 21. desember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Kolbrún býður sig fram í 2. sæti

kollaframbod

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir býður sig fram 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer laugardaginn 10. febrúar. Kolbrún situr í bæjarstjórn og bæjarráði. Þá er hún formaður fræðslunefndar og situr fyrir hönd Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu. „Mikil uppbygging er að eiga sér stað í Mosfellsbæ og hef ég áhuga á að halda áfram þeim krefjandi verkefnum sem fram undan eru. Bæjarstjórnin er skipuð góðu og öflugu fólki og hef ég mikinn áhuga á að vinna áfram með þeim hóp.“ Kolbrún er gift Sigurði Andréssyni byggingameistara og eiga þau þrjá syni og eitt barnabarn.

Stormsveitin gefur út Stormviðvörun fyrir jólin

Meðlimir Stormsveitar- innar fagna útgáfunni.

Meðlimir Stormsveitarinnar fagna útgáfunni.

Stormsveitin hefur gefið út sinn fyrsta geisla- og DVD-disk, Stormviðvörun. Sveitina skipa 20 karlar sem syngja hefðbundin karlakórslög, dægurlög og rokklög.
Stormsveitin flytur yfirleitt öll sín lög í rokkbúningi ásamt fjögurra til fimm manna hljómsveit. „Þetta er 12 laga diskur og 9 laga DVD diskur með sömu lögum. Þetta er upptaka frá þrettándatónleikum Storm­sveitarinnar í Hlégarði 9. janúar 2016. Stefanía Svavars og Biggi Haralds flytja nokkur lög með okkur á þessum disk. Hann var svo hljóðblandaður og unnin í Studíó Lager hjá Arnóri Sigurðarsyni,“ segir Sigurður Hansson, Stormsveitarforingi.

Tónleikar 3. mars í Hlégarði
„Diskinn verður hægt að nálgast á facebook-síðu Stormsveitarinnar og hjá Storm­sveitarmönnum. Ég á ekki von á því að hann fari í frekari dreifingu. Diskurinn kostar 2.000 kr. en 3.000 kr. með DVD disknum.
Við verðum ekki með þrettándatónleika núna í fyrsta skipti í nokkur ár. Við tókum þátt í Kórum Íslands í haust, það fór mikil orka í það og því ákváðum við að halda góða tónleika 3. mars í Hlégarði með nýju og fersku efni,“ segir Sigurður að lokum og hvetur alla sem áhuga hafa á að eignast diskinn að hafa sambandi við meðlimi sveitarinnar eða í gegnum facebook.

Kristín Ýr býður sig fram í 5.-9. sæti

kristinyr

Kristín Ýr Pálmarsdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 5.–9. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi sveitarstjórnakosningum. Kristín Ýr er hársnyrtimeistari og hefur lokið diplómaprófi frá Endurmenntun Háskóla Íslands í rekstrar- og viðskiptanámi.
Kristín hefur fylgst með bæjarmálum í Mosfellsbæ og einnig tekið þátt í málefnum tengdum börnunum okkar, atvinnumálum og starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kristín vill leggja sitt af mörkum til að efla og styrkja það góða starf sem hefur verið unnið í Mosfellsbæ. Kristín hefur búið í bænum í 18 ár. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, rekur litla hársnyrtistofu og rekur einnig verktakafyrirtækið Afltak ehf. með manni sínum Jónasi Bjarna Árnasyni húsasmíða- og rafvirkjameistara. Saman eiga þau tvö börn, þau Andra Frey 19 ára og Sunnevu Ósk 15 ára.

