Handbolti.is kominn í loftið

Ívar Benediktsson og Kristín Reynisdóttir láta hendur standa fram úr ermum.

Þann 3. september opnaði vefurinn Handbolti.is. Vefurinn er gefinn út af Snasabrún ehf, sem er í eigu Mosfellinganna Ívars Benediktssonar blaðamanns og Kristínar B. Reynisdóttur sjúkraþjálfara.
Ívar er ritstjóri og ábyrgðarmaður. Hann var í hartnær aldarfjórðung íþróttafréttamaður hjá Morgunblaðinu og mbl.is og fylgdist á þeim tíma grannt með handknattleik, jafnt innanlands sem utan.

Öflugur fréttaflutningur af handbolta
„Það urðu breytingar í vinnu hjá mér, mér var sagt upp störfum hjá Morgunblaðinu og þar af leiðandi var ég atvinnulaus. Það höfðu margir haft á orði við mig að fara af stað með miðil tengdan handboltanum og ætli mig hafi ekki bara alltaf vantað þor til þess að stíga þetta skref,“ segir Ívar.
„Handbolti.is mun halda úti öflugum fréttaflutningi af handknattleik, bæði innanlands og utan, af þeirri íþrótt sem hefur sameinað þjóðina á ótal gleðistundum í gegnum tíðina.“
„Auk fregna af innlendum og erlendum vettvangi og landsliðum Íslands í öllum aldursflokkum er ætlunin að vera með fingur á púlsi fjölmenns hóps íslensks handknattleiksfólks og þjálfara sem starfa utan landssteina Íslands. Og ekki stendur til að gleyma dómurunum.
Handbolti.is verður opinn fyrir skoðunum þeirra sem að íþróttinni koma og vilja viðra á opinberum vettvangi. Ýmislegt fleira er í bígerð,“ segir Ívar en vefinn hannaði Daníel Rúnarsson hjá Kasmir vefhönnun og merki vefjarins teiknaði Mosfellingurinn Pétur Baldvinsson.

Góðar viðtökur
Vefurinn hefur fengið frábærar viðtökur en um þessar mundir er allt að fara í gang í handboltanum. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð, erum að fá skilaboð og pósta frá fólki úr öllum áttum sem er þakklátt fyrir þetta framtak og vilja jafnvel leggja vefnum lið á margan hátt allt frá því að kaupa auglýsingar, skaffa mér myndir og aðstoða mig á allan hátt.
Það er okkur mjög mikilvægt að fá þessi viðbrögð og hvetur okkur til dáða að halda áfram. Auk þess að vera með vefsíðuna þá erum við líka á Instagram, Twitter og Face­book,“ segir Ívar að lokum og hvetur alla sem áhuga hafa á handbolta til að fylgjast með.