Berjumst fyrir því sem okkur er hjartfólgnast

þrjú efstu á lista framsóknar­- flokksins í mosfellsbæ: Sveinbjörn Ottesen, Birkir Már og Þorbjörg.

Þrjú efstu á lista Framsóknar­flokksins í Mosfellsbæ: Sveinbjörn Ottesen, Birkir Már og Þorbjörg.

Sveinbjörn Ottesen verkstjóri skipar fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar undir lok mánaðarins.
Hann segir að framboðið berjist fyrir því sem því sé hjartfólgnast, menntamálum, samgöngumálum og þjónustu við íbúa.
„Við Framsóknarmenn erum fáorðir en gagnorðir. Því segi ég:
Fjölnotahús – Betra er heilt hús reist af heilum hug en hálft hús af hálfum hug
Útboðsmál – Ekki hringja í vin … allt í útboð
Heilbrigðisþjónusta 24/7 – Nei, doktor Saxi, ekki skera meira. Hér bætum við í.“

Sveinbjörn Ottesen

Sveinbjörn Ottesen

Framboðslisti Framsóknarflokksins
1. Sveinbjörn Ottesen
2. Þorbjörg Sólbjartsdóttir
3. Birkir Már Árnason
4. Óskar Guðmundsson
5. Sveingerður Hjartardóttir
6. Kristján Sigurðsson
7. Sigurður Kristjánsson
8. Kristín Fjólmundsdóttir
9. Ólavía Rún Grímsdóttir
10. Elín Arnþórsdóttir
11. Leifur Kr. Jóhannesson
12. Frímann Lúðvíksson
13. Ásgerður Gísladóttir
14. Árni R. Þorvaldsson
15. Sigurður Helgason
16. Halldóra Eyrún Bjarnadóttir
17. Roman Brozyna
18. Ingi Már Aðalsteinsson

Þorbjörg Sólbjartsdóttir

Þorbjörg Sólbjartsdóttir

Lýðheilsa er eitt okkar helsta stefnumál
Þorbjörg Sólbjartsdóttir skipar 2. sæti á listanum.
„Lýðheilsa er eitt helsta stefnumál okkar í Framsókn og beinast áherslur okkar að breiðum aldurshópi.
Í fyrsta lagi viljum við efla forvarnir fyrir unglinga með greiningar á borð við kvíða og þunglyndi. Þessa aðstoð viljum við kalla snemmtæka íhlutun. Í kringum þessa einstaklinga á að vera forvarnarteymi sem sinnir bæði líkamlegri og andlegri heilsu þeirra. Samkvæmt rannsóknum hafa þrír þættir mest áhrif á andlega heilsu: Sofa rétt, borða rétt og stunda líkamsrækt. Við teljum að með því að auka styrkveitingu til þessa hóps með ráðum eins og heilsuávísun, sem myndi koma í formi frístundastyrks, sé komin fram mjög góð forvörn gegn félagslegri einangrun og í versta falli sjálfsvígum.
Í öðru lagi viljum við að auka lífslíkur aldraðra. Því teljum við að það sé mjög mikilvægt að grípa til ráðstafana fyrir þann hóp sem er komin að og á eftirlaun. Áhættusjúkdómar eins og beinþynning og sykursýki 2 eru alvarlegur fylgikvilli öldrunar og geta reynst banvænir. Það er því mikilvægt að þessi hópur eigi kost á hreyfingu við sitt hæfi og að fá ráðleggingar varðandi matarræði þeim að kostnaðarlausu. Ellilífeyririnn dugar allt of mörgum aðeins rétt fyrir helstu nauðsynjum og er hreyfing því allt of sjaldan í forgangi. Heilbrigð sál í hraustum líkama hefur mikið forvarnagildi og sparar mikla fjármuni í heilsugæslu en þó það mikilvægasta, eflir og bætir líðan fólks.“

Birkir

Birkir Már Árnason

Beitum okkur fyrir lagningu Sundabrautar
Birkir Már Árnason skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins.
„Við getum öll verið sammála því að undanfarin ár hefur umferð um Mosfellsbæ og Mosfellsdal stóraukist. Fólk ekur í gegnum fallega bæinn okkar til og frá sveitafélögum í nágrenni okkar, mest til að t.d. að sækja vinnu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er mikil aukning ferðamanna sem fara í gegnum bæinn um Mosfellsdal til helstu ferðamannastaða Íslands, s.s. Þingvalla, Gullfoss og Geysi. Hraðakstur, slit á götum, mengun og aukin slysahætta eru fylgifiskar mikillar umferðar.
Við í X-B leggjum því áherslu á:
Að bæta almennar umferðarmerkingar til að takmarka hraðakstur til að koma í veg fyrir slys á þjóðvegi 1, í Mosfellsdal og í nýjum hverfum bæjarins, hvar slíkum er verulega ábótavant í dag. Einnig viljum við beita okkur fyrir lagningu Sundabrautar sem myndi létta verulega á þungaumferð um gatnakerfi Mosfellsbæjar og stytta tíma vegfaranda sem allajafna færu í gegnum Mosfellsbæ til þess eins að komast til borgarinnar.“

Útskrifa sérhæfða starfsmenn íþróttamannvirkja

ithrottathjalfun

Föstudaginn 4. maí útskrifuðust 23 sérhæfðir starfsmenn íþróttamannvirkja eftir 150 stunda þjálfun sem unnið hefur verið að síðasta árið.
Námið var þróað og útfært í samstarfi við starfsmenn og forstöðumenn íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ, en umsjón og framkvæmd verkefnisins var í höndum starfsþjálfunarfyrirtækisins Skref fyrir skref sem hefur sérhæft sig í fullorðinsfræðslu og starfsþróun.
Mosfellsbær er fyrst sveitarfélaga til þess að veita starfsmönnum aðgang að þessari tegund starfstengds náms en sérstaklega er kveðið á um það í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitafélaga og Starfsmannafélags Mosfellsbæjar.

Auka fagmennsku og vellíðan í starfi
Í upphafi útskriftarinnar, sem haldin var í íþróttamiðstöðinni Kletti, bauð Haraldur Sverrisson gesti velkomna. Að því loknu sagði forstöðumaður íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ, Sigurður Guðmundsson, frá markmiðum námsins.
Meginmarkmið námsins er að auka fagmennsku og vellíðan í starfi og byggja upp traust, ábyrgð, samstarf og virkni á vinnustaðnum. Þá sagði Hansína B. Einarsdóttir hjá Skref fyrir skref frá uppbyggingu námsins.
Loks afhenti Linda Udengaard framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs viðurkenningarskjöl til þátttakenda.

