Vinnufrí

Heilsumolar_Gaua17mai

Ég var norður á Ströndum í síðustu viku að hjálpa til að standsetja hús sem stórfjölskyldan á þar. Þetta var fjögurra daga ferð. Lífið var mjög einfalt. Við vöknuðum snemma. Unnum fram á kvöld. Tókum nokkrar matarpásur. Fórum í sund eða heitan pott eftir vinnu. Sofnuðum snemma.

Það var ekkert sjónvarp í húsinu. Slökkt á útvarpinu. Ég ákvað að taka netfrí þessa daga og vissi því lítið hvað var að gerast í hinum stóra heimi utan Bjarnarfjarðar. Þetta var akkúrat það sem ég þurfti á að halda. Hausinn fékk frí á meðan líkaminn vann. Góður félagskapur og vinnufélagar. Vinnan gekk vel en það var ekkert stress eða læti. Veðrið var notalegt. Það er mikil gróðursæld í firðinum og urmull af fuglum af ýmsu tagi að vinna í vorverkunum rétt fyrir utan húsið.

Ég mæli virkilega með nokkra daga frívinnuferðum þar sem maður skiptir alveg um umhverfi og hvílir sig á því sem maður fæst við dags daglega. Það er gott fyrir líkamlega og andlega líðan og maður skilur eitthvað eftir sig í leiðinni. Það var líka gott að koma til baka. Sultuslakur og hlaðinn orku. Klár í að halda áfram með lífið heima og hlakka til alls þess sem á eftir að gerast í sumar.

Þetta verður viðburðarríkt og skemmtilegt sumar. Á mörgum sviðum. Eitt sem ég hlakka mikið til er að fara á Guns N‘ Roses tónleikana á Laugardalsvelli í júlí. Mér finnst ég eiga tónleikana skilið eftir að hafa ferðast um Evrópu fyrir nokkrum árum með góðum félögum, haldandi á sístækkandi bunka af Guns N‘ Roses tólftommum (vínyllinn tekur vel í). Þeir hefðu alveg mátt koma fyrr blessaðir en betra er seint en aldrei og ég bíð spenntur eftir þeim. Er með hina hráu G N‘ R Lies plötu í eyrunum á meðan ég skrifa þessar pælingar. Stillt hátt!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. maí 2018