Krefjast lengri opnunartíma

Margir fastagestir sækja Lágafellslaug í Mosfellsbæ enda ein flottasta sundlaug landsins. Hópur fastagesta hittist þar á hverju kvöldi og fer yfir málin. Eftir sund og gufu leggur hópurinn á ráðin yfir engiferskoti í anddyri laugarinnar. „Við erum Mosfellingar og þverskurður samfélagsins á aldrinum 20-80 ára,“ segir Guðmundur Björgvinsson, Makkerinn, einn meðlima sundhópsins.

Hátt í þúsund undirskriftir komnar
Hópurinn hóf að safna undirskriftum í sumar fyrir lengri opnunartíma í Lágafellslaug. Undirskriftarsöfnunin gengur út á að hafa opið alla daga vikunnar til kl. 22:00, einnig um helgar. Lauginni er nú lokað kl. 21:30 á virkum dögum og kl. 19:00 um helgar.
„Opnunartími í Lágafellslaug er styttri en alls staðar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og á flestum sundstöðum er opið til kl. 22:00 alla daga.“
Rafræn undirskriftasöfnun á island.is stóð yfir frá 17. júní til 17. júlí. Einnig voru undirskriftalistar aðgengilegir á N1 í Mosfellsbæ á þessum tíma. Í ljósi COVID taldi hópurinn að rétt væri að bíða með að afhenda listann til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Enn er hægt að ljá málefninu lið með því að skrifa undir listann á N1, bókasafninu og í Lágafellslaug. Stefnt er að því að afhenda bæjarstjórn listann þann 15. september.

Heilsueflandi og stækkandi samfélag
„Aðstaðan í Lágafellslaug er ein sú besta á Íslandi og það er okkar einlæga ósk að opnunartíminn verði lengdur“, segir Guðmundur sem segir hópinn hafa fengið afar góðar undirtektir.
„Á þessum sérstöku COVID-tímum, þar sem fjöldatakmarkanir eru í heitum pottum og í gufuklefum, er lengri opnunartími enn mikilvægari en áður,“ bætir Svavar Benediktsson við. „Það gengur ekki upp að Mosfellingar þurfi að búa við lakari þjónustu en aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er krafa Mosfellinga að opnunartími Lágafellslaugar verði færður til samræmis opnunartíma annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta hefur félagslegt gildi og er gott fyrir sálina í okkar ört stækkandi og heilsueflandi samfélagi.“

Fyrsta afhending úr Klörusjóði

Tanja, Málfríður, Kristín, Alfa, Lísa skólastjóri Lágafellsskóla og Kolbrún formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar.

Í lok júní voru afhentir styrkir úr Klörusjóði en markmið Klörusjóðs er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ.
Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni sem unnin eru í einstökum skóla eða í samstarfi á milli skóla og var í ár lögð áhersla á verkefni á sviði upplýsinga-og tæknimála. Alls bárust 10 styrkumsóknir frá leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar.

Til heiðurs Klöru Klængsdóttur
Nafn sjóðsins, Klörusjóður, er til heiðurs Klöru Klængsdóttur (1920-2011). Klara útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands árið 1939 og hóf sama ár kennslu við Brúarlandsskóla. Hún starfaði alla sína starfsævi sem kennari í Mosfellsbæ.
Afhending styrkja fór fram í Listasalnum og hlutu eftirfarandi verkefni hlutu styrk 2020:
Útikennsla (Alfa Regína Jóhannsdóttir)
Stærðfræði- og forritunarkennsla (Málfríður Bjarnadóttir og Tanja Stefanía Rúnarsdóttir)
Íslenska í Classroom (Árni Pétur Reynisson)
Lestrarkorts app, smáforrit (Kristín Einarsdóttir)

Ég er algjört félagsmálafrík

Svala Árnadóttir er kraftmikil kona sem vill leggja sín lóð á vogaskálarnar til að koma hlutum í framkvæmd. Hún hefur verið virk í margs konar félagsstarfi í gegnum tíðina sem hún segist hafa haft mikla unun af og er hvergi hætt þótt komin sé á besta aldur.
Í dag sækir hún fundi hjá Rótarýklúbbi Mosfellsbæjar, situr í öldungaráði bæjarins og svo hefur hún mikinn áhuga á að stofnað verði hollvinafélag fyrir hjúkrunarheimilið Hamra. Á milli funda nýtur Svala lífsins með börnum sínum og barnabörnum.

Svala er fædd í Hveragerði 5. janúar 1945. Foreldrar hennar eru þau Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja og Árni Sigfússon bóndi og garðyrkjubóndi. Svala á tvö systkini, Karólínu f. 1947 og Sigfús Ægi f. 1954.

Náði gamla tímanum í sveitinni
„Ég ólst upp á bæ rétt hjá Laugarvatni sem heitir Böðmóðsstaðir. Ég náði gamla tímanum í sveitinni en foreldrar mínir hófu búskap út frá búi afa míns og ömmu.
Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hélt hita í eldhúsinu og það var ekkert heitt vatn svo það þurfti því að þvo þvottinn niður við ána. Engin voru salernin, bara útikamrar og það þurfti að ganga nokkra kílómetra til að komast í símasamband. Rafmagnið kom ekki fyrr en ég var 16 ára.
Pabbi byggði svo nýtt hús og allt varð nýtískulegra. Okkur leið vel þarna og oft var glatt á hjalla enda þekktum við ekkert annað.“

Léku leikrit fyrir sveitungana
„Ég var heppin að skólastjórinn í barnaskólanum mínum hafði mikinn áhuga á að láta okkur sveitakrakkana læra góða framsögn. Við fengum að leika leikrit einu sinni á vetri fyrir fólkið í sveitinni sem var gaman.
Ég get ekki gleymt að þegar ég var 8 ára skotta þá var ég látin lesa kvæði fyrir fullu húsi af gestum. Eins minnist ég líka ömmu minnar sem var best af öllum, hún fór með okkur krakkaskarann í langan göngutúr að steini sem heitir Grásteinn til að segja okkur sögu.“

Skellti sér í síldina á Raufarhöfn
„Ég gekk í gagnfræðaskólann á Laugarvatni og lauk prófi þaðan 1962. Þar eignaðist ég góða vini sem ég hef haldið sambandi við alla tíð.
Eftir útskrift skellti ég mér í síldina á Raufarhöfn, þar hitti ég flottan mann á balli í lopapeysu með brennivínsflösku í beltisstrengnum. Mér fannst hann meiriháttar sætur og satt best að segja ákvað ég í fyrsta dansi að þessum manni ætlaði ég að giftast, án þess að hann vissi að sjálfsögðu,“ segir Svala og brosir. „Honum var ég svo gift í nærri 50 ár.“
Eftir ævintýrið á Raufarhöfn fór Svala að vinna í farþega­afgreiðslunni á Umferðarmiðstöðinni og í 11 ár vann hún sem ritari hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur. Þaðan lá leiðin í TBR og svo á þrjár lögmannastofur. Hún sinnti aðalbókarastarfi hjá Læknafélagi Íslands og endaði starfsferil sinn hjá Kvennaskólanum í Reykjavík.