Grunnur að góðri þjónustu
„Við hjá Mosfellsbæ viljum standa vel að þjálfun og starfsþróun okkar starfsmanna. Þetta nám er vel til þess fallið að styðja við starfsmenn íþróttamannvirkja um leið og við styrkjum þá þjónustu sem við veitum íbúum í íþróttahúsum og laugum Mosfellsbæjar. Vel þjálfaðir og ánægðir starfsmenn sem geta þróast í sínu starfi eru grunnur að góðri þjónustu og öryggi í okkar íþróttamannvirkjum.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og þetta nám styður við okkar vinnu í þeim efnum enda varðar það í senn þjónustu, öryggi og framþróun starfseminnar,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Vinnufrí

Heilsumolar_Gaua17mai

Ég var norður á Ströndum í síðustu viku að hjálpa til að standsetja hús sem stórfjölskyldan á þar. Þetta var fjögurra daga ferð. Lífið var mjög einfalt. Við vöknuðum snemma. Unnum fram á kvöld. Tókum nokkrar matarpásur. Fórum í sund eða heitan pott eftir vinnu. Sofnuðum snemma.

Það var ekkert sjónvarp í húsinu. Slökkt á útvarpinu. Ég ákvað að taka netfrí þessa daga og vissi því lítið hvað var að gerast í hinum stóra heimi utan Bjarnarfjarðar. Þetta var akkúrat það sem ég þurfti á að halda. Hausinn fékk frí á meðan líkaminn vann. Góður félagskapur og vinnufélagar. Vinnan gekk vel en það var ekkert stress eða læti. Veðrið var notalegt. Það er mikil gróðursæld í firðinum og urmull af fuglum af ýmsu tagi að vinna í vorverkunum rétt fyrir utan húsið.

Ég mæli virkilega með nokkra daga frívinnuferðum þar sem maður skiptir alveg um umhverfi og hvílir sig á því sem maður fæst við dags daglega. Það er gott fyrir líkamlega og andlega líðan og maður skilur eitthvað eftir sig í leiðinni. Það var líka gott að koma til baka. Sultuslakur og hlaðinn orku. Klár í að halda áfram með lífið heima og hlakka til alls þess sem á eftir að gerast í sumar.

Þetta verður viðburðarríkt og skemmtilegt sumar. Á mörgum sviðum. Eitt sem ég hlakka mikið til er að fara á Guns N‘ Roses tónleikana á Laugardalsvelli í júlí. Mér finnst ég eiga tónleikana skilið eftir að hafa ferðast um Evrópu fyrir nokkrum árum með góðum félögum, haldandi á sístækkandi bunka af Guns N‘ Roses tólftommum (vínyllinn tekur vel í). Þeir hefðu alveg mátt koma fyrr blessaðir en betra er seint en aldrei og ég bíð spenntur eftir þeim. Er með hina hráu G N‘ R Lies plötu í eyrunum á meðan ég skrifa þessar pælingar. Stillt hátt!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. maí 2018

Snarpur er nýtt app í símann

Viðar með Snarp við höndina.

Viðar Hauksson með Snarp við höndina.

Hjónin Viðar Hauksson og Lýdía Grímsdóttir hafa undanfarið ár hannað og þróað smáforritið Snarpur sem er aðgengilegt fyrir bæði Android og Iphone notendur.
Snarp­ur er smáforrit sem eykur skilvirkni í viðskiptum fagaðila í iðngreinum og einstaklinga sem þurfa á fagaðstoð að halda. Viðar er iðnaðarmaður og fékk hugmyndina þegar hann sjálfan vantaði minni verkefni á milli stærri verkefna.

Einfalda ferlið
„Hugmyndin er að einfalda ferlið á milli fagaðila og einstaklinga. Í gegnum forritið geta einstaklingar nálgast fagaðila í ólíkum iðngreinum, búið til og deilt verki á markaðstorgi Snarps og óskað eftir tilboðum fagaðila. Að sama skapi gerir forritið fagaðilum kleift að nálgast auglýst verk einstaklinga sem henta tíma og aðstæðum hverju sinni og gera í þau tilboð.“

Hugmynd í stöðugri þróun
„Smáforritið eða appið er mjög einfalt í notkun og bæði einstaklingar og fagaðilar geta stofnað sinn aðgang. Segjum sem svo að þú sért að fara taka eldhúsinnréttinguna í gegn og vanti í verkið smið, rafvirkja og pípara. Þú býrð þá til verk þar sem þú óskar eftir tilboði frá þessum fagaðilum allt á einum stað. Þetta einfaldar allar boðleiðir og skilar vonandi skilvirkari vinnu.
Við erum spennt að sjá hvernig viðbrögðin verða og ætlum okkur að halda áfram að þróa þessa hugmynd,“ segir Viðar að lokum.

Hér er hægt að nálgast appið í símann.

Veitingastaðurinn opinn fyrir alla

Kokkarnir Joost van Bemmel og Karl Jóhann Unnarsson standa vaktina í golfskálanum.

Blik Bistro & Grill er veitingastaður sem opnaði síðasta sumar í Kletti, íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Veitingastaðurinn opnar þriðjudaginn 1. maí með nýjum og spennandi matseðli. Staðurinn er opinn yfir sumartímann en hægt er að bóka viðburði og veislur yfir veturinn.
„Veitingastaðurinn er fyrir alla, það geta allir komið hingað hvort sem það er í morgun-, hádegis- eða kvöldmat, eða allt þar á milli. Matseðillinn hjá okkur er fjölbreyttur og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Joost van Bemmel yfirkokkur.
„Það er skemmtilegt að segja frá því að þegar við hönnuðum matseðil sumarsins gerðum við tvær tillögur að kjúklingaborgara. Ég gerði annan og Karl Jóhann Unnarsson, sem er nýr kokkur hjá okkur, gerði hinn. Það var ekki hægt að gera upp á milli og því enduðu þeir báðir á seðlinum,“ segir Joost van Bemmel yfirkokkur og hlakkar til sumarsins.

Sérsmíðaður skápur hluti af matseðli
„Við erum búin að leggja mikla vinnu í matseðilinn svo erum við alltaf með rétt dagsins og súpu í hádeginu. Raggi Óla vinur minn er að sérsmíða fyrir okkur skáp sem er partur af matseðlinum en þar verðum við með súpu, salat og ferskar kryddjurtir.

Sértilboð og annað skemmtilegt
„Hugmyndin hjá okkur er svo að vera með skemmtileg sértilboð og þemakvöld. Til dæmis á mánudögum verður tilboð af rifjum eins og hver og einn getur borðað. Á þriðjudögum verður pítsukvöld og miðvikudagar verða grænmetisdagar svo eitthvað sé nefnt.
Matseðillinn er settur upp þannig hjá okkur að það er hægt að panta fyrir 1-4 og deila eins og til dæmis tacos og fleira sem er mjög hentugt fyrir vinahópa.
Svo verð ég að minnast á að við erum með mikið úrval af kokteilum og verðum með „happy hour“ á kokteilum. Hægt er að fylgjast með öllum viðburðum og tilboðum á Facebook-síðunni,“ segir Joost og vonast til að sjá sem flesta Mosfellinga í sumar.

