Framkvæmdum við Helgafellsskóla flýtt

Helgafellsskóli2

Á fundi bæjarráðs þann 12. apríl var samþykkt að heimila bæjarstjóra að ganga frá samkomulagi við Yrki arkitekta ehf. og VSB Verkfræðistofu ehf. um fullnaðarhönnun 2.-4. áfanga Helgafellsskóla.
Frumhönnun þessara áfanga liggur fyrir og felst verkefnið í fullnaðarhönnun skólans og ráðgjöf á byggingartíma.
Sama dag og þessi samþykkt var gerð fór bæjarstjórn og fræðslunefnd Mosfellsbæjar í kynnisferð í Helgafellsskóla þar sem Jón Ingi Georgsson fyrir hönd Ístaks og Reynir Kristjánsson byggingarstjóri fyrir hönd Verksýn tóku á móti kjörnum fulltrúum. Áður en haldið var í kynnisferðina fór Óskar Gísli Sveinsson deildarstjóri nýframkvæmda hjá umhverfissviði Mosfellsbæjar yfir stöðu framkvæmdanna.
Uppsteypu hússins er lokið og er vinna innanhúss hafin og er verkið á áætlun. Fyrsti áfangi hússins verður tekinn í notkun um næstu áramót. Gert er ráð fyrir að næsti áfangi þar á eftir verði tekinn í notkun haustið 2019.

Hröð uppbygging í Helgafellshverfi
„Með þessari samþykkt er bæjarráð að taka stefnumarkandi ákvörðun að halda hraðar áfram með byggingu Helgafellsskóla en gert var ráð fyrir þegar vinna hófst við byggingu skólans. Sú ákvörðun byggir fyrst og fremst á því að hraði uppbyggingarinnar í Helgafellshverfi er meiri en búist var við í upphafi en fjölgun íbúa Mosfellsbæjar í fyrra var 8,2% og auðvitað sýnu meiri í Helgafellshverfi.
Gera má ráð fyrir því að síðustu byggingaráfangar Helgafellsskóla verði boðnir út á fyrri hluta árs 2019,“ sagði Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.