Lóðir við Fossatungu og Kvíslartungu tilbúnar til úthlutunar

lóðirtungu

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt úthlutunarskilmála og verð við úthlutun á 31 lóð við Fossatungu og Kvíslartungu í Mosfellsbæ. Um er að ræða stækkun Leirvogstunguhverfis til austurs í átt að Köldukvísl. Leirvogstunguhverfið er glæsilegt sérbýlishúsahverfi í Mosfellsbæ sem afmarkast af Leirvoginum og Vesturlandsvegi.
Lóðirnar skiptast þannig eftir gerð húsnæðis að raðhúsalóðir eru 17, parhúsalóðir 12 og einbýlishúsalóðir eru 2.

Hverfið að verða fullbyggt
„Mikil eftirspurn hefur verið eftir húsnæði í Mosfellsbæ eins og við íbúar höfum öll tekið eftir“, segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Sérstaklega í þeim mikla uppgangi sem einkennt hefur síðustu ár með uppbyggingu m.a. í Helgafelli og Leirvogs­tungu. Á síðasta ári fjölgaði íbúum um 8% og við hjá Mosfellsbæ vinnum að því daglega að taka vel á móti nýjum íbúum um leið og við eflum þjónustuna almennt. Það er einkar ánægjulegt að geta hafið vinnu við að úthluta þessum lóðum í byrjun apríl á grundvelli útdráttar.
Við verðlagningu lóðanna var haft að leiðarljósi að verð væri í lægri kantinum miðað við markaðinn en samt ekki það lágt að óeðlilegur eftirmarkaður myndaðist með þær. Þegar byggingu þeirra lýkur verður Leirvogstunguhverfið að mestu fullbyggt.“

Dregið úr innsendum umsóknum
Heimilt er að sækja um fleiri en eina lóð í einu. Verði umsóknir um hverja lóð fleiri en ein verður dregið úr innsendum umsóknum. Umsækjendum um lóðir verður gefin kostur á að vera viðstaddir útdrátt sem verður auglýstur á vefsíðu bæjarins viku fyrir útdrátt. Útdrátturinn verður framkvæmdur af eða undir eftirliti sýslumanns eða annars hlutlauss aðila.
Verð lóðanna samanstendur af gatnagerðargjaldi sem er 32.082 kr. á m² auk byggingaréttargjalds sem er misjafnt eftir húsagerð. Þannig verður einbýlishúsalóðum úthlutað á um 13 m.kr., parhúsalóðum frá 7,5 m.kr. og raðhúsalóðum frá 6,2 m.kr.
Nánari upplýsingar á www.mos.is/lodir.