Hjartað slær alltaf heima í Mosfellsbæ

Mosfellska hljómsveitin KALEO hefur farið sigurför um heiminn en strákarnir fluttu til Bandaríkjanna fyrir sex árum.
Ný plata sveitarinnar, Surface Sounds, leit dagsins ljós nú nýverið eftir að útgáfu hennar var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Hún hefur nú þegar fengið frábærar viðtökur um allan heim.
Meðlimir hljómsveitarinnar KALEO eru þeir Jökull Júlíusson, Davíð Antonsson, Daníel Ægir Kristjánsson og Rubin Pollock.
Sökum COVID hefur hljómsveitin verið á Íslandi í rúmt ár og leitar að æfingaaðstöðu til að undirbúa sig undir þriggja ára heimstúr sem fram undan er til að fylgja eftir nýju plötunni.
Við hittum Jökul Júlíusson forsprakka sveitarinnar og spurðum út í tímamótasamstarf við Aftureldingu, rokklífið og allt það helsta sem okkur þyrsti í að vita.

Æfði á yngri árum með Aftureldingu
Hvernig hafa viðbrögðin við nýju plötunni verið?
Þau eru búin að vera gífurlega góð í alla staði og með mest seldu plötum á heimsvísu eftir fyrstu söluviku

Og hvernig gekk að vinna hana?
Það var langt og strangt ferli. Ég hóf upptökur á meðan ég var enn á tónleikaferðalagi 2017 bæði í rútunni og mismunandi hljóðverum víða um heim þegar frídagar gáfust. Síðan síðla árs 2018 eftir að tónleikaferðalaginu lauk gat ég einbeitt mér að stúdíóinu og eyddi þá mestum tíma í Nashville, New York og Los Angeles.

Hvernig kom það til að þið fóruð að styrkja Aftureldingu?
Þetta var hugmynd sem Magnús Már þjálfari kom með til mín. Mér fannst það auðvitað mjög spennandi og ákveðin rómantík í því að geta styrkt uppeldisfélagið. Eftir því sem við best vitum hefur þetta ekki verið gert áður, að listamaður auglýsi framan á knattspyrnutreyjum, í það minnsta ekki á Íslandi.

Eitthvað meira planað í kringum það?
Planið er að reyna að mæta á heimaleiki í sumar og vonandi gera eitthvað skemmtilegt með liðinu ef samkomutakmarkanir og aðstæður leyfa.

Þú æfðir sjálfur með Aftureldingu?
Ég æfði með Aftureldingu á yngri árum og við lentum meðal annars í 2. sæti á Íslandsmótinu í 2. flokki. Eftir það fór ég að einblína meira á tónlistina og það tók svolítið við.

Varla misst úr dag í ræktinni í 10 ár
Hvernig hefur Covid farið með þig? Gott að fá smá pásu eða er þetta óþolandi ástand?
Það má eiginlega segja bæði. Þetta hefur vissulega verið góð hvíld á margan hátt en að sama skapi erfitt að aðlagast öðrum lífsstíl. Við höfum reynt að vinna á meðan við getum og tekið upp nokkra lifandi flutninga í íslenskri náttúru. Aðalvandamálið hefur verið að finna æfingaaðstöðu og auglýsum við hér með eftir því ef að einhver hefur tök á að hýsa eða leigja lítilli hljómsveit húsnæði.

Hvað er svo fram undan hjá ykkur?
Fram undan er þriggja ára heimstúr sem hefst í febrúar á næsta ári í Norður-Ameríku til að fylgja eftir nýju plötunni, Surface Sounds.

Tekur ekki á að búa í rútu í langan tíma á þessum tónleikaferðalögum?
Þetta getur verið gífurlega lýjandi á tímum. Sérstaklega eftir langt tónleikaferðalag. Ég reyni alltaf að hugsa vel um mig þegar kemur að heilsu, hreyfingu og mataræði og ég held að það hafi oft bjargað mér á tímum.

En þú hugsar vel um heilsuna?
Já, ég hef alltaf búið til tíma fyrir það, sama hvað. Það er eiginlega ótrúlegt að hafa nánast ekki misst úr dag í ræktinni í 10 ár sama í hvaða landi ég er, þangað til Covid kom. Þá þurfti maður að reyna bjarga sér í útihlaupum o.fl.

Kærastan jarðbundin og heilsteypt
Hvernig tekur Telma, kærastan þín, öllu þessu hljómsveitarstússi?
Ég myndi segja að hún umberi það bara mjög vel. Þetta er oft langt frá því að vera eðlilegt líf en hún er ótrúlega jarðbundin og heilsteypt og mikil fyrirmynd svo að það auðveldar okkur að finna stöðugleika.

