Vínbúðin stækkar í Kjarnanum

Vínbúðin opnaði nýja og endurbætta verslun í Kjarnanum þann 27. maí.
„Við erum bara að færa okkur hinum megin við vegginn,“ segir Fríða Margrét Sigvaldadóttir verslunarstjóri búðarinnar.
Verslunin er talsvert stærri en sú gamla, eða um 500 fermetrar. Um er að ræða stærri búð með stærri kæli og stórauknu vöruúrvali. „Þetta er um 200 fermetra stækkun og fjölgar vörutegundum í rúmlega 700 talsins, sem er aukning um 100 tegundir,“ segir Fríða sem segir útibúið í Mosfellsbæ ganga vel.
„Við viljum auðvitað að Mosfellingar versli í heimabyggð og höfum við séð mikla aukningu eftir að COVID skall á. Eins hentar staðsetning búðarinnar vel fyrir fólk sem er að fara út úr bænum, þá er fínt að renna við hér, nóg af bílastæðum eftir að Bónus fór.“

Uppbygging Blikastaðalands

Bæjarráð hefur tekið fyrir ósk Landeyjar um að hefja vinnu með Mosfellsbæ um þróunar-, skipulags- og uppbyggingarvinnu vegna Blikastaðalands.
Bæjarstjóra var í kjölfarið falið að bjóða forsvarsmönnum Landeyjar á sameiginlegan fund bæjarstjórnar og skipulagsnefndar þar sem fyrirhuguð uppbyggingaráform á Blikastaðalandi yrðu kynnt nánar.

Fyrstu hugmyndir kynntar
Kynningarfundur fór fram í byrjun maí þar sem fulltrúar Landeyjar og ráðgjafar þeirra hjá Alta kynntu fyrstu hugmyndir um mögulega þróun íbúabyggðar á landi Blikastaða og reifuðu möguleg næstu skref í málinu.
Í kjölfar þess var bæjarstjóra Mosfellsbæjar falið að undirbúa viljayfirlýsingu um samstarf sem feli í sér upphaf þróunar-,
skipulags- og uppbyggingarvinnu. Samhliða þeirri vinnu verði gerð tillaga um skipun rýnihópa sem rýni skipulagsmál, skólamál og fjárhagsleg áhrif verkefnisins.

Uppbygging næsta aldarfjórðunginn
„Uppbygging Blikastaðalands hefur lengi verið á teikniborðinu en ekki enn komist þaðan. Núverandi eigandi hefur kynnt Mosfellsbæ sín áform og ekki verður annað séð en að samvinna við hann geti þokað okkur af teikniborðinu til framkvæmda.
Þetta er auðvitað langtímaverkefni og uppbyggingin myndi eiga sér stað næsta aldarfjórðunginn og þá í takti við uppbyggingu Borgarlínu sem er í raun forsenda fyrir bæði byggðinni og því að Borgarlína liggi að miðbæ Mosfellsbæjar.
Fyrir okkur Mosfellinga getur þetta verið áhugavert tækifæri til þess að þróa okkar góða bæjarfélag að enn betra samfélagi,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.

Nýtt rekstrarfélag um Reykjalund

Heilbrigðisráðherra tilnefndi í nóvember 2019 starfsstjórn yfir Reykjalundi til að stýra stofnuninni meðan unnið væri að endurskoðun stjórnskipulags stofnunarinnar sem var samstarfsverkefni starfsstjórnar og SÍBS, eiganda Reykjalundar.
Nú hefur starfsstjórnin kynnt starfsfólki Reykjalundar framtíðarfyrirkomulag stjórnunar endurhæfingarmiðstöðvarinnar. M.a var kynnt nýtt skipurit sem tók gildi 1. júní og var unnið í samráði við starfsfólk.

Óhagnaðardrifið einkahlutafélag
Á fundinum kom fram að stofnað hefur verið sérstakt félag um rekstur endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi. Nýja félagið verður óhagnaðardrifið einkahlutafélag með sérstaka stjórn sem verður óháð stjórn SÍBS. Eins og kynnt var nýlega hefur Pétur Magnússon verið ráðinn forstjóri og tók hann til starfa 1. júní.
Stjórn hins nýja hlutafélags skipa Anna Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur, formaður, Gunnar Ármannsson lögmaður, meðstjórnandi, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, meðstjórnandi, Arna Harðardóttir sjúkraþjálfari, varamaður.

Reykjalundur áfram í fararbroddi
Stefán Yngvason formaður starfsstjórnar er ánægður með ávinning af starfi starfsstjórnarinnar. „Að loknu þessu sex mánaða tímabili starfsstjórnar Reykjalundar er ég sannfærður um að við höfum fundið mjög farsæla lausn og að framtíðin er björt fyrir Reykjalund og endurhæfingarþjónustu í landinu.
Á Reykjalundi er metnaðarfullt fagfólk og með þessum breytingum er stigið stórt skref til að tryggja að Reykjalundur verði áfram í fararbroddi í endurhæfingu í íslensku heilbrigðiskerfi.“
Hlutverk SÍBS til framtíðar sem eiganda Reykjalundar endurhæfingar ehf. verður fyrst og fremst að fjármagna uppbyggingu á staðnum. Daglegur rekstur endurhæfingarþjónustunnar mun áfram byggjast á samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Tryggt verður að launakjör, lífeyrisréttindi og önnur réttindi og skyldur starfsmanna Reykjalundar haldist óbreytt hjá nýja félaginu.

Bjarnarganga á Stöðvarfirði

Við vorum á Kirkjubæjarklaustri um helgina, ég, frúin og sá yngsti ásamt góðum vinum okkar. Þetta var ótrúlega notaleg helgi. Góð samvera, leikir, spil, útivera og magnað umhverfi. Ég fór eftir helgina að pæla í því hvernig jákvæðar tengingar ég hefði við hina ýmsustu staði landsins. Rúllaði í gegnum þann leik með sjálfum mér að velja stað af handahófi og rifja upp jákvæða og heilbrigða minningu þaðan. Án þess að ofhugsa eða velja staði sem enginn hefur komið til.

Hér eru nokkur sýnishorn: Ísafjörður – fjölskylduganga upp í Naustahvilft; Akureyri – ganga frá flugvellinum inn í bæ, beint á Bláu könnuna í spínatböku og kaffi; Hafravatn – fá að prófa uppblásið SUP bretti hjá ókunnugum; Hornafjörður – útiæfing með góðu fólki við apastigann fyrir neðan Hótel Höfn; Vestamannaeyjar – ganga upp á Heimaklett; Hvalfjörður – sjósund við ryðgaða bryggju; Bifröst – spretthlaup upp Grábrók; Esjan – rösk ganga að Steini, hlaup niður „hinum“ megin; ónefnd gil og gljúfur – ævintýraferðir með ævintýrafólki; Hengilssvæðið – heimagerður heitur pottur með æskufélögum; Búðardalur – fótboltaleikir á battavellinum í stoppi á leiðinni á Strandir; Stöðvarfjörður – bjarnarganga hjá „Gangið ekki á grasinu“ skilti; Sauðárkrókur – körfuboltakeppnisferðir; Djúpavík – kaffi í fjöruborðinu. Þetta eru bara nokkur dæmi, ég hefði getað haldið lengi áfram. Ég komst að því að ég get tengt einhverja jákvæða upplifun við alla, leyfi ég mér að fullyrða, staði sem ég hef komið á. Bæði á Íslandi og erlendis.

Það sem svona æfingar/leikir gera fyrir mann er að fylla mann þakklæti. Þakklæti fyrir allar þessar góðu minningar. Að hafa fengið og tekið þátt í að búa þær til. Njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Við bjuggum til nýjar svona minningar á Klaustri um síðustu helgi. Þær fara í minningabankann með hinum. Og ég á eftir að búa til margar nýjar með mínu fólki í ár og komandi ár. Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. júní 2020

Listasalurinn starfræktur í 15 ár

Listasalur Mosfellsbæjar er 15 ára í ár. Salurinn er inn af Bókasafni Mosfellsbæjar og opinn á afgreiðslutíma þess.
Settar eru upp um tíu sýningar á ári og er umsjónarmaður Listasalarins Steinunn Lilja Emilsdóttir. Við spurðum hana nokkurra spurninga um starfsemi salarins.

Hvernig sýningar er boðið upp á?
Sýningar í Listasalnum eru mjög fjölbreyttar. Hér hafa verið sýnd málverk, vídeó­verk, ljósmyndir, skúlptúrar, innsetningar, textíll og handverk. Sumar sýningarnar eru sögulegar, sumar þemakenndar og aðrar persónulegar. Markmiðið er að sýna alls konar myndlist.

Eru listasýningar vel sóttar?
Já, þær eru það og undanfarin ár hefur gestum fjölgað. Listasalur Mosfellsbæjar er skemmtilegur að því leyti að fólk sem alla jafna sækir ekki myndlistarsýningar rambar inn þegar það á leið um bæinn eða í bókasafnið. Það hefur einnig færst í vöxt að fólk geri sér ferð úr nágrannasveitarfélögum til að kíkja á sýningar, enda Mosfellsbær minna úr leið en margir halda.
Skólabörn eru líka dugleg að kíkja á sýningar með kennurunum sínum. Það er sérstaklega gaman að yngri gestunum því þeir koma oft með skemmtilegar athugasemdir um listina og hafa aðra sýn en við sem erum fullorðin. Um daginn var t.d. sýning eftir Hjördísi Henrysdóttur þar sem þemað var sjómenn í sjávarháska og þá vildu börnin helst fá að vita hvort fólkið á myndunum hefði ekki örugglega komist heilt á húfi aftur heim til sín.

Hefur svona listasalur mikla þýðingu fyrir bæinn?
Alveg klárlega, bæir þurfa meira en heimili og fyrirtæki. Þar þurfa líka að vera samkomustaðir sem bæjarbúar nýta saman. Listasalur Mosfellsbæjar er kjörið afdrep til að taka smá pásu, taka inn menningu, horfa á fallega og áhugaverða hluti og velta þeim fyrir sér.
Í fyrra var t.d. sýnt verk eftir Pál Hauk Björnsson þar sem kúrbít var haldið uppi með spýtu. Mörgum eldri gestum fannst þetta heldur skrýtin list en þegar þeir fussuðu yfir þessu spurði ég hvort þeir hefðu nokkurn tíma séð svona áður. Allir svöruðu því neitandi. „Er ekki orðið langt síðan að þú sást eitthvað sem þú hefur aldrei séð áður?˝ Þá virtist fólk átta sig og brosti út í annað.

Hvað er fram undan hjá ykkur?
Við þurftum að fresta nokkrum sýningum út af hertu samkomubanni en næst á dagskrá er sýning Ásgerðar Arnardóttur. Hún er ung listakona sem vinnur með samspil tvívíddar og þrívíddar. Sýning hennar verður opnuð 29. maí kl. 16. Svo erum við núna að taka á móti umsóknum fyrir sýningarárið 2021.

Getur hver sem er sótt um?
Já, allir geta sótt um sem vilja. Við hvetjum Mosfellinga sérstaklega til að sækja um því mikil gróska er í listalífinu hér, sem Listasalur Mosfellsbæjar vill gjarnan taka þátt í að miðla. Ekki er skilyrði að fólk sé menntað í listum. Aðalmálið er að umsóknin sé vel unnin.
Að mínu mati er myndlist best þegar hún talar til áhorfandans og býður upp á tengingu við hann. Svo þarf líka að hafa í huga að það er enginn skaði skeður þótt maður fái neitun um sýningarpláss. Margar ástæður geta legið þar að baki og sjaldnast beinast þær að gæðum myndlistarinnar eða verkanna.
Í fyrra fengum við metfjölda umsókna en markmiðið er að slá það met í ár.

Tvöföldun Vesturlandsvegar mun ljúka í ár

Samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar um tvöföldun Vesturlandsvegar milli Skarhólabrautar og Langatanga í Mosfellsbæ hefur verið boðið út.
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti samning milli Mosfellsbæjar og Vegagerðarinnar um kostnaðarskiptingu og endanlega kostnaðaráætlun verksins.

Miklar samgöngubætur
Verkefnið felur í sér miklar samgöngubætur fyrir bæði íbúa Mosfellsbæjar og þá sem eru á norður eða vesturleið, með breikkun vegsvæða á kaflanum milli Skarhólabrautar og Langatanga, fjórum akreinum og aðskilnaði á akstursstefnum með vegriði.
Vegkaflinn er 1,1 km að lengd og hefur reynst flöskuháls þegar umferð er mikil en við framkvæmdina eykst jafnframt umferðaröryggi til muna. Samhliða verða byggðir hljóðvarnarveggir, hljóðmanir, biðstöð fyrir Strætó og tilheyrandi tengingar við stígakerfi Mosfellsbæjar.
Tilboð í verkið voru opnuð þann 5. maí og var tilboð Loftorku uppá 490 milljónir lægst. Háfell bauð 609 m., Ístak 558 m. og Grjót og grafa 508 m. Áætlaður verktakakostnaður var 706 milljónir.

Flöskuhálsinn brátt úr sögunni
„Með breikkun Vesturlandsvegar í gegnum Mosfellsbæ verður brátt úr sögunni einn mesti flöskuhálsinn á þjóðvegi eitt. Langar raðir sem myndast hafa í átt að Mosfellsbæ á álagstímum heyra þá sögunni til. Þessi framkvæmd hefur verið baráttumál okkar Mosfellinga í mörg ár. Þetta er löngu tímabær framkvæmd og mikið fagnaðarefni,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Samkvæmt útboðslýsingunni skal full ljúka verkinu eigi síðar en þann 1. desember 2020.

Gott að gefa sér góðan tíma

Ágústa Pálsdóttir eigandi gjafavöruverslunarinnar Evítu er hæstánægð með móttökur bæjarbúa.

Það er ævintýri líkast að koma inn í gjafavöruverslunina Evítu í Háholti en þar má sjá fallegar og glitrandi vörur hvert sem auga er litið. Það þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða úrvalið en allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi.
Hjónin Ágústa Pálsdóttir og Haukur Hafsteinsson keyptu verslunina í ágúst 2016 en hún var þá á Selfossi. Ári seinna fluttu þau hana í Mosfellsbæinn og þau sjá ekki eftir því enda hæstánægð með móttökur bæjarbúa.

Ágústa er fædd 12. mars 1966. Foreldrar hennar eru þau Maj-Britt Kolbrún Hafsteinsdóttir, verslunar- og skrifstofumaður, og Páll Halldórsson flugstjóri.
Ágústa á tvö systkini, Hafdísi f. 1964 og Pál Inga f. 1970 d. 2018.

Dró inn alla villiketti hverfisins
„Ég er alin upp í Reykjavík, Garðabæ og á Seltjarnarnesi og lék mér úti alla daga. Ég var víst ansi dugleg við að draga inn á heimili okkar alla villiketti hverfisins sem var að sjálfsögðu ekki vel séð,” segir Ágústa og hlær.
„Ég var mikill bókaormur og las allar þær bækur sem ég komst yfir. Ég var líka dugleg að breyta til og skreyta í herberginu mínu, foreldrar mínir vissu í raun aldrei hverju þau áttu von á þegar þau gengu inn.
Nýstraujuð rúmföt, ný náttföt og ný bók á aðfangadagskvöld er falleg og góð æskuminning.”

Fluttu til Belgíu
„Þegar ég var fimm ára þá fluttum við fjölskyldan til Belgíu vegna starfs föður míns og þar bjuggum við í eitt ár. Við ströndina í Ostend á ég margar góðar minningar. Ég man t.d. hvað ég hafði gaman af því að safna maríuhænum í körfu, mér fannst þær svo litríkar og fallegar,” segir Ágústa og brosir.
Eftir að við fluttum heim aftur þá voru gerðar tvær tilraunir til að senda mig í sveit. Ég lét mig hafa það og fór en eins mikill dýravinur og ég er þá grét ég mig heim aftur eftir tvær nætur og þar með var þeim kafla í lífi mínu lokið.”

Gaman að fljúga með pabba
„Ég hef haft mjög gaman af því að fljúga með pabba mínum í gegnum tíðina en hann hefur verið að fljúga bæði á þyrlum og flugvélum. Við höfum farið í mörg útsýnisflugin saman bæði frá flugvellinum á Tungubökkum og síðar frá Haukadalsmelum.
Það hefur verið mikið upplifelsi að fá að skoða landið sitt frá ólíkum sjónarhornum og hlusta á fróðleik pabba í leiðinni, þetta er algjörlega ómetanlegt.”

Alveg hreint frábær ár
Ágústa gekk í Hlíðaskóla, Flataskóla og Valhúsaskóla en uppáhaldsfögin hennar voru lestur og skrift. Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Ármúla þaðan sem hún fór út á vinnumarkaðinn.
„Ég hóf störf hjá Steinari Waage og fór þaðan yfir í bókaverslunina Ísafold í Austurstræti og svo var ég í 10 ár hjá gleraugnaversluninni Optical Studio í Smáralind.
Ég sá um veitingasöluna í gamla Golfskálanum hér í Mosfellsbæ í þrjú ár. Þetta voru alveg hreint frábær ár og maður kynntist mörgu góðu fólki.”

Elskum að vera úti í náttúrunni
Ágústa eignaðist tvíburana Sóldísi Björgu og Hafdísi Ásu með Óskari Þór Péturssyni árið 1993 en þau slitu samvistum.
Eiginmaður Ágústu er Haukur Hafsteinsson starfsmaður hjá Bergá Sandblæstri á Esjumelum. „Við hjónin höfum mjög gaman af því að ferðast og erum búin að gera mikið af því og erum hvergi hætt. Við erum útivistarfólk og elskum að vera út í náttúrunni og fara í langa og góða göngutúra.
Við höfum einnig mikla ánægju af að vera með fjölskyldu og vinum í kósýheitum heima, elda góðan mat og spjalla. Við eigum þrjá norska skógarketti sem við nostrum mikið við og þeir gefa okkur ansi mikið. Kettir hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér eins og æskuminningin um útigangskettina bera glöggt vitni um,” segir Ágústa og hlær.

Fundum hentugt húsnæði
„Við hjónin keyptum gjafavöruverslunina Evítu í ágúst 2016 en hún var þá staðsett á Selfossi, þar rákum við hana í eitt ár. Við bjuggum í Mosfellsbæ þegar við festum kaupin svo það var ekkert annað í stöðunni en að keyra bara á milli. Við ákváðum svo á einum tímapunkti að nú væri þetta komið gott og færðum verslunina um set, okkur fannst tilvalið að færa hana hingað í Mosfellsbæinn.
Við vorum svo heppin að finna hentugt og bjart húsnæði að Háholti 14 og útsýnið úr gluggunum hérna er alveg dásamlegt. Það er náttúrlega algjör draumur að vera svona miðsvæðis í bænum.”

Erum með fjölbreytt vöruúrval
„Við flytjum inn allar okkar vörur sjálf og erum alltaf á höttunum eftir nýjum og fall­egum vörum. Við Haukur njótum þess að fara saman erlendis á sýningar, hitta birgja og njóta lífsins í leiðinni.
Við erum með mjög fjölbreytt vöruúrval svo það getur verið gott að gefa sér góðan tíma til að skoða,” segir Ágústa um leið og hún gengur um búðina og sýnir mér úrvalið. „Við seljum allskyns dúllerí og fínerí fyrir falleg heimili og sumarbústaði og erum eingöngu með vörur sem fást hvergi annars staðar. Við erum einnig með mikið úrval skilta í öllum stærðum, gerðum og litum, með fallegum tilvitnunum á.
Það er gaman að segja frá því að við fengum nýjan birgja núna í byrjun árs og er fyrsta sending frá honum komin í hús, falleg hnífapör og kertaarnar. Þessar vörur urðu svo vinsælar að ég varð að panta aðra sendingu um hæl sem er á leiðinni til landsins. Svona getur þetta verið, sumar vörur hitta algjörlega í mark,” segir Ágústa og brosir.

Þakklát fyrir móttökurnar
„Viðskiptavinir okkar koma alls staðar að af landinu og heilu saumaklúbbarnir mæta hér stundum saman og þá er sko líf og fjör get ég sagt þér. Móttökur bæjarbúa hafa verið alveg hreint yndislegar og fyrir það erum við afar þakklát. Það er búið að vera mikið að gera frá því við opnuðum hér.
Það er vissulega búin að vera skrítin staða í þjóðfélaginu í þessu Covid-ástandi en við höfum ekki fundið fyrir neinum samdrætti. Það hefur verið mikið rennirí hjá okkur alla daga og mikið um pantanir. Fólk er greinilega að nýta tímann vel við að breyta, bæta og punta heima hjá sér.
Við verðum öll að halda áfram að vera bjartsýn, við komumst í gegnum þetta ástand með jákvæðni og hækkandi sól og þá fara hjólin að rúlla aftur,” segir Ágústa að lokum og með þeim orðum kvöddumst við.

Mosfellingurinn 14. maí 2020
ruth@mosfellingur.is

 

Rekstur Mosfellsbæjar gekk vel á árinu 2019

Helgafellsskóli er stærsta framkvæmd bæjarins á síðustu árum.

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2019 var staðfestur á fundi bæjarstjórnar, miðvikudaginn 13. maí, og sýnir að Mosfellsbær stendur sem fyrr styrkum fótum.
Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 416 milljónir sem er um 26 milljóna betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Það skýrist af auknum tekjum vegna hærri launatekna íbúa, meiri umsvifum í sveitarfélaginu og lægri fjármagnskostnaði en ráð var gert fyrir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Ábyrgur rekstur málaflokka
Rekstur málaflokka gekk vel og er í ágætu samræmi við fjárhagsáætlun. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu 9.626 milljónum en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að verja 9.345 milljónum til reksturs málaflokka.
Fræðslumál eru sem fyrr langstærsti málaflokkurinn en til hans var varið 5.284 milljónum eða 52,77% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.953 milljónum og eru þar meðtalin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundamál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 1.070 milljónum.

Árangur styður við endurreisnina fram undan
„Rekstur og starfsemi sveitarfélagsins hefur gengið vel á umliðnum árum sem hefur gert okkur kleift að byggja undir framtíðina,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. Fólk hefur streymt til Mosfellsbæjar og íbúum fjölgað um 2.600 manns frá ársbyrjun 2017.
„Rekstrarárangur síðustu ára þar sem sveitarfélagið hefur verið rekið með góðum afgangi er nú hluti af getu Mosfellsbæjar til að taka á móti þeim mótvindi sem ríkir vegna neikvæðra efnahagslegra áhrifa af COVID-19 faraldrinum. Árangurinn styður því við þá endurreisn sem nú stendur fyrir dyrum.“


Helstu tölur ársins 2019

Rekstrarafgangur 416 m.kr.
Tekjur 12.422 m.kr.
Launakostnaður 5.577 m.kr.
Annar rekstrarkostnaður 5.418 m.kr.
Framlegð 1.427 m.kr.
Veltufé frá rekstri nam 1.239 m.kr. sem er um 10% af tekjum.
Eigið fé í árslok nam 7.197 milljónum og eiginfjárhlutfall 33,9%.
Skuldaviðmið nemur 84,7%.
Íbúafjöldi í lok árs var 12.069.
Íbúum fjölgaði um 640 á árinu 2019.
Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins.
Starfsmenn í árslok voru 784 í 636 stöðugildum.
Um 83% skatttekna er varið til fræðslu-, félagsþjónustu, íþrótta- og tómstundamála.

Myndó flytur í Þverholtið

Ljósmyndarinn Ólína Kristín Margeirsdóttir er að flytja í Þverholtið með fyrirtækið sitt Myndó ljósmyndastofa. Ólína útskrifaðist sem ljósmyndari 2008 og hefur rekið Myndó síðan 2009 að heimili sínu í Hrafnshöfðanum þar sem hún innréttaði bílskúrinn sem stúdíó og vinnustofu.
„Stofan hefur gengið vel öll þessi ár í bílskúrnum en nú langaði mig að komast aðeins út af heimilinu og vera sýnilegri í bæjarfélaginu. Hér í Þverholtinu hef ég útbúið rúmgott, hlýlegt og þægilegt stúdíó,“ segir Ólína en samfara flutningunum hefur stofan opnað nýja og endurbætta heimasíðu, www.myndo.is.

Fjölbreytt þjónusta í boði
Ólína býður upp á fjölbreytta þjónustu, allar hefðbundnar barna- og fjölskyldumyndatökur auk auglýsinga- og vörumyndtaka. Einnig á og rekur Ólína vefina Instaprent.is, sem sérhæfir sig í að prenta instagram myndir á pappír, púða eða segla, og póster.is sem framleiðir límmiða á veggi og innrammaðar tilvitnanir og fleira.
„Ég tek að mér mjög fjölbreytt verkefni og mynda bæði hér í stúdíóinu og úti í náttúrunni. Ég afhendi allar myndir útprentaðar í albúmi og stafrænt en allar upplýsingar er að finna á heimasíðunni okkar.“

Passamyndir afhentar samstundis
„Ég sérhæfi mig í faglegum myndatökum á einstaklingum, hlutum, landslagi og fjölskyldum eða öðrum hópum. En langar að taka fram að ég býð upp á passamyndatöku þar sem myndirnar eru afhentar samstundis sem kemur sér oft vel fyrir fólk.
Einnig er ég mikið í því að taka starfsmannamyndir fyrir bæði stór og lítil fyrirtæki, þá annað hvort kemur fólk í stúdíóið til mín eða ég mæti á staðinn.“

Opnunartilboð alla helgina
„Stofan verður formlega opnuð föstudaginn 15. maí klukkan 17 til 19 og laugardaginn 16. maí milli klukkan 14 og 18. Það eru allir velkomnir og þeir sem bóka myndatöku á staðnum fá 15% afslátt.
Ég hlakka til að sjá sem flesta og vona að Mosfellingar eigi eftir að nýta sér þá þjónustu sem ég býð upp á en einnig má geta þess að ég er með úrval af myndarömmum til sölu og get einnig sérpantað fyrir fólk,“ segir Ólína að lokum.

Mosfellsbær og heimsfaraldurinn – endurreisnin er hafin

Hjá Mosfellsbæ starfa um 800 manns og rúmlega 12.000 íbúar njóta daglega þjónustu frá meðal annars skólum, íþróttamiðstöðvum og þjónustustöð sem sér um að halda umhverfi bæjarins aðlaðandi og öruggu.
Áhrif heimsfaraldurs COVID-19 snerta okkur öll og nú er langþráð endurreisn hafin. Mosfellingur tók því hús á Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra til að fara yfir stöðuna eins og hún horfir við núna.

Neyðarstjórn og viðbragðsáætlun
Að sögn Haraldar unnu starfsmenn bæjarins í aðdraganda faraldursins útfrá viðbragðsáætlun sem miðar að því að kortleggja með hvaða hætti stjórnvöld geta tryggt órofinn rekstur bæjarins í aðstæðum eins og COVID-19 faraldrinum.
Neyðarstjórn bæjarins var virkjuð og í viðbragðsáætluninni er sérstök áhersla lögð á að starfsemi sem tengist viðkvæmum hópum eins og öldruðum, fólki með fötlun og þjónusta við börn, haldist órofin.
Í kjölfar samkomubanns og takmarkana á skólahaldi endurskipulögðu stjórnendur og starfsfólk leik- og grunnskóla undir forystu fræðslu- og frístundasviðs allt leik- og grunnskólastarf í bænum á einni helgi. Starfsmenn og íbúar unnu sem einn maður að því að láta starfsemina ganga upp og nutu við það stuðnings bæjarstjórnar í heild sinni.

Frestun fasteignagjalda
Bæjarstjórn hefur samþykkt sínar fyrstu aðgerðir í þágu íbúa sem felast meðal annars í frestun fasteignagjalda og lækkun þjónustugjalda. Þá felst annar hluti endurreisnarinnar í því að Mosfellsbær hefur ákveðið að efna til sérstaks átaks um sumarstörf fyrir ungmenni og námsmenn enda mikið atvinnuleysi nú sem stendur.
Á næstunni munu svo frekari aðgerðir líta dagsins ljós en gera má ráð fyrir því að tekjur sveitarfélagsins dragist verulega saman á sama tíma og útgjöld munu aukast og við því þarf að bregðast.

Þrautseigja og samstaða
„Það sem mér er efst í huga eftir reynslu síðustu vikna er þrautseigja starfsmanna og samstaða íbúa um að láta starfsemi á vegum bæjarins ganga upp í þeim takmörkunum sem leiddu af samkomubanni og höfðu þar af leiðandi áhrif á starfsemi bæjarins,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þá er gott að líta til þeirrar forystu, leiðsagnar og fumleysis sem einkennt hefur störf Almannavarna og sóttvarnalæknis. Við fengum í sameiningu flókið og erfitt verkefni sem ekki sér alveg fyrir endann á. Sá félagsauður sem við Mosfellingar búum yfir er að mínu mati dæmafár og gott að við getum sem samfélag nú sem fyrr sótt styrk í samstöðu, samvinnu, skilning og sanngirni á þeim sérstöku tímum sem við höfum upplifað.
Þetta er hægt af því að við njótum enn góðs af sterkum tengingum á milli fólks í okkar samfélagi. Þá hefur bæjarstjórn Mosfellsbæjar verið samstíga í sínum viðbrögðum sem vinnur með okkur öllum. Nú erum við komin að upphafi endurreisnarinnar sem ég tel að muni áfram kalla á sömu eiginleika og nýttust okkur svo vel í kófinu miðju.
Að þessu sögðu langar mig að hvetja alla íbúa til að gæta að þeim leiðbeiningum sem í gildi eru á hverjum tíma og njóta þess að ferðast inn í sumarið innanlands og ítreka þakkir mínar og annarra í bæjarstjórn til íbúa og starfsmanna.“

Kraftur hugans

Ég er farinn að nota hugarþjálfun í meira mæli en áður. Hugurinn ber mann hálfa leið. Hugarþjálfun er aldrei mikilvægari en á tímum þegar óvissa ríkir. Óvissan getur dregið úr manni kraft og orku, ef maður leyfir henni að taka völdin.

Hér er raunverulegt dæmi. Við erum að fara saman hópur til Austurríkis í september að taka þátt í Spartan Race keppni. Utanvegahindrunarhlaupi af bestu gerð. Við erum löngu búin að bóka gistingu og margir sömuleiðis búnir að kaupa flug. Allt saman vel fyrir covid. Staðan í dag er sú að hlaupið er enn á dagskrá og það er stefnt að því að það fari fram. Óvissuþættirnir eru ýmsir. Fer hlaupið fram á réttum tíma eða verður því frestað? Verður Icelandair enn starfandi? Verður hótelið farið á hausinn? Þurfum við að fara í sóttkví ef við komumst á staðinn? Þurfum við að fara í sóttkví þegar við komum heim? Og svo framvegis. Óvissuþættirnir eru fjölmargir.

En raunuveruleikinn er að það getur enginn leyst úr þeim akkúrat núna. Hvernig kemur hugurinn inn í þetta dæmi? Jú, við höfum ákveðið að einbeita okkur að því sem við getum haft stjórn á og hugsa sem minnst um hitt í bili. Við ætlum að undirbúa okkur eins og keppnin verði í september. Ætlum að æfa vel, passa mataræðið og almennt vel upp á okkur. Sjá fyrir okkur að við séum að fara í keppnina. Láta okkur hlakka til.

Tvennt getur síðan gerst. Keppnin verður haldin eða ekki. Ef hún verður haldin, þá förum við og njótum þess að hafa undirbúið okkur vel. Ef ekki, þá verðum við í toppformi í september og finnum okkur eitthvað annað skemmtilegt og krefjandi að gera. Til dæmis skella okkur í leitir og réttir og hlaupa upp um fjöll og firnindi á eftir léttfættum kindum. Plan B.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. maí 2020

Séra Bjarni á Mosfelli – Aldarminning

Þann 19. maí verður öld liðin frá fæðingu föður míns, séra Bjarna Sigurðssonar frá Mosfelli sem var sóknarprestur Mosfellinga í 22 ár. Hann setti sterkan svip á mannlíf sveitarinnar í sinni embættistíð og hyggst ég minnast hans í fáum orðum.

Menntavegurinn
Bjarni var Árnesingur að ætt, foreldrar hans voru bændur en móðir hans lést úr berklum árið 1930. Á þeim árum var ekki sjálfgefið að börn bænda gengju menntaveginn en honum tókst að afla fjár fyrir námskostnaði af miklum dugnaði, meðal annars stundaði hann blaðamennsku og vann við að leggja hitaveitulögnina frá Reykjum í Mosfellssveit til ört vaxandi höfuðborgar.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1942, lögfræðiprófi sjö árum síðar og embættisprófi í guðfræði árið 1954. Þá hafði hann stofnað fjölskyldu. Móðir mín hét Aðalbjörg Guðmundsdóttir,­ ættuð frá Norðfirði. Þau hófu búskap í bragga í Háteigskampinum í Reykjavík og eignuðust fimm börn.
Faðir minn tók vígslu sumarið 1954 þegar hann var kosinn sóknarprestur á Mosfelli, þangað flutti fjölskyldan og fyrsta prestsverk hans var að ausa undirritaðan vatni. Auk þess að þjóna í Lágafellssókn var hann prestur í Árbæjarsókn og Brautarholtssókn á Kjalarnesi um langt skeið og í nokkur ár í Þingvallasveit.

Nætursöngur að sumri
Árið 1954 var flest með öðrum brag í Mosfellshreppi en nú á dögum. Íbúar voru einungis um eitt þúsund, margir voru bændur og það var frekar fátítt að fólk sækti vinnu til Reykjavíkur.
Á þessum árum voru kýr á um tíu bæjum í Mosfellsdal og brúsa­pallar við sérhvern afleggjara. Foreldrar mínir ráku kúabú á Mosfelli og voru einnig með nokkrar kindur og hesta. Faðir minn sló túnin ævinlega að næturlagi og söng þá við raust til að yfirgnæfa drunurnar í ferguson-dráttarvélinni. Enn muna eldri Dalbúar söng hans sem bergmálaði í fellunum á björtum sumarnóttum.

Mosfellskirkja rís
Árið 1959 tóku safnaðarmálin í Mosfellssveit óvænta stefnu. Þá lést Stefán Þorláksson hreppstjóri í Reykjadal og samkvæmt erfðaskrá hans skyldi nota fé og fasteignir hans til að reisa kirkju á Mosfelli. Eldri kirkjan hafði verið rifin árið 1888 en kirkjuklukkan var varðveitt á Hrísbrú þar sem Stefán ólst upp.
Séra Bjarni hélt um alla þræði kirkjubyggingarinnar allt til vígsludags sem var 4. apríl 1965. Þessi einstaka saga varð kveikjan að Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness sem kom út fimm árum síðar.

Væntumþykja og hlýja
Séra Bjarni og Aðalbjörg voru gestrisin, glaðsinna og vinamörg, þau elskuðu lífið í öllum sínum margbreytileika og tóku þátt í gleði og sorgum sveitunga sinna af væntumþykju og hlýju. Faðir minn var mikill íslenskumaður og afar snjall ræðumaður, vel á 3. hundrað útfararræður eftir hann frá árabilinu 1954-1991 eru varðveitt í Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar.
Árið 1976 brugðu foreldrar mínir búi og fluttu í Kópavog. Bjarni hóf kennslustörf við guðfræðideild Háskóla Íslands, auk þess sem hann vann að doktorsritgerð um íslenskan kirkjurétt sem hann varði við háskólann í Köln árið 1985. Hann lést haustið 1991.

Sóleyjar í skurði
Þegar við systkinin vorum að alast upp á Mosfelli var það keppikefli okkar að færa pabba blóm á afmælisdegi hans. Oftast voru það fagurgular hófsóleyjar sem við fundum í einhverjum skurðinum.
Upp í huga minn koma orð úr Atómstöðinni; þegar Ugla heimsækir organistann í síðasta sinn segir hann: „Ég flyt í dag. Ég seldi húsið í gær.
Hvertu ferðu, sagði ég.
Sömu leið og blómin, sagði hann.
Og blómin, sagði ég. Hver hugsar um þau?
Blóm eru ódauðleg, sagði hann og hló. Þú klippir þau í haust og þau vaxa aftur í vor, – einhversstaðar.“

Enn kemur vor og enn verða tínd blóm handa ástvininum sem hvílir í kirkjugarði Dalsins. Það verður engum vandkvæðum bundið að finna þau blóm, hann skildi þau sjálfur eftir í hugskoti samferðarfólks síns.

Bjarki Bjarnason

Mosfellingur í sóttfrí

Í ljósi aðstæðna höfum við ákveðið að standa af okkur ástandið sem nú geisar og sitja hjá eina umferð að minnsta kosti. Því kemur ekki blað út í byrjun apríl… heldur með hækkandi sól.

Allt atvinnulíf er í hægangi, engir viðburðir vegna samkomubanns, óvissutímar og lítið almennt að frétta úr bæjarlífinu og auglýsa. Eins og flestir vita reiðum við okkur á auglýsendur til að standa undir kostnaði við útgáfuna og koma blaðinu frítt til ykkar.

Bæjarblaðið er boðberi jákvæðra og skemmtilegra frétta og vonandi sést brátt til sólar og við hlöðum í næsta tölublað.

Mosfellingur er á facebook og Instagram og munum við standa þar vaktina næstu vikur 🙂

Endilega verið dugleg að merkja okkur @mosfellingur í skemmtileg story á Instagram.

Áfram Ísland!

 

———————————-
Uppfært: Næsta blað kemur út 14. maí


Ný umhverfisstefna innleidd – stefna fyrir alla bæjarbúa

Bjartur Steingrímsson formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er fyrsta íslenska sveitarfélagið sem setur sér ítarlega umhverfisstefnu með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið með vinnunni er að setja fram stefnu um hvernig Mosfellsbær geti þróast á sjálfbæran og framsækinn hátt á næstu árum í samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Mosfellsbær lengi framarlega í umhverfismálum
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti árið 2001 fyrstu Staðardagskrá 21 í Mosfellsbæ, framkvæmdaáætlun um sjálfbært samfélag.
Ráðist var í endurskoðun á Staðardagskrá 21 árið 2008 og var þar um að ræða metnaðarfulla áætlun sem var sett fram í samráði við íbúa á sérstökum íbúafundi. Áætlunin var þrískipt, með framsetningu stefnumótunar um sjálfbært samfélag til ársins 2020, framkvæmdaáætlunar til lengri tíma byggða á stefnumótuninni og gerð árlegs verkefnalista í samráði við nefndir og yfirstjórn.

Stefna sem er einföld og aðgengileg fyrir íbúa
Mosfellsbær ákvað svo að endurskoða umhverfisstefnu Mosfellsbæjar í október 2017. Þá voru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna búin að taka við af Staðardagskrá 21 og þjóðir því búnar að samþykkja ný markmið um sjálfbærni.
Markmið við endurskoðuninni var að setja fram stefnu sem væri einföld og aðgengileg og unnin í samvinnu við íbúa, jafnframt því að vera metnaðarfull og raunhæf.

Þvert á kjörtímabil og samráð við íbúa
Lögð var áhersla á að vinna við endurnýjun stefnunnar væri fagleg og lýðræðisleg. Sú vinna var í höndum umhverfisnefndar Mosfellsbæjar og var það meðvituð ákvörðun að láta vinnu við stefnuna ná milli kjörtímabila, til að skapa betri sátt um verkefnið.
„Lögð var áhersla á samráð við íbúa og voru haldnir íbúafundir við upphaf vinnu og á seinni stigum verkefnisins. Einnig var leitað til ráðgjafa til að aðstoða við gerð stefnunnar,“ segir Bjartur Steingrímsson formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Í hverjum kafla umhverfisstefnunnar er gerð grein fyrir því hvaða kafla heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er sérstaklega horft til. Sérstaklega er horft til heimsmarkmiða sem snúa að sjálfbærni sveitarfélaga, skipulagi þeirra og uppbyggingu. Þá mun Mosfellsbær horfa til Heimsmarkmiðanna við endurnýjun aðalskipulags Mosfellsbæjar og annarra stefna sveitarfélagsins.

Metnaðarfull stefna sem hefur vakið athygli
„Ég fagna því að við séum að kynna umhverfisstefnuna fyrir bæjarbúum, enda stefna fyrir alla Mosfellinga,“ segir Bjartur.
„Umhverfismál eru eitt stærsta málefni samtímans og ég held að fleiri og fleiri séu að verða sammála um mikilvægi þeirra.
Við sömdum þessa stefnu þannig að hún væri læsileg, stutt og hnitmiðuð því við viljum að allir geti skilið hana, bæði unglingar og eldri borgarar.
Þessi vinna sýnir að Mosfellsbæ er umhugað um umhverfið sitt, en bæjarfélagið telst mjög framsækið í umhverfismálum. Við leggjum áherslu á að vernda náttúrunna og hvernig er hægt að nýta hana, njóta hennar og vernda. Það var mikill einhugur og stuðningur við að fara í þessa vinnu og gera hana í sem breiðastri sátt og það náðist ótrúlega vel.
Þetta er metnaðarfull stefna og með því róttækara sem bæjarfélag hefur sett fram og hefur hún vakið verðskuldaða athygli.

Smelltu hér til að skoða umhverfisstefnu Mosfellsbæjar

Ég nýt þess að skapa

Jón Þórður Jónsson tæknifræðingur býr til fallega og nytsamlega hluti úr trjám í bílskúrnum hjá sér.

Það kennir ýmissa grasa í Smiðju Jóns Þórðar í Byggðarholtinu en þar má finna ýmsa fallega hluti unna úr tré. Jón sem er afar handlaginn nýtur þess að skapa en efniviðinn sækir hann að mestu leyti í sinn eigin garð ásamt því að leita til vina og vandamanna.
Í gegnum árin hefur trésmíðavélum fjölgað í Smiðjunni sem þýðir meira úrval en megnið af hlutunum sem Jón býr til selur hann á sumrin í Handverkshúsi ASSA á Króksfjarðarnesi við Gilsfjörð.

Jón Þórður er fæddur í Reykjavík 26. september 1943. Foreldrar hans eru þau Lára Þóra Magnúsdóttir frá Dalasýslu og Jón Þórður Hafliðason frá Breiðafirði en þau eru bæði látin. Stjúpfaðir Jóns Þórðar var Hans Rudolf Andersson.
Jón á tvær hálfsystur, þær Ellen Heklu og Karin.

Fóru hinar ýmsu krókaleiðir
Fyrsta heimili Jóns Þórðar var á Baldursgötu en eftir að faðir hans lést 1944 þá flutti hann ásamt móður sinni að Njálsgötu. Fyrstu minningar Jóns frá þessum tíma voru ferðalögin til afa og ömmu á Hverfisgötu sem voru oft þyrnum stráð. Hættulegir hundar á leiðinni, hávaði frá loftpressum og menn að brjóta upp götur svo það þurfti oft að fara hinar ýmsu krókaleiðir.
Á þessum tíma eignast hann stjúppabba og tvær systur og voru þær breytingar mjög spennandi. Árið 1947 fluttist fjölskyldan að Heimalandi við Vatnsenda í Kópavogi. Þar bjó Jón öll sín æsku- og unglingsár.

Veiddu silung í Elliðavatni
„Það var gott að vera barn og unglingur á Heimalandi, enda í hálfgerðri sveit. Þar voru hænsn, endur, gæsir, hundur og einn hrútur á tímabili. Það voru ræktaðar kartöflur og allar helstu grænmetistegundir og svo var veiddur silungur á sumrin í Elliðavatni.
Á svæðinu við Vatnsenda voru margir sumarbústaðir og krakkahópurinn því stór svo ekki vantaði leikfélaga. Þegar ég var 9 ára fór ég í sveit á Litla-Múla í Saurbæ og síðar í Túngarð á Fellsströnd og á góðar minningar þaðan.“

Þeir kenndu okkur krökkunum að læra
„Í upphafi voru litlar sem engar samgöngur á svæðinu og því erfiðleikum bundið að komast í skóla svo ég fór því ekki í hann fyrr en ég varð átta ára. Rétt við Elliða­vatnsstífluna voru tveir vaktmenn, þeir Bjarni og Ólafur, en þeir bjuggu í litlu húsi við stífluna. Þetta voru heiðursmenn því þeir leiðbeindu okkur krökkunum í lestri, skrift og reikningi áður en við byrjuðum í skólanum.“

Lauk námi í rennismíði
Fyrsti skólinn á skólagöngu Jóns var Kársnesskóli í Kópavogi en þangað fóru krakkarnir með skólabíl. Síðan fór Jón í Langholtskólann en lauk fullnaðarprófi í Miðbæjarskólanum í Reykjavík. Gagnfræðanámið sótti Jón í Réttarholtsskóla og Verknámsskólann í Brautarholti. Hann lauk námi í rennismíði frá Iðnskólanum í Reykjavík og Vélsmiðjunni Héðni árið 1964. Jón var eitt sumar í búnaðarskóla í Hammenhög á Skáni í Svíþjóð.
Á skólaárunum starfaði Jón við hin ýmsu störf, hann seldi blöð, var sendill, var á sjó, vann við pökkun og í byggingar- og fiskvinnu.

Fluttu til Svíþjóðar
Árið 1961 kynntist Jón Þórður Sigrúnu Stellu Guðmundsdóttur sjúkraliða. Þau giftu sig 27. apríl 1963. Fyrsta heimili þeirra var í Snekkjuvogi í Reykjavík en svo fluttu þau hjónin að Elliðavatni í Kópavogi en þar bjuggu afi og amma Stellu. Meðan þau bjuggu þar fæddist fyrsta barn þeirra, Sigrún Brynja, en hún er fædd 1964.
Um haustið sama ár fluttist fjölskyldan búferlum til Svíþjóðar til Boxholm í Austur-Gautlandi en þar bjó Lára móðir Jóns. Árið 1965 fluttust þau svo til Sandby Egendom sem er sveitasetur nálægt Vadstena en þar hafði Jón fengið starf sem vélaumsjónarmaður. Á meðan þau bjuggu á Sandby fæddust drengirnir þeirra, Hafliði 1967 og Kristján 1970.
Eftir 5 ára veru þar hóf Jón nám í tæknifræði við Motala Tekniska Aftonskola í Motala og lauk því árið 1971. Jón hóf síðan störf sem tæknifræðingur hjá Luxor Radio.

Byggðu sér hús í Mosfellsbæ
Árið 1972 flutti fjölskyldan heim aftur og bjuggu þau þá fyrst í Reykjavík en fluttu síðan í Reykjahlíð í Mosfellsdal á meðan þau byggðu sér hús í Byggðarholtinu en þangað fluttu þau 1975.
Jón hóf störf hjá Velti, Volvo umboðinu á Íslandi, en árið 1977 réði hann sig til starfa hjá Íslenska álfélaginu, ISAL. Jón lét af störfum árið 2009.

Stofnaði kór í Straumsvík
Jón hefur verið mikið í félagsmálum í gegnum tíðina. Hann starfaði með Björgunarsveitinni Kyndli í Mosfellsbæ og var þar einnig í stjórn. Hann var einnig félagi í Karlakórnum Stefni og Lionsklúbbi Mosfellsbæjar.
Jón er nú félagi í kirkjukór Lágafellssóknar en var áður starfandi í sóknarnefndinni. Hann var í stjórn FaMos og svo syngur hann með kór aldraða, Vorboðunum.
Jón stofnaði Álkórinn, kór starfsmanna ISAL í Straumsvík 2003 en hann starfaði í 5 ár.

Smiðja Jóns Þórðar
„Þegar ég varð sjötugur fékk ég trérennibekk að gjöf frá fjölskyldunni og síðan þá hef ég verið að renna og smíða úr tré. Ég lærði rennismíði á sínum tíma og ég nýt þess að skapa.
Ég hef smíðað alls konar fugla, bauka, vasa og kertastjaka en efnið hefur verið að mestu alls konar tré úr garðinum okkar. Vinir og vandamenn hafa líka gefið mér efni úr görðum og skógum. Ég vinn t.d. úr gullregni, birki, furu, linditré og fleiru. Í gegnum árin hefur trésmíðavélum fjölgað í Smiðjunni og nú er ég farinn að gera líka brauð- og ostabretti.
Fólk hefur verið að kíkja hingað til mín í bílskúrinn og versla og það er bara gaman að því. Hægt er að skoða hlutina mína á Facebook undir Smiðja Jóns Þórðar.
Á sumrin förum við hjónin með hlutina mína vestur á Króksfjarðarnes við Gilsfjörð en þar er Handverkshúsið ASSA, við seljum megnið af þeim þar.“

Njóta lífsins í Flatey
„Við Stella höfum ferðast nokkuð mikið í gegnum árin, fyrst í tjaldi, svo A-hýsi en nú erum við búin að fá okkur húsbíl og erum í ferðafélagi sem heitir Ferðavinir.
Við höfum verið eigendur að Myllustöðum í Flatey á Breiðafirði ásamt frændfólki mínu síðan 1997 og eigum þar tíundu hverja viku í húsinu. Við eigum gúmmíbát með 30 hestafla mótor sem við tökum með þegar við förum vestur. Það er mikið farið út á bátnum til að veiða og þá aðallega þorsk og aflinn dugar okkur Stellu allt árið.
Fjölskyldan og vinir hafa verið dugleg að mæta með okkur og við njótum lífsins á þessari dásamlegu eyju, það er hreinlega hvergi betra að vera,“ segir Jón Þórður að lokum.

Mosfellingurinn 12. mars 2020
ruth@mosfellingur.is