Hestarnir átu fyrstu blómin
Svala giftist Vigfúsi Aðalsteinssyni viðskiptafræðingi 1967 en hann lést árið 2017. Hann starfaði hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur en setti síðan á fót sína eigin bókhaldsstofu, Reikniver. Svala og Vigfús eignuðust tvö börn, Árna Gunnar f. 1967 og Aðalheiði f. 1973. Barnabörnin eru fjögur, Daníel Freyr, Almar Nökkvi, Embla Soffía og Svala.
„Við byrjuðum okkar búskap í Reykjavík en fluttum síðan í Mosfellssveitina árið 1974 og mér leist nú ekkert of vel á það í byrjun. Mér fannst eins og við værum að flytja á hjara veraldar,“ segir Svala og hlær. „Vegurinn frá Reykjavík var malarvegur og engin ljós á leiðinni. Garðurinn okkar var malarbingur með engu grasi og hestar átu fyrstu blómin mín.
Nágrannarnir tóku vel á móti okkur og við fundum fljótt að þetta var úrvalsfólk. Við kunnum strax að meta hvað krakkarnir okkar höfðu mikið frjálsræði og stutt var í alla íþróttaiðkun.“

Eljan skilaði sér alla leið
„Við Fúsi fórum fljótlega að starfa með Aftureldingu því sonur okkar var bæði í handbolta og fótbolta. Ég tók að mér að vera gjaldkeri handboltans í eitt ár og satt best að segja var þetta ár erfiðasta árið í lífi mínu vinnulega séð, það var svo mikið að gera. Deildin var rekin eins og lítið fyrirtæki og ekkert var gefið eftir. Eljan skilaði sér alla leið og farið var með unglingana á Partille Cup í Svíþjóð um vorið.”

Er afar stolt af þessari framkvæmd
„Eftir störfin hjá Aftureldingu tók við langt tímabil hjá okkur báðum í Sjálfstæðisflokknum. Við fundum út að þar áttum við heima, fólkið var hresst og skemmtilegt.
Eftir nokkurn tíma var komið að því að kjósa nýjan formann í félaginu, ég bauð mig fram og var kosin, fyrsta konan til að gegna því embætti. Ég ákvað að félagið yrði að eignast sitt eigið húsnæði en það var ekki mikið til í kassanum. Það var því ákveðið að leggja af stað með fjáraflanir og allir lögðust á eitt. Á endanum keyptum við svo húsnæði og var það vígt með mikilli viðhöfn og var formaður flokksins viðstaddur. Ég er afar stolt af þessari framkvæmd,“ segir Svala og brosir.
„Við hjónin tókum þátt í mörgum nefndum hjá félaginu en nú er þetta farið að róast aðeins hjá mér og það er bara ágætt.“

Mér finnst gott að knúsa
„Við hjónin vorum dugleg að ferðast bæði hér heima og erlendis og við veiddum líka í mörgum vötnum og ám.
Ég er algjört félagsmálafrík og Fúsi minn var það líka, við vorum dugleg að sinna félagsmálunum og ég er enn að stússast í þessu,“ segir Svala og hlær. „Ég hef oft komið dauðþreytt heim úr vinnunni en þurft að fara á fund um kvöldið. Þegar heim er komið er ég yfirleitt full af orku, ég fæ svo mikið út úr félagsskap við annað fólk og mér finnst gott að knúsa.
Ég sæki núna fundi hjá Rótarýklúbbi Mosfellsbæjar og finnst það frábær félagsskapur.
Ég sit líka í öldungaráði Mosfellsbæjar og ég var gjaldkeri FaMos í 4 ár. Ég hef líka mikinn áhuga á að það verði stofnað hollvinafélag hjúkrunarheimilisins Hamra. Eftir því sem aldurinn færist yfir hef ég sífellt meiri áhuga á eldra fólkinu.“

Vil eyða ævikvöldinu hér
„Bærinn okkar hefur vaxið úr sveitamennskunni og í dag búa hér yfir 12.300 manns. Fólki líður vel hér í nálægð við náttúruna, hér er bæði skjólgott og fallegt en samt svolítið sveitó. Íþróttaaðstaðan er frábær, bæði fyrir unga sem aldna og félagslífið blómlegt.
Ég vil hvergi búa nema í Mosfellsbæ og ég vona sannarlega að ég geti eytt ævikvöldinu hér og fái svo að hvíla í Mosfellskirkjugarði, sátt við mitt líf.“

Mosfellingurinn 27. ágúst 2020
ruth@mosfellingur.is

Kaffi Áslákur opnar um helgina

Alli Rúts og Tanja Wohlrab-Ryan hótelstjóri taka vel á móti gestum.

Kaffi Áslákur er nýtt kaffihús sem opnar um helgina. Það er Alli Rúts hóteleigandi á Hótel Laxnesi sem hefur breytt móttökurými hótelsins í kaffihús.
„Það hefur lengi vantað kaffihús í Mosó þannig að við ákváðum að slá til. Hótelmóttakan minnkar í sniðum enda fara öll samskipti meira og minna fram í gegnum tölvur,“ segir Alli. Hægt er að tylla sér niður yfir kaffibolla bæði úti og inni en unnið hefur verið hörðum höndum að því að gera svæðið klárt í sumar.
Þá er aðstaða fyrir krakka að leika sér. Billjardborðið sem var niðri er komið á efri hæðina þar sem hægt er að leika sér í ró og næði.

Spennt að taka á móti Mosfellingum
Aðsóknin á hótelið hefur verið upp og niður eftir ástandinu í þjóðfélaginu. Stúdíóíbúðirnar í neðri hæð hótelsins hafa verið í langtímaleigu auk þess sem nokkrar íbúðir hafa verið leigðar til fólks í sóttkví og hefur því verið tekið vel. Annars hafa Íslendingar verið duglegir að sækja hótelið heim. „Ég byggði þetta hótel fyrir 12 árum, löngu áður en ferðamannabylgjan brast á. Þannig að við erum á svipuðum stað í dag, að þjónusta Íslendinga.
Nú viljum við bjóða Mosfellinga sérstaklega velkomna á kaffihúsið.“
Þá hefur Alli endurbyggt hestarétt í hlaðinu svo fólk geti komið ríðandi eins og hér áður fyrr.