Hvar sérðu sjálfan þig eftir 10 ár?
Það verður að koma í ljós. Þetta hefur verið síbreytilegt síðustu ár og maður hefur þurft að aðlagast hratt. Það sem er næst á dagskrá núna er langur túr og að byrja að vinna í næstu plötu, vonandi sem fyrst. Auðvitað vonast maður síðan til að fá tíma inn á milli og koma heim og njóta á Íslandi sömuleiðis.

Hvert er eftirminnilegast giggið?
Þau eru mörg eftirminnileg úti um allan heim en það er nú alltaf eftirminnilegt þegar ritstjórinn dró mig fyrst upp á svið til að syngja og spila á Ásláki fyrir þó nokkrum árum. Ætli það hafi ekki verið eitt af fyrstu giggunum.

Mikið vatn runnið til sjávar
Ætlaðir þú þér alltaf að verða tónlistarmaður?
Ég var kannski ekki viss um að ég myndi starfa við það fyrr en hlutirnir byrjuðu virkilega að rúlla 2013. Það hefur þó alltaf verið mikil ástríða.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera sem tónlistarmaður?
Ég lít meira á mig sem lagahöfund heldur en söngvara eða hljóðfæraleikara. Það er þar sem ég finn mig mest, svo er ótrúlega gaman hvernig hægt er að lita lögin með mismunandi hljóðfærum, útfærslum og fleira.

Og hvert stefnir þú?
Ástæðan fyrir því að ég flutti til Bandaríkjanna fyrir um sex árum var aðallega til þess að taka upp tónlistina þar og flytja hana. Þar eru að mínu mati bestu hljóðverin og fólkið til að vinna með.
Ég held að ég stefni alltaf á að halda áfram að þróast og að gera hlutina vel. Ég get líka alveg viðurkennt að maður gleymir kannski oft að staldra við og horfa til baka og sjá hversu mikið vatn hefur runnið til sjávar.

Þið eruð alveg komnir yfir í enskuna, það er ekkert von á lagi á íslensku í náinni framtíð?
Ég hef alltaf samið á ensku. Það hefur einfaldlega verið mér eðlilegt.
Eina lagið sem ég hef spilað á íslensku er Vor í Vaglaskógi. Það er líka eina ábreiðan sem ég hef tekið. Það er þó aldrei að vita í framtíðinni. Aldrei að segja aldrei.

Stoltur Mosfellingur og Íslendingur
Mosfellingar eru afskaplega stoltir af framgangi ykkar (hafið verið valdir m.a. bæjarlistamenn Mosfellsbæjar og hljómsveitin valin Mosfellingur ársins). Finnið þið fyrir stuðningi úr ykkar heimabyggð?
Alveg hiklaust. Ég er ótrúlega stoltur af því að vera Mosfellingur og það hafa verið forréttindi að alast hér upp. Þetta er frábært samfélag og ég hef alltaf fundið mikinn stuðning, jafnvel þegar að við vorum rétt að byrja og fengum að æfa uppi í félagsmiðstöð. Það væri einmitt gaman að reyna að koma upp flottri aðstöðu fyrir ungt tónlistar- og listafólk til að styðja við ungu kynslóðina og hvetja hana áfram.

Þú ert duglegur að kynna Ísland og segja frá þínum heimahögum, finnst þér það skipta máli?
Ég er mjög stoltur Íslendingur og er ófeiminn við að flagga því. Það eru líka forréttindi að geta tekið upp lifandi flutninga við þessar náttúruperlur sem við eigum eins og Fjallsárlón, Þrídranga o.fl.

Hljómsveitin Rolling Stones þurfti að margbiðja ykkur um að hita upp fyrir sig, eru margir sem vilja fá ykkur með á túr?
Það er mjög algengt að fyrirspurnir berist. Ég hef mjög takmarkaðan áhuga á að hita upp fyrir aðra á þessum tíma á ferlinum. Við erum með meira en nóg efni til að halda okkar eigin tónleika og viljum því frekar einbeita okkur að því.

Hvar slær hjartað?
Hjartað slær alltaf heima í Mosfellsbæ.

Svanþór nýr eigandi fasteignasölunnar

Fasteignasala Mosfellsbæjar er á efstu hæð í Kjarna.

