Endurnýjun tímabær – Valkostur í boði

efstu sex á sameiginlegum lista: Úrsúla, Kristín  Vala, Benedikt, sigrún, Friðbjörn og Kristín nanna

Efstu sex á sameiginlegum lista: Úrsúla, Kristín Vala, Benedikt, Sigrún, Friðbjörn og Kristín Nanna.

Listi Íbúahreyfingarinnar og Pírata er kominn fram. Oddviti sameiginlegs framboðs er Sigrún H. Pálsdóttir starfandi bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar. Í öðru sæti er Kristín Vala Ragnarsdóttir jarðfræðingur. Hún hefur lengi kennt og unnið að rannsóknum um sjálfbærni hér heima og erlendis. Hún hefur haft afgerandi áhrif á stefnu Pírata í umhverfis- og velferðarmálum.
Friðfinnur Finnbjörnsson skipar þriðja sætið. Hann hefur setið í framkvæmdaráði Pírata og starfar hjá innflutningsfyrirtæki. Kristín Nanna Vilhelmsdóttir er í fjórða sæti. Hún er háskólanemi og virkur félagi í Leikfélagi Mosfellsbæjar. Benedikt Erlingsson leikstjóri skipar fimmta sætið og kennarinn Úrsúla Jünemann það sjötta.

Sigrún H. Pálsdóttir

Sigrún H. Pálsdóttir

Framboðslisti Íbúa­hreyf­ingar­innar og Pírata
1. Sigrún H Pálsdóttir
2. Kristín Vala Ragnarsdóttir
3. Friðfinnur Finnbjörnsson
4. Nanna Vilhelmsdóttir
5. Benedikt Erlingsson
6. Úrsúla Jünemann
7. Gunnlaugur Johnson
8. Marta Sveinbjörnsdóttir
9. Jón Jóhannsson
10. Sigrún Guðmundsdóttir
11. Birta Jóhannesdóttir
12. Emil Pétursson
13. Hildur Margrétardóttir
14. Sigurður G. Tómasson
15. Páll Kristjánsson
16. Eiríkur Heiðar Nilsson
17. Sæunn Þorsteinsdóttir
18. Kristín I. Pálsdóttir

Sýnum kjark og rjúfum kyrrstöðu!
Íbúahreyfingin tekur þátt í sveitarstjórnarkosningum í þriðja sinn. Nú með Pírötum.
„Málefnalega eru snertifletirnir margir. Þar ber hæst að efla íbúaþátttöku, gegnsæi í stjórnsýslu og greiða aðgang íbúa að upplýsingum“, segir Sigrún H. Pálsdóttir í fyrsta sæti listans.
„Á sameiginlegum lista er fjölbreyttur hópur Mosfellinga með skýra sýn á verkefnin fram undan. Trúin á stjórnmálin hefur sjaldan verið minni og brýnt að bregðast við því með breyttum vinnubrögðum og áherslum. Í umhverfismálum hafa ábyrg stjórnmál aldrei verið mikilvægari. Í skólamálum eru blikur á lofti og stórátaks þörf í húsnæðis- og velferðarmálum.
Í Mosfellsbæ er tímabært að rjúfa kyrrstöðuna. Vinnusemi, skýr markmið og almannahagsmunir verða áfram okkar leiðarljós.“

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Hvers vegna sameiginlegt framboð?
„Stjórnmálahreyfingarnar tvær eiga margt sameiginlegt. Báðar leggja þær áherslu á opna, gagnsæja og heilbrigða stjórnmálamenningu til að styrkja lýðræðið og valdefla borgara til að hafa áhrif á samfélagið,“ segir Kristín Vala sem skipar annað sæti listans. „Það er mikilvægt að hafa kjark til að fylgja áherslum sínum eftir. Íbúahreyfingin hefur sýnt það í verki og því fagna Píratar.
Í grunnstefnu Pírata er lögð áhersla á gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu, borgararéttindi, friðhelgi einkalífsins, gagnsæi og ábyrgð.
Lýðræðinu er óhollt að sömu flokkarnir haldi um stjórnartaumana of lengi líkt og D- og V-listar hafa gert í Mosfellsbæ í hátt á annan áratug. Íbúahreyfingin og Píratar óska eftir stuðningi kjósenda til að leiða fram tímabærar breytingar.“