Þoli illa tvíverknað og tilgangsleysi

Ítalski Mosfellingurinn Michele Rebora eða Tittí eins og hann er ávallt kallaður flutti til Íslands árið 2001 en hann er alinn upp í þorpi nálægt Genova.
Það var aldrei ætlun hans að flytja frá heimalandi sínu en eftir að hann hitti bláeygða draumadís frá Laugarvatni var hann fljótur að slá til.
Þau hjónin hafa komið sér vel fyrir í Mosfellsbænum og eru orðin fjórum börnum ríkari.

Michele fæddist 20. október 1978 í heimahúsi í Sant’Olcese sem er lítill bær rétt fyrir utan Genova á Ítalíu. Foreldrar hans eru þau Alessandra Toni húsmóðir og Luigi Rebora líffræðingur, verktaki á sviði vatnshreinsunarstöðva.
Michele á einn bróður, Vittorio f. 1977.

Með villisvín og dádýr í bakgarðinum
„Það má segja að ég sé alinn upp í sveit þótt það hafi ekki sömu merkingu og hér á landi. Ég bjó ekki á bóndabæ þar sem voru stórgripir en húsið okkar var hluti af strjálbýlu þorpi í fjallshlíðunum á bak við Genova. Það er umkringt skógi og túnum og við vorum með villisvín og dádýr í bakgarðinum. Föðurfjölskylda mín á rætur sínar að rekja til þessara slóða langt aftur í aldir.
Ég á stóran frændsystkinahóp þannig að það var alltaf nóg að krökkum til að leika við.“

Ólumst upp við frjálsræði
„Við bræðurnir ólumst upp við frjálsræði, við vorum berfættir frá skólalokum í júní til septemberloka. Við hlupum um í skóginum, svömluðum í ám og bjuggum til ævintýraheima.
Það var ekki búið að finna upp snjall­símana á þessum tíma og lítið var af tölvuleikjum en það voru til svona stórir spilakassar sem gleyptu 500 lírur eins og enginn væri morgundagurinn.“

Innleiddi pappírsflokkun
„Ég gekk í sveitaskólann í bænum og við vorum einungis fimm í fyrsta bekk. Ég elskaði kennarann minn hana Marisu og ég tíndi oft blóm handa henni.
Mér gekk vel í skólanum og átti auðvelt með að læra. Það er gaman að segja frá því að í þriðja bekk innleiddi ég pappírsflokkun í skólanum með aðstoð pabba sem sá um að tæma tunnurnar.
Ég fór svo í gagnfræðaskóla í Campo­morone sem er höfuðstaður sveitarfélagsins og ég man hvað mér fannst hann vera langt í burtu. Ég var vinamargur og mjög virkur í félagslífinu, það mætti jafnvel segja að ég hafi verið fyrirferðarmikill,“ segir Tittí og brosir.

Heimurinn stækkaði til muna
„Þegar ég var 14 ára gekk ég í latínuskóla í Genova og heimurinn stækkaði til muna. Maður vaknaði eldsnemma til að fara í skólann, fór smá spöl á vespu, svo í rútu, síðan í lest og svo gekk maður restina af leiðinni. Ég kynntist nýjum krökkum sem ég held enn sambandi við í dag, þar á meðal Fabio sem er minn besti vinur en hann hefur búið á Íslandi í 16 ár.
Ég lét strax til mín taka í skólapólitíkinni, ég var fyrst kosinn bekkjarfulltrúi og svo fulltrúi nemanda í skólaráði. Ólga var í skólasamfélaginu á þessum árum og mikið um kröfugöngur og verkföll sem við tókum iðulega þátt í. Haustið sem ég var í 2. bekk yfirtóku nemendur skólann og þar réðu þeir ríkjum í um tvær vikur. Það er skrítið til þess að hugsa núna en þetta var merkileg reynsla.
Leiðin lá síðan í háskólann í Genova þar sem ég nam alþjóðleg stjórnmálafræði.“

Sendi mömmu og vinkonu á svæðið
„Fjölskylda mín á hús í fjöllunum heima og þar eyddum við vinirnir oft helgunum, sérstaklega eftir að við fengum vespu 16 ára gamlir. Við grínuðumst oft með það þegar bankað var á dyrnar hjá okkur að nú væri kominn hópur af sænskum skátastelpum.
Eitt sinn þegar við vorum að ganga upp að fjallakofanum spurði ég vin minn hvort hann vissi hvort fleiri ætluðu að koma. Hann nefndi einn og svo annan sem ég þekkti ekki. Sá gat ekki komið og ætlaði að senda mömmu sína og vinkonu hennar í staðinn. Frábært, hugsaði ég, fertugur maður sem kemst ekki og ætlar að senda þær tvær í staðinn, það verður eitthvað,“ segir Tittí og hlær að minningunni.
„Það kom svo á daginn að þessi vinkona var í raun undurfögur tvítug pía, ljóshærð og bláeygð og ég féll strax fyrir henni. Hún var sem sagt í heimsókn hjá vinkonu sinni og ég varð að leggja mig allan fram til að vinna hana á mitt band. Hún var nefnilega staðráðin í því að finna sér ekki mann á Ítalíu. Seiglan og þrautseigjan urðu til þess að við byrjuðum saman og ég elti hana til Íslands sumarið 1999.“

Tek kveðjuna góðu alltaf til mín
„Fyrstu tvö árin bjuggum við og störfuðum hér á landi á sumrin en vorum svo úti í Genova á veturna. Við fluttum síðan alfarið heim 2001. Heim, segi ég, því hér á ég heima, ég hef alltaf tekið kveðjuna góðu til mín um borð í flugvélum Icelandair þegar sagt er velkomin heim.
Draumadísin mín er frá Laugarvatni, heitir Heiða Björg Tómasdóttir og starfar sem ráðgjafi. Við eigum saman fjögur börn, Aldísi Leoní f. 2004, Elio Mar f. 2007, Þórdísi Láru f. 2012 og Livio Frey f. 2015.“

Vaskar upp og lætur leirtauið þorna
„Ég hóf störf sem gæðastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs í febrúar á þessu ári, korter í COVID. Það var mjög spes þar sem vinnustaðurinn dreifðist mjög fljótt og allir fóru að vinna heima. Ákveðin áskorun að byrja á nýjum stað svona en þarna er mjög gott að vera.
Ég starfaði áður í 14 ár sem ráðgjafi í gæðastjórnun. Aðstoðaði aðallega fyrirtæki við að greina ferli sín og undirbúa sig fyrir vottun en líka varðandi umhverfismál, upplýsingaöryggi, jafnréttismál o.s.frv.
Ég þoli illa tvíverknað og tilgangsleysi og hef því gaman af því að velta fyrir mér leiðum til að einfalda hlutina og spara vinnu. Eins og í daglega lífinu, t.d varðandi uppvaskið, þá vaskar maður upp og lætur svo leirtauið þorna en þurrkar það ekki.“

Nýt þess að vera úti í náttúrunni
„Ég hef líka gríðarlegan áhuga á umhverfismálum og þá helst „ruslinu“. Í gegnum starf mitt sem ráðgjafi hef ég m.a. fengið tækifæri til að hafa áhrif og hef tekið þátt í heildarendurskoðun á flokkunarreglum fyrir höfuðborgarsvæðið og framsetningu þeirra á vef SORPU.
Ég nýt þess að vera úti í náttúrunni og finnst æðislegt að komast í „óbyggðir“ með því að ganga í nokkrar mínútur að heiman. Ég er virkur í bæjarmálunum og líka í samfélagi Ítala hér á landi og læt mig málin varða.
Ég er líka nokkuð óvirkur sportkafari og nokkuð virkur mynt- og seðlasafnari svo ég hef alltaf nóg að gera,“ segir Tittí er við kveðjumst.