Ljótir skór, sterkir fætur

Ég fæ reglulega að heyra að ég gangi í ljótum skóm. Það er mögulega eitthvað til í því, þetta er auðvitað smekksatriði. Það sem einum finnst ljótt, finnst öðrum fallegt. Skór eru eins og tónlist. Mögnuðustu tónleikar sem ég hef upplifað voru með Sigur Rós í Bjarnarfirði á Ströndum fyrir nokkrum árum. Útitónleikar í göldróttu veðri. Sumum viðstöddum fannst minna til koma. Náðu engri tengingu við hljómsveitina. Á sama hátt tengja sumir við skóna mína, aðrir barasta alls ekki.

Ljótu skórnir snúast ekki beinlínis um fagurfræði, heldur form. Þeir eiga það sameiginlegt að vera þunnbotna, nánast án-botna, og eru yfirleitt breiðir að framan. Það er engin stuðningur í skónum, engin dempun, engin innlegg. Formið gerir að verkum að fæturnar ná góðri tengingu við jörðina og tærnar eru ekki kramdar saman heldur eru óheftar í skónum og ná þannig að grípa í jörðina. Þetta styrkir fæturna, þeir verða hreinlega að styrkjast þegar stuðningurinn er enginn.

Ég kynntist svona skóm fyrir 14-15 árum og hef í mörg ár ekki gengið í öðruvísi. Spariskór, við hátíðleg tækifæri, eru undantekning. Ástæðan fyrir því að ég fór þessa skóleið í lífinu er einföld. Ég var með mjög flatar iljar sem barn, man eftir heimsókn til læknis sem sagði „Þetta á alltaf eftir að verða til vandræða, ungi maður, sérstaklega þegar þú verður eldri.“ Hjá honum fékk ég hnausþykk innlegg sem ég gekk með í mörg ár, alltof mörg. Fæturnir voru til vandræða þangað til ég henti innleggjunum og byrjaði að fikra mig inn í þunnbotna skóheiminn. Ekki bara hafa fæturnir styrkst, þeir hafa líka breyst, flötu fæturnir heyra sögunni til.

Fyrir þá sem hafa áhuga á ljótum skóm og sterkum fótum mæli ég með því að byrja rólega, fæturnir þurfa tíma til að venjast því að fá að ganga aftur á náttúrulegan hátt.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2020

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar 2020 aflýst

Bæj­ar­ráð Mos­fells­bæj­ar ákvað í dag að af­lýsa bæj­ar­hátíðinni Í tún­inu heima vegna kór­ónu­veirufar­aldrus­ins. Þetta var ákveðið eft­ir til­lögu neyðar­stjórn­ar bæj­ar­ins sem samþykkt var á fundi menn­ing­ar- og ný­sköp­un­ar­nefnd­ar á þriðju­dag.

Hátíðin var fyr­ir­huguð dag­ana 28.-30. ág­úst. Tinda­hlaup­inu sem fara átti fram sömu helgi er einnig af­lýst, en Mos­fells­bær er einn af fram­kvæmd­araðilum þess.

„Til stóð að halda hátíðina með breyttu sniði og færa hátíðar­höld­in frek­ar út í hverf­in.  Í ljósi hert­ari sam­komu­reglna og þróun Covid-19 far­ald­urs­ins und­an­farn­ar vik­ur sýn­ir Mos­fells­bær ábyrgð í verki og af­lýs­ir þess­um viðburðum.“

Unnið að deiliskipulagi fyrir atvinnukjarna í landi Blikastaða

Mosfellsbær og Reitir fasteignafélag vinna saman að deiliskipulagi fyrir nýjan atvinnukjarna í landi Blikastaða.
Svæðið er við Vesturlandsveg á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Á svæðinu er fyrirhuguð uppbygging atvinnukjarna sem skipulagður verður með náttúru, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi. Náttúra og lífríki í ánni Korpu og í skógræktinni í hlíðum Úlfarsfells skapa vistlega umgjörð um hverfið. Deiliskipulag tekur mið af náttúru, hugmyndum um sjálfbærni og samnýtingu innviða á svæðinu.
Vegtengingar eru greiðfærar og Borgarlína er fyrirhuguð gegnum svæðið sem er mikilvægt fyrir eflingu atvinnulífs Mosfellsbæjar.

Atvinna, náttúra og sjálfbærni
„Okkar markmið er að svæðið byggist upp í takt við þarfir fyrirtækja með atvinnu, náttúru, sjálfbærni og samnýtingu að leiðarljósi. Við viljum velta við hverjum steini og hvetjum íbúa til að taka þátt í mótun svæðisins og hjálpa okkur að finna því viðeigandi nafn,“ segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita.
Væntingar standa til þess að deiliskipulagsvinnu Blikastaðalandsins ljúki seinnihluta árs 2020 og að gatnagerð og framkvæmdir geti hafist árið 2021. Hraði uppbyggingar á svæðinu mun m.a. ráðast af markaðsaðstæðum. Gera má ráð fyrir að það gæti tekið allt að tíu til tólf ár frá því gatnagerð hefst þangað til svæðið verður fullbyggt.

Það er af mörgu að taka

Sveinn Óskar Sigurðsson framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi Miðflokksins segir flokkinn líta á mótlæti sem orku sem ber að virkja.

Sveinn Óskar leiddist ungur út í stjórnmál en það var nú alls ekki á döfinni af hans hálfu. Á unglingsárunum fór Sveinn að fara víða með föður sínum á fundi en hann starfaði bæði sem varaþingmaður og verkalýðsleiðtogi á Suðurlandi. Líklegt er að áhuginn hafi kviknað þar en Sveinn Óskar hefur komið að stjórnmálum allar götur síðan samhliða sínu starfi. Hann leiddi lista Miðflokksins í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnakosningarnar 2018, náði kjöri og starfar sem bæjarfulltrúi í dag.

Sveinn Óskar er fæddur á Selfossi 27. júlí 1968. Foreldrar hans eru Eygló Guðmundsdóttir fv. saumakona og Sigurður Óskarsson fv. framkvæmdastjóri.
Sveinn á fimm systkini, albróðurinn Elís f. 1971 og hálfsystkinin Guðmund f. 1954, Stefán f. 1957, Ragnheiði f. 1960 og Róbert f. 1960, d. 2009.

Umhverfið var krefjandi
„Ég er alinn upp á Hellu á Rangárvöllum þar sem umhverfið var krefjandi og spennandi, eldfjöll, jöklar, sandar, melar og tún. Það var gott að alast þarna upp og ég man fyrst eftir mér þegar ég sigldi um á vörubílaslöngu á stórri tjörn á milli neðri hluta þorpsins og þess efri þar sem fjölskyldan mín bjó.
Ég gleymi líka seint þeim degi sem við bræðurnir fengum hjól en ætli helsta æskuminningin sé ekki fyrsti kossinn. Ein besta vinkona mín gaf mér fulla heimild til að kyssa sig þegar við vorum bæði 10 ára gömul. Það gleymist nú seint en við höfum verið vinir alla tíð,“ segir Sveinn og brosir.

Nýtur lífsins í Tungunum
„Biskupstungurnar eiga stóran part af hjarta mínu þaðan sem móðir mín er ættuð en ég var þar í sveit. Þangað sæki ég mikið enn í dag því fjölskyldan á þar sumarhús og þarna er yndislegt að vera.
Nú, ekki má gleyma Seljavöllum undir Eyjafjöllum, þar áttum við fjölskyldan sumarhús um langa hríð. Þá skrapp maður oft í gömlu sundlaugina en afi minn, Sveinn Óskar, kenndi sund þar í áraraðir.“

Einir um alla fegurðina
„Ég gekk í Grunnskólann á Hellu og fór síðan í Menntaskólann á Laugarvatni. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem ég lauk BA í heimspeki og hagfræði, MBA í viðskiptafræði og MSc meistaraprófi í fjármálum fyrirtækja.
Yfir sumartímann á námsárunum starfaði ég hjá Landsvirkjun við girðingavinnu, gróðursetningar, vatnamælingar og önnur tilfallandi verkefni uppi á hálendi Íslands. Oft var farið í Landmannalaugar að kvöldi til, þar voru engir ferðamenn og við starfsmennirnir einir um alla fegurðina, þetta var dásamlegt,“ segir Sveinn og brosir.
„Einnig starfaði ég hjá alþjóðasviði Seðlabanka Íslands þegar ég stundaði nám í hagfræði.
Samhliða mastersnámi starfaði ég í 11 ár á fasteignasölu föður míns, það var góður skóli.“

Kynntust í Pekingháskóla
Eftir útskrift úr HÍ vann Sveinn Óskar að rannsóknum um efnahagsmál í Asíu í Pekingháskóla ásamt því að stunda nám í kínversku. Hann starfaði einnig sem blaðafulltrúi Morgunblaðsins í Kína.
Í háskólanum kynnist hann Samsidanith Chan eða Danith eins og hún er ávallt kölluð. Hún er fædd árið 1978 í Kambódíu og er lögfræðingur að mennt. Þau hófu sambúð árið 2000 og giftu sig ári seinna. Þau eiga saman tvær dætur, Sylvíu Gló f. 2001 og Ingrid Lín f. 2003.
Fjölskyldan hefur gaman af því að ferðast og eins fara þau mikið í bústaðinn í Biskupstungum. Í frítíma sinnir Sveinn ritstörfum, bóklestri, skógrækt og stangveiði.
Sveinn rekur lítið fjölskyldufyrirtæki og vinnur endrum og sinnum að gerð eignaskiptayfirlýsinga. Eins sinnir hann ráðgjöf bæði hér heima og erlendis er varðar greiningavinnu hvers konar sem og áætlanagerð.

Leitum að skynsamlegustu lausninni
„Ég hef starfað lengi í pólitík, ég sat bæði sem varamaður og aðalmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS), var formaður Fjölnis (FUS) í Rangárþingi um árabil og ég var einnig formaður félags Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ. Eftir breytingar á áherslum Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega hér í Mosfellsbæ, sá ég mér ekki fært að starfa fyrir flokkinn lengur.
Í dag starfa ég sem bæjarfulltrúi Miðflokksins en stofnfundur flokksins hér í Mosfellsbæ var haldinn 15. febrúar 2018. Við viljum veita og varðveita stöðuleika og standa vörð um vel ígrundaða stefnu flokksins enda flokkur framfara og raunsæis. Þetta er flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir. Við leitum ætíð að skynsamlegustu lausninni á hverju viðfangsefni á grundvelli rökhyggju og rökræðu. Það er af mörgu að taka og við lítum á mótlæti sem orku sem ber að virkja.“

Það þarf að fara vel með skattféð
„Ég sinni starfi mínu fyrir Mosfellinga með því að sækja bæjarstjórnarfundi og aðra fundi sem varðar málefnin er snúa að sveitarstjórnarmálum. Má þar helst nefna málefni eldri borgara, grunnskólabarna og málefni er snúa að fjárhag sveitarfélagsins.
Það skiptir öllu máli að sveitarfélög hagi fjármálum sínum með þeim hætti að fólk skynji að vel sé farið með skattféð. Sjálfstæði sveitarfélags er ekkert sé fjárhagur þess ekki sterkur og það geti ekki eitt og sér stuðlað að velferð aldraða, barna og sinnt nauðsynlegu viðhaldi á húsnæði og innviðum.
Okkar starf er að benda á það sem betur má fara og gæta þess að það sé gert með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.“

Mikilvægt að vinarþel ríki
„Miðflokkurinn í Mosfellsbæ hefur fundað um hin ýmsu málefni eins og samgöngumál og málefni ungra drengja sem mér eru mjög svo hugleikin enda alvarleg þróun hvað sjálfsmorðstíðni þeirra á Íslandi er há.
Ég hef, sem faðir og eiginmaður, afskaplega mikinn áhuga á jafnréttismálum kynjanna, ég á líka marga vini sem eru samkynhneigðir og vil ég að starf mitt í stjórnmálum miði að því að bæta stöðu þessa hóps almennt. Ég legg ríka áherslu á í stjórnmálum að þrátt fyrir pólitísk átök og mismunandi skoðanir fólks sé mikilvægt að vinarþel ríki á milli manna.
Mér hefur líkað mjög vel að starfa sem bæjarfulltrúi, ég vona að þekking mín og reynsla komi til með að nýtast mér í starfi. Það er sannarlega af nægu að taka í 12.000 manna bæjarfélagi sem fer ört vaxandi,“ segir Sveinn Óskar er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 25. júní 2020
ruth@mosfellingur.is

 

MotoMos í endurnýjun lífdaga

Ný stjórn MotoMos: Pétur Ómar, Egill Sverrir, Jóhann Arnór, Örn og Leon.

