Kjóll með sögu

Þann 22. ágúst fermdist Eydís Ósk í Lágafellskirkju ásamt fleirum krökkum úr bæjarfélaginu. Það er skemmtilegt að segja frá því að kjóllinn sem hún var í við þessa hátíðlegu athöfn hefur áhugaverða sögu að baki en þetta er í fjórða skipti sem þessi kjóll er notaður við stórviðburð í fjölskyldunni.
Kjóllinn var upphaflega saumaður árið 1969 sem brúðarkjóll á Ingigerði Magnúsdóttur sem gekk í hjónaband með Sigurhans Wium það sama ár. Dóttir þeirra Rakel Katrín fermdist svo í kjólnum árið 1993 og báðar dætur hennar, þær Ásta Margrét sem fermdist 2013 og svo Eydís Ósk 2020.

Skemmtilega sígildur kjóll
„Soffía Þórðardóttir sem átti verslunina Kjóllinn sérsaumaði þennan kjól á mig, en hún var afasystir mannsins míns. Kjóllinn er svo skemmtilega sígildur,“ segir Ingigerður sem er ánægð með hvað dóttir hennar og barnabörn hafa verið spenntar fyrir að nota kjólinn.
Rakel tekur undir það og segist ekki hafa fundið neitt sem hana langaði í þegar hún var að spá í kjóla fyrir ferminguna sína. „Ég byrjaði því að gramsa í skápunum hjá mömmu og fann þennan kjól og mátaði. Eftir það kom aldrei neitt annað til greina en að fermast í þessum kjól. Það var svo sama sagan þegar Ásta dóttir mín fermdist, hún skoðaði ekki einu sinni aðra kjóla,“ segir Rakel.
„Í fermingarveislunni hjá Ástu var mikið verið að tala um kjólinn og sögu hans. Eydís var þá 6 ára og sagði strax að hún ætlaði sko líka að fermast í þessum kjól. En kjóllinn er alveg sérstaklega fallegur, klassískur og sniðið er alveg tímalaust,“ segir Rakel að lokum en Eydís dóttir hennar fermdist í kjólnum góða í Lágafellskirkju síðastliðinn sunnudag.