Útskrifa sérhæfða starfsmenn íþróttamannvirkja

ithrottathjalfun

Föstudaginn 4. maí útskrifuðust 23 sérhæfðir starfsmenn íþróttamannvirkja eftir 150 stunda þjálfun sem unnið hefur verið að síðasta árið.
Námið var þróað og útfært í samstarfi við starfsmenn og forstöðumenn íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ, en umsjón og framkvæmd verkefnisins var í höndum starfsþjálfunarfyrirtækisins Skref fyrir skref sem hefur sérhæft sig í fullorðinsfræðslu og starfsþróun.
Mosfellsbær er fyrst sveitarfélaga til þess að veita starfsmönnum aðgang að þessari tegund starfstengds náms en sérstaklega er kveðið á um það í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitafélaga og Starfsmannafélags Mosfellsbæjar.

Auka fagmennsku og vellíðan í starfi
Í upphafi útskriftarinnar, sem haldin var í íþróttamiðstöðinni Kletti, bauð Haraldur Sverrisson gesti velkomna. Að því loknu sagði forstöðumaður íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ, Sigurður Guðmundsson, frá markmiðum námsins.
Meginmarkmið námsins er að auka fagmennsku og vellíðan í starfi og byggja upp traust, ábyrgð, samstarf og virkni á vinnustaðnum. Þá sagði Hansína B. Einarsdóttir hjá Skref fyrir skref frá uppbyggingu námsins.
Loks afhenti Linda Udengaard framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs viðurkenningarskjöl til þátttakenda.

Grunnur að góðri þjónustu
„Við hjá Mosfellsbæ viljum standa vel að þjálfun og starfsþróun okkar starfsmanna. Þetta nám er vel til þess fallið að styðja við starfsmenn íþróttamannvirkja um leið og við styrkjum þá þjónustu sem við veitum íbúum í íþróttahúsum og laugum Mosfellsbæjar. Vel þjálfaðir og ánægðir starfsmenn sem geta þróast í sínu starfi eru grunnur að góðri þjónustu og öryggi í okkar íþróttamannvirkjum.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og þetta nám styður við okkar vinnu í þeim efnum enda varðar það í senn þjónustu, öryggi og framþróun starfseminnar,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.