Kolbrún býður sig fram í 2. sæti

kollaframbod

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir býður sig fram 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer laugardaginn 10. febrúar. Kolbrún situr í bæjarstjórn og bæjarráði. Þá er hún formaður fræðslunefndar og situr fyrir hönd Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu. „Mikil uppbygging er að eiga sér stað í Mosfellsbæ og hef ég áhuga á að halda áfram þeim krefjandi verkefnum sem fram undan eru. Bæjarstjórnin er skipuð góðu og öflugu fólki og hef ég mikinn áhuga á að vinna áfram með þeim hóp.“ Kolbrún er gift Sigurði Andréssyni byggingameistara og eiga þau þrjá syni og eitt barnabarn.

Stormsveitin gefur út Stormviðvörun fyrir jólin

Meðlimir Stormsveitar- innar fagna útgáfunni.

Meðlimir Stormsveitarinnar fagna útgáfunni.

Stormsveitin hefur gefið út sinn fyrsta geisla- og DVD-disk, Stormviðvörun. Sveitina skipa 20 karlar sem syngja hefðbundin karlakórslög, dægurlög og rokklög.
Stormsveitin flytur yfirleitt öll sín lög í rokkbúningi ásamt fjögurra til fimm manna hljómsveit. „Þetta er 12 laga diskur og 9 laga DVD diskur með sömu lögum. Þetta er upptaka frá þrettándatónleikum Storm­sveitarinnar í Hlégarði 9. janúar 2016. Stefanía Svavars og Biggi Haralds flytja nokkur lög með okkur á þessum disk. Hann var svo hljóðblandaður og unnin í Studíó Lager hjá Arnóri Sigurðarsyni,“ segir Sigurður Hansson, Stormsveitarforingi.

Tónleikar 3. mars í Hlégarði
„Diskinn verður hægt að nálgast á facebook-síðu Stormsveitarinnar og hjá Storm­sveitarmönnum. Ég á ekki von á því að hann fari í frekari dreifingu. Diskurinn kostar 2.000 kr. en 3.000 kr. með DVD disknum.
Við verðum ekki með þrettándatónleika núna í fyrsta skipti í nokkur ár. Við tókum þátt í Kórum Íslands í haust, það fór mikil orka í það og því ákváðum við að halda góða tónleika 3. mars í Hlégarði með nýju og fersku efni,“ segir Sigurður að lokum og hvetur alla sem áhuga hafa á að eignast diskinn að hafa sambandi við meðlimi sveitarinnar eða í gegnum facebook.

Kristín Ýr býður sig fram í 5.-9. sæti

kristinyr

Kristín Ýr Pálmarsdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 5.–9. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi sveitarstjórnakosningum. Kristín Ýr er hársnyrtimeistari og hefur lokið diplómaprófi frá Endurmenntun Háskóla Íslands í rekstrar- og viðskiptanámi.
Kristín hefur fylgst með bæjarmálum í Mosfellsbæ og einnig tekið þátt í málefnum tengdum börnunum okkar, atvinnumálum og starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kristín vill leggja sitt af mörkum til að efla og styrkja það góða starf sem hefur verið unnið í Mosfellsbæ. Kristín hefur búið í bænum í 18 ár. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, rekur litla hársnyrtistofu og rekur einnig verktakafyrirtækið Afltak ehf. með manni sínum Jónasi Bjarna Árnasyni húsasmíða- og rafvirkjameistara. Saman eiga þau tvö börn, þau Andra Frey 19 ára og Sunnevu Ósk 15 ára.

Póri skoðar heiminn

poriskodar

Út er komin bókin Póri skoðar heiminn eftir Jónas Sveinsson lækni. Hér er um að ræða frumútgáfu bókarinnar en útgefandi hennar er Þórarinn sonur Jónasar, betur þekktur sem Póri í Laxnesi.
„Ég fann handritið í dánarbúi föður míns og hef varðveitt það í áratugi,“ segir Póri í viðtali við Mosfelling. „Mig langaði alltaf að gera eitthvað með þetta og snemma árs fékk ég Bjarka Bjarnason rithöfund til liðs við mig. Hann yfirfór handritið og ritstýrði útgáfunni. Ég er mjög ánægður með útkomuna og að hafa ráðist í þetta verkefni.“

Er bókin um þig?
„Það má segja það að einhverju leyti. Pabbi skrifaði hana um ferðalag fjölskyldunnar um Evrópu árið 1950 og bókin er skrifuð út frá mínu sjónarhorni. Þess vegna heitir hún Póri skoðar heiminn.
Faðir minn var þekktur læknir á sinni tíð og var stöðugt að afla sér framhaldsmenntunar erlendis og að þessu sinni fór öll fjölskyldan með honum utan. Við flugum til Kaupmannahafnar og ókum síðan suður til Vínarborgar þar sem faðir minn starfaði á sjúkrahúsi þá um sumarið.“

