Hef mikla ánægju af því að vera meðal fólks

kallilofts

Karl Elinías Loftsson fyrrverandi útibússtjóri Búnaðarbankans hefur verið virkur í félagsstörfum eftir að hann lét af störfum.
Karl tók á móti mér á fallegu heimili sínu að Bjargartanga og við fengum okkur sæti í betri stofunni. Karl hefur einstaklega góða nærveru, er rólegur og yfirvegaður í fasi.
Það er óhætt að segja að Karl sitji ekki auðum höndum eftir að hann fór á eftir­laun því hann nýtir hvern dag til hins ítrasta. Ef hann er ekki að stjórna félagsvist eða bingói þá er hann að ferðast eða í golfi og svo hefur hann unun af að slípa íslenska steina.

Karl er fæddur á Hólmavík 2. mars 1937. Foreldarar hans voru Helga Guðbjörg Jónsdóttir húsfreyja og Loftur Bjarnason skipstjóri og verkamaður. Karl á sex systkini, Gróu, Þórdísi, Jón, Sigvalda, Ingimund Tryggva og Guðjón og sex hálfsystkini samfeðra, Gísla, Aðalheiði, Björnstjerne, Gest og tvö börn sem létust í bernsku.

Á handfærum í Steingrímsfirðinum
„Lífið í barnæsku snérist í kringum sjóinn og fiskinn. Ég var í kringum sjö ára aldurinn þegar ég fór fyrst með föður mínum á sjó og rérum við Guðjón bróðir með föður okkar á árabáti sem hét Skoppa. Við vorum nokkur sumur á handfærum í Steingrímsfirðinum og faðir minn sagði við okkur að það munaði um hvern fiskinn sem við bræðurnir gætum dregið.“

Tvær krónur í björgunarlaun
„Eitt sinn á mínum yngri árum var ég nærri drukknaður. Ég var að skola litlar hjólbörur í fjörunni neðan við húsið sem við bjuggum í þegar alda reið yfir og tók mig út og ég komst ekki aftur í land. Nokkrir eldri strákar sáu það sem gerðist og einn þeirra, Friðrik Arthúr, hljóp til að sækja hjálp. Gróa systir sem þá var sextán ára kom æðandi að og óð upp undir hendur þar sem ég flaut í sjónum og hún náði mér upp. Faðir minn kom stuttu síðar og í sameiningu fóru þau með mig til læknis sem dældi upp úr mér.
Ég hef ævinlega verið þakklátur Friðriki lífgjafa mínum og móðir mín var það líka og gaf honum tvær krónur í björgunarlaun.“

Gerðu út bát í sex ár
„Skólagangan gekk vel og ég lauk námi frá Grunnskóla Hólmavíkur vorið 1951. Þá tók sjómennskan við og ég var sjómaður og verkamaður næstu fimmtán árin. Var tvær vertíðir á Akranesi og eina á Ísafirði. Sjómennskan átti alltaf vel við mig og þetta voru ákaflega heillandi störf.
Árið 1960 létum við Jóhann og Kjartan Jónsynir smíða fyrir okkur 12 tonna fiskibát í skipasmíðastöð Inga Guðmonssonar á Akranesi. Báturinn hét Farsæll ST-28 og við gerðum hann út í sex ár.“

Njótum þess að ferðast
Karl kvæntist Valdísi Ragnarsdóttur húsmóður árið 1958. Börn Karls og Valdísar eru Bára, fædd 1956, veitingakona, Ragna Þóra, fædd 1959, þroskaþjálfi og sérkennari og Elín Gróa, fædd 1968, viðskiptafræðingur. Barnabörnin eru sjö en eitt þeirra er látið. Barnabarnabörnin eru tvö.
„Við hjónin njótum þess að ferðast bæði innanlands og utan í góðra vina hópi. Við höfum einnig mikla ánægju af því að fara á heimaslóðir til Hólmavíkur en þar eigum við hús sem við dveljum oft löngum stundum í.“

Mest með um 150 fjár
„Árið 1960 tók ég við umboði Olíuverslunar Íslands hf. á Hólmavík og var með það í 25 ár. Samhliða olíuversluninni rak ég verslun með matvörur og gjafavörur ásamt Jóni bróður mínum eða til ársins 1973. Við Jón vorum að auki með búskap í mörg ár, mest vorum við með um 150 fjár. Í dag á ég tvær kindur sem bróðir minn fóstrar fyrir mig.
Árið 1972 var ég skipaður yfirkjötmatsmaður á Vestfjörðum. Á þessum árum voru 52 sláturhús víðsvegar um landið. Ég starfaði sem matsmaður til ársins 2012 en þá voru aðeins átta sauðfjársláturhús eftir á landinu.“

Útibússtjóri í þrjátíu ár
„Karl starfaði fyrir Búnaðarbanka Íslands í 30 ár. „Ég hóf störf í útibúinu á Hólmavík árið 1973 og starfaði þar allt til ársins 1985. Þá var ég skipaður útibússtjóri í Vík í Mýrdal og var þar til ársloka 1990.
Svo var ég ráðinn útibússtjóri í útibúi bankans í Mosfellsbæ og gegndi því starfi til 67 ára aldurs. Bankaárin veittu mér gríðarlega ánægju, á öllum þessum stöðum kynntist maður mjög góðu og skemmtilegu fólki.“

Sæmdur æðstu viðurkenningu
Karl hefur starfað mikið í félagsmálum í gegnum tíðina, Hann var í stjórn Héraðssambands Strandamanna og í stjórn Átthagafélagsins í 26 ár. Hann var kosinn í hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps árið 1966 og tók við sem oddviti árið 1972 og gegndi því starfi í 14 ár. Hann var einnig formaður ungmennafélagsins Geisla. Þar að auki hefur Karl verið í ýmsum stjórnum félagasamtaka á Vestfjörðum.
Eftir að hann flutti í Mosfellsbæ hefur hann starfað í sóknarnefnd Lágafellssóknar í 12 ár, í stjórn félags eldri borgara í 8 ár og í stjórn Golfklúbbsins í 8 ár. Hann hefur kennt pútt í 20 ár og stjórnar í dag félagsvist og bingói á Eirhömrum.
Karl hefur verið virkur meðlimur í Lionshreyfingunni síðastliðin 55 ár og verið sæmdur æðstu viðurkenningu Lionshreyfingarinnar, Melvin Jones. Hann er ævifélagi Lionsklúbbsins í Mosfellsbæ.

Slípar íslenska steina
„Ég hef alla tíð verið mikið í útivist í náttúru Íslands og stundaði stangveiði um land allt í mörg ár en síðastliðin 25 ár hefur golfið átt hug minn allan.
Áhugamál mitt til margra ára í seinni tíð er að vinna með íslenska steina, saga þá og slípa og til þess nota ég sérstakar vélar. Áður fyrr fór maður upp um fjöll og í fjörur að tína steina en núna þegar fæturnir eru farnir að gefa eftir þá verð ég að kaupa þá annars staðar til að halda starfseminni gangandi.
Steinarnir veita mér mikla ánægju og að hinu leytinu til þá er alltaf gott að hafa eitthvað fyrir stafni.“

Mosfellingurinn 15. mars 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs