Óskar Einarsson bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2020

„Þetta er fyrst og fremst frábær heiður að hljóta þessa viðurkenningu og er ég mjög þakklátur og snortinn,“ segir tónlistarmaðurinn Óskar Einarsson, bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2020.
Það er menningar- og nýsköpunarnefnd sem stendur fyrir útnefningunni líkt og síðastliðin 25 ár.
Óskar er fæddur á Akureyri en hefur verið búsettur í Mosfellsbæ síðan árið 2003 og segist hvergi annars staðar vilja vera.
Hann stundaði píanó- og saxófónnám við tónlistarskólann á Akureyri, stundaði nám við FÍH og lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1995. Hann hefur lokið mastersgráðu í útsetningum frá University of Miami. Auk píanóleiks og kórstjórnar leikur hann á flautu, saxófón og klarinett.

Þekktastur fyrir gospeltónlist
Gospeltónlist er sú tegund tónlistar sem Óskar er þekktastur fyrir. Hann var stofnandi og stjórnandi Gospelkórs Reykjavíkur og hefur verið tónlistarstjóri Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík í um 30 ár. Hann starfar sem tónlistarstjóri í Lindakirkju í Kópavogi og stýrir þar öflugum kirkjukór sem heldur reglulega gospeltónleika.
Óskar lét ekki sitt eftir liggja í COVID-19 bylgjunni í vor og stóð fyrir viðburðinum Hittumst heima ásamt félögum sínum í Gospeltónum.
Óskar Einarsson er öflugur tónlistarmaður sem hefur komið víða við og er vel að heiðrinum kominn.
„Ég man fyrst eftir að hafa séð mynd af mér í blaði, eins árs gömlum, við píanóið heima þar sem stóð „Litli píanósnillingurinn“. Þar byrjaði þetta. Svo hef ég verið í tónlistarnámi frá því ég man eftir mér, hlustað á músík og unnið við þetta alla ævi.“
Dagarnir hjá Óskari eru mjög fjölbreyttir. „Ég spila í brúðkaupum, útförum og sé um tónlist í sjónvarpi, leikhúsunum og auðvitað í kirkjunni.“
Óskar hefur fylgst með blómlegu kóralífi í Mosfellsbæ og meðal annars útsett og stjórnað tónleikum með Karlakórnum Stefni og verið með tónleika með Álafoss­kórnum. Þá hefur hann fengið sinn kór, Gospelkór Reykjavíkur, til að halda tónleika hér auk þess sem hann hefur margoft spilað með mosfellskum listamönnum eins og Gretu Salóme og Diddú.

Kynnir sig og verk sín á næstunni
Á því ári sem bæjarlistamaður er tilnefndur kynnir hann sig og verk sín innan Mosfellsbæjar í samvinnu við menningar- og nýsköpunarnefnd. Auk nafnbótarinnar er listamanninum veittur menningarstyrkur.
„Ég er strax búinn að undirstinga mitt fólk með að gera eitthvað skemmtilegt hér í Mosfellsbæ á næstunni og fæ jafnvel Pál Rósinkrans með mér í einhver verkefni,“ segir Óskar að lokum og hafði aldrei hugsað svo langt að maður eins og hann, á bakvið tjöldin, væri vel að slíkri viðurkenningu kominn.