Framkvæmdum við Helgafellsskóla flýtt

Helgafellsskóli2

Á fundi bæjarráðs þann 12. apríl var samþykkt að heimila bæjarstjóra að ganga frá samkomulagi við Yrki arkitekta ehf. og VSB Verkfræðistofu ehf. um fullnaðarhönnun 2.-4. áfanga Helgafellsskóla.
Frumhönnun þessara áfanga liggur fyrir og felst verkefnið í fullnaðarhönnun skólans og ráðgjöf á byggingartíma.
Sama dag og þessi samþykkt var gerð fór bæjarstjórn og fræðslunefnd Mosfellsbæjar í kynnisferð í Helgafellsskóla þar sem Jón Ingi Georgsson fyrir hönd Ístaks og Reynir Kristjánsson byggingarstjóri fyrir hönd Verksýn tóku á móti kjörnum fulltrúum. Áður en haldið var í kynnisferðina fór Óskar Gísli Sveinsson deildarstjóri nýframkvæmda hjá umhverfissviði Mosfellsbæjar yfir stöðu framkvæmdanna.
Uppsteypu hússins er lokið og er vinna innanhúss hafin og er verkið á áætlun. Fyrsti áfangi hússins verður tekinn í notkun um næstu áramót. Gert er ráð fyrir að næsti áfangi þar á eftir verði tekinn í notkun haustið 2019.

Hröð uppbygging í Helgafellshverfi
„Með þessari samþykkt er bæjarráð að taka stefnumarkandi ákvörðun að halda hraðar áfram með byggingu Helgafellsskóla en gert var ráð fyrir þegar vinna hófst við byggingu skólans. Sú ákvörðun byggir fyrst og fremst á því að hraði uppbyggingarinnar í Helgafellshverfi er meiri en búist var við í upphafi en fjölgun íbúa Mosfellsbæjar í fyrra var 8,2% og auðvitað sýnu meiri í Helgafellshverfi.
Gera má ráð fyrir því að síðustu byggingaráfangar Helgafellsskóla verði boðnir út á fyrri hluta árs 2019,“ sagði Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Gaman að líta yfir farinn veg

asbjorn_mosfellingur

Það er sannarlega í mörg horn að líta þegar maður starfar sem byggingafulltrúi því verksviðið er margþætt, það er krefjandi og samræma þarf mörg sjónarmið.
Byggingafulltrúinn Ásbjörn Þorvarðar­son tók á móti mér á skrifstofu sinni hjá Mosfellsbæ og gaf mér innsýn í sín daglegu störf. Hann hefur starfað sem fulltrúi hjá bænum síðan 1982 en lætur nú af störfum. Hann segir forréttindi að hafa fengið að lifa og hrærast í uppbyggingu og þróun Mosfellsbæjar sem hefur breyst úr sveit í bæ.

Ásbjörn er fæddur í Súðavík 11. september 1950. Foreldrar hans eru Hallfríður Sveinsdóttir og Þorvarður Hjaltason en þau eru bæði látin. Ásbjörn á þrjú systkini, Hjalta Pál fæddan 1935, Svavar fæddan 1939 og Jónu fædda 1942.

Forréttindi að alast upp fyrir vestan
„Það voru forréttindi að alast upp í Súðavík þar sem náttúran umvafði mann, há fjöll og sjórinn í kring. Það var fagurt mannlíf og í 200 manna litlu samfélagi eru samskipti fólks yfirleitt nánari, meiri nágrannakærleikur og samkennd en í stærri samfélögum.
Leikur og störf fléttuðust saman á jákvæðan hátt og maður lærði að vinna. Það er ljóst að viðhorf til þess hvenær börn eða unglingar tóku að sér alvöru störf mótuðust af þeim tíðaranda sem ríkti, fjárhag, sjálfsbjargarviðleitni og metnaði.”

Alltaf til bakkelsi hjá mömmu
„Ég átti frábæra foreldra sem studdu mig í leik og starfi. Í búrinu heima átti mamma alltaf kleinur og kökur sem gott var að hafa í vasanum og narta í við góð tækifæri.
Í minningunni var oftast sumar og sól, veiði í sjó og vötnum, fjallgöngur, leikir á þorpsgötunni og ýmis konar íþróttakeppnir. Ellefu ára eignaðist ég árabát sem ég réri á og stundaði alls kyns veiðar.
Ég gekk í barna- og unglingaskólann í Súðavík og það var alltaf gaman í skólanum. Smíði, leikfimi og íþróttir voru í uppáhaldi.
Á sumrin vann ég að hluta til í frystihúsinu við beitningar en 14 ára fór ég á humarvertíð á bát frá Ísafirði. Ég var einnig á handfæraveiðum á báti frá Súðavík. Árið 1964 fór ég í heimavistarskóla að Reykjum í Hrútafirði.“

Útskrifaðist úr byggingafræði
„Eftir útskrift frá Reykjum var ég á handfærabát frá Súðavík en í september hélt ég til Reykjavíkur og hóf nám í húsasmíði hjá Einari Ágústssyni byggingameistara og lauk því 1972.
Í byrjun árs 1973 hélt ég svo til Danmerkur í nám í byggingafræði við Byggeteknisk höjskole í Kaupmannahöfn og lauk því námi 1976. Ég starfaði í tvö ár hjá Fin E. Nilsen og Rödovre kommune og í eitt ár hjá Jóni Haraldssyni arkitekt. Á árunum 1979-1982 starfaði ég hjá byggingafulltrúa Reykjavíkur.“

Stórfjölskyldan í Bergholtinu. Þórhallur, Andrea, Petra, Oliver, Guðlaug, Ásbjörn, Emilía, Darri, Elísabet Úa, Óðinn, Nikulás, Máney Karolín og Orri.

Stórfjölskyldan í Bergholtinu. Þórhallur, Andrea, Petra, Oliver, Guðlaug, Ásbjörn, Emilía, Darri, Elísabet Úa, Óðinn, Nikulás, Máney Karolín og Orri.

Frúin er frábær kokkur
Eiginkona Ásbjörns er Guðlaug Helga Hálfdánardóttir leikskólakennari og bókari, en þau gengu í hjónaband árið 1972. Þau byggðu sér hús í Bergholti þar sem þau hafa búið síðan. Þau eiga þrjá syni, Darra fæddan 1972, Orra Þór fæddan 1977 og Þórhall fæddan 1980.
„Sameiginleg áhugamál okkar hjóna eru að njóta samveru með fjölskyldu og vinum, stunda útivist og borða góðan mat, enda er frúin frábær kokkur,” segir Ásbjörn og glottir. Mín aðaláhugamál hafa verið útivist, veiði, fjallgöngur, hjólreiðar og badminton.“

Starfið áhugavert og krefjandi
Árið 1982 hóf Ásbjörn störf sem byggingafulltrúi hjá Mosfellsbæ og hefur starfað við það óslitið síðan. Þegar hann byrjaði var íbúafjöldinn rúmlega 2.000 og skrifstofur Mosfellssveitar voru í Hlégarði. Sveitin breyttist í bæ árið 1987 og er íbúafjöldinn nú kominn yfir 10.000 manns og skrifstofur Mosfellsbæjar eru staðsettar í Kjarna.
„Starfið hefur verið áhugavert og krefjandi og það er gaman að líta yfir farinn veg og sjá þær miklu breytingar sem orðið hafa á byggðinni og mannlífinu. Það eru forréttindi að hafa fengið að lifa og hrærast í uppbyggingu og þróun Mosfellsbæjar sem hefur breyst á skömmum tíma. Hlutfallsleg fjölgun íbúa hér hefur verið með því allra mesta á landsvísu á liðnum árum.“
Kostur að búa nálægt vinnustað sínum
„Þegar ég tók til starfa voru starfmenn um níu að meðtöldum sveitarstjóranum sem þá var, Páll Guðjónsson, en hann hóf störf um svipað leyti og ég og tók við af Bjarna Snæbirni Jónssyni.
Á þessum tíma var ekkert mötuneyti á staðnum og þá var nú mikill kostur að búa nálægt vinnustaðnum. Þeir sem bjuggu utanbæjar tóku með sér nesti en við sem bjuggum í grenndinni fórum heim í mat rétt eins og tíðkast í smábæjum og þorpi eins og ég ólst upp í.“

Mikilvægt að soga í sig þekkingu
„Starfssvið mitt hefur breyst mikið í gegnum tíðina og verkefnin eru fjölbreytt. Starf mitt spannaði bæði úti- og innivinnu í tengslum við skipulags- og byggingamál. Í dag felst starfið að mestu leyti í afgreiðslustörfum á skrifstofunni svo sem yfirferð og samþykkt hönnunargagna, svörun fyrirspurna í síma, rafrænt og á staðnum
Áður fyrr var alfarið um að ræða vistun skjala á pappír og engin rafræn yfirsýn eins og nú og var því mikilvægast að soga í sig sem mest af staðbundinni þekkingu og yfirsýn sem eldri höfðingjar eins og Jón Guðmundsson á Reykjum miðluðu gjarnan.“

Samskiptahópurinn er stór
„Verksvið byggingafulltrúa er margþætt og tengist náið skipulagsmálum sveitarfélagsins, samskiptum og upplýsingagjöf til bæjarbúa.
Byggingafulltrúi sér um afgreiðslu byggingaleyfa og byggingaframkvæmda og er þar af leiðandi í nánum samskiptum við hönnuði, iðnmeistara, byggingastjóra og marga húseigendur auk opinbera aðila þannig að samskiptahópurinn er stór.
Viðskiptavinir embættisins eru margir og sumir telja sig að sjálfsögðu misrétti beitta við afgreiðslur mála þrátt fyrir að farið sé í öllu eftir ákvæðum gildandi skipulags, lögum og reglugerðum en yfirgnæfandi meirihluti viðskiptavina sýnir þakklæti.“

Áhugamálin fá meira pláss
„Þegar ég horfi til baka þá hefur vinnan í gegnum tíðina tekið of mikið pláss frá fjölskyldulífinu en nú verður bætt úr því þar sem maður fer að hafa meiri tíma en ég læt af störfum 27. apríl.“
Aðspurður hvað taki við? „Við hjónin ætlum núna í maí í gönguferð á Tenerife og svo ætlum við að dvelja tvo mánuði á Spáni í haust.
Sumarið er heilagt okkur heima við á Íslandi og ég hlakka til að fá „laaaaangt“ sumarfrí með fjölskyldunni.
Það eru engin skipulögð áform hjá mér að taka að mér launuð störf en áhugamálin fá meira pláss svo það eru bara skemmtilegir og spennandi tímar fram undan.“

Mosfellingurinn 26. apríl 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Framkvæmdum í Skálafelli flýtt

skalafellmosfellingur

Fyrir dyrum stendur að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geri með sér samkomulag um mikla uppbyggingu á skíðasvæðunum í Bláfjöllum og Skálafelli. Þetta samkomulag er gert á grundvelli framtíðarsýnar sem verkefnahópur vegna uppbyggingar skíðasvæðanna hefur markað.
Forgangsverkefni þeirrar framtíðarsýnar eru að hefja snjóframleiðslu og bæta lyftubúnað í Bláfjöllum og í Skálafelli.
Gert er ráð fyrir því að uppbyggingartímabilin verði tvö, annars vegar frá 2019-2024 með árið 2018 sem undirbúningstímabil. Seinni hluti tímabilsins tæki yfir árin 2025-2030. Í heild er gert ráð fyrir því að nýfjárfestingar á tímabilinu geti numið allt að 6 milljörðum króna eða u.þ.b. 3 milljörðum á hvoru tímabili fyrir sig.

Snjóframleiðsla og nýjar lyftur
Á fyrra tímabilinu er lagt til að áherslan verði á snjóframleiðslu og lyftubúnað og að framkvæmdum við þau verkefni verði lokið árið 2024. Í meðförum innan stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var tekin ákvörðun um að flýta framkvæmdum við endurnýjun stólalyftu í Skálafelli um þrjú ár vegna óska Mosfellsbæjar. Þar verði sett ný lyfta sem verði 4-6 sæta, með gírun, en núverandi stólalyfta hefur eingöngu 2 sæti og er orðin úr sér gengin.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt að heimila bæjarstjóra að undirrita samning um ofangreindar framkvæmdir á tímabilinu 2019-2024 að því gefnu að ráðist verði í endurnýjun lyftu í Skálafelli eigi síðar en árið 2020.

