Veitir innsýn í líf fólks af erlendum uppruna

Mikael Rafn Steingrímsson varaformaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar, Jewells Chambers og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2020 hlýtur Mosfellingurinn Jewells Chambers. Jewells er fædd og uppalin í Brooklyn í New York en flutti hingað til Íslands árið 2016. Hún er gift Gunnari Erni Ingólfssyni og búa þau saman hér í Mosfellsbæ. Jewells er verkfræðingur að mennt frá Rensselaer Polytechnic Institute og starfar sjálfstætt í dag.

Vekur athygli á kynþáttahyggju og fordómum
Jewells hefur vakið athygli á kynþáttahyggju og fordómum sem byggjast á hörundslit fólks hér á Íslandi. Hún hefur meðal annars tekið áhugaverð viðtöl við einstaklinga sem eru af erlendu bergi brotnir, þar sem upplifun af því hvernig það er að tilheyra minnihlutahópi á Íslandi er lýst. Til að mynda vakti YouTube myndband þar sem hún og Tabitha Laker deila upplifun sinni af því hvernig er að vera þeldökkur einstaklingur á Íslandi mikla athygli á meðal almennings.
Jewells er afar virk á samfélagsmiðlum (Instagram, YouTube og Facebook) þar sem hún veitir innsýn inn í líf fólks af erlendum uppruna. Hún heldur úti heimasíðunni From Foreign to Familiar og er einnig með podcastið All Things Iceland. Mosfellingar eru hvattir til að fylgjast með öllu því áhugaverða sem hún er að gera.

Uppbyggilegt og réttlátt samfélag fyrir alla
Mosfellsbær fagnar fjölbreytileikanum og leggur áherslu á að stuðla að uppbyggilegu og réttlátu samfélagi fyrir alla, óháð uppruna. Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa Mosfellsbæjar sem og aðra til að gera slíkt hið sama.
Gerum jafnréttismálum hátt undir höfði og verum meðvituð um að koma fram við alla af virðingu, jákvæðni og umhyggju. Jewells sýnir aðdáunarverða framsækni og framlag hennar til okkar samfélags er mjög mikilvægt.

RAFRÆNN JAFNRÉTTISDAGUR

Vegna samkomutakmarkana ákvað lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar að jafnréttisdagur Mosfellsbæjar yrði rafrænn í ár.
Þar sem mikil umræða hefur skapast undanfarið um kynþáttafordóma og kynþáttahatur hérlendis og erlendis fannst nefndinni áhugavert að heyra hvernig einstaklingar af erlendum uppruna upplifa þessi mál.
Lýðræðis- og mannréttindanefnd fékk þær Aldísi Amah Hamilton, leikkonu og Sunnu Söshu Larosiliere, stjórnmálafræðing, til að segja frá því hvernig þær upplifðu það að alast upp hér á landi og hvar skórinn kreppir þegar kemur að fordómum.
Viðtölin við Aldísi og Sunnu og afhending jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2020 verða birt á samfélagsmiðlum Mosfellsbæjar; mos.is, á Instagram- og facebook síðu Mosfellsbæjar og Instagram síðu Mosfellings.
Lýðræðis- og mannréttindanefnd hvetur Mosfellinga eindregið til að fylgjast með því sem þær hafa að segja. Áhugasamir geta fylgst með þessum flottu konum
á samfélagsmiðlinum Instagram: @aldisamah og @sunnasasha