KR

kr_gaui

Ég er úr Árbænum og spilaði fótbolta með yngri flokkum Fylkis. Hjartað er hjá Aftureldingu í dag eftir rúmlega 17 ár í Mosfellsbæ en Fylkir á samt og mun alltaf eiga hlut í því. Ein sárasta fótboltaminning mín er þegar KR-ingurinn, sem enginn man hvað heitir nema eldheitir KR-ingar, skoraði jöfnunarmark á móti Fylki í Árbænum fyrir tæpum 16 árum í næstsíðustu umferð Íslandsmótsins. Fjórar mínútur eftir af leiknum. Fylkir var 1:0 yfir, Ómar Vald, sem er í dag annar af þjálfurum 2. flokks karla í Aftureldingu, skoraði mark Fylkis. Örugglega með skalla. Sá sem enginn man hvað heitir í KR skoraði ekki fleiri mörk á ferlinum, hvorki fyrr né síðar. Ef hann hefði sleppt þessu fáranlega fallega marki hefði Fylkir orðið Íslandsmeistari.

Jæja, Fylkir fékk svo annan séns á að vinna titilinn. Þeir fóru glaðbeittir upp á Skaga þar sem lærisveinar Óla Þórðar kjöldrógu þá án þess að hafa að neinu að keppa sjálfir. Þeir vildu bara ekki Skagamennirnir að einhverjir aðrir en þeir sjálfir yrðu Íslandsmeistarar á heimatorfunni þeirra. Það er virðingarverð afstaða í sjálfur sér en þetta var ekkert sérstaklega góður dagur fyrir okkur hin. En svona er nú lífið. Maður fær ekki alltaf það sem maður vill. Þegar þessar línur eru skrifaðar er akkúrat verið að draga í 32-liða úrslit í Mjólkurbikarkeppni KSÍ. Og hvað haldið þið, hverjir eru að koma í heimsókn? KR, auðvitað. Stórveldið. Þetta getur ekki orðið annað en gaman.

Ég ætla alla vega ekki að láta mig vanta á völlinn og hvet alla Mosfellinga til þess að fjölmenna á völlinn og styðja sitt heimalið. KR-ingar eiga eftir að fjölmenna, þeir eru spenntir fyrir komandi tímabili og ætla sér stóra hluti eins og alltaf. En ég veit að okkar menn ætla ekki að láta þá komast upp með neitt múður. Áfram Afturelding!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 26. apríl 2018