Manst þú eftir þessu ferðalagi?
„Já, svolítið. Þetta var mikið ævintýri fyrir sex ára strák, til dæmis þegar ég sá gíraffa í dýragarðinum í Kaupmannahöfn. Faðir minn lýsir ferðalaginu nákvæmlega í bókinni, þarna er mikill fróðleikur samankominn um landafræði, sögu og læknisfræði og einstök samtímaheimild.
Þetta voru sérkennilegir tímar, margar borgir voru illa leiknar eftir heimsstyrjöldina og heilu þjóðirnar í sárum. Við dvöldum mest í Vínarborg en henni var þá skipt í nokkur hernámssvæði, eitt tilheyrði Bandaríkjamönnum og annað Rússum.“

Það eru einnig teikningar í bókinni, eftir hvern eru þær?
„Það veit enginn en þær fylgdu handritinu og hafa greinilega verið ætlaðar til útgáfu. Kannski kemur það loksins núna í ljós hver listamaðurinn er.
Svo fengum við Margréti Tryggvadóttur, nú varaþingmann, í lið með okkur og hún útvegaði mikið af ljósmyndum af söfnum og úr myndabönkum. Þessar myndir lýsa tíðarandanum vel.“

Er Póri ennþá að skoða heiminn?
„Já, það er hluti af lífinu, segir Póri í Laxnesi að lokum.“

Ný stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar

Sveingerður, Sveinbjörn, Sigurður, Óskar, Anna Aurora og Hreinn Heiðar.

Sveingerður, Sveinbjörn, Sigurður, Óskar, Anna Aurora og Hreinn Heiðar.

Framsóknarfélag Mosfellsbæjar hélt auka aðalfund mánudagskvöldið 20. nóvember. Kosin var ný stjórn félagsins og Óskar Guðmundsson nýr formaður.
Í stjórn voru kosin auk Óskars: Sveinbjörn Þór Ottesen, Sigurður Kristjánsson, Anna Aurora Waage Óskarsdóttir og Hreinn Heiðar Oddson. Varamenn í stjórn eru Sveingerður Hjartardóttir og Gunnar Birgisson.
„Ný stjórn kemur til með að hittast á allra næstu dögum til að skipta með sér verkum og klæðast við það tækifæri í kosningaham enda skammt til vors og stórra verka,“ segir Óskar.

Eva Rún gefur út sína þriðju barnabók

lukka

Lukka og hugmyndavélin í svakalegum sjávarháska er þriðja bók Evu Rúnar Þorgeirsdóttur en hún hefur áður gefið út barnabókina Auður og gamla tréð og aðra bók um uppfinningastelpuna Lukku. „Lukka ætlar að njóta síðustu daga sumarfrísins, liggja í leti og lesa á milli þess sem hún grúskar í uppfinningunum sínum. Foreldrar hennar eru að rannsaka skipsflak á hafsbotninum úti fyrir hinni afskekktu Fiskey. Lukka, Jónsi og Sámur eru með í för og að sjálfsögðu hugmyndavélin, en Lukka fer ekkert án hennar. Það kemur þó fljótt í ljós að íbúar eyjunnar eru ekki allir þar sem þeir eru séðir og systkinin dragast inn í óvænta atburðarás þar sem reynir á styrk þeirra sem aldrei fyrr.“
Eva Rún útskrifaðist sem verkefnastjóri frá Kaospilot háskólanum í Árósum árið 2006 og hefur fengist við ýmis konar viðburðastjórnun og verkefni sem tengjast menningu og listum síðan þá. Meðfram skrifum starfar Eva sem jógakennari.

Gott að geta lagt til samfélagsins á efri árum

jonsverrir_mosfellingurinn

Jón Sverrir Jónsson í Varmadal er einn af elstu starfandi bifreiðastjórum á landinu. Jón Sverrir hefur alla tíð verið hrifinn af vélknúnum farartækjum. Hann byrjaði ungur að árum að snúast í kringum búvinnutækin á heimilinu, 18 ára starfaði hann á vélskóflum í Kollafirði en um 22 ára aldurinn hóf hann störf sem vörubílstjóri á Vörubílastöðinni Þrótti og hefur starfað við það síðan og er nú með lengstan starfsaldur á stöðinni.

Jón Sverrir, eða Sverrir eins og hann er ávallt kallaður, fæddist í Varmadal 1. desember 1942. Foreldrar hans eru Unnur Sóley Lilja Valdemarsdóttir og Jón Jónsson bændur í Varmadal en þau eru bæði látin. Systkini Sverris eru þau Hjördís, ­Valde­mar og Haraldur.

Fyrsta manneskjan er ég augum leit
„Ég er alinn upp í Varmadal. Mér er sagt að það hafi verið kalt skammdegi daginn sem ég fæddist árið 1942. Faðir minn hafi verið tilbúinn með tvo eldishesta skaflajárnaða til ferðar að Laxnesi í Mosfellsdal ef aðstoðar ljósmóður þyrfti fyrirvaralaust sem og varð tilfellið.
Brýrnar voru að vísu komnar á Leirvogsána og Köldukvísl en vegalengdin löng, svartamyrkur og frost. Helga ljósmóðir var vakin með því að guða á glugga, hún útbjó sig í skyndi í hnakkinn á aukahestinum til að aðstoða móður mína við komu mína í þennan heim. Helga var eiginkona Einars á Litla-Landi við Brúarland og var því fyrsta manneskjan sem ég augum leit.“

Þetta var eins og gott heimili
„Bernskan í Varmadal var áhyggjulaus, allt í föstum skorðum. Húsakostur allur góður og frumuppeldið hvíldi á móður minni, Elísabetu ömmu og Hjördísi systur minni fyrstu árin. Fljótlega hændist ég þó að karlpeningi bóndabýlisins og ekki hár í loftinu var ég farinn að snúast í kringum búpening og búvinnutæki.
Skólaganga mín hófst um átta ára aldur að Klébergi á Kjalarnesi, heimavist undir styrkri stjórn Ólafs skólastjóra og Bjargar­ konu hans. Mér dettur oft í hug nú hve góðir þjóðfélagsþegnar þessi hjón voru því þetta var auðvitað bara eins og gott heimili. Ólafur kenndi allar námsgreinar og Björg handavinnu stúlknanna.
Það eina sem ég sé nú vera svolítið gamaldags var að þær stelpur sem komu úr nágrenni skólans, sem voru sem sagt ekki á heimavistinni, klæddust síðbuxum í vetrarkuldanum á ferð sinni gangandi í skólann en urðu að afklæðast þeim og fara í kjól í veru sinni í skólanum.“

Beið eftir bjarma ljósanna
„Mér eru minnistæðir þeir mánudagsmorgnar þegar áætlunarbíllinn kom úr Reykjavík á leið sinni upp í Kjós. Ég beið bílsins uppi í stofu í Varmadal þar til ég sá bjarma ljósanna þar sem nú eru Hulduhólar. Nokkru seinna tvö ljós hans þar sem nú er dekkjaverkstæðið við Langatanga og þá setti ég skólatöskuna á bakið og hljóp niður á veg við gömlu brúna. Rútan kom svo yfir Leirvogstunguhæðina og ég fór upp í hana þar.”

Mosfellssveitin fóstraði vel þennan hóp
„Eftir veruna á Klébergi tók Brúarlandsskóli við þaðan sem ég á góðar minningar. Skólanum stýrði Lárus Halldórsson og man ég vel eftir leikfimikennslu hans, hann þá kominn á efri ár en afar léttur og fimur, góð kennsla á allan hátt. Gagnfræðaskóli verknáms var næst á lífsleiðinni og tók tvö ár.
Ég gekk til spurninga til fermingar eins og það var nefnt í þá daga hjá séra Hálfdáni Helgasyni prófasti á Mosfelli en hann féll frá rétt fyrir fermingardaginn. Það varð því með fyrstu verkum séra Bjarna að ferma okkur hópinn seinna um haustið. Gaman er nú að sjá hvað Mosfellssveitin fóstraði þennan hóp vel því flest öll erum við nú enn í Lágafellssókn um 75 ára gömul.“

Lengstur starfsaldur á stöðinni
„Nú tók skóli lífsins við, vinnan við bú­störf í Varmadal og umsjón með landbúnaðartækjum hvíldi á herðum okkar bræðra. Oft hugsa ég til þess hve mikið gagn við gerðum, litlir strákar mættir með tvo fulla heyvagna af nýslegnu grasi fyrir framan súrheysturninn og þegar foreldrar okkar höfðu lokið mjöltun á morgnana gat pabbi byrjað að moka í blásarann sem blés heyinu upp í turninn.
18 ára hóf ég vinnu hjá Vinnuvélum í Kollafirði á vélskóflum í sandnámunni þar en var alltaf heima yfir sumartímann við landbúnaðarstörf.
Ég gerðist vörubílstjóri á Vörubílastöðinni Þrótti þegar ég var 22 ára og hef starfað við það síðan og er nú með lengstan starfsaldur á stöðinni.“