Eigendaskipti hafa orðið á Fasteignasölu Mosfellsbæjar en nýr eigandi er Svanþór Einarsson. Tekur hann við fyrirtækinu af Einari Páli Kjærnested og Hildi Ólafsdóttur sem rekið hafa fasteignasöluna í 20 ár.
Svanþór er Mosfellingur í húð og hár og er Mosfellingum að góðu kunnur. Hann er löggiltur fasteignasali og hefur sjálfur unnið á fasteignasölu Mosfellsbæjar í tæp 13 ár og að undanförnu séð alfarið um daglegan rekstur.
„Ég tek við góðu búi af vinum mínum Einari Páli og Hildi sem hafa rekið fasteignasöluna með miklum myndarbrag síðustu tvo áratugi.
Það verður lítið um breytingar hjá okkur enda á góðum stað og með úrvals starfsfólk.“

Best að búa í Mosó
„Fasteignamarkaðurinn í Mosfellsbæ hefur verið ansi líflegur enda mikið byggt síðustu ár. Það eru miklu fleiri að reyna að komast í Mosó en úr. Hér er eftirsóknarvert að búa enda hef ég alltaf sagt að það er best að búa í Mosó.
Íbúum hefur fjölgað gríðarlega mikið síðustu ár og jafnvel færri komist að en vilja. Við munum halda áfram að leggja metnað okkar í að þjónusta Mosfellinga enda hefur það verið okkar sérsvið.“
Fasteignasala Mosfellsbæjar er rótgróið fyrirtæki, staðsett á efstu hæð í Kjarna, Þverholti 2.
Svanþór er í sambúð með Önnu Ragnheiði Jónsdóttur grunnskólakennara og búa þau í Helgafellshverfi. Sonur Svanþórs er knattspyrnumaðurinn Jason Daði.

Hjóla- og golfmót til styrktar góðum málefnum í Mosfellsbæ

Lagt á ráðin við golfskálann í Mosfellsbæ. Hrefna Rós (Reykjakot), Magnús (hjólari), Palli Lindal (skipuleggjari), Helga Lind (Hlaðgerðakot), Karl (Blik), Ágúst (GM) og Valdimar Þór (Hlaðgerðakot).

Páll Líndal stendur fyrir Palla Open golfmóti til styrktar Reykjadal og Hlaðgerðarkoti laugardaginn 22. maí.
„Já, það verður golfmót en við ætlum líka að hjóla og verða tvær vegalengdir í boði. 45 km og svo 10 km fjölskylduhringur í Mosfellsbæ. Meiningin er að safna fyrir tveimur verðugum málefnum hér í bæ og skipta öllu sem safnast á milli þeirra.“
Golfmótið hefst kl. 7 um morguninn og stendur fram á kvöld en verið er að vinna með endanlega útfærslu á hjólaþættinum en við notum líklega Strava og hóparnir hjóla frá leikskólanum Huldubergi milli kl. 9 og 12.

Byrjaði með færslu á Facebook
Þú varst að pæla í Pallaballi líka, er það ekki? „Jú, ef allt væri eðlilegt yrði ball í golfskálanum um kvöldið en við sjáum til hvernig Covid-staðan verður.“
En hver er þessi Palli? „Ég er bara miðaldra karlmaður í Klapparhlíðinni,“ segir Palli og hlær.
„Þetta byrjaði nú bara bara með einum Facebook-status í vetur sem fékk mjög jákvæð viðbrögð. Eins konar áskorun um að gera eitthvað hressilegt þegar Covid væri búið og hafa eitthvað til að hlakka til. Svo hefur eitt leitt af öðru og nú er þetta að verða að veruleika.

Allir boðnir og búnir að hjálpa til
„Það hafa allir sem ég hef leitað til tekið mér fagnandi. Golfklúbburinn leggur allt sitt af mörkum og við höfum safnað fullt af vinningum og styrkjum.“ Þá hafa Palli og hundurinn Brúnó safnað um 2.000 golfboltum í kringum völlinn í vetur sem seldir verða á keppnisdegi.
„Þetta er partur af því að búa í Mosó og láta sig samfélagið varða, en yfirskrift dagsins er Sælla er að gefa en þiggja.“
Og þú átt afmæli þennan dag? „Já, reyndar, en dagurinn snýst alls ekki um það“.
Hve miklu ætlar þú að safna? „Það er góð spurning, vonandi þremur milljónum ef vel gengur, en það verður hægt að styrkja án þess að taka þátt.“

Nánari upplýsingar um dagskrá laugardagsins verður að finna hér.


Reykjadalur er sumar- og helgardvalarstaður í Mosfellsdal fyrir börn og ungmenni með fötlun eða sérþarfir. Í Reykjadal er börnum og ungmennum gefið tækifæri til að skapa ógleymanlegar minningar. Gleði, jákvæðni og ævintýri lýsa starfseminni vel. Árlega koma um 250 einstaklingar í Reykjadal, 8-21 árs. Lögð er áhersla á að hver og einn einstaklingur njóti sín á sínum forsendum.

Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal er elsta starfandi meðferðarstofnun landsins og rekið af Samhjálp. Þar er unnið með einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða. Í Hlaðgerðarkoti starfar þverfaglegt teymi, læknis, hjúkrunarfræðings, félagsráðgjafa og áfengis- og fíkniráðgjafa ásamt því sem umsjónarmenn eru við störf allan sólahringinn. Lögð er áhersla á heimilis­legt og hlýlegt viðmót og er virðing fyrir einstaklingnum höfð að leiðarljósi.

Eldri deild Varmárskóla verður Kvíslarskóli

Fimmtudaginn 6. maí var tilkynnt um nýtt nafn á eldri deild Varmárskóla. Efnt var til nafnasamkeppni á skólann sem 7.-10. bekkur mun tilheyra við stofnun hans 1. ágúst næstkomandi og fékk skólinn nafnið Kvíslarskóli að undangenginni nafnasamkeppni.
Varmárskólanafnið mun fylgja yngri deildinni og því varð að finna nýtt nafn á eldri deild núverandi Varmárskóla.

Nafnanefnd vann úr tillögum
Skipuð var nafnanefnd til að vinna úr tillögum að nafni og leggja til við bæjarráð þá tillögu sem varð hlutskörpust.
Í nafnanefndinni sátu Bjarki Bjarnason bæjarfulltrúi V-lista og Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi S-lista sem fulltrúar bæjarstjórnar, Birgir D. Sveinsson, fyrrverandi skólastjóri sem fulltrúi samfélagsins, Margrét Lára Höskuldsdóttir sem fulltrúi starfsmanna skólans og Ásta Kristbjörnsdóttir sem fulltrúi nemenda. Þórhildur Elvarsdóttir skólastjóri Varmárskóla var ritari nafnanefndarinnar.
Góð þátttaka var í samkeppninni og bárust alls 68 tillögur að nýju nafni. Nafnanefndin setti sér starfsreglur og fundaði tvisvar sinnum. Að lokum stóð eitt nafn eftir, Kvíslarskóli, en sjö tillögur bárust þar sem þetta nafn var lagt til og komu þær frá 7. GÁS og 10. KÁ í Varmárskóla, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Óðni Pétri Vigfússyni, Einari Jóhannessyni, Jóhönnu Magnúsdóttur og Krista Glan.

Sjö tillögur um Kvíslarskóla
Nafn skólans, Kvíslarskóli, kallast á við Varmárskólanafnið enda um systurskóla að ræða, það vísar beint til örnefnis í næsta nágrenni sem er Kaldakvísl og loks er nýja nafnið í góðu samræmi við þá nafnahefð sem mótast hefur síðustu áratugi hér í Mosfellsbæ sem er að kenna skóla við örnefni í næsta nágrenni við skólana. Þá var nefnt í umræðu um nýja nafnið á samfélagsmiðlum að með sama hætti og Kaldakvísl tekur við vatni úr Varmá þá mun Kvíslarskóli taka við nemendum úr Varmárskóla
Eins og Mosfellingar vita hefur eldri deild Varmárskóla lengi verið kölluð Gaggó Mos enda gekk skólinn lengi undir heitinu Gagnfræðaskóli Mosfellsbæjar þegar það skólastig var við lýði í landinu. Nú eru hins vegar hvorki til barnaskólar né gagnfræðaskólar og því ekki unnt að nota þau orð sem hluta af formlegu heiti skóla en mörgum þykir auðvitað vænt um eldra nafnið og gera má ráð fyrir því að það lifi í einhverri mynd áfram.

Kjötbúðin opnar í Mosó

Geir Rúnar Birgisson eigandi Kjötbúðarinnar.

Kjötubúðin mun opna glæsilega verslun í Sunnukrika í næstu viku. Það er Mosfellingurinn Geir Rúnar Birgisson sem er eigandi og rekstraraðili Kjötbúðarinnar.
Geir, sem er kjötiðnaðarmeistari, hefur rekið Kjötbúðina á Grensásvegi síðastliðin 10 ár við góðan orðstír. „Ég byrjaði minn feril í Nóatúni hér í Mosó, þegar búðin lokaði var alltaf draumurinn að opna kjötbúð hér í bænum.
Á þessum tíma var ekkert hentugt húsnæði og úr varð að ég opnaði Kjötbúðina á Grensásvegi og hef rekið hana undanfarin 10 ár,“ segir Geiri. Búðin í Sunnukrika mun verða útibú frá hinni búðinni þar sem öll vinnsla mun fara fram.

Styttra fyrir Mosfellinga
„Við munum vera hér með ferskt kjötborð og allt sem því tilheyrir, meðlæti, sósur og eftirrétti. Það verður styttra fyrir Mosfellinga að ná sér í steik á grillið en stór hópur minna viðskiptavina eru Mosfellingar,“ segir Geiri en þess má geta að Kjötbúðin hefur verið stór styrktaraðili meistaflokks karla í knattspyrnu undanfarin ár og hafa grillaðir hamborgarar frá Kjötbúðinni verið seldir á heimaleikjum við miklar vinsældir.
Í byrjun júní mun Nettó opna verslun í sama húsnæði en fyrir er heilsugæslan og Apótekarinn með starfsemi í húsinu. „Nettó leitaði til mín og sá greinilega hag í því að vera með kjötbúð við hliðina á verslun sinni og ég tel að við eigum eftir að eiga í góðu samstarfi hér. Ég er mjög spenntur að opna en undirbúningurinn er búinn að vera langur. Ég heyri að það spenningur í bæjarbúum og ég er líka rosa ánægður að opna loksins kjötbúð á heimaslóðum,“ segir Geiri að lokum.

Sterkar konur

Mér finnst vænlegast til árangurs að breyta hlutum með því að vinna að umbótum með mismunandi leiðum. Þannig geta fleiri nýtt styrkleika sína og tekið þátt í umbótunum. Heilbrigðiskerfið er gott dæmi. Tækninýjungar, framfarir í læknavísindum og betra skipulag í þjónustunni eru nokkur dæmi um hvernig við getum gert kerfið okkar betra. Skipulagið við bólusetningarnar í Laugardalshöllinni er mjög gott dæmi um hverju er hægt að áorka með þaulhugsuðu skipulagi.

En við getum líka bætt heilbrigðiskerfið með því að passa betur upp á okkar eigin heilsu. Því heilsuhraustari sem við erum, því minni þörf höfum við fyrir þjónustuna og því minna verður álagið á kerfið. Þarna finnst mér ég geta gert gagn og reyni því að einbeita mér að því að efla heilsu þeirra sem eru í kringum mig.

Metoo bylgjan sem fór á stað í síðustu viku hefur haft sterk áhrif á mig. Mér finnst erfitt að lesa allar frásagnirnar og finn til með þeim konum sem stíga fram og segja sína sögu. Ég hélt við værum komin lengra í þessu ferli sem samfélag. Mér finnst mikilvægt að við tökum öll þátt í að breyta þessu og eins og með heilbrigðiskerfið, reynum að finna hvar og hvernig við getum gert mest gagn. Nýtt okkar styrkleika, pælt í því „hvað ég get gert“ og svo látið verkin tala.

Fyrir utan að gera mitt besta til að reyna að vera góð fyrirmynd fyrir syni mína, finnst mér ég gera mest gagn á þessu sviði með því að halda áfram að byggja upp hópa þar sem konur og karlar æfa saman. Í okkar litla styrktaræfingaklúbbi er kona yfirþjálfari og þjálfaralistinn telur svipað margar konur og karla. Líklega fleiri konur í dag. Í æfingahópnum eru bæði konur og karlar, langflestir tímar eru kynjablandaðir. Útkoman – gagnkvæm virðing, jákvæð samskipti, sterkar konur og karlar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 13. maí 2021

Aldrei fleiri tillögur borist í Okkar Mosó

Alls bárust 140 tillögur frá íbúum í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021 og hafa þær aldrei verið fleiri. Nú stendur yfir mat og úrvinnsla tillagnanna hjá fagteymi starfsfólks á umhverfissviði Mosfellsbæjar. Hugmyndirnar eru metnar út frá þeim forsendum sem gefnar eru í söfnun hugmynda og mótaðar til uppstillingar fyrir kosningu. Í kjölfarið verður stillt upp allt að þrjátíu verkefnum sem íbúum gefst kostur á að kynna sér nánar og kjósa um í kosningum sem munu hefjast 31. maí og standa til 6. júní. Mosfellsbær var fