Mosfellskar þingkonur

Una Hildardóttir og Bryndís Haraldsdóttir á Álþingi Íslendinga.

Una Hildardóttir og Bryndís Haraldsdóttir á Alþingi Íslendinga.

Tvær mosfellskar þingkonur hafa setið á Alþingi frá því þing kom saman eftir jólaleyfi.
Una Hildardóttir varaþingmaður Vinstri grænna hélt jómfrúarræðu sína miðvikudaginn 24. janúar. Una kemur inn sem varaþingmaður fyrir Rósu Björk Brynjólfsdóttur.
Í fyrstu ræðu sinni beindi Una augum þingheims að stöðu samnings Evrópuráðsins um forvarnir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi sem undirritaður var í Istanbúl 2011.
Bryndís Haraldsdóttir hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi frá árinu 2016.

Sókn í upplýsinga- og tæknimálum í skólunum

Nýr tækjabúnaður afhentur í Varmárskóla.

Nýr tækjabúnaður afhentur í Varmárskóla.

Haustið 2017 hófst vinna við að undirbúa sókn í upplýsinga- og tæknimálum í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar. Sú vinna byggir á niðurstöðum vinnu með kennurum vorið 2017 sem kölluð hefur verið Vegvísirinn.
Vegvísirinn er eitt af leiðarljósum fræðslu- og frístundasviðs í þeirri umbreytingu á tækniumhverfi grunnskólanna sem nú stendur yfir. Í Vegvísinum koma skýrt fram óskir frá kennurum um endurskoðun fyrirkomulags á upplýsinga- og tæknimálum­ skólanna.

Fyrstu skrefin þegar verið tekin
Forsenda tækniframfara í skólunum er fartölvuvæðing kennara og fagfólks, fjölgun spjaldtölva fyrir nemendur og að bæta tækniumhverfi skólanna almennt.
Þann 23. janúar sl. voru stigin fyrstu skrefin í yfirstandandi sókn til eflingar upplýsinga- og tæknimálum í skólum bæjarins þegar grunnskólunum voru afhentar fyrstu persónulegu fartölvurnar fyrir kennara og fagfólk. Allir grunnskólar bæjarins munu fá nýjan tölvubúnað í ár auk þess sem spjaldtölvukostur fyrir nemendur verður aukinn í takt við stærð skólanna. Leikskólar bæjarins munu einnig taka þátt í fartölvuvæðingu skólanna.

40 milljónir lagðar til
„Við hlustum og tökum mark á því sem við okkur er sagt. Í fjárhagsáætlun ársins í ár eru lagðar til 40 milljónir til verkefnisins sem eru umtalsverðir fjármunir,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Í dag leggjum við formlega í hann og stígum fyrstu skrefin í sókn á sviði upplýsinga- og tæknimála í skólum bæjarins.
Meginforsenda þess að upplýsinga- og tæknimál séu ofarlega á baugi í skólastarfi er að starfsmenn skólanna hafi greiðan aðgang að vinnutölvum og að vinnuumhverfið sé þannig úr garði gert að tæknimál skólanna styðji við breytta kennsluhætti og kröfur nútímans,“ segir Haraldur. „Það er stefna bæjaryfirvalda að grunnskólar bæjarins séu í fremstu röð á sviði upplýsinga- og tæknimála.“

Þrjár stoðir verkefnisins
Verkefnið byggir á þrem stoðum. Í fyrsta lagi eflingu tæknibúnaðar skólabygginganna. Í öðru lagi að bæta aðbúnað kennara og nemenda á sviði upplýsinga- og tæknimála. Og í þriðja lagi að veita stuðning við innleiðingu á fjölbreyttari kennsluháttum.
Í samstarfi við skólana verður unnið að mótun stefnu og framtíðarsýnar á sviði upplýsinga- og tæknimála. Í stefnunni verður meðal annars fjallað um kostnað og útskiptingu á tæknibúnaði, þróunar- og nýbreytniverkefni á sviði upplýsinga- og tæknimála, samvinnu skóla og fræðslu og ráðgjöf til kennara og nemenda.

Kjarninn

Heilsumolar_Gaua_1feb

Ég datt inn á fyrirlestur hjá Sigríði Halldórsdóttur í síðustu viku. Hún var þar að tala um gerð þáttaraðarinnar Ævi sem var sýnd á RÚV í vetur. Frábærir þættir þar sem farið var í gegnum öll æviskeið manneskjunar og talað við fjölda Íslendinga á öllum allri. Sigríður spurði alla sem komu við sögu í þátttunum sömu spurningarinnar: „Hvað skiptir mestu máli í lífinu?“. Nánast allir svöruðu því sama: „Fólkið mitt.“ Ungir sem aldnir. Ég er á sömu blaðsíðu.

Það skiptir ekkert meira máli en fólkið manns, kjarninn. Sama hvar maður er staddur í lífinu. Þetta er gott að hafa í huga núna í upphafi árs þegar allir eru að vinna í sjálfum sér. Og allir sérfræðingar landsins í betrun manneskjunnar keppast við að koma boðskap sínum á framfæri. Vertu besta útgáfan af sjálfum þér, sigraðu sjálfan þig, komdu með á Everest, láttu drauma þína rætast og svo framvegis. Það er bæði jákvætt og hollt að vinna í sjálfum sér og ótrúlega öflug tilfinning að láta drauma rætast. En pössum okkur samt á því að gleyma ekki kjarnanum, því sem mestu máli skiptir. Fólkinu okkar.

Höfum fólkið okkar með í þessari vegferð, finnum leiðir, aðferðir, markmið og drauma sem fólkið manns getur tekið þátt í með manni. Eitthvað sem allir tengja við og hafa áhuga á. Í stað þess að nota alla orkuna bara í sjálfan sig. Æfa allan daginn til þess að verða besta útgáfan af sjálfum sér og láta fólkið sitt mæta afgangi. Þetta er ekkert alltaf auðvelt. Það hafa ekki allir sömu langanir og drauma. En ef kjarninn er sterkur, þá eigum við eitthvað sameiginlegt með fólkinu okkar sem væri gaman að efla og styrkja. Koma til framkvæmda. Láta rætast. Þannig að öllum líði betur og allir verði manneskjur á einhvern hátt. Möguleikarnir eru margir. Okkar er valið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. febrúar 2018

Tólf í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

frambjodendurXD

Tólf gefa kost á sér í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokks­ins í Mos­fells­bæ sem fram fer 10. fe­brú­ar. Kosið verður í félagsheimili flokksins í Kjarna, Þverholti 2 kl. 10-19. Fimmtudaginn 8. febrúar verður haldinn kynningarfundur með frambjóðendunum í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ kl. 20. Hver frambjóðandi heldur stutta framsögu og í framhaldi gefst fundarmönnum kostur á að ræða við frambjóðendur.

Eftirtaldir gefa kost á sér:

Arna Hagalíns­dótt­ir, at­vinnu­rek­andi og fjár­mála­stjóri
Ásgeir Sveins­son fram­kvæmda­stjóri
Davíð Ólafs­son söngv­ari
Haf­steinn Páls­son, bæj­ar­full­trúi og verk­fræðing­ur
Har­ald­ur Sverris­son bæj­ar­stjóri
Helga Jó­hann­es­dótt­ir fjár­mála­stjóri
Kol­brún G. Þor­steins­dótt­ir bæj­ar­full­trúi
Krist­ín Ýr Pálm­ars­dótt­ir, aðal­bók­ari og hársnyrti­meist­ari
Mika­el Rafn L. Stein­gríms­son há­skóla­nemi
Rún­ar Bragi Guðlaugs­son fram­kvæmda­stjóri
Sól­veig Frank­líns­dótt­ir, markþjálfi og klínka
Sturla Sær Er­lends­son, versl­un­ar­stjóri og vara­bæj­ar­full­trúi

Hér má sjá kynningu á frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins
(Prófkjörsauglýsing úr Mosfellingi)

Aukið úrval hollustu hjá Nesti

n1vegan

Nesti, sem er hluti af N1, hefur aukið verulega við úrvalið af hollum valkostum hjá sér undanfarið og ætla að halda því áfram. Þar er nú hægt að finna alls kyns hollan morgunmat og vegan rétti.
Nesti hefur auðveldað fólki á ferðinni lífið og verið mikilvægur hluti af ferðalögum Íslendinga um þjóðvegi landsins áratugum saman. Í takt við breyttar kröfur Íslendinga um þægilega, fljótlega en um leið holla fæðu hefur Nesti aukið úrvalið hjá sér, svo nú er hægt að fá holla veganrétti og hollan morgunmat á stöðvum þeirra um allt land.

Þjónusta alla þá sem eru á ferðinni
„Nesti var stofnað árið 1957 og hugsunin þá var sú sama og hún er í dag, að þjónusta alla þá sem eru á ferðinni og vilja grípa með sér hollan og góðan valkost,” segir Steinunn Björk Eggertsdóttir, vörustjóri veitinga. „Nestislínan í þeirri mynd sem hún er í dag var sett af stað árið 2016 en hún hefur verið í stöðugri þróun síðan þá.
Nýlega bættum við úrvalið á Nestisvörum og bættum við fleiri veganréttum ásamt öðrum nýjungum í hollari kantinum,“ segir Steinunn.

Aukin eftirspurn eftir vegan valkosti
„Veganvörurnar sem við bættum við eru veganskál með falafel og grænmeti, veganvefja með hummus, döðlumauki og sætum kartöflum, tröllahafragrautur með möndlusmjöri og chiagrautur með kókosmjólk,“ segir Steinunn. „Við ætlum svo að bæta við fleiri nýjum vörum á allra næstu dögum eins og veganköku, nýjum djús og fleiru spennandi. Nú þegar bjóðum við veganborgara á þjónustustöðvum okkar á landsbyggðinni.
Við ákváðum að bæta í vegan flóruna hjá Nesti því við höfum fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir vegan valkosti í þjóðfélaginu og af því að við viljum höfða til fleira fólks.“

Fleiri nýjungar á leiðinni
Nesti hefur ekki bara bætt úrvalið af vegankosti, heldur líka bætt við fleiri hollum valkostum. „Aðrar hollustuvörur sem eru nýjar hjá okkur eru kjúklingasalat og kjúklingavefja með jógúrtkjúklingi og kryddjurtapestói,“ segir Steinunn. „Svo eru eru fleiri nýjungar á leiðinni eins og grísk jógúrt, skyrkaka og fleira girnilegt.
Það er sífellt gerð meiri krafa um hollustu og við viljum koma til móts við kröfur viðskiptavina með þessu aukna úrvali,“ segir Steinunn.
„En á sama tíma er auðvitað enn hægt að fá gömlu góðu vörurnar sem við höfum boðið upp á hingað til. Þetta er bara viðbót svo sem flestir fái eitthvað við sitt hæfi.“

Bjóða upp á hollan morgunmat
Nesti byrjaði líka nýlega að bjóða upp á hollan morgunmat, enda margir sem þurfa að þjóta af stað á morgnana án þess að ná að borða morgunmat. „Ástæðan fyrir því að við fórum að bjóða upp á morgunmat er sú að okkur fannst þetta vanta inn í vöruúrvalið hjá okkur og bara á markaðinn almennt,“ segir Steinunn.
„Grautarnir eru líka til dæmis sniðugt millimál fyrir þá sem vilja sneiða hjá brauði. Við bjóðum einnig upp á nokkrar tegundir af smurðum rúnstykkjum, croissanti, djúsum, boozti og ávöxtum, þannig að það er auðvelt að finna bæði hollan og bragðgóðan mat við sitt hæfi hjá Nesti.“

—– K Y N N I N G —–

Mögnuð ferð á Suðurskautið

sudurskautstebbi

Mosfellingurinn Stefán Þór Jónsson kom heim til fjölskyldu sinnar á Þorláksmessukvöld eftir rúmlega tveggja mánaða dvöl á Suðurskautinu.
Stefán starfar hjá Arctic Trucks sem sérhæfir sig í smíði á stórum jeppum og sérhæfðum bílum. „Við höfum verið að smíða bíla fyrir erfiðustu skilyrði í heimi og erum einir í heiminum sem höfum náð því að vera með bíla á Suðurskautinu, sem hægt er að nota til langferða og leiðangra. Við erum búnir að smíða 24 bíla sem eru þarna á svæðinu.
Það á enginn Suðurskautið en það er stærsta óhreyfða náttúruauðlind jarðar. Menn eru búnir að planta sér þarna niður og ætla að gera tilkall til svæðis ef eitthvað breytist í framtíðinni. Þarna eru mörg lönd með vísindastöðvar.“

Útbjó flugvöll á 83. breiddargráðu
„Við vorum þrír Íslendingar sem fórum í þennan leiðangur. Við flugum frá Suður -Afríku til Novolazarevskaya sem er rússnesk­ rannsóknarstöð. Þar er flugvöllur sem kallaður er Novo og er stærsti flugvöllurinn á þessari strandlengju.
sudurstebbiOkkar verkefni var að standsetja bílaflotann sem þarna er, moka bíla upp og gangsetja þá. Við erum með 6-8 bíla á okkar vegum en þeir eru í eigu Rússa og okkar. Stóra verkefnið okkar var svo að keyra upp á 83. breiddargráðu, útbúa þar flugvöll og taka á móti og þjónusta flugvélar og farþega. Aðalástæðan fyrir okkar túr var að þjónusta túristaflug. Það er ekki mikið um ferðamenn á Suðurskautinu en það er alltaf að aukast. Það er mikið til af ríku fólki sem vill komast inn á pól en er ekki að fara ganga neitt þarna.“

Frostið fór mest í 46 gráður
„Vegalengdinn frá Novo að 83. breiddargráðu er 1.700 kílómetrar. Við gerðum tvo bíla tilbúna fyrir þessa keyrslu en við vorum 90 klukkutíma á leiðinni. Við skiptumst á að keyra fjóra tíma í senn, mest keyrðum við 37 klukkutíma í einu. Við tjölduðum einu sinni á leiðinni, við Þórshamar. Einnig stoppuðum á 78. breiddargráðu en vildum ekki tjalda þar vegna kuldans og gistum því bílnum. Ég hugsa að kuldinn hafi mest farið í 45-46 gráður.
Þegar við komum upp á 83. breiddargráðu settum við upp tjaldbúðirnar okkar en þar áttum við eftir að vera næsta mánuðinn. Næsta verkefni var að útbúa flugbraut og við fengum sendar til okkar olíubirgðir með stórri flutningavél. Olíutunnunum var kastað úr vélinni með fallhlíf og svo var það okkar vinna að grafa tunnurnar upp og koma þeim fyrir. Við útbjuggum hálfgerða flugvélabensínstöð en við fengum alls 208 tunnur.“

Ferðamenn á Suðurpólnum
Á meðan Stefán dvaldist á 83. breiddargráðu komu fimm vélar með farþegum til þeirra. „Við settum upp aðstöðu fyrir farþegana, matartjald, klósetttjald og 6 gisti­tjöld. Það eru mest 12 viðskiptavinir í hverri ferð og yfirleitt 2-3 leiðsögumenn. Flugvélarnar fljúga frá Novo til okkar þar sem vélin stoppar í ca. tvo tíma á meðan við setjum á hana eldsneyti. Vélin heldur svo áfram á Suðurpólinn þar sem hún stoppar í tvo tíma. Vélin flýgur svo aftur til okkar á 83. breiddargráðu og fólkið gisti þá eina nótt í tjaldbúðunum. Við þjónustuðum bæði vélina og farþegana þ.e. komum fólkinu fyrir í tjöldunum og græjuðum vélina svo fyrir heimflugið til Novo.“

Ekki í neinu sambandi við umheiminn
„Þetta var mikil og óvenjuleg lífsreynsla. Við vorum á einum kaldasta stað á jörðinni. Einangrunin þarna er ekki fyrir alla. Maður var tiltölulega fljótur að venjast kuldanum en íslenska lopapeysan kom sér vel. Dvölin á 83. breiddargráðu var mögnuð, maður er náttúrlega ekki í neinu sambandi við umheiminn, það er hvorki net né símasamband. Eitt aðalverkefnið var að halda sjálfum sér í lagi og láta daginn líða. Það er sól þarna allan sólarhringinn þannig að maður þarf að búa sér til sína rútínu. Þetta reyndi ekki síður á andlegu hliðina en þá líkamlegu,“ segir Stefán að lokum og á alveg von á því að fara fleiri túra á Suðurskautið.

