Opna ilmbanka íslenskra jurta

Í júní opnaði í Álafosskvosinni ilmsýningin Ilmbanki íslenskra jurta og lítil búð sem selur ýmsar vörur sem unnar eru úr íslenskum jurtum.
Það eru þær Elín Hrund Þorgeirsdóttir og Sonja Bent sem standa að baki sýningunni en þær hafa unnið saman síðastliðin þrjú ár og reka saman fyrirtækið Nordic angan.
„Við höfum verið að vinna að rannsóknarverkefni á ilmum í íslenskri náttúru síðastliðin tvö ár og er sýningin afrakstur þeirrar vinnu. Sýningin hefur fengið góðar viðtökur og er komin til að vera áfram,“ segir Elín. Sýningin er opin allar helgar, aðgangseyrir er 1.200 kr. en frítt fyrir 16 ára og yngri.

Frábært að vera í Kvosinni
„Við erum rosalega ánægðar með að vera hér Álafosskvosinni en hér erum við bæði með sýninguna og vinnustofuna okkar. Við vinnum með íslenskar jurtir, eimum úr þeim ilmkjarnaolíur og hönnum ilmtengdar vörur. Svo umhverfið hérna smellpassar við okkar starfsemi.
Það er búið að vera mjög áhugavert að vinna að þessari rannsókn því það er sterk hefð fyrir því á Íslandi að nota jurtirnar okkar á ýmsan hátt en engin hefð fyrir því að eima úr þeim ilmkjarnaolíur.
Við höfum unnið að því að rannsaka hvaða jurtir er hægt að eima og hvaða virkni er í olíunum. En svo fórum við líka að vinna með þær jurtir sem ekki var hægt að eima og reyna að ná ilmi út þeim líka.“

Leikið með lyktarskynið
Sýningin er fallega uppsett en þar getur fólk lyktað af ýmsum íslenskum jurtum og trjám á skemmtilegan og aðgengilegan hátt. Einnig er svokölluð ilmsturta sem þær stöllur hönnuðu og kynntu á Hönnunarmars í fyrra en um er að ræða tæki sem gefur frá sér kalda þurrgufu með íslenskum ilmkjarnaolíum.
„Við erum rosalega ánægðar með útkomuna og viðbrögð, það er greinilegt að þessi nýjung með ilmupplifum og jafnvel tengsl á milli lyktar, tilfinninga og minninga er eitthvað sem fólki finnst áhugavert.
Það er alltaf að aukast að við séum að taka á móti hópum s.s. vinkonuhópum, saumaklúbbum, vinnustöðum og öðrum hópum. Við getum boðið upp á leiðsögn um sýninguna og jafnvel léttar veitingar. Best er að hafa bara samband við okkur til að bóka heimsókn fyrir hópa,“ segir Elín að lokum og býður alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.