Skíðasvæði okkar Mosfellinga
„Það er ánægjulegt að þessi metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir skíðasvæðin tvö hafi verið mörkuð og að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi burði til þess að ráðast í þessa mikilvægu en kostnaðarsömu vinnu við að umbylta aðstæðum til að stunda þá fjölskylduíþrótt sem skíðaíþróttin er.
Þetta er mikilvægt verkefni á sviði heilsueflingar og Skálafellið er að mínu mati lykill að því að ná árangri við að styrkja rekstur skíðasvæðanna þar sem veður og aðstæður geta verið ólík milli svæðanna tveggja og því gott að geta miðlað fólki á milli þeirra eftir aðstæðum. Þá er Skálafellið líka skíðasvæðið okkar Mosfellinga,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Viðreisn ætlar að gera betur

viðreisn_mos

Viðreisn býður fram lista í komandi sveitarstjórnarkosningum, sem skipaður er til jafns körlum og konum. Þetta er í fyrsta skipti sem Viðreisn býður fram í Mosfellsbæ.
Að sögn Valdimars Birgissonar standa íbúar að listanum sem brenna fyrir því að bæta Mosfellsbæ og gera bæinn að fyrirmyndar bæjarfélagi. Hann segir Viðreisn bjóða bæjarbúum öflugan og framsækinn lista sem samanstendur af fólki með fjölbreyttan bakgrunn sem á það sameiginlegt að vilja vinna saman að því að gera betur í Mosfellsbæ.

Valdimar Birgisson

Valdimar Birgisson

Velferð allra íbúa í fyrsta sæti
„Við köllum eftir bættum samskiptum, virku lýðræði, gegnsæi í allri stjórnsýslu bæjarins og að velferð allra íbúa sé í fyrsta sæti,“ segir Valdimar og bætir við: „Við viljum gera betur í skóla- og dagvistunarmálum, gera betur í málefnum eldri borgara, gera betur í íþrótta- og tómstundastarfi og gera betur í málefnum öryrkja.“
Valdimar vill að hlustað sé á raddir bæjarbúa og að bærinn okkar blómstri og standi undir nafni sem sveit í borg.

Listi Viðreisnar í Mosfellsbæ
1. Valdimar Birgisson
2. Lovísa Jónsdóttir
3. Ölvir Karlsson
4. Hildur Björg Bæringsdóttir
5. Magnús Sverrir Ingibergsson
6. Tamar Klara Lipka Þormarsd.
7. Karl Alex Árnason
8. Elín Anna Gísladóttir
9. Ari Páll Karlsson
10. Olga Kristrún Ingólfsdóttir
11. Pétur Valdimarsson
12. Erla Björk Gísladóttir
13. Vladimír Rjaby

Ölvir Karlsson

Ölvir Karlsson

14. Guðrún Þórarinsdóttir
15. Jóhann Björnsson
16. Sara Sigurvinsdóttir
17. Sigurður Gunnarsson
18. Hrafnhildur Jónsdóttir

Stöndum vörð um náttúruna
Ölvir Karlsson er 28 ára tveggja barna faðir úr Leirvogstungu. Hann er lögfræðingur að mennt og er formaður íbúasamtaka Leirvogstungu. „Ég tel að það skipti miklu máli að við stöndum vörð um þá fallegu náttúru sem við í Mosfellsbæ höfum í nærumhverfi okkar og ekki taka henni sem sjálfsögðum hlut. Í þessu samhengi þurfum við að huga vel að skipulagsmálum til þess að mengandi iðnaður og þungaflutningar í gegnum bæinn fari ekki að setja mark sitt á líf bæjarbúa. „Við þurfum að leggja okkar af mörkum svo hægt sé að byggja upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í Mosfellsbæ, með það fyrir augum að íbúar geti í auknu mæli átt þess kost að sækja vinnu í heimabyggð.

Lovísa Jónsdóttir

Lovísa Jónsdóttir

Þá verðum við að sýna ábyrgð í fjármálum, bæði varðandi útgjöld og skuldasöfnun. Lækkun á tekjustofnum verður að skoða í ljósi skuldastöðu sveitarfélagsins og þeim framkvæmdum sem nauðsynlegt er að ráðast í.“

Vilja móta framsækna skólastefnu
„Ríflega fjórðungur bæjarbúa er 16 ára og yngri sem er hærra hlutfall en í nágrannasveitarfélögum okkar. Þessi einfalda staðreynd gerir það að verkum að dagvistunar-, skóla- og tómstundamál eru forgangsmál hjá stórum hluta bæjarbúa,“ segir Lovísa Jónsdóttir sem skipar annað sæti á lista Viðreisnar.
Hildur Björg Bæringsdóttir sem skipar fjórða sæti listans bendir á að aðstaða og tækjakostur skóla í Mosfellsbæ sé bágborinn. „Það þarf að hugsa skólastefnu Mosfellsbæjar til framtíðar. Í núverandi skólastefnu frá 2010 kemur fram að „Aðbúnaður og aðstaða styðji við framsækið skólastarf“. Þetta hefur ekki verið gert og viljum við leggja áherslu á að bjóða börnum bæjarins upp á nútíma tækni og aðbúnað til að geta tekist á við verkefni sín í takt við þann heim sem við búum í.”

Hildur Björg Bæringsdóttir

Hildur Björg Bæringsdóttir

Endurnýjun tímabær – Valkostur í boði

efstu sex á sameiginlegum lista: Úrsúla, Kristín  Vala, Benedikt, sigrún, Friðbjörn og Kristín nanna

Efstu sex á sameiginlegum lista: Úrsúla, Kristín Vala, Benedikt, Sigrún, Friðbjörn og Kristín Nanna.

Listi Íbúahreyfingarinnar og Pírata er kominn fram. Oddviti sameiginlegs framboðs er Sigrún H. Pálsdóttir starfandi bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar. Í öðru sæti er Kristín Vala Ragnarsdóttir jarðfræðingur. Hún hefur lengi kennt og unnið að rannsóknum um sjálfbærni hér heima og erlendis. Hún hefur haft afgerandi áhrif á stefnu Pírata í umhverfis- og velferðarmálum.
Friðfinnur Finnbjörnsson skipar þriðja sætið. Hann hefur setið í framkvæmdaráði Pírata og starfar hjá innflutningsfyrirtæki. Kristín Nanna Vilhelmsdóttir er í fjórða sæti. Hún er háskólanemi og virkur félagi í Leikfélagi Mosfellsbæjar. Benedikt Erlingsson leikstjóri skipar fimmta sætið og kennarinn Úrsúla Jünemann það sjötta.