Afturelding í samstarfi við Einn tveir og elda

Ásbjörn Jónsson fyrir hönd knattspyrnudeildar og Jón Arnar Guðbrandsson fyrir hönd Einn tveir og elda

Ásbjörn Jónsson fyrir hönd knattspyrnudeildar og Jón Arnar Guðbrandsson fyrir hönd Einn tveir og elda.

Einn tveir og elda og knattspyrnudeild Aftureldingar hafa gert með sér samning um að Afturelding sjái um afhendingu á tilbúnum matarkössum sem Einn tveir og elda er að farið af stað með.
Allir þeir viðskiptavinir sem panta hjá Einn tveir og elda og óska eftir að sækja sína matarpakka til Aftureldingar styrkja Aftureldingu í leiðinni um 5% af sölunni.
„Þetta þáttur okkar í því að styrkja íþróttahreyfinguna í landinu,“ segir Jón Arnar Guðbrandsson hjá Einn tveir og elda.
„Við hlökkum mikið til þessa samstarfs. UMFA er eitt margra íþróttafélaga sem við munum vinna með og er eitt þeirra þriggja félaga sem verða með frá fyrsta degi.“
Afhending matarpakkanna fer fram í Vallarhúsinu við Varmárvöll á milli kl. 16 og 19 mánudaga og þriðjudaga í hverri viku. Þannig er komið til móts við óskir þeirra fjölmörgu sem vilja sækja á afhendingarstað í sínu eigin hverfi.

Stjörnukokkar í gestahlutverki
Einn tveir og elda sendir á staðinn spennandi uppskriftir að máltíðum og allt hráefni sem þarf til eldamennskunna.
Áhersla er lögð á að bjóða besta fáanlega hráefnið hverju sinni og fjölbreytilegar uppskriftir, þar sem hollusta og bragð verður í fyrirrúmi. Nánari upplýsingar er að finna á einntveir.is þar sem hægt er að panta þjónustu.
Auk girnilegra uppskrifta frá kokkum Einn tveir og elda mun hópur stjörnukokka útbúa sérstakar uppskriftir fyrir viðskiptavini. Þeirra á meðal eru Ragnar Freyr Ingvarsson (læknirinn í eldhúsinu), Jói Fel og Gunnar Már Sigfússon, kenndur við lágkolvetna lífsstílinn. Þeir og fleiri munu bregða sér í hlutverk gestakokka og útbúa sérstaka helgarpakka, hver á sínu sérsviði.

Eftirspurnin á Íslandi fjórfaldast
Máltíðamarkaðurinn er í hröðum vexti um allan heim. Ef horft er til þróunar í nágrannalöndunum má gera ráð fyrir því að hér á landi muni markaðurinn fjórfaldast að umfangi á næstu tveimur árum.
Þjónustan er einföld og þægileg í notkun, hún sparar neytendum tíma og fyrirhöfn, dregur úr matarsóun og er hagkvæmur kostur fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Aukin netverslun almennings og aukinn áhugi á matargerð ýtir enn frekar undir máltíðaþjónustu af því tagi sem hér um ræðir.

Hér er hægt að panta matarpakka

Steig langt út fyrir þægindarammann

einarhreinn

Einar Hreinn Ólafsson matartæknir á Leikskólanum Reykjakoti eflir heilsu barnanna með góðri næringu en hann eldar allan mat frá grunni.

Einar Hreinn hóf störf í eldhúsi Reykjakots í september 2014. Hann hefur breytt fæðuvali og aðgengi barna og starfsfólks að hollum næringarríkum mat svo eftir hefur verið tekið, enda eldar hann allt frá grunni.
Hann útskrifaðist um jólin sem matartæknir og stefnir á áframhaldandi nám. Einar Hreinn segir matreiðsluna spennandi viðfangsefni og ætlar sér alla leið í þeim efnum.

Einar Hreinn er fæddur í Reykjavík 5. júní 1978. Foreldrar hans eru þau Sólrún Maggý Jónsdóttir ræstitæknir á Reykjalundi og Ólafur H. Einarsson húsasmíðameistari. Einar á tvö systkini, Hugrúnu Ósk fædda 1975 og Daníel Óla fæddan 1991.

Lánsamur að eiga góða að
„Ég sleit barnsskónum í Mosfellssveit og átti hamingjuríka æsku fulla af leik í óbyggðum sveitarinnar. Amma mín, Unnur, og fimm systkini mömmu hafa alltaf verið stór hluti af mínu daglegu lífi og það er líf í tuskunum alla daga. Ég er lánsamur að eiga þessa fjölskyldu að.
Pabbi minn veiktist alvarlega af krabbameini þegar ég var sex ára og settu veikindi hans varanlegt mark á mig. Spítalaheimsóknir og ótti við að missa góða pabba minn sem og aðra ástvini var sífellt í bakgrunni. Mamma var kletturinn í lífi okkar og stóð sig eins og hetja í gegnum þetta allt saman. Hún gerði þessa lífsreynslu eins bærilega fyrir okkur systkinin eins og hægt var. Í dag er pabbi laus við meinið.“

Níuþúsundasti íbúi Mosfellsbæjar
„Ég gekk í Varmárskóla og eignaðist góða vini í skólanum og þá sérstaklega Benjamín­ Inga, sem er gæðablóð og minn besti vinur enn í dag. Eftir útskrift úr Gaggó prófaði ég nokkra skóla og vinnustaði og lærði að vinna erfiðisvinnu.“
Fljótlega upp úr tvítugu kynntist Einar Hreinn eiginkonu sinni, Ingunni Stefánsdóttur, leikskólakennara, sem ávallt er kölluð Inga, og með þeim tókust ástir. Þau eiga fjögur börn, Bryndísi Emblu fædda 1993, Davíð Ísar fæddan 2001, Ólaf Nóa fæddan 2007 og Edward Leví. Gaman er að segja frá því að Edward fæddist heima við 15. janúar 2013 og varð níuþúsundasti íbúi Mosfellsbæjar.

Fann sér nýtt áhugamál
„Þegar yngri drengirnir okkar tveir voru litlir starfaði konan mín á leikskóla á daginn og ég á Hlein á Reykjalundi á kvöldin. Ég fór í sjúkraliðanám og var þetta fyrirkomulag okkar hjóna mjög heppilegt fyrir börnin. Það var alltaf einhver heima til að taka á móti þeim eftir skóla og eins ef þau urðu veik.
Þegar Ólafur Nói fór í leikskóla þá myndaðist mikill frítími hjá mér svo ég ákvað að finna mér nýtt áhugamál. Bakstur varð fyrir valinu og ég æfði mig út í eitt. Ég fékk einnig leiðsögn hjá tengdamömmu þar til ég var orðinn fær um að baka góð brauð og eiginlega allt sem flokkast undir nytjabakstur.
Börnin vöndust því að fá brauðbollur og heit vínarbrauð þegar þau komu heim úr skólanum og þetta nýja áhugamál nýttist því heimilinu og buddunni vel.“

Leitaði sér að nýrri vinnu
„Það kom að því að ég þreyttist á vaktavinnunni og litlum samvistum við konuna mína svo ég fór að kíkja í kringum mig eftir nýju starfi. Inga hvatti mig til að sækja um matráðsstarf á leikskólanum Reykjakoti.
Ég hugsaði af hverju ekki, fyrst ég gat kennt sjálfum mér að baka, af hverju ætti ég þá ekki að geta kennt sjálfum mér að elda fyrir heilan leikskóla. Blanda saman áhugamálinu með vinnu og stíga óþægilega langt út fyrir þægindarammann.“

Mætti blautur bak við eyrun
„Gyða Vigfúsdóttir fyrrum leikskólastýra á Reykjakoti gaf mér tækifæri til að spreyta mig í eldhúsinu. Ég kom gjörsamlega blautur bak við eyrun í nýju vinnuna mína og hélt í fáfræði minni að allir í mötuneytum elduðu allt frá grunni. Ég og konan mín höfðum reynslu af hversu mikill peningasparnaður er fólginn í því.
Bakstursævintýrið mitt hafði fengið byr undir báða vængi og ég eignaðist ástríðufullt áhugamál, matreiðsluna. Ég aflaði mér eins mikillar þekkingar og ég gat upp á eigin spýtur. Lærði um matreiðsluaðferðir, hráefni og næringarþörf barna.
Sjúkraliðanámið reyndist góður grunnur að nákvæmni og hreinlæti svo í raun var ég að byggja ofan á það.“

Auknar líkur á hollum matarvenjum
„Ég kynnti mér skólaverkefni sem Jamie­ Oliver hefur unnið við, að bæta matarmenningu skólaeldhúsa og barna yfir höfuð. Ég setti mig í samband við fyrirtækið hans og í framhaldi fékk ég leiðsögn frá þeim til að hefja matreiðslukennslu fyrir börnin og tengja það við grænmetisræktun sem hafði þegar verið framkvæmd í skólanum í nokkur ár.
Grunnhugmyndin hjá Jamie Oliver er að ef börn læra að rækta, elda og borða hollan mat unninn frá grunni þá séu auknar líkur á hollum matarvenjum þegar þau eldast.“

Matreiðsla með börnunum næsta skref
„Við vorum nú þegar að rækta og elda svo matreiðslan með börnunum var eiginlega næsta skref. Við Inga konan mín höfum þróað þetta í sameiningu. Hún hefur séð um fræðilega þáttinn og ég um framkvæmd. Við erum með matreiðslukennslu fyrir elstu tvo árgangana í Reykjakoti og börnin koma sex sinnum á vetri til mín.
Í tímunum tölum við um mat, næringu og tannvernd ásamt því að matreiða einfalda rétti. Börnin fá svuntu og áhöld við hæfi og umfram allt höfum við gaman til að gleðin við að matreiða smitist yfir til barnanna. Þetta verkefni er ótrúlega skemmtilegt og hefur gefið mér meiri þekkingu á hugarheimi og vitneskju barna um mat en ég hefði annars fengið.“

Gerir kröfu um gæði hráefna
„Ég elda allan mat frá grunni og fel eins mikið grænmeti og ég get í réttunum svo börnin borða mikið af því án þess að vita það sjálf.
Ég leita bestu tilboða hverju sinni, geri kröfur um gæði hráefna og nýti þau vel. Ég kýs að næra dýrmætu leikskólabörnin mín eins vel og ég mögulega get. Þannig legg ég mitt af mörkum við að fara vel með fjármagn leikskólans og þar með bæjarbúa.
Ég hefði aldrei getað þetta allt nema með stuðningi og hvatningu frá Gyðu vinkonu minni leikskólastýru og ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst þeirri einstöku konu.“

Naut þess að vera í skólanum
„Í haust ákvað ég að afla mér réttinda til að stýra mötuneyti og lauk nú um jólin námi í matartækni. Ég lærði margt nýtt og naut þess að vera í skólanum. Hluti af náminu var að reikna út næringargildi matseðla og því hef ég nú reiknað út næringargildi alls sem ég elda fyrir börnin og set viðmið um skammtastærðir. Í náminu var sérstaklega kennt um sérfæði sem er alltaf einhver hluti af mötuneytismatreiðslu og fékk ég alls kyns góð ráð um mat fyrir börn með óþol og ofnæmi.
Matreiðsla er mjög spennandi viðfangsefni og um þessar mundir er ég að hefja matreiðslunám. Ég get ómögulega látið staðar numið hér, ég ætla alla leið,“ segir Einar er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 11. janúar 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

 

Þægindi og tímasparnaður fyrir fjölskyldur

Sveinn Matthíasson og Guðrún Helga Rúnarsdóttir.

Sveinn Matthíasson og Guðrún Helga Rúnarsdóttir.

Matarboxið er ný þjónusta fyrir fólk sem vill þægindi og tímasparnað við undirbúning máltíða fyrir fjölskylduna.
Nýverið opnaði fyrirtækið Matarboxið í Desjamýri 1. Það eru þau Guðrún Helga Rúnarsdóttir og Sveinn Matthíasson sem eiga og reka Matarboxið. Matarboxið býður upp á heilsusamlegt, fjölbreytt gæðahráefni ásamt uppskriftum fyrir alla fjölskylduna sem raða má saman að óskum hvers og eins.
„Minn grunnur er að ég er næringarráðgjafi,“ segir Guðrún Helga. „Það sem ég hef rekið mig á þegar ég er að hjálpa fólki er að það er ekkert mál að segja því hvernig það á að borða. Vandamálið er að fara í búðina, kaupa inn ný hráefni og fara heim og elda.
Matarboxið er einfalt, þú pantar, við tökum saman pöntunina og sendum þér heim að dyrum þér að kostnaðarlausu,“ segir Guðrún Helga.

Hollur matur úr úrvals hráefni
Á heimasíðunni matarboxid.is er að finna fjölbreytt úrval rétta sem fólk getur valið og fengið senda heim. Hægt er að velja fyrirfram ákveðin box eða velja sinn eigin matseðil. Hægt er að fá alla rétti fyrir annað hvort tvo eða fjóra einstaklinga.
„Matarboxið er þjónusta fyrir fólk sem vill borða fjölbreyttari og hollari mat úr úrvalshráefni, prófa nýja rétti, vill aukin þægindi og minnka matarsóun og kostnað.
Fólk fær senda til sín þá rétti sem það velur, allt hráefni sem til þarf og uppskrift. Það sparar tímann að fara í búðina og notar hann frekar til að elda heima.“

Bjóða upp á fjölbreytt val
„Við bjóðum upp á 10-15 rétti í hverri viku og skiptum út matseðlinum vikulega. Við setjum saman box með þremur réttum. Núna bjóðum við upp á Box vikunnar og Veganbox og ætlum svo að bæta við Lágkolvetnaboxi fljótlega.
Það sem okkur sýnist vera vinsælast hjá fólki er að blanda saman réttunum og jafnvel taka mismunandi rétti fyrir fjölskylduna. Það er hægt að panta hjá okkur og fá heimsent alla virka daga.
Við opnuðum í desember og þetta hefur farið vel af stað, við erum opin fyrir öllum ábendingum. Við ætlum að mæta þörfum viðskiptavina okkar á sem bestan hátt,“ segir Guðrún Helga að lokum og bendir fólki á heimasíðuna þeirra þar sem allar upplýsingar að finna.

Fyrsti Mosfellingur ársins 2018

fyrstabarn_stærrimynd

Þann 1. janúar kl. 15:37 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2018 á Landspítalanum. Það var stúlka sem mældist 3.502 gr og 50 cm. Foreldrar hennar eru Arnannguaq Hammeken og Maciek Kaminski og búa þau í Skeljatanga 39.
Stúlkan er fyrsta barn foreldra sinna en þau fluttu nýverið í Mosfellsbæinn og líkar vel. „Hún átti að koma í heiminn 27. desember en kom mjög snögglega fyrsta daginn á nýju ári. Allt gekk mjög vel og hún er vær og góð, drekkur bara og sefur,“ segir Arnannguaq sem kemur frá Grænlandi en Maciek kemur frá Póllandi. Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með stúlkuna.

Rafræn kosning um íþróttakarl og -konu

Kosning fer fram í gegnum Íbúagátt Mosfellsbæjar.

Kosning fer fram í gegnum Íbúagátt Mosfellsbæjar.

Búið er að tilnefna 23 einstaklinga til íþróttakarls og -konu Mosfellsbæjar 2017. 10 karlar eru tilnefndir og 13 konur.

Bæjarbúum gefst kostur á, ásamt aðal- og varamönnum í íþrótta- og tómstundanefnd, að kjósa. Kosningin fer fram á vef Mosfellsbæjar www.mos.is dagana 11.-15. janúar. Velja skal í 1., 2. og 3. sæti. Úrslit verða kynnt fimmtudaginn 18. janúar kl. 19 í íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þangað eru allir velkomnir. Á myndinni hér að ofan má sjá íþróttamenn Mosfellsbæjar 2016, þau Telmu Rut og Árna Braga.

Smelltu hér til kynna þér íþróttafólkið nánar og kjósa!

Jón Kalman Mosfellingur ársins 2017

mosiarsins2018

Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson er Mosfellingur ársins 2017. Hann gaf út skáldsöguna Saga Ástu fyrir jólin og fékk hún hvern fimm stjörnu dóminn á fætur öðrum.
Jón Kalmann er einn af fremstu rithöfundum þjóðarinnar og hefur margsinnis verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs auk þess að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin. Á árinu var hann jafnframt orðaður við sjálf Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.
Jón Kalman býr með eiginkonu sinni, börnum og hundi í Svöluhöfða og hefur fjölskyldan búið í Mosfellsbæ í rúm 20 ár.
„Maður er bara glaður að fólki finnst ástæða til þess að velja mig,“ segir Jón Kalman um útnefningu Mosfellings. „Þá kannski hefur maður gert eitthvað gott.“

mosfellingurarsins_afhendingByrjaður að skrifa næstu bók
Fyrsta bók Jóns Kalmans kom út árið 1988 og á hann því 30 ára rithöfundaafmæli á árinu. Hann hefur gefið út 3 ljóðabækur og 12 skáldsögur.
Er reglan að gefa út bók annað hvert ár?
Það hefur verið rytminn síðustu árin en ekkert kappsmál. Ég tek mér svona rúmt ár í hverja bók en kannski á eftir að hægjast eitthvað á manni.
Ertu byrjaður á nýrri bók?
Já, ég byrjaði á nýrri bók undir lok síðasta sumars en ég kláraði Sögu Ástu um vorið. Annars tala ég aldrei um það sem ég er að vinna að.
Hvenær megum við eiga von á næstu bók?
Það verður bara að koma í ljós. Ef takturinn helst þá verður það í lok árs 2019 en svo gæti það líka alveg eins orðið 2029. Skáldskapurinn er þannig að þú getur ekki sagt honum fyrir verkum.
Og skrifarðu mest heima í Svöluhöfðanum?
Yfirleitt vinn ég heima en hef farið í sumarbústað eða til útlanda. Ég kláraði t.d. Sögu Ástu með því að vera tvo mánuði í París. Ætli ég geri ekki meira af því í framtíðinni. Það er mjög gott að geta einbeitt sér algjörlega að því sem maður er að gera.

Ekkert lát á hugmyndaflæðinu
Í kvöld verður Himnaríki og helvíti frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Sýningin byggir á þríleik Jóns Kalmans, bókunum Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins – einu umtalaðasta stórvirki íslenskra bókmennta á síðari tímum.
„Þetta verður löng sýning í þremur hlutum. Ég hef svosem ekkert skipt mér af uppfærslunni en ég er mjög spenntur að sjá útkomuna. Vonandi sér maður eitthvert nýtt og sjálfstætt verk.
Fram undan hjá Jóni er einnig útgáfa nýjustu bókarinnar erlendis og eftirfylgni sem tengist því.
En fær maður endalausar hugmyndir að nýjum sögum?
„Ég er alltaf opinn og með alla anga úti, þó oftast án þess að velta því fyrir mér. Maður er alltaf að taka inn umhverfið. Hingað til hefur ekkert lát verið á hugmyndaflæðinu en verkin verða oft til á meðan maður er að skrifa þau. Skáldskapurinn er þannig að það er svo mikil óvissa í honum að þú getur ekki skipulagt hann. Það finnst mér mjög fallegt og mikilvægt.
Færðu einhvern innblástur í Mosó?
Maður er alltaf undir áhrifum frá umhverfi sínu og yfirleitt áhrif sem erfitt er að setja fingur á. Ég sæki mikið í náttúruna hér í kring og það andar einhvern veginn inn.
Nafn þitt kom upp í tengslum við Nóbelsverðlaun, hefur þú eitthvað pælt í því?
Ekki þannig, en auðvitað ákveðin truflun inn í hversdaginn manns. Ég lá samt ekkert andvaka. Ég átti ekkert von á því að hljóta titilinn, það eru svo margir góðir höfundar til í heiminum. En auðvitað mikill heiður og ánægja að vera nefndur.
Hvað myndir þú gera ef þú ynnir Nóbelinn?
Ef ég á að segja alveg eins og er þá hef ég ekkert velt því mikið fyrir mér. En ég myndi kaupa besta viskíið sem til er í ríkinu og njóta gleðinnar.

Ný strætóleið tekin í notkun

Strætó gengur nú í Leivogstungu- og Helgafellshverfi.

Strætó gengur nú í Leivogstungu- og Helgafellshverfi.