Þann 13. maí var kosin ný stjórn í Moto­Mos og við tók ein yngsta stjórn landsins hjá félagi innan MSÍ (Mótorhjóla- & vélasleðasambandi Íslands sem er hluti af ÍSÍ).
Formaður er Jóhann Arnór Elíasson en aðrir stjórnarmenn eru Leon Pétursson, Egill Sverrir Egilsson, Pétur Ómar Þorsteinsson og Örn Andrésson. Varamenn í stjórn eru þeir Egill Sveinbjörn Egilsson og Einar Sverrir Sigurðsson.
Á bakvið stjórn félagsins eru öflugir foreldrar og aðrir velunnarar félagsins. Stjórnina skipa eingöngu heimamenn héðan úr Mosfellsbæ. Með innkomu nýrrar stjórnar má segja að MotoMos gangi í ákveðna endurnýjun lífdaga en takmörkuð starfsemi hefur verið í gangi síðustu þrjú ár.

Grettistak í viðhaldi á svæðinu
Lyft hefur verið grettistaki í viðhaldi á svæðinu sem var komið til ára sinna. Allt húsið hefur verið tekið í gegn, frágangur á dreni á svæði bættur og nú standa yfir miklar viðgerðir á vökvunarkerfi.
MotoMos-brautin var opnuð í fyrsta sinn í ár laugardaginn 13. júní en sjaldan eða aldrei hefur brautin verið opnuð jafn seint á árinu eftir að hún tók til starfa. Stafar það af aðkallandi þörf á viðhaldi sem stendur enn yfir.

Vilja ná til nýrra og ungra iðkenda
Markmið nýrrar stjórnar er að ná til nýrra ungra iðkenda í Mosfellsbæ og koma þeim á einn stað til að stunda þessa skemmtilegu en krefjandi íþrótt. Liður í því er að hafa gott æfingasvæði. Fyrir þá sem þekkja ekki þá er motocross talin ein allra erfiðasta íþrótt í heimi í dag.
Það er mjög misjafnt í hvaða íþróttum börn finna sig. Sannað er að fáar íþróttagreinar höfða jafn mikið til barna með athyglisbrest og motocross.
Nýlega setti félagið á laggirnar æfingar fyrir börn og unglinga og fara þær fram tvisvar sinnum í viku út sumarið. Hver æfing stendur í minnst tvo tíma og er í höndum aðila sem er með þjálfararéttindi og er einnig crossfit-þjálfari í Crossfit Reykjavík.

Halda Íslandsmeistaramót í Mosó
Á döfinni er fyrsta Íslandsmeistaramótið í motocrossi sem haldið verður 27. júní, en ekki hefur verið haldið Íslandsmeistaramót hjá MotoMos síðan 2017. Gert er ráð fyrir um 100 keppendum í öllum aldursflokkum og fjölda áhorfenda en frítt er á svæðið fyrir áhugasama.
MotoMos skorar á þá sem ekki hafa fylgst með svona keppni að koma og sjá bestu ökumenn landsins takast á í afar skemmtilegri braut. Það er einstök aðstaða til að fylgjast með keppninni í MotoMos og eru fáar brautir jafn áhorfendavænar en útsýni er yfir alla brautina frá klúbbhúsi.

Ný gas- og jarðgerðarstöð tilbúin til notkunar

Ný flokkunarlína fyrir úrgang var tekin í notkun 18. júní í móttökustöð SORPU í Gufunesi, sem markar upphaf prófunarferlis á flokkun úrgangs frá heimilum. Um er að ræða mikilvægt undirbúningsskref fyrir vinnslu í nýrri gas- og jarðgerðarstöð (GAJA) á Álfsnesi.
Nýja flokkunarlínan tekur við lífrænum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu, hreinsar úr honum plast og málma og býr til efni sem er hæft til vinnslu í GAJA. Við sama tilefni var GAJA kynnt fyrir stjórn SORPU, fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fjölmiðlum, en miðað er við að tilraunavinnsla hefjist í stöðinni í júlí.

Losun koltvísýrings minnkar gríðarlega
Þegar GAJA kemst í fullan rekstur verður hætt að urða lífrænan úrgang á svæðinu en í stað þess verða unnin úr honum gas- og jarðgerðarefni.
Áætlað er að það muni minnka losun koltvísýrings um 90 þúsund tonn á ári sem jafngildir því að taka 40 þúsund bensín- eða díselbíla úr umferð og hægt verður að nýta innlenda orku í auknum mæli í stað innflutts eldsneytis. Auk þriggja milljóna rúmmetra af metani verða til í stöðinni árlega um 12 þúsund tonn af moltu sem nýtt verður til landgræðslu og jarðarbóta.

Skuldbindingar á sviði loftslagsmála
Höfuðborgarsvæðið er með þessu verkefni í leiðandi hlutverki í umfangsmesta umbreytingaverkefni á sviði umhverfismála hérlendis og liður í því að gera Íslandi kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar í loftlagsmálum.
Miðað er við að stöðin verði komin í fulla starfsemi á næstu mánuðum. Vinnslan þarf að standast þær kröfur um gæði sem kveðið verður á um í starfsleyfi stöðvarinnar og því skiptir eftirlit með vinnslunni höfuðmáli.

Urðun lífræns úrgangs hverfi alfarið
„Starfsemi gas- og jarðgerðarstöðvar á Álfsnesi er mikilvægt umhverfismál fyrir Íslendinga en um leið ákaflega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur Mosfellinga. Þegar fullri afkastagetu verður náð verður unnt að hverfa alfarið frá urðun lífræns úrgangs á Álfsnesi sem fylgt hefur lyktarmengun við vissar aðstæður, sem nauðsynlegt var að bregðast við með stórtækri aðgerð.
Næsta verkefni er síðan að fara í aðgerðir til að breyta ásýnd svæðisins frá Mosfellsbæ séð sem felur í sér að reisa mön þannig að athafnasvæðið blasi ekki við í beinni sjónlínu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Lifðu!

Við Vala erum að gefa út bók. Hún heitir Lifðu! og snýst um heilsu og hamingju. Bókin byggist á ferðalagi okkar um þau svæði heimsins þar sem langlífi og góð heilsa haldast hvað mest í hendur. COVID-19 var ekki komið til sögunnar þegar við vorum á ferðinni um þessi svæði í fyrra, en það hefur verið áhugavert ferli að klára bókarskrifin og koma í prent á sama tíma og vírusinn hefur farið sem eldur í sinu um heimsbyggðina.

Áhugavert að því leyti að það að fara í gegnum erfiða tíma sem einstaklingar, fjölskyldur og samfélög er eitt af því sem hefur lagt grunninn að langlífi og góðri heilsu á bláu svæðunum. Hér að neðan er sýnishorn úr bókinni sem snertir einmitt á þessu og sömuleiðis ein af þeim lykilhugleiðingum sem við setjum fram í bókinni.