Sigrún H. Pálsdóttir

Sigrún H. Pálsdóttir

Framboðslisti Íbúa­hreyf­ingar­innar og Pírata
1. Sigrún H Pálsdóttir
2. Kristín Vala Ragnarsdóttir
3. Friðfinnur Finnbjörnsson
4. Nanna Vilhelmsdóttir
5. Benedikt Erlingsson
6. Úrsúla Jünemann
7. Gunnlaugur Johnson
8. Marta Sveinbjörnsdóttir
9. Jón Jóhannsson
10. Sigrún Guðmundsdóttir
11. Birta Jóhannesdóttir
12. Emil Pétursson
13. Hildur Margrétardóttir
14. Sigurður G. Tómasson
15. Páll Kristjánsson
16. Eiríkur Heiðar Nilsson
17. Sæunn Þorsteinsdóttir
18. Kristín I. Pálsdóttir

Sýnum kjark og rjúfum kyrrstöðu!
Íbúahreyfingin tekur þátt í sveitarstjórnarkosningum í þriðja sinn. Nú með Pírötum.
„Málefnalega eru snertifletirnir margir. Þar ber hæst að efla íbúaþátttöku, gegnsæi í stjórnsýslu og greiða aðgang íbúa að upplýsingum“, segir Sigrún H. Pálsdóttir í fyrsta sæti listans.
„Á sameiginlegum lista er fjölbreyttur hópur Mosfellinga með skýra sýn á verkefnin fram undan. Trúin á stjórnmálin hefur sjaldan verið minni og brýnt að bregðast við því með breyttum vinnubrögðum og áherslum. Í umhverfismálum hafa ábyrg stjórnmál aldrei verið mikilvægari. Í skólamálum eru blikur á lofti og stórátaks þörf í húsnæðis- og velferðarmálum.
Í Mosfellsbæ er tímabært að rjúfa kyrrstöðuna. Vinnusemi, skýr markmið og almannahagsmunir verða áfram okkar leiðarljós.“

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Hvers vegna sameiginlegt framboð?
„Stjórnmálahreyfingarnar tvær eiga margt sameiginlegt. Báðar leggja þær áherslu á opna, gagnsæja og heilbrigða stjórnmálamenningu til að styrkja lýðræðið og valdefla borgara til að hafa áhrif á samfélagið,“ segir Kristín Vala sem skipar annað sæti listans. „Það er mikilvægt að hafa kjark til að fylgja áherslum sínum eftir. Íbúahreyfingin hefur sýnt það í verki og því fagna Píratar.
Í grunnstefnu Pírata er lögð áhersla á gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu, borgararéttindi, friðhelgi einkalífsins, gagnsæi og ábyrgð.
Lýðræðinu er óhollt að sömu flokkarnir haldi um stjórnartaumana of lengi líkt og D- og V-listar hafa gert í Mosfellsbæ í hátt á annan áratug. Íbúahreyfingin og Píratar óska eftir stuðningi kjósenda til að leiða fram tímabærar breytingar.“

Ætla að ná fram hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins

miðflokkur_mosfellingur

Miðflokkurinn í Mosfellsbæ býður fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningum 26. maí.
Með þessu framboði er markmiðið að ná fram hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins til að bæta kjör bæjarbúa, lækka álögur og efla þjónustu í Mosfellsbæ.

Alvarlegt pólitískt straumrof
„Núverandi meirihluti er kominn í öngstræti með fjármál bæjarins,“ segir Sveinn Óskar Sigurðsson sem leiðir framboðið. „Þar er af mörgu að taka sem og í skipulagsmálum þar sem dómsmál virðast nú varða leiðina í átt að ófremdarástandi.
Leikvöllur á miðju hringtorgi í Krikahverfi ásamt hóteli þar ofan í áður ágætt skipulagsfyrirkomulag lýsir vel því alvarlega pólitíska straumrofi sem meirihlutinn í Mosfellsbæ hefur orðið fyrir.“

Fjármálaóreiða bitnar á allri þjónustu
„Fjármálaóreiða meirihlutans bitnar einnig heiftarlega á allri þjónustu eins og við barnafólk, svo einhver dæmi séu nefnd. Mikilvægt er að hugað verði að málefnum eldri borgara í bænum, m.a. í ljósi þess að lokað hefur verið á alla læknisþjónustu í bæjarfélaginu um kvöld, nætur og helgar.
Bankastofnanir eru nú engar að verða í Mosfellsbæ þegar Arion banki lokar.“

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson

Framboðslisti Miðflokksins
1. Sveinn Óskar Sigurðsson
2. Herdís Kristín Sigurðardóttir
3. Örlygur Þór Helgasson
4. Þórunn Magnea Jónsdóttir
5. Kolbeinn Helgi Kristjánsson
6. Margrét Ólafsdóttir
7. Ásta B. O. Björnsdóttir
8. Valborg Anna Ólafsdóttir
9. Friðbert Bragason
10. Ólöf Högnadóttir
11. Linda Björk Stefánsdóttir
12. Friðrik Ólafsson
13. Hlynur Hilmarsson
14. Jakob Máni Sveinbergsson

Herdís Kristín Sigurðardóttir

Herdís Kristín Sigurðardóttir

15. Ólafur Davíð Friðriksson
16. Jón Pétursson
17. Sigurrós K. Indriðadóttir
18. Magnús Jósepsson

Úrræði fyrir barnafólk
Herdís Kristín Sigurðardóttir, sem skipar 2. sæti lista Miðflokksins í Mosfellsbæ, leggur ríka áherslu á að úrræði fyrir barnafólk í bænum verði til staðar. Meirihlutinn hefur látið undir höfuð leggjast að tryggja barnafólki næg dagvistunarúrræði fyrir börn um árabil.

Auka þarf forvarna­starf í Mosfellsbæ
Örlygur Þór Helgason skipar 3. sæti listans. Hann er kennari og þjálfari. Örlygur telur að auka þurfi forvarnarstarf í Mosfellsbæ.

xxx x

Örlygur Þór Helgason

Leita þarf skilvirkra lausna þegar kemur að því að mynda t.a.m. stoðnet við allt skólakerfið og dagmæður í Mosfellsbæ. Þetta verði að vera úrræði sem mögulegt er að grípa strax til svo hægt sé að aðstoða einstaklinginn, barnið, sem bráðnauðsyn er að vernda og hlúa að þegar mest á reynir.
Örlygur, sem er kennari og þjálfari, vill tryggja að í bæjarfélaginu sé starfandi fólk með þekkingu og reynslu af því að bregðast skjótt við þegar erfiðleikar steðja bæði að börnum í skólum bæjarins, starfsfólki og íbúum Mosfellsbæjar.

KR

kr_gaui

Ég er úr Árbænum og spilaði fótbolta með yngri flokkum Fylkis. Hjartað er hjá Aftureldingu í dag eftir rúmlega 17 ár í Mosfellsbæ en Fylkir á samt og mun alltaf eiga hlut í því. Ein sárasta fótboltaminning mín er þegar KR-ingurinn, sem enginn man hvað heitir nema eldheitir KR-ingar, skoraði jöfnunarmark á móti Fylki í Árbænum fyrir tæpum 16 árum í næstsíðustu umferð Íslandsmótsins. Fjórar mínútur eftir af leiknum. Fylkir var 1:0 yfir, Ómar Vald, sem er í dag annar af þjálfurum 2. flokks karla í Aftureldingu, skoraði mark Fylkis. Örugglega með skalla. Sá sem enginn man hvað heitir í KR skoraði ekki fleiri mörk á ferlinum, hvorki fyrr né síðar. Ef hann hefði sleppt þessu fáranlega fallega marki hefði Fylkir orðið Íslandsmeistari.