Ævarandi hlýja til Skálatúns
Jón Sverrir og Hanna Sigurjónsdóttir gengu í hjónaband 1964 og eignuðust fjögur börn, Jón, Andrés, Elísabetu og Björgvin. „Andrés misstum við 30 ára gamlan en hann gekk ekki heill til skógar. Hann var heima til fimm ára aldurs en bjó síðan í 25 ár á Skálatúni og kann ég því heimili ævarandi hlýju fyrir þá virðingu sem heimilið, starfsfólk og ríkið sýndi honum. Jón og Elísabet búa bæði í Varmadal en Björgvin í Leirvogs­tungu.“

Húsnæðið varð eldi að bráð
Árið 1971 stofnuðu félagarnir Jón Sverrir, Bernhard Linn og Níels Hauksson fyrirtækið Hengil sf. um rekstur vinnuvéla og keyptu fljótlega verkstæðis- og verslunarhúsið Þverholt hér í bæ og hófu rekstur. „Húsnæðið varð eldi að bráð en við byggðum það upp aftur en í breyttri mynd. Í dag eigum við hjónin ásamt syni okkar og tengdadóttur Hengil.­ Rekstur fyrirtækisins hvílir nú mest á Björgvini og dagleg umsjón þrifa og reikningshald á eiginkonunni.“

Legg mitt af mörkum
„Lífið hefur farið vel með okkur hjónin, barnalán, níu barnabörn og eitt langafabarn. Ég hef haft allgóða heilsu, unnið nokkuð mikið en líka leikið mér. Fyrst í íþróttum, hestamennsku, flugi og kórsöng ásamt því að fara reglulega í sund. Ég fer stundum einn en oftar með barnabörnunum og oftast með barnabarninu Emmu Íren minni en við höfum farið saman í sund í 15 ár og gerum enn.
Ég syng nú með Karlakór Kjalnesinga og Kirkjukór Brautarholts- og Reynivallasóknar og þykist því leggja eitthvað af mörkum fyrir samfélagið á efri árum.“
Ég spyr Sverri að lokum hvað hann ætli að gera á afmælisdaginn en hann verður 75 ára daginn eftir að viðtalið kemur út? „Ég ætla að vera í faðmi fjölskyldu og barna, þannig líður mér best.“

Mosfellingurinn 30. nóvember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Birtir heimildarmynd og segir son sinn saklausan

hjaltiursus

Hjalti Úrsus Árnason hefur birt á Facebook heimildarmyndina „Fall Risans – rangar sakargiftir“. Þar er fjallað um rannsókn lögreglu og dómsmál á hendur syni hans, Árna Gils.
Hjalti sviðsetur atburðarás í meintri morðtilraun sem sonur hans er dæmdur fyrir. Þeir feðgar bera lögreglu og saksóknara þungum sökum og segja að verið sé að fremja dómsmorð á Árna.
„Ég geri þessa heimildarmynd til að upplýsa fólk og birti gögn úr rannsókn málsins. Það er mikilvægt að vekja athygli á málinu,“ segir Hjalti. „Ekki gleyma Árna Gils.“

„Ég var leiddur í gildru”
„Ég hélt fyrst að hann væri sekur, eins og ég segi í myndinni. Það hefði þá verið ákveðin staða en maður er með sterka réttlætiskennd.“
Árni var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í mars. Síðan eru liðnir 270 dagar og var áfrýjun málsins tekin fyrir í Hæstarétti á mánudag.
Í ákærunni kemur fram að hann hafi veist að manni á bílastæði við sjoppu í Breiðholti. Eftir stutt átök hefði hann stungið manninn með hnífi í höfuðið.
Árni segist hafa verið að verjast hnífaárás fíkils sem hann hafi aldrei séð áður. „Ég var leiddur í gildru,“ segir Árni en þeir feðgar telja að öllum líkindum tengist málið ásókn brotaþola í bótasjóð ríkisins.
Þá lýsir Hjalti því einnig að stúlka sem ber vitni í málinu hafi verið lyfjuð og fengið loforð um að fá helming bóta ef hún breyti ekki röngum framburði sínum.
„Brotaþoli kom sjálfur með hnífinn á vettvang og lét hann líka hverfa eftir atburðinn. Saksóknari hefur sjálfur viðurkennt það.“

Úr heimildarmyndinni Fall risans.

Úr heimildarmyndinni Fall risans.

Brotaþoli hefur skaðað sig sjálfur
„Skaðinn sem brotaþolinn varð fyrir gerðist ekki á þessum vettvangi heldur var hann höfuðkúpubrotinn fyrir,“ segir Hjalti og bendir á að maðurinn hafi ekki leitað sér aðstoðar á spítala fyrr en 40 mínútum síðar. Þá hafi hann verið alblóðugur og í miklu verra ástandi en þegar þeim Árna lenti saman. Ekkert blóð fannst á vettvangi og tæknideild lögreglunnar ekki kölluð til.
„Þetta stemmir alls ekki. Hann hefur skaðað sig sjálfur. Þetta er blákaldur raunveruleiki.“

Styttist í frelsun Árna
„Það er verið að fremja á mér réttarmorð og öllum er sama,“ segir Árni Gils og segir sekt sína hafa verið ákveðna á staðnum.
Hjalti neitar því ekki að Árni sé búinn að eiga í vandræðum með fíkniefni og áfengi. Hann hafi áður lent í minniháttar útistöðum við lögreglu og eflaust ekki sá vinsælasti en þess má geta að Árni er 2,05 m á hæð og 180 kg.
Málið var tekið fyrir í Hæstarétti á mánudag og segir Hjalti niðurstöðu að vænta eftir nokkrar vikur. „Það tekur vonandi ekki langan tíma að fá niðurstöðu og ég trúi því ekki að þessi vinnubrögð verði samþykkt. Vonandi styttist í frelsun Árna.“

Glíma við nýtt Geirfinnsmál
„Heimildarmyndin hefur vakið gríðalega athygli og ég fæ alls staðar mjög góð viðbrögð en fólki er brugðið eins og auðvitað mér sjálfum,“ segir Hjalti. „Þetta er nýtt Geifinnsmál sem er að gerast beint fyrir framan nefið á okkur.
Árni er búinn að vera ótrúlega hraustur meðan hann hefur setið inni en fyrir mánuði síðan fór heilsunni að hraka og andlegt ástand er orðið slæmt. Það slæmt að ég er hræddur um hann.
Ef hann verður dæmdur í Hæstarétti munum við fara með þetta fyrir Mannréttindadómstól Evrópu,“ segir Hjalti.

 

Þjónusta við Leirvogstunguhverfi og Helgafellshverfi aukin

stræto7

Stjórn Strætó bs. hefur fallist á ósk Mosfellbæjar að auka þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar með áherslu á þjónustu við íbúa Leirvogstunguhverfis og Helgafellshverfis.
Niðurstaðan varð sú að frá og með 7. janúar 2018 mun leið 7 sinna Leirvogstunguhverfi og Helgafellshverfi samkvæmt áætlun á 30 mínútna fresti. Gert er ráð fyrir tveimur stoppistöðvum í Leirvogstunguhverfi og þremur stoppistöðvum í Helgafellshverfi, báðum megin á Álafossvegi og síðan öðru megin í Vefarastræti.
Gert er ráð fyrir að endastöð leiðar 7 verði í Leirvogstungu og að sett verði upp ný stoppistöð við Hlégarð.

Nýju hverfin þjónustuð betur
Fulltrúar Strætó bs. og umhverfissvið Mosfellsbæjar vinna nú að útfærslu á staðsetningu biðstöðva og öðrum hagnýtum verkefnum tengd þessari eflingu á almenningssamgöngum innan og við Mosfellsbæ.
„Það er ánægjulegt að tekist hefur að fá nýju hverfin okkar í Helgafelli og Leirvogs­tungu þjónustuð betur,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þetta hefur verið ósk íbúanna í töluverðan tíma og gott að þetta hefur nú náðst í gegn. Þróun og efling almenningssamgangna er eitt af stóru sameiginlegu verkefnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Sú breyting sem verður á leiðarkerfinu nú um áramótin er liður í þeirri þróun.
Við vonum að þessi breyting verði til þess að enn fleiri Mosfellingar velji þann umhverfisvæna samgöngumáta sem almenningssamgöngur eru.“

Una Hildardóttir nýr formaður VG

unahildar

Aðalfundur Vinstri grænna í Mosfellsbæ fór fram þriðjudaginn 28. nóvember og var nýr formaður kosinn. Ólafur Snorri Rafnsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu og Una Hildardóttir var kosin formaður. Una er 26 ára Mosfellingur og starfar sem upplýsingafulltrúi hjá Icelandic Lamb. Hún gegnir embætti gjaldkera Vinstri grænna og hefur áður sinnt ýmsum trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar. Una er fyrsti varaþingmaður VG í kjördæminu og varamaður í mennta- og menningar­nefnd Mosfellsbæjar. Aðrir í stjórn voru kjörnir Þórhildur Pétursdóttir, Bryndís Brynjarsdóttir, Elísabet Kristjánsdóttir og nýr inn í stjórn er Bjartur Steingrímsson sem kemur inn fyrir Guðmund Sigmundsson. Varamenn eru Ólafur Gunnarsson og Gísli Snorrason.

Theódór Kristjánsson sækist eftir 5. sæti

teddi5

Theódór Kristjánsson sækist eftir 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer laugardaginn 10. febrúar. Theódór hefur tekið virkan þátt í sveitarstjórnarmálum í bænum frá árinu 2006. Hann hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2014 og er formaður fjölskyldunefndar. Þá situr hann í skipulagsnefnd bæjarins og í stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. „Ég er verulega stoltur af því að vera einn af kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ og þess meirihluta sem nú er við völd og hef áhuga á að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu bæjarins.“ Theódór er kvæntur Maríu Pálsdóttur og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn.

Gott fólk

Heilsumolar_Gaua_30nov

Það er fátt eins gott fyrir heilsuna og að vera í kringum gott fólk. Fólk sem er ánægt með lífið og hefur gaman af því sem það er að gera. Fólk sem hefur jákvæð og hressandi áhrif á mann. Fær mann til að brosa, hugsa, gera skemmtilega hluti. Við þekkjum öll svona fólk og núna þegar jólamánuðurinn er að keyrast í gang er upplagt að umgangast þetta fólk eins mikið og við getum. Leyfa því að hafa jákvæð áhrif á okkur þannig að við getum haft jákvæð áhrif á aðra. Það er gott fyrir alla.

Ég hitti einmitt gott fólk í dag sem ég hef ekki hitt lengi. Það var virkilega gaman og hressandi á allan hátt og gaf mér bæði hugmyndir og löngun til að hitta þetta fólk oftar. Sem ég ætla að gera. Maður þarf að passa upp á þetta góða í lífinu, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og bæði ná sér í góða orku og gefa frá sér góða orku. Ég trúi því að við getum öll breytt heiminum örlítið, hvert okkar, með því að hugsa vel um sjálf okkur og aðra. Haft þannig jákvæð og smitandi áhrif út í heiminn. Við þurfum ekki að bíða eftir því að aðrir geri eitthvað fyrir mann. Ríkið, bærinn, vinnustaðurinn, félagið og eða aðrir. Við tökum auðvitað fagnandi á móti jákvæðum breytingum að ofan eða utan en getum haft miklu meiri áhrif sjálf en við gerum okkur grein fyrir. Akkúrat eins og þetta góða fólk sem ég hitti í dag. Þetta fólk sýnir frumkvæði, kemur hugmyndum í framkvæmd og nýtir þau tækifæri sem lífið býður upp á alla daga. Er þannig góðar fyrirmyndir fyrir okkur hin.

Hvet að lokum alla til að hreyfa sig mikið og vel í desember. Gera eitthvað líkamlega krefjandi alla daga!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. nóvember 2017

Hafsteinn gefur kost á sér í 3. sæti

hafsteinn3

Hafsteinn Pálsson gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fram fer 10. febrúar. Hafsteinn situr í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og er formaður bæjarráðs. Haf­steinn er ritari stjórnar Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bands Íslands þar sem hann leiðir heiðurs­ráð sam­bands­ins. Hann er stjórn­ar­formaður Íslenskra get­rauna og áður gegndi hann ýms­um trúnaðar­störf­um fyr­ir Aft­ur­eld­ingu. Hafsteinn er byggingarverkfræðingur að mennt og starfar hjá umhverfis- og auðlindarráðuneytinu. Haf­steinn er kvænt­ur Láru Torfa­dótt­ur, kenn­ara í Lága­fells­skóla, og þeirra börn eru Guðrún Erna viðskiptafræðingur, Jó­hanna Rut ljósmóðir og Snæv­ar Ingi íþróttafræðingur.

Ný bók frá Bjarka Bjarnasyni

bjarkitíminn

Bjarki Bjarnason hefur sent frá sér bókina Tíminn snýr aftur sem hefur að geyma örsögur og ljóð.
„Undirtitill bókarinnar er örsöguljóð,“ segir höfundurinn í viðtali við Mosfelling. „Oft eru óljós mörk á milli þessara bókmenntagreina. Ég skipti henni í nokkra hluta, sem bera kunnugleg nöfn, svo sem Hagfræði, Biblíusögur og Landbúnaður. En þegar betur er að gáð liggur hér fiskur undir steini.
Eitt grunnstefið er í raun og veru tíminn og hugleiðingar mínar um hann. Við getum ekki upplifað liðið andartak, ekki bókstaflega. Sú stund kemur aldrei aftur en á hinn bóginn erum við iðulega að endur­lifa horfna lífsreynslu, tíminn er lúmskt fyrirbæri og snýr oft aftur í einhverri mynd. Það er hugsunin á bakvið titil bókarinnar.“
Bjarki hefur sent frá sér um 20 bækur af ýmsum toga á sínum ferli, sagnfræðirit, skáldverk, barnabækur og ljóð.
„Ég hef ekki viljað binda mig við eitt bókmenntaform en hef sérstakt dálæti á að feta fíngerða slóð á milli sagnfræði og skáldskapar, á milli ímyndunar og svokallaðs raunveruleika. Því hvað er sannleikur þegar öllu er á botninn hvolft?“
Vilborg Bjarkadóttir myndskreytti bókina, Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir sá um hönnun og umbrot en útgefandi er Bókaútgáfan Sæhestur.

Ávallt með mörg járn í eldinum

hakon

Veitingastaðurinn Hvíti Riddarinn er vinsæll og sívaxandi veitingastaður í hjarta Mosfellsbæjar en hann var stofnaður árið 2011. Á Hvíta, eins og oft er sagt manna á milli, er boðið upp á fjölbreyttan matseðil og skemmtilegt umhverfi ásamt barnahorni.
Ungi athafnamaðurinn Hákon Örn Bergmann er eigandi staðarins og hefur hann gert ýmsar breytingar frá því hann tók við árið 2014. Hann segir mikla þörf fyrir svona stað í Mosfellsbæ þar sem fólk geti hist við alls kyns tilefni og notið góðra veitinga.

Hákon Örn er fæddur í Reykjavík 4. nóvember 1993. Foreldrar hans eru þau Edda Herbertsdóttir tölvunarfræðingur og Hilmar Bergmann viðskiptafræðingur. Systkini hans eru þau Hildur fædd 1979, Hilmar Þór fæddur 1989, Helgi Björn fæddur 1991 og Hafþór Ingi fæddur 1995.

Gaman að leika í Leynigarði
„Ég er alinn upp í Mosfellsbæ og þegar ég lít til baka til æskuáranna þá koma upp í hugann margar góðar minningar. Það var til dæmis alltaf gaman að vera í kringum vinkonur mömmu. Ein þeirra, Gulla, byggði sér hús rétt hjá Dælustöðinni sem fékk nafnið Leynigarður. Þar eyddum við Hafþór bróðir mörgum góðum stundum.
Eins get ég nefnt allar góðu stundirnar sem ég átti með skólafélögum mínum. Ég var átta ár í Lágafellsskóla en færði mig svo yfir í Gaggó Mos. Það gerði ég einfaldlega út af því að flestir af bestu vinum mínum voru í þeim skóla.“

Skólakerfið hálf gallað
„Mér fannst alltaf gaman í skólanum og þurfti ekki mikið að hafa fyrir náminu. Kennararnir voru auðvitað misjafnir eins og þeir eru margir en Elli eðlisfræðikennarinn minn var í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er skemmtilegur karakter, hreinskilinn og sanngjarn.
Mér hefur alltaf fundist skólakerfið hérna á Íslandi vera hálf gallað, þá er ég að tala um námsgreinar í skyldunámi. Það voru þarna áfangar sem ég hafði engan áhuga á og taldi ekki vera nauðsynlega fyrir mig og framtíð mína. Það hafði vissulega áhrif á endasprettinn á grunnskólagöngu minni en samt ekki svo að ég komst inn í Verzlunar­skóla Íslands haustið eftir.“

Tók mikinn þátt í félagslífinu
„Ég byrja í Verzló haustið 2009 og allt gekk eins og í sögu. Ég kynntist frábæru fólki, námið gekk vel og ég tók mikinn þátt í félagslífinu. Það var algjört prinsipp hjá mér að fara í Versló, mér fannst það alltaf heillandi skóli. Hilmar, elsti bróðir minn, fór í Verzló og var alltaf mikil fyrirmynd. Hann útskrifaðist vorið áður en ég byrjaði þannig að við náðum ekki að vera þarna á sama tíma, því miður.
Á öðru ári í skólanum byrjaði lífið aðeins að flækjast. Ég vann allt of mikið með náminu sem hafði áhrif. Ég er bara þannig gerður að ég verð að hafa mörg járn í eldinum og er í raun vinnualki. Ég get sagt þér að þegar ég var 11 ára fór ég að bera út blöð. Ég var varla byrjaður þegar ég bætti við mig hverfum og fjölmiðlum. Ég hefði aldrei ráðið við þetta ef mamma hefði ekki hjálpað mér. Það var hún sem dröslaði mér á fætur. Frá þessum tíma hef ég bara ekki slakað á.“

Fjölskyldan: Hákon Örn, Alba Rós og Alexandra.

Fjölskyldan: Hákon Örn, Alba Rós og Alexandra.

Var að flýta mér að hefja lífið
Samhliða náminu í Verzló bætti Hákon við sig námi í Flugskóla Íslands. Hann segist hafa verið að flýta sér að hefja lífið en hafi síðan áttað sig á að þetta var of mikið í einu. „Ég leyfði mér í rauninni aldrei að njóta menntaskólaáranna sem eru svo dýrmæt. Ég kláraði þó tvö ár í Verzló og hætti í Flugskólanum.
Á þessum tímapunkti fór ég í mína stærstu niðursveiflu. Ég lokaði mig inni í tvo mánuði, sem betur fer ekki lengur, en þarna lauk námsferli mínum, alla vega í bili.“

Reynslan hefur kennt mér mikið
„Næstu árin vann ég á hinum ýmsu vinnustöðum, lengst af í Krónunni eða í átta ár með hléum. Ég byrjaði þar daginn fyrir fermingardaginn minn og sinnti ýmsu á þessum árum. Ég á í raun yfirmönnum í Krónunni mínum mikið að þakka því þarna lærði ég að vinna og reynsla mín hefur hjálpað mér mikið með flest allt sem ég hef tekið mér fyrir hendur.
Ég byrjaði svo að vinna á Dönsku kránni og þar kynntist ég barbransanum en áður hafði ég unnið á nokkrum veitingastöðum. Þar kynntist ég kærustunni minni, Ölbu Rós Jónínudóttur, en hún tók þátt í að ráða mig til starfa. Það leið ekki langur tími þangað til við fórum að búa saman ásamt Alexöndru, dóttur hennar.“

Símtalið sem breytti öllu
„Vorið 2014 fékk ég símtal frá Geir vini mínum. Hann spurði hvort mig vantaði ekki vinnu því hann hafði frétt að það vantaði pítsubakara á Hvíta Riddarann. Ég sló til og sé ekki eftir því.
Í desember sama ár kom í ljós að það vantaði nýjan rekstraraðila fyrir staðinn. Ég og Agnar vinur minn slógum til en stuttu seinna kom í ljós að Agnar gat ekki tekið þetta að sér sökum verkefna. Ári seinna tók ég við sem eigandi. Ég hafði enga reynslu af að reka veitingastað en ákvað að hoppa út í djúpu laugina.“

Búin að gera miklar breytingar
„Mosfellsbær er fjölskylduvænn bær sem þarf á góðum veitingastað að halda sem og stað sem fólk hittist á við alls kyns tilefni. Það hefur aukist mikið að fjölskyldufólk sæki staðinn og erum við bæði með barnamatseðil og sérstakt barnahorn. Ég er mjög þakklátur bæjarbúum fyrir viðtökurnar.
Við erum með heimilismat í hádeginu á virkum dögum og hlaðborð á föstudögum. Hér fara líka fram hinir ýmsu viðburðir. Það er alltaf stemning hjá okkur í kringum boltaíþróttirnar og hér er góð aðstaða til að horfa á leiki. Við reynum líka að styðja vel við íþróttastarfið í bænum.
Ég hef fengið mikla hjálp frá mínum nánustu við uppbyggingu á staðnum og þá sérstaklega frá tengdamóður minni Jónínu og auðvitað hefur Alba Rós staðið með mér í gegnum þetta allt saman eins og klettur.“

Fullir vasar
„Í sumar stofnaði ég kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Aktive Productions. Í framleiðslu núna er kvikmyndin Fullir vasar sem kemur í kvikmyndahús í febrúar 2018. Myndin fjallar um fjóra menn sem ræna banka til að eiga fyrir tugmilljóna skuld eins þeirra við hættulegasta mann Íslands og þá fer af stað ótrúleg atburðarás sem enginn sá fyrir.
Það eru fleiri verkefni á prjónunum fyrir næstu ár svo það má segja að framtíðin bíði bara björt,“ segir Hákon brosandi að lokum.

Mosfellingurinn 9. nóvember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs