Fulli gaurinn í partýinu

Covid er orðið eins og fulli gaurinn með endalausa úthaldið í partýinu sem átti að vera löngu búið, vill ekki hætta, vill ekki fara. Við komum gaurnum ekki út, hann er þarna og við þurfum að sætta okkur við það. Hann fer einhvern tíma, en bara þegar honum sýnist.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt á svona tímum eru einfaldar venjur sem láta manni líða vel. Þessar venjur vilja gjarna verða út undan á erfiðum tímum. En skipta virkilega máli. Ég gleymi venjunum stundum. Átta mig svo á því þegar ég finn þær aftur og kem þeim inn í daglega rútínu, hvað þær gefa mér mikið. Ég fann til dæmis DuoLingo aftur í gærmorgun, hafði „gleymt“ því að opna það og æfa mig í tungumálum. Hafði verið að vinna mikið í þýsku til þess að geta bjargað mér í Ölpunum, en þar átti ég að vera í síðasta mánuði með föngulegum félögum að keppa í Spartan Race. Ég hafði gaman af þýskunni, en spænskan er alltaf uppáhaldið og það var virkilega góð stund þegar ég opnaði Duo í gær og skellti mér í nokkrar umferðir í spænsku. Duo tók vel á móti mér, ég rifjaði upp spænska nútíð og leið vel á eftir.

Ég fór líka í morgungöngu, ekki á fell, heldur bara stuttan hring í hverfinu. Fylgdi þeim yngsta áleiðis í skólabílinn og rölti svo meðfram ánni og aftur heim. Gerði þetta aftur í morgun. Þessi byrjun á degi, smá Duo og stutt ganga er töfralyf þegar fulli gaurinn neitar að fara úr partýinu. Maður steingleymir honum á meðan, hann skiptir engu máli. Og þessar einföldu venjur gefa manni stóran orkuskammt sem endist langt fram á dag. Þá er gott að eiga eina eða tvær góðar venjur í pokahorninu til að endurnýja orkuna fram á kvöld.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. október 2020