Á Sardiníu og á bláu svæðunum almennt er borin virðing fyrir þeim eldri. Þeir hafa, eins og við bentum á í fyrsta kaflanum, tilgang. Hlutverk í lífinu. Skipta máli í samfélaginu og taka þátt í því. Það á sinn þátt í að sögur og reynsla miðlast milli kynslóða. Þær yngri læra af þeim eldri. Og svo öfugt.

Bláu svæðin eru ekki allsnægtasvæði. Á þeim öllum hafa íbúar þurft að takast á við alls konar áskoranir, þurft að hafa fyrir lífinu og því að komast af. Þetta hefur stuðlað að þessu dásamlega viðhorfi sem er ríkjandi á svæðunum. Blanda af seiglu, jafnaðargeði, þolinmæði og húmor.

Fólk veit að það mun komast í gegnum erfiða tíma – fyrri kynslóðir hafa gert það. Það er þakklátt fyrir það sem það hefur og veit að það er mikilvægt að hlæja mikið og njóta lífsins með fjölskyldu, vinum og öðrum sem mynda samfélagið.

Hugleiðing um viðhorf: Veltu fyrir þér hvað þú getur gert í dag til að gleðja aðra.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 25. júní 2020

Liðsstyrkur fyrir komandi tímabil

Einar Ingi, Birkir, Arnór og Gunnar verða áfram í herbúðum Aftureldingar

Birkir Benediktson, Einar Ingi Hrafnsson, Arnór Freyr Stefánsson og Gunnar Malmquist hafa allir framlengt samninga sína við handknattleikslið Aftureldingar. Allir hafa þeir verið lykilmenn í liðinu síðustu ár.
Birkir og Einar Ingi eru uppaldir Mosfellingar og er Gunni Mall að hefja sitt sjöunda tímabil í Aftureldingu. Arnór Freyr kom til Aftureldingar árið 2018 eftir að hafa spilað með Randers í Danmörku. Þetta eru frábærar fréttir og mikilvægir hlekkir í liði Aftureldingar.

Nýtt þjálfarateymi Aftureldingar
Eins og áður hefur komið fram hefur Afturelding samið við Gunnar Magnússon um að taka við liði Aftureldingar fyrir næsta tímabil.
Gunnar er margreyndur og sigursæll þjálfari. Hann hefur þjálfað Víking, HK, ÍBV og Hauka auk þess að vera aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. Hrannar Guðmundsson verður aðstoðarþjálfari meistaraflokks en hann kom heim síðasta sumar eftir þjálfun hjá ÍR síðustu tvö ár.
Afturelding hefur einnig ráðið Fannar Karvel sem styrktarþjálfara handknattleiksdeildarinnar. Fannar rekur líkamsræktarstöðina Spörtu á Höfða og þjálfar þar marga af fremstu íþróttamönnum landsins.

Nýir leikmenn til Aftureldingar
Afturelding hefur samið við sjö nýja leikmenn fyrir næsta tímabil. Bergvin Gíslason, Sveinn Andri Sveinsson og Þrándur Gíslason Roth koma frá ÍR. Blær Hinriksson kemur frá HK og Úlfar Monsi Þórðarson frá Stjörnunni. Einnig koma Bjarki Snær Jónsson og Hafsteinn Óli Ramos frá Fjölni.

Hrannar, Fannar og Gunnar funda á Grillmarkaðnum.

Allir þessir leikmenn hafa mikla reynslu úr Olís deildinni og munu styrkja Aftureldingarliðið mikið fyrir komandi tímabil.

Piparkorn gefur út plötu og blæs til útgáfutónleika

Djasshljómsveitin Piparkorn var að gefa út sína fyrstu hljómplötu á Spotify.
Hljómsveitina skipa Mosfellingarnir María Gyða Pétursdóttir söngkona, Gunnar Hinrik Hafsteinsson sem spilar á gítar og bassa, Magnús Þór Sveinsson píanóleikari, Þorsteinn Jónsson á trommur og hin ungi og efnilegi 15 ára Keflvíkingur Guðjón Steinn Skúlason sem spilar á saxafón.
„Meðlimir Piparkorns hafa spilað saman í ýmsum myndum í gegnum tíðina en hljómsveitin eins og hún er skipuð í dag hefur spilað saman í rúmlega ár. Við höfum tekið þetta af mikilli alvöru síðasta árið og erum að uppskera eftir því.
Platan heitir Kryddlögur og inniheldur átta lög, fimm lög með söng og þrjú lög án söngs. Við erum virkilega ánægð með útkomuna og höfum fengið jákvæð viðbrögð,“ segir Gunnar Hinrik.

Tóku upp í stúdíó Sýrlandi
„Við vorum svo heppin að Mosfellingurinn Þorsteinn Gunnar Friðriksson var að gera lokaverkefni en hann er í hljóðtækninámi og bauð okkur að koma og taka upp í Stúdío Sýrlandi. Hann var okkur mikil stoð og stytta í þessu ferli. Hann hljóðblandaði og masteraði plötuna fyrir okkur. Þetta var algjört ævintýri en við tókum upp alla plötuna á einum degi og var þetta í fyrsta sinn sem við vorum í alvöru stúdíói,“ segir Þorsteinn.

Sigur í lagasmíðakeppni
„Við ákváðum með skömmum fyrirvara að taka þátt í lagasmíðakeppni MÍT og FÍH. Við sendum inn lagið Hvað er það, sem er eitt af lögunum á plötunni okkar.
Það er skemmst frá því að segja að við lentum í fyrsta sæti. Það var virkilega skemmtilegt að fá þessa viðurkenningu, sérstaklega þar sem margt hæfileikaríkt tónlistafólk tók þátt,“ segir Magnús Þór en að launum hlaut hljómsveitin tíma í stúdíói með hljóðmanni.
„Við hvetjum alla til að hlusta á plötuna okkar á Spotify en útgáfutónleikar verða haldnir á Barion sunnudaginn 21. júní, þar vonumst við til að sjá sem flesta Mosfellinga.“

Mælir ekki með sjúkrahúsvist í Króatíu

Andrea Kristín Gunnarsdóttir fór í örlagaríka hjólaferð ásamt vinkonum sínum þeim Helenu Byron og Hönnu Sigríði Stefánsdóttur til Króatíu í september síðastliðnum. Vinkonurnar flugu til Split og fóru þaðan í viku siglingu með lítilli snekkju sem sigldi á milli króatísku eyjanna þar sem þær hjóluðu um og nutu lífsins.
„Við vorum þrjár íslenskar valkyrjur í 30 manna hópi sem var frá öllum heimshornum, þetta var frábær hópur sem var eiginlega eins og lítil fjölskylda.
Við hjóluðum um eyjarnar með fararstjóra sem var alveg einstakt, algjör draumaferð þar til ég lenti í slysi,“ segir Andrea og bætir við að Króatía sé æðislegt land en mælir hvorki með sjúkrahúsi né læknaþjónustunni þar.
„Það var næstsíðasta daginn sem ég varð fyrir óhappi, ég lenti með framdekkið á hjólinu ofan í holu og það var bara eins og ég keyrði á vegg. Ég flaug fram fyrir mig og í raun er ekki vitað hvað gerðist en ég skarst illa á vinstri ökkla ásamt því að fara úr lið.
Fóturinn var mjög illa farinn, stórt opið og ljótt sár. Það má eiginlega segja að ég hafi verið heppin að halda fætinum. Ég var lemstruð í skrokknum en seinna kom svo í ljós að það hafði komið sprunga í upphandlegginn á mér.“

Níu daga á sjúkrahúsi í Split
Andrea fór með sjúkrabíl að þyrlu sem flutti hana á sjúkrahúsið í Split þar sem hún dvaldi í níu daga. Hún fór í stóra aðgerð við komuna á sjúkrahúsið þar sem sárið var hreinsað og saumað saman og tveir pinnar settir í hælinn.
„Þessi dvöl mín á þessu sjúkrahúsi er eiginlega efni í heila bók, ég hefði bara ekki trúað því að svona aðstæður væru til í dag. Þarna talaði engin ensku, maturinn var algjörlega óætur og þú gast ekki beðið um vatn.
Ég var á fimm manna stofu, þetta var eins og góð blanda af geðveikrahæli og elliheimili. Ég var þó heppin því ég hafði bjöllu við mitt rúm og þurfti því að nota hana bæði fyrir mig og hinar á stofunni,“ segir Andrea sem er óendanlega þakklát fyrir að hafa haft vinkonur sínar með sér í þessum óvenjulegu aðstæðum en þegar hún fór með þyrlunni vissi enginn hvert hefði verið farið með hana.

Þakkar þjónustuna hjá VISA
Andrea lenti svo í því að fá sýkingu í sárið á þriðja degi og þurfti að gangast undir aðra aðgerð. Þarna var ljóst að hún væri ekki að fara heim í bráð. „Þegar ég þurfti að fara í seinni aðgerðina og gerði mér grein fyrir því að ég væri ekki að fara heim í bráð, hrundi ég eiginlega niður.
En sem betur fer fékk ég frábæra þjónustu hjá SOS sem er ferðatryggingin í gegnum VISA kortið, þeir komu því í kring að ég fékk að fara heim á níunda degi. Þeir gengu frá greiðslu fyrir sjúkrahúsvistinaa og bókuðu far fyrir okkur Hönnu heim, en hún dvaldi með mér allan tímann í Króatíu. Ég mun aldrei aftur kvarta yfir því að borga árgjald fyrir VISA kortið mitt,“ segir Andrea hlæjandi.

Spítalavist og endurhæfing
Heimferðin tók vel á en með dyggri aðstoð Hönnu komst Andrea heim til Íslands. Þegar þangað var komið fór hún beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún dvaldi næstu 10 vikur, fyrstu tvær vikurnar var hún í einangrun. „Það var ólýsanleg tilfinning að koma heim, hitta fólkið sitt og upplifa sig í öruggum höndum. Vikurnar á Landspítalanum voru fljótar að líða og ég er óendanlega þakklát fyrir fjölskylduna mína og vini, það leið ekki sá dagur að ég fékk ekki skemmtilega heimsókn.
Í framhaldinu fór ég í endurhæfingu á Grensás og var þar á legudeildinni í fimm vikur. Eftir það fór ég á dagdeildina hjá þeim og mætti þar daglega í frábæra endurhæfingu fram að COVID. Ég er eiginlega orðlaus yfir því frábæra starfi sem fram fer á Grensásdeildinni og þakka fyrir dásamlegt viðmót og einstaka þjónustu sem ég hef fengið hjá þeim.

Verkefni sem ég þarf að tækla
Andrea hefur tekist á við þetta verkefni með jákvæðni og æðruleysi. Hún starfar við ráðgjöf og þjónustu hjá Mentor og hefur frá 1. mars unnið 50% starf að heiman.
Þann 4. maí fór Andrea í aðgerð í Orkuhúsinu þar sem ökklinn á henni var stífaður, það var það eina í stöðunni þar sem fóturinn var svo illa farinn. „Nú er ég að jafna mig eftir þessa aðgerð, í lok júní má ég fara að tylla í fótinn og ég er búin að setja mér það markmið að ári eftir slysið, í september, ætla ég að geta gengið hækjulaus.
Ég er í eðli mínu jákvæð og hress og lít á þetta sem verkefni sem ég ætla að leysa. Ég er bjartsýn á framtíðina, ætla að fara að byggja mig upp aftur og koma mér í gott form. Ég er svo þakklát fyrir lífið og fólkið í kringum mig sem hefur staðið með mér og stutt mig í gegnum þennan tíma,“ segir Andrea að lokum.

Krefjandi vinna en afar skemmtileg

Ingvar Hreinsson múrari og verkstjóri hjá Vegagerðinni sér um viðhald á ljósvitum um land allt.

Fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður á Valahnúki á Reykjanesi árið 1878 en í dag eru þeir alls 104 að tölu og er þá ótalinn fjöldi innsiglinga-og hafnarvita í eigu og umsjá sveitarfélaga.
Óhætt er að fullyrða að með tilkomu vitabygginga hafi iðnbyltingin hafist á Íslandi. Bygging þeirra krafðist tækniþekkingar og verkkunnáttu sem áður var óþekkt og þetta voru fyrstu íslensku steinsteypubyggingarnar.
Margir hafa gaman af því að skoða vita landsins á ferðalögum sínum um landið en fáir þekkja þá jafn vel og Mosfellingurinn Ingvar Hreinsson en hann hefur haft yfirumsjón með þeim frá árinu 1996.

Ingvar Hreinsson er fæddur í Hafnarfirði 1. apríl 1957. Foreldrar hans eru þau Fjóla Svandís Ingvarsdóttir húsmóðir og Hreinn Þorvaldsson múrarameistari og starfsmaður Mosfellshrepps en þau eru bæði látin.
Systkini Ingvars eru Eygló Ebba f. 1950 d. 2014, Hrafnhildur f. 1953, Þorvaldur f. 1960 og Jóhanna Hrund f. 1962. Ingvar á einnig sex stjúpsystkini.

Horfðum á sjónvarpið í gegnum glugga
„Ég er alinn upp í Markholtinu og það var gott að alast þar upp, mamma var alltaf heima og tók á móti manni. Það var mikið af börnum í götunni og því alltaf líf og fjör.
Við krakkarnir sem bjuggum við það að hafa ekki sjónvarp á heimilum okkar bönkuðum oft upp hjá þeim vinum sem höfðu það til staðar og fengum að horfa á með þeim, oft bara í gegnum gluggann. Þetta var að sjálfsögðu kanasjónvarpið og skemmtilegast var að horfa á sunnudagsmorgnum, þá var oft ansi troðið við gluggana,“ segir Ingvar og brosir að minningunni.

Flísalagði sturtuklefana að Varmá
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og mér leiddist mikið í skólanum því mér fannst heimalærdómurinn alveg skelfilega leiðinlegur. Uppáhaldsfögin mín voru sund og leikfimi og uppáhaldskennararnir mínir Ágúst Óskarsson og Páll Aðalsteinsson.
Eftir útskrift úr gaggó fór ég að vinna í steypuvinnuflokki hjá Sigfúsi Árnasyni og fór þaðan yfir í Þórisós jarðverktaka. Þaðan lá leiðin í Iðnskólann í Reykjavík í múrverk. Lærifaðir minn á iðnskólaárunum var Magnús Sigurðsson og starfaði ég undir hans handleiðslu fyrstu árin hjá Byggung í Mosfellsbæ.
Ég útskrifast árið 1981 og fór þá að starfa sjálfstætt, fyrst um sinn eingöngu við múrverk en síðan með föður mínum og Þorvaldi bróður við flísalagnir og aringerð. Eitt af fyrstu verkefnum okkar feðga var að flísaleggja sturtuklefana í íþróttahúsinu að Varmá.
Við bræðurnir stofnuðum síðan verktakafyrirtækið Múr­vang.“

Samheldin stórfjölskylda
Eiginkona Ingvars er Laufey Jóhannsdóttir klæðskeri og matráður hjá Innes heildverslun. Synir þeirra eru Jens f. 1983 og Hrafn f. 1985. Barnabörnin eru fjögur.
Helstu áhugamál Ingvars eru golf, stangveiði, bjórbrugg, handboltagláp, Afturelding og ferðalög.
„Stórfjölskyldan er mjög samheldin og við ferðumst mikið saman bæði innanlands sem utan, gistum í sumarbústöðum, fellihýsum eða vel völdum vitum. Þegar við leggjum land undir fót þá hefur Flórida oftast orðið fyrir valinu.“

Renndi blint í sjóinn með innkaupin
„Árið 1996 sá ég atvinnuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem óskað var eftir múrara til Vita- og hafnamálastofnun sem síðar var breytt í Siglingastofnun Íslands. Ég sótti um og var svo heppinn að fá starfið. Árið 2013 var Siglingastofnunin lögð niður og færðust þá vita- og hafnamál yfir til Vegagerðarinnar.
Í fyrstu hafði ég yfirumsjón með viðhaldsverkefnum á ljósvitum Íslands en svo þróaðist þetta út í það að ég skipulagði verkefnin og vann þau sjálfur ásamt öðrum. Einnig sá ég um öll innkaup stofnunarinnar á efni og tækjum til viðhaldsins að bílum undanskildum.
Þegar ég fór í minn fyrsta túr á varðskipi þá renndi ég blint í sjóinn með efniskaup, ég keypti svo mikið efni að það dugði til viðhaldsvinnu í þrjú ár,“ segir Ingvar og brosir.

Það þarf alltaf að taka tillit til veðurs
„Fyrstu árin með vitana voru mjög erfið vegna múrskemmda. Vitarnir standa oft á afskekktum stöðum svo það er erfitt er að komast að þeim. Sumir eru á eyjum og aðrir á útnesjum þar sem eru engir vegir. Það fer stundum meiri tími í að koma efni og búnaði að og frá vitunum heldur en tíminn við vinnuna sjálfa.
Stundum þarf þyrlu, skip, báta eða bíla til að koma öllu til sem þarf sem næst verkefninu.
Í sumum tilfellum þarf að gæta sjávarfalla og það þarf alltaf að taka tillit til veðurs. Veðurfar við vitana er ekki það sama og í byggð, þar er yfirleitt rok og einhverjum gráðum kaldara. Vinna við þessar aðstæður er bara alls ekki fyrir alla.“

Þakklátur fyrir kennsluna
„Ég var svo heppinn að það voru reyndir starfsmenn í vitahópnum sem kenndu mér mikið um meðferð gúmmíbáta og utanborðsmótora. Þeir voru líka vel að sér um hvort og hvar væri hægt að lenda bátunum. Hjá þeim lærði ég að ganga tryggilega frá bátunum hvort sem þeir voru festir við ból eða akkeri. Þeir kenndu líka að hnýta hnúta og aðra handavinnu. Það var ómetanlegt því mesta hættan á sjó var í lendingum við vitana.
Ég man hvað það var oft erfitt að vera með heilt varðskip á leigu því pressan var mikil frá skipstjórunum að tímaplönin stæðust, dagarnir urðu því oft ansi langir.“

Starfið krefst mikillar skipulagningar
„Meginregla hjá okkur er að komast í viðhald á vitunum á fimm ára fresti. Þetta er mikil vinna og krefst skipulagningar. Það þarf að skafa og mála veggi og gólf, ryðverja, mála járnfleti eins og t.d ljóshúsin á vitunum. Fara þarf yfir allt tréverk og mála það, skipta um brotnar rúður og eitt og annað sem kemur upp á. Ekki má gleyma að þrífa vel gler og linsu sem lýsir út í myrkrið.
Vinna í eyjavitum fer mikið fram í tveggja manna körfum. Þær eru hífðar upp í vitann með köðlum í talíum/blökkum á handafli og þegar karfan er komin upp þá fer maðurinn sem bíður í vitanum í körfuna og festir hana vel. Svo vinna menn sig rólega niður vitann í körfunni þangað til vitinn er fullmálaður.“

Gaman að vinna með unga fólkinu
„Þetta starf á mjög vel við mig, ég hlakka alltaf til að komast af skrifstofunni og út á land á vorin og svo eins að koma inn í notalega innivinnu á haustin en þá hef ég aðallega séð um líkanagerð á höfnum landsins.
Það er gaman að vinna með unga fólkinu í stuttum törnum, það er hresst og skemmtilegt. Þau eru ekki að velta fyrir sér hvað sé í fréttum eða einhverjum kosningum. Það er mest talað um bíómyndir, þætti og tónlist og þau eiga það sameiginlegt að þeirra kynslóð er sú besta, að sjálfsögðu,“ segir Ingvar og brosir þegar við kveðjumst.

Mosfellingurinn 4. júní 2020
ruth@mosfellingur.is