Póri skoðar heiminn

poriskodar

Út er komin bókin Póri skoðar heiminn eftir Jónas Sveinsson lækni. Hér er um að ræða frumútgáfu bókarinnar en útgefandi hennar er Þórarinn sonur Jónasar, betur þekktur sem Póri í Laxnesi.
„Ég fann handritið í dánarbúi föður míns og hef varðveitt það í áratugi,“ segir Póri í viðtali við Mosfelling. „Mig langaði alltaf að gera eitthvað með þetta og snemma árs fékk ég Bjarka Bjarnason rithöfund til liðs við mig. Hann yfirfór handritið og ritstýrði útgáfunni. Ég er mjög ánægður með útkomuna og að hafa ráðist í þetta verkefni.“

Er bókin um þig?
„Það má segja það að einhverju leyti. Pabbi skrifaði hana um ferðalag fjölskyldunnar um Evrópu árið 1950 og bókin er skrifuð út frá mínu sjónarhorni. Þess vegna heitir hún Póri skoðar heiminn.
Faðir minn var þekktur læknir á sinni tíð og var stöðugt að afla sér framhaldsmenntunar erlendis og að þessu sinni fór öll fjölskyldan með honum utan. Við flugum til Kaupmannahafnar og ókum síðan suður til Vínarborgar þar sem faðir minn starfaði á sjúkrahúsi þá um sumarið.“

Manst þú eftir þessu ferðalagi?
„Já, svolítið. Þetta var mikið ævintýri fyrir sex ára strák, til dæmis þegar ég sá gíraffa í dýragarðinum í Kaupmannahöfn. Faðir minn lýsir ferðalaginu nákvæmlega í bókinni, þarna er mikill fróðleikur samankominn um landafræði, sögu og læknisfræði og einstök samtímaheimild.
Þetta voru sérkennilegir tímar, margar borgir voru illa leiknar eftir heimsstyrjöldina og heilu þjóðirnar í sárum. Við dvöldum mest í Vínarborg en henni var þá skipt í nokkur hernámssvæði, eitt tilheyrði Bandaríkjamönnum og annað Rússum.“

Það eru einnig teikningar í bókinni, eftir hvern eru þær?
„Það veit enginn en þær fylgdu handritinu og hafa greinilega verið ætlaðar til útgáfu. Kannski kemur það loksins núna í ljós hver listamaðurinn er.
Svo fengum við Margréti Tryggvadóttur, nú varaþingmann, í lið með okkur og hún útvegaði mikið af ljósmyndum af söfnum og úr myndabönkum. Þessar myndir lýsa tíðarandanum vel.“

Er Póri ennþá að skoða heiminn?
„Já, það er hluti af lífinu, segir Póri í Laxnesi að lokum.“

Ný stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar

Sveingerður, Sveinbjörn, Sigurður, Óskar, Anna Aurora og Hreinn Heiðar.

Sveingerður, Sveinbjörn, Sigurður, Óskar, Anna Aurora og Hreinn Heiðar.

Framsóknarfélag Mosfellsbæjar hélt auka aðalfund mánudagskvöldið 20. nóvember. Kosin var ný stjórn félagsins og Óskar Guðmundsson nýr formaður.
Í stjórn voru kosin auk Óskars: Sveinbjörn Þór Ottesen, Sigurður Kristjánsson, Anna Aurora Waage Óskarsdóttir og Hreinn Heiðar Oddson. Varamenn í stjórn eru Sveingerður Hjartardóttir og Gunnar Birgisson.
„Ný stjórn kemur til með að hittast á allra næstu dögum til að skipta með sér verkum og klæðast við það tækifæri í kosningaham enda skammt til vors og stórra verka,“ segir Óskar.

Eva Rún gefur út sína þriðju barnabók

lukka

Lukka og hugmyndavélin í svakalegum sjávarháska er þriðja bók Evu Rúnar Þorgeirsdóttur en hún hefur áður gefið út barnabókina Auður og gamla tréð og aðra bók um uppfinningastelpuna Lukku. „Lukka ætlar að njóta síðustu daga sumarfrísins, liggja í leti og lesa á milli þess sem hún grúskar í uppfinningunum sínum. Foreldrar hennar eru að rannsaka skipsflak á hafsbotninum úti fyrir hinni afskekktu Fiskey. Lukka, Jónsi og Sámur eru með í för og að sjálfsögðu hugmyndavélin, en Lukka fer ekkert án hennar. Það kemur þó fljótt í ljós að íbúar eyjunnar eru ekki allir þar sem þeir eru séðir og systkinin dragast inn í óvænta atburðarás þar sem reynir á styrk þeirra sem aldrei fyrr.“
Eva Rún útskrifaðist sem verkefnastjóri frá Kaospilot háskólanum í Árósum árið 2006 og hefur fengist við ýmis konar viðburðastjórnun og verkefni sem tengjast menningu og listum síðan þá. Meðfram skrifum starfar Eva sem jógakennari.