Jæja, Fylkir fékk svo annan séns á að vinna titilinn. Þeir fóru glaðbeittir upp á Skaga þar sem lærisveinar Óla Þórðar kjöldrógu þá án þess að hafa að neinu að keppa sjálfir. Þeir vildu bara ekki Skagamennirnir að einhverjir aðrir en þeir sjálfir yrðu Íslandsmeistarar á heimatorfunni þeirra. Það er virðingarverð afstaða í sjálfur sér en þetta var ekkert sérstaklega góður dagur fyrir okkur hin. En svona er nú lífið. Maður fær ekki alltaf það sem maður vill. Þegar þessar línur eru skrifaðar er akkúrat verið að draga í 32-liða úrslit í Mjólkurbikarkeppni KSÍ. Og hvað haldið þið, hverjir eru að koma í heimsókn? KR, auðvitað. Stórveldið. Þetta getur ekki orðið annað en gaman.

Ég ætla alla vega ekki að láta mig vanta á völlinn og hvet alla Mosfellinga til þess að fjölmenna á völlinn og styðja sitt heimalið. KR-ingar eiga eftir að fjölmenna, þeir eru spenntir fyrir komandi tímabili og ætla sér stóra hluti eins og alltaf. En ég veit að okkar menn ætla ekki að láta þá komast upp með neitt múður. Áfram Afturelding!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 26. apríl 2018

Setur upp sitt fyrsta verk í þekktu leikhúsi í London

disalondon

Mosfellingurinn Hjördís Nína Egilsdóttir setti upp sitt fyrsta verk í leikhúsinu The Old Red LionTheatre í London í mars. Hjördís Nína flutti til Englands eftir útskrift úr menntaskóla, haustið 2014.
Hún hóf nám í Arts University Bournemouth-háskólanum, tók upp nafnið Dísa Andersen og útskrifaðist þaðan vorið 2017 sem Theatre maker. Dísa steig sín fyrstu skref hjá Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. „Ég byrjaði á leiklistarnámskeiðum og fann mig algjörlega þar. Fólkið í leikfélaginu hefur alltaf sýnt mér mikinn stuðning og þá ber helst að nefna Agnesi Wild og Gunnhildi,“ segir Dísa.
Dísu og samstarfkonu hennar Julie bauðst að setja upp verkið Is This Thing On? í leikhúsinu The Old Red Lion Theatre, en þær reka saman leikfélagið Frigg Theatre. „Það er afskaplega spennandi tækifæri að fá að setja upp verk í svona flottu leikhúsi. Þetta er mjög kostnaðarsamt, en fólki gafst kostur á að styrkja okkur í gegnum hópfjármögnunarsíðu.“

Gengið með verkið í maganum í tvö ár
„Verkið fjallar um heimilisofbeldi og áhrif þess á unga konu sem er að vaxa úr grasi. Hvernig þekkja má ofbeldi í samböndum, vináttu og svik. Við notuðumst mikið við ljóðlist og dans við sköpun verksins svo úr varð eins konar ljóðrænn hugarheimur fórnarlambs ofbeldis. Ég er búin að vera að vinna að þessu verki síðastliðin tvö ár.“
„Ég bæði skrifaði verkið, lék í sýningunni og sá um hljóðhönnun. Sýningarnar gengu mjög vel og við erum í samræðum um að sýna verkið á nokkum leiklistarhátíðum. Við Julie erum jákvæðar á framtíð Friggjar Theatre enda búnar að skapa okkur gott orðspor hérna í London.
Við ætlum að halda áfram að búa til okkar eigin verk með fókus á sögur kvenna. Julie er frá Noregi og er það okkar draumur að fara með verkin bæði til Íslands og Noregs.“

Listapúkinn heldur afmælissýningu

listpúkinn_hljómur

Þórir Gunnarsson, betur þekktur sem Listapúkinn verður fertugur föstudaginn 13. apríl. Lista­púkinn er listmálari sem málar skemmtilegar myndir af því sem fyrir augum ber. Í tilefni afmælisins ætlar Listapúkinn að halda glæsilega sýningu á Hvirfli í Mosfellsdal. Sýningin mun opna á afmælisdaginn, 13. apríl kl. 17:30. „Þá eru allir vinir og velunnarar Listapúkans velkomnir enda er sjálfur afmælisdagurinn þá,“ segir Þórir. „Það verður opið hús kl. 17:30-20:00 og verða listaverkin til sölu. Ég mála aðallega með vatnslitum og stendur undirbúningur nú sem hæst. Ég mála m.a. fólk, hesta og tónlistarfólk.“ Afmælissýningin verður opin gestum og gangandi til sunnudagsins 22. apíl.

Á vaktinni í yfir 30 ár

steinimaelo_mosfellingur

Þorsteinn, eða Steini mæló eins og hann er ávallt kallaður, byrjaði sem sumarstarfsmaður hjá Mosfellshreppi árið 1986, þá á síðasta ári í byggingatæknifræði. Það sumar starfaði hann við ýmis konar mælingar og eftirlit og hafði umsjón með ýmsum framkvæmdum. Hálfu ári síðar var hann fastráðinn og hefur starfað á umhverfissviði bæjarins síðan eða í 31 ár.
Í fyrra tók Steini við nýrri stöðu sem deildarstjóri eigna og veitna og hefur þar með umsjón með eignum bæjarins, þ.e.a.s. skólum og leikskólum, og sér um viðhaldsmál gatna og lagna.

Þorsteinn Sigvaldason er fæddur í Reykjavík 9. júní 1960. Foreldrar hans eru Ingibjörg Halldórsdóttir fyrrverandi dagmóðir og Sigvaldi Þorsteinsson lögfræðingur en hann lést árið 1998. Þorsteinn á fimm systkini, Elísabetu fædda 1948, Erlu fædda 1950, Sigrúnu fædda 1958, Boga fæddan 1962 og Dagbjörtu fædda 1969.