Umfangsmiklar breytingar voru gerðar á leiðarkerfi Strætó um áramótin. Breytingarnar eru liður í að ná fram því markmiði sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að bæta þjónustu og fjölga þannig notendum.
Fyrir Mosfellinga ber helst að nefna leið 7 sem kemur ný inn í leiðarkerfið og gengur á 30 mínútna fresti. Leiðin eflir verulega þjónustu við íbúa og gesti Leirvogstungu- og Helgafellshverfis. Leiðin ekur frá Spöng, framhjá Egilshöll, í gegnum Staðarhverfi, inn í Helgafellshverfi, í Leirvogs­tunguhverfið og til baka.
Nánari upplýsingar um ferðir má finna á www.straeto.is.

Fulltrúum íbúasamtakanna boðið á rúntinn
Fyrsta ferð nýrrar leiðar var farin sunnudagsmorguninn
7. janúar og fóru nokkrir í vettfangsverð um nýju hverfin. Þar á meðal starfsmenn frá Mosfellsbæ, bæjarstjóri, framkvæmdastjóri Strætó og fulltrúar íbúasamtaka Leirvogs­tungu- og Helgafellshverfis.
Góður rómur var gerður að þessari nýjung í samgöngumálum í Mosfellsbæ og farþegar lukkulegir að sjá.

leid7kort

taflan

 

Ánægðir íbúar í Mosfellsbæ

91% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.

91% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.

Mosfellsbær er í öðru sæti samkvæmt árlegri könnun Gallup á þjónustu sveitarfélaga en könnunin mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.
Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 91% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir. Athyglisvert er að varla sést neinn munur á afstöðu til þessarar spurningar eftir bakgrunnsbreytum eins og aldri, kyni, menntun eða tekjum.

Í fremstu röð meðal sveitarfélaga
Alls eru 84% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 84% mjög eða frekar ánægðir sem er óbreytt hlutfall milli ára. Þegar spurt er um gæði umhverfisins í nágrenni við heimili reynast 83% ánægðir og 78% eru ánægð með þjónustu í tengslum við sorphirðu bæjarins og er Mosfellsbær þar í efsta sæti meðal sveitarfélaga. Ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 75%.
Mosfellsbær er samkvæmt könnuninni vel yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum og raunar í fremstu röð meðal sveitarfélaga sem mældir eru nema einum. Sá málaflokkur er þjónusta grunnskóla bæjarins sem dalar lítillega milli ára. Þessar niðurstöður er því mikilvægt að rýna og nýta þannig til þess að gera enn betur á nýju ári, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Mikill uppbygging
Mikil uppbygging á sér nú stað í Mosfellsbæ þar sem nýtt hverfi í Helgafellslandi rís nú á miklum hraða og stefnt er að opnun Helgafellsskóla í byrjun árs 2019. Íbúum fjölgaði á síðasta ári um 8% sem verður að teljast verulegur vöxtur og verkefni bæjarins er að sjá til þess að þessi vöxtur hafi jákvæð áhrif á íbúana og þjónustu við þá.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist ánægður með útkomuna og að könnunin veiti upplýsingar sem unnt sé að nýta til að gera gott enn betra.
„Það er gott að fá það enn og aftur staðfest að Mosfellingar eru ánægðir með bæinn sinn. Við höfum ávallt verið í einu af þremur efstu sætunum þegar spurt er um Mosfellsbæ sem stað til að búa á, og ég er stoltur af því. Fólk vill setjast að í bænum okkar eins og sést á hinni miklu íbúafjölgun sem nú á sér stað. En það má alltaf gera betur og við þurfum að huga vel að þeim þáttum sem koma síður út í könnuninni.“

Heildarúrtak í könnuninni er 11.700 manns, þar af 438 svör úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á www.mos.is.

Undirbúningur hafinn fyrir þorrablót UMFA

alefliþorra

Þorrablót Aftureldingar verður haldið í íþróttahúsinu að Varmá 20. janúar. Miðasala og borðaúthlutun fer fram föstudaginn 12. janúar á Hvíta Riddaranum.
Líkt og áður er eingöngu hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða. Mikil stemning hefur myndast í aðdraganda blótsins og uppselt hefur verið undanfarin ár.
Þorrablótið á sér langa sögu í menningu bæjarins, fyrsta blótið sem haldið var í þessari mynd var árið 2008 og er því 10 ára afmælisblót í ár. Þetta er stærsta fjáröflunarsamkoma Aftureldingar sem haldin er en það eru handknattleiksdeildin og knattspyrnudeildin sem halda blótið ár hvert.

Þorramatur og lambalæri úr Kjötbúðinni
Að vanda sér Geiri í Kjötbúðinni um matinn og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því auk hins hefðbundna þorramatar verður á boðstólnum lambalæri og með því.
Hin þjóðkunni Gísli Einarsson er veislustjóri og Salka Sól, Magni og Eyþór Ingi munu halda uppi stuðinu á dansgólfinu fram eftir nóttu ásamt hljómsveit Mosfellingsins Tomma Tomm.
Borðaskreytingar munu fara fram kl. 12-13:30 á blótsdegi. Mikill metnaður hefur verið í borðaskreytingum hjá blótsgestum og er það orðinn stór partur af þorrablóts­undirbúningnum. Veitt eru verðlaun fyrir skreytingarnar, þar sem óháð dómnefnd dæmir borðin og gefur stig.
Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook-síðu Þorrablóts Aftureldingar.