Gott að geta lagt til samfélagsins á efri árum

jonsverrir_mosfellingurinn

Jón Sverrir Jónsson í Varmadal er einn af elstu starfandi bifreiðastjórum á landinu. Jón Sverrir hefur alla tíð verið hrifinn af vélknúnum farartækjum. Hann byrjaði ungur að árum að snúast í kringum búvinnutækin á heimilinu, 18 ára starfaði hann á vélskóflum í Kollafirði en um 22 ára aldurinn hóf hann störf sem vörubílstjóri á Vörubílastöðinni Þrótti og hefur starfað við það síðan og er nú með lengstan starfsaldur á stöðinni.

Jón Sverrir, eða Sverrir eins og hann er ávallt kallaður, fæddist í Varmadal 1. desember 1942. Foreldrar hans eru Unnur Sóley Lilja Valdemarsdóttir og Jón Jónsson bændur í Varmadal en þau eru bæði látin. Systkini Sverris eru þau Hjördís, ­Valde­mar og Haraldur.

Fyrsta manneskjan er ég augum leit
„Ég er alinn upp í Varmadal. Mér er sagt að það hafi verið kalt skammdegi daginn sem ég fæddist árið 1942. Faðir minn hafi verið tilbúinn með tvo eldishesta skaflajárnaða til ferðar að Laxnesi í Mosfellsdal ef aðstoðar ljósmóður þyrfti fyrirvaralaust sem og varð tilfellið.
Brýrnar voru að vísu komnar á Leirvogsána og Köldukvísl en vegalengdin löng, svartamyrkur og frost. Helga ljósmóðir var vakin með því að guða á glugga, hún útbjó sig í skyndi í hnakkinn á aukahestinum til að aðstoða móður mína við komu mína í þennan heim. Helga var eiginkona Einars á Litla-Landi við Brúarland og var því fyrsta manneskjan sem ég augum leit.“

Þetta var eins og gott heimili
„Bernskan í Varmadal var áhyggjulaus, allt í föstum skorðum. Húsakostur allur góður og frumuppeldið hvíldi á móður minni, Elísabetu ömmu og Hjördísi systur minni fyrstu árin. Fljótlega hændist ég þó að karlpeningi bóndabýlisins og ekki hár í loftinu var ég farinn að snúast í kringum búpening og búvinnutæki.
Skólaganga mín hófst um átta ára aldur að Klébergi á Kjalarnesi, heimavist undir styrkri stjórn Ólafs skólastjóra og Bjargar­ konu hans. Mér dettur oft í hug nú hve góðir þjóðfélagsþegnar þessi hjón voru því þetta var auðvitað bara eins og gott heimili. Ólafur kenndi allar námsgreinar og Björg handavinnu stúlknanna.
Það eina sem ég sé nú vera svolítið gamaldags var að þær stelpur sem komu úr nágrenni skólans, sem voru sem sagt ekki á heimavistinni, klæddust síðbuxum í vetrarkuldanum á ferð sinni gangandi í skólann en urðu að afklæðast þeim og fara í kjól í veru sinni í skólanum.“

Beið eftir bjarma ljósanna
„Mér eru minnistæðir þeir mánudagsmorgnar þegar áætlunarbíllinn kom úr Reykjavík á leið sinni upp í Kjós. Ég beið bílsins uppi í stofu í Varmadal þar til ég sá bjarma ljósanna þar sem nú eru Hulduhólar. Nokkru seinna tvö ljós hans þar sem nú er dekkjaverkstæðið við Langatanga og þá setti ég skólatöskuna á bakið og hljóp niður á veg við gömlu brúna. Rútan kom svo yfir Leirvogstunguhæðina og ég fór upp í hana þar.”

Mosfellssveitin fóstraði vel þennan hóp
„Eftir veruna á Klébergi tók Brúarlandsskóli við þaðan sem ég á góðar minningar. Skólanum stýrði Lárus Halldórsson og man ég vel eftir leikfimikennslu hans, hann þá kominn á efri ár en afar léttur og fimur, góð kennsla á allan hátt. Gagnfræðaskóli verknáms var næst á lífsleiðinni og tók tvö ár.
Ég gekk til spurninga til fermingar eins og það var nefnt í þá daga hjá séra Hálfdáni Helgasyni prófasti á Mosfelli en hann féll frá rétt fyrir fermingardaginn. Það varð því með fyrstu verkum séra Bjarna að ferma okkur hópinn seinna um haustið. Gaman er nú að sjá hvað Mosfellssveitin fóstraði þennan hóp vel því flest öll erum við nú enn í Lágafellssókn um 75 ára gömul.“

Lengstur starfsaldur á stöðinni
„Nú tók skóli lífsins við, vinnan við bú­störf í Varmadal og umsjón með landbúnaðartækjum hvíldi á herðum okkar bræðra. Oft hugsa ég til þess hve mikið gagn við gerðum, litlir strákar mættir með tvo fulla heyvagna af nýslegnu grasi fyrir framan súrheysturninn og þegar foreldrar okkar höfðu lokið mjöltun á morgnana gat pabbi byrjað að moka í blásarann sem blés heyinu upp í turninn.
18 ára hóf ég vinnu hjá Vinnuvélum í Kollafirði á vélskóflum í sandnámunni þar en var alltaf heima yfir sumartímann við landbúnaðarstörf.
Ég gerðist vörubílstjóri á Vörubílastöðinni Þrótti þegar ég var 22 ára og hef starfað við það síðan og er nú með lengstan starfsaldur á stöðinni.“

Ævarandi hlýja til Skálatúns
Jón Sverrir og Hanna Sigurjónsdóttir gengu í hjónaband 1964 og eignuðust fjögur börn, Jón, Andrés, Elísabetu og Björgvin. „Andrés misstum við 30 ára gamlan en hann gekk ekki heill til skógar. Hann var heima til fimm ára aldurs en bjó síðan í 25 ár á Skálatúni og kann ég því heimili ævarandi hlýju fyrir þá virðingu sem heimilið, starfsfólk og ríkið sýndi honum. Jón og Elísabet búa bæði í Varmadal en Björgvin í Leirvogs­tungu.“

Húsnæðið varð eldi að bráð
Árið 1971 stofnuðu félagarnir Jón Sverrir, Bernhard Linn og Níels Hauksson fyrirtækið Hengil sf. um rekstur vinnuvéla og keyptu fljótlega verkstæðis- og verslunarhúsið Þverholt hér í bæ og hófu rekstur. „Húsnæðið varð eldi að bráð en við byggðum það upp aftur en í breyttri mynd. Í dag eigum við hjónin ásamt syni okkar og tengdadóttur Hengil.­ Rekstur fyrirtækisins hvílir nú mest á Björgvini og dagleg umsjón þrifa og reikningshald á eiginkonunni.“

Legg mitt af mörkum
„Lífið hefur farið vel með okkur hjónin, barnalán, níu barnabörn og eitt langafabarn. Ég hef haft allgóða heilsu, unnið nokkuð mikið en líka leikið mér. Fyrst í íþróttum, hestamennsku, flugi og kórsöng ásamt því að fara reglulega í sund. Ég fer stundum einn en oftar með barnabörnunum og oftast með barnabarninu Emmu Íren minni en við höfum farið saman í sund í 15 ár og gerum enn.
Ég syng nú með Karlakór Kjalnesinga og Kirkjukór Brautarholts- og Reynivallasóknar og þykist því leggja eitthvað af mörkum fyrir samfélagið á efri árum.“
Ég spyr Sverri að lokum hvað hann ætli að gera á afmælisdaginn en hann verður 75 ára daginn eftir að viðtalið kemur út? „Ég ætla að vera í faðmi fjölskyldu og barna, þannig líður mér best.“

Mosfellingurinn 30. nóvember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Birtir heimildarmynd og segir son sinn saklausan

hjaltiursus

Hjalti Úrsus Árnason hefur birt á Facebook heimildarmyndina „Fall Risans – rangar sakargiftir“. Þar er fjallað um rannsókn lögreglu og dómsmál á hendur syni hans, Árna Gils.
Hjalti sviðsetur atburðarás í meintri morðtilraun sem sonur hans er dæmdur fyrir. Þeir feðgar bera lögreglu og saksóknara þungum sökum og segja að verið sé að fremja dómsmorð á Árna.
„Ég geri þessa heimildarmynd til að upplýsa fólk og birti gögn úr rannsókn málsins. Það er mikilvægt að vekja athygli á málinu,“ segir Hjalti. „Ekki gleyma Árna Gils.“

„Ég var leiddur í gildru”
„Ég hélt fyrst að hann væri sekur, eins og ég segi í myndinni. Það hefði þá verið ákveðin staða en maður er með sterka réttlætiskennd.“
Árni var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í mars. Síðan eru liðnir 270 dagar og var áfrýjun málsins tekin fyrir í Hæstarétti á mánudag.
Í ákærunni kemur fram að hann hafi veist að manni á bílastæði við sjoppu í Breiðholti. Eftir stutt átök hefði hann stungið manninn með hnífi í höfuðið.
Árni segist hafa verið að verjast hnífaárás fíkils sem hann hafi aldrei séð áður. „Ég var leiddur í gildru,“ segir Árni en þeir feðgar telja að öllum líkindum tengist málið ásókn brotaþola í bótasjóð ríkisins.
Þá lýsir Hjalti því einnig að stúlka sem ber vitni í málinu hafi verið lyfjuð og fengið loforð um að fá helming bóta ef hún breyti ekki röngum framburði sínum.
„Brotaþoli kom sjálfur með hnífinn á vettvang og lét hann líka hverfa eftir atburðinn. Saksóknari hefur sjálfur viðurkennt það.“

Úr heimildarmyndinni Fall risans.

Úr heimildarmyndinni Fall risans.

Brotaþoli hefur skaðað sig sjálfur
„Skaðinn sem brotaþolinn varð fyrir gerðist ekki á þessum vettvangi heldur var hann höfuðkúpubrotinn fyrir,“ segir Hjalti og bendir á að maðurinn hafi ekki leitað sér aðstoðar á spítala fyrr en 40 mínútum síðar. Þá hafi hann verið alblóðugur og í miklu verra ástandi en þegar þeim Árna lenti saman. Ekkert blóð fannst á vettvangi og tæknideild lögreglunnar ekki kölluð til.
„Þetta stemmir alls ekki. Hann hefur skaðað sig sjálfur. Þetta er blákaldur raunveruleiki.“

Styttist í frelsun Árna
„Það er verið að fremja á mér réttarmorð og öllum er sama,“ segir Árni Gils og segir sekt sína hafa verið ákveðna á staðnum.
Hjalti neitar því ekki að Árni sé búinn að eiga í vandræðum með fíkniefni og áfengi. Hann hafi áður lent í minniháttar útistöðum við lögreglu og eflaust ekki sá vinsælasti en þess má geta að Árni er 2,05 m á hæð og 180 kg.
Málið var tekið fyrir í Hæstarétti á mánudag og segir Hjalti niðurstöðu að vænta eftir nokkrar vikur. „Það tekur vonandi ekki langan tíma að fá niðurstöðu og ég trúi því ekki að þessi vinnubrögð verði samþykkt. Vonandi styttist í frelsun Árna.“

Glíma við nýtt Geirfinnsmál
„Heimildarmyndin hefur vakið gríðalega athygli og ég fæ alls staðar mjög góð viðbrögð en fólki er brugðið eins og auðvitað mér sjálfum,“ segir Hjalti. „Þetta er nýtt Geifinnsmál sem er að gerast beint fyrir framan nefið á okkur.
Árni er búinn að vera ótrúlega hraustur meðan hann hefur setið inni en fyrir mánuði síðan fór heilsunni að hraka og andlegt ástand er orðið slæmt. Það slæmt að ég er hræddur um hann.
Ef hann verður dæmdur í Hæstarétti munum við fara með þetta fyrir Mannréttindadómstól Evrópu,“ segir Hjalti.