Fengum vinnu við að flokka timbur
„Við fjölskyldan bjuggum í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík og þar var mjög gott að alast upp. Fossvogurinn var á þessum tíma í mikilli uppbyggingu og fólk var að flytja inn í hálfkláruð húsin.
Það var mikið af krökkum í hverfinu og við félagarnir fórum í marga leiðangra á byggingarsvæðinu og fengum meðal annars vinnu við að flokka timbur í stærðir og fengum laun fyrir.
Ásgarðurinn var gerður að sleðabrekkum á veturna og gatan iðaði að lífi. Þegar Bústaðakirkja var í byggingu þá mættum við félagarnir iðulega til að hjálpa til eða kannski vorum við meira að þvælast fyrir,“segir Steini og brosir.

Íslandsmeistari í fótbolta
„Ég æfði fótbolta með Víkingi og afrekaði að verða Íslandsmeistari með 5. flokki árið 1972. Breiðagerðisskóli var okkar hverfisskóli til 12 ára aldurs en þá lá leiðin í Réttarholtsskóla þaðan sem ég lauk landsprófi 1974.
Eftir útskrift úr Réttó lá leiðin í Menntaskólann við Sund og ég útskrifast 1981. Ég man hvað það var gífurleg breyting að fara úr gagnfræðaskóla yfir í menntaskóla, miklu meiri breyting en maður átti von á.“

Kynntust í Sigtúni
„Eftir menntó tók ég mér eitt ár í námsleyfi og fór að vinna hjá múrarameistara við ýmis störf tengd byggingarvinnu, þó aðallega steypuvinnu. Ég hafði verið hjá honum í sumarvinnu frá 1978.
Einn sumardaginn eftir vinnu 1982 skellti ég mér í Sigtún þar sem ég kynntist lífsförunauti mínum, Kristínu Þórmundsdóttur geislafræðingi, og höfum við verið saman síðan. Við eigum þrjú börn, Berglindi Rut fædda 1985, Sigvalda fæddan 1988 og Hugrúnu fædda 1994. Barnabörnin eru fjögur, Tristan Ýmir, Thelma Katrín, Þór Magni og Lilja Kristín.“

Fékk viðurnefnið Steini mæló
„Um haustið 1982 hóf ég nám við Tækniskóla Íslands í byggingatæknifræði. Á þessum tíma bjuggum við Kristín hjá foreldrum hennar en fluttum svo í Kópavoginn árið 1986. Það sama ár fékk ég sumarvinnu hjá Mosfellshreppi en útskrifast úr skólanum í desember. Í framhaldi fékk ég svo fastráðningu hjá tæknideild Mosfellshrepps sem þá var staðsett í Hlégarði og hef starfað hjá umhverfissviði síðan.
Í fyrstu var ég mikið við mælingar, setja út hús og allt sem viðkom mælingum og fékk því viðurnefnið Steini Mæló.“

Ekki auðveld ákvörðun
„Starf mitt varð fljótlega viðameira og ég sá um ýmis verkefni tengd uppbyggingu bæjarfélagsins. Þegar ég hóf störf hjá hreppnum bjuggu hér um 3.600 manns en í dag er fjöldinn í bænum rúmlega 10.000. Starfið er mjög fjölbreytt og hefur maður komið nánast að öllu sem tæknimaður bæjarfélags kemur að.
Árið 1988 vorum við hjónin hvött af Jóni Ásbjörnssyni þáverandi bæjartæknifræðingi að fjárfesta í lóð í Reykjabyggð. Þetta var ekki auðveld ákvörðun fyrir okkur borgarbörnin en eftir nokkra rúnta í Mosfellssveitina var ákvörðunin tekin, við fórum að byggja og fluttum inn 1991. Ég verð ávallt þakklátur Jóni að hafa hvatt okkur í þetta.
Faðir minn aðstoðaði gífurlega við bygginguna, kom eftir sinn vinnutíma og var nánast á hverjum degi að hjálpa stráknum að koma þaki yfir höfuðið.“

Sumarbústaðaferð á hverju ári
„Þegar börnin voru lítil var mikið farið í ferðalög og reyndum við að fara á hverju ári í vikutíma í sumarbústað og þær minningar eru djúpar í hugum fjölskyldumeðlima.
Ég tók einnig þátt í félagsstarfi með Aftureldingu, var í stjórn frjálsíþróttadeildar og handknattleiksdeildar og upplifði árin 1999 og 2000 þar sem Afturelding var á toppnum og vann allt sem hægt var að vinna.
Árið 2005 fór ég að hafa mikinn áhuga á veiði og við félagarnir förum í fjórar veiðiferðir á hverju ári. Síðastliðin 12 ár höfum við alltaf byrjað veiðisumarið á fjölskylduferð í Vatnsdalsá, síðan taka Veiðivötnin við, Þingvallavatn og tvær laxveiðiferðir.“

Margt dreif á dagana á þessum árum
„Árið 2000 tók ég við sem forstöðumaður Áhaldahússins en eftir sem áður var ég með ýmis verkefni tengd uppbyggingu bæjarins, nýrra hverfa og umsjón með nýbyggingum.
Margt dreif á dagana, mikil flóð sem gengu yfir bæinn og ollu töluverðum tjónum og eins var snjóþungt, sérstaklega árið 2000 þar sem allur febrúar var nánast undirlagður og mikil ófærð. Á þeim árum var tækjakostur allt annar en hann er í dag og kröfur samfélagsins öðruvísi.
Í fyrra tók ég við nýrri stöðu, deildarstjóri eigna og veitna, og hef í dag umsjón með eignum bæjarins, þ.e.a.s. skólum og leikskólum, og sé einnig um viðhaldsmál gatna og lagna.“

Miklar breytingar á starfsumhverfi
Á þeim tíma sem Steini hefur unnið hjá bænum hafa fimm bæjarstjórar verið að störfum. Þegar hann byrjaði var Páll Guðjónsson bæjarstjóri en á eftir honum komu Róbert B. Agnarsson, Jóhann Sigurjónsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Haraldur Sverrisson sem er starfandi bæjarstjóri í dag.
Steini hefur komið nánast að allri gatnagerð í Mosfellsbæ að undanskildu Helgafells- og Leirvogstunguhverfi en þau verkefni fóru í einkaframkvæmd. Hann hefur einnig komið meira og minna að öllum opinberum nýbyggingum í bænum.
„Á þessum árum hafa verið miklar breytingar á starfsumhverfi, bæði það að undirbúningur framkvæmda er orðinn töluvert lengri vegna breyttra reglugerða og lagaumhverfis og svo hafa miklar tækniframfarir orðið eins og fólk þekkir.“
Ég spyr Steina hvort hann sé alltaf á vaktinni? „Já, það má segja það, ég hef verið nánast á vaktinni fyrir bæinn í 31 ár og svarað símtölum á öllum tímum sólarhrings ef eitthvað hefur komið upp á.“ Með þeim orðum kvöddumst við og Steini rauk af stað á fund enda alltaf nóg að gera.

Mosfellingurinn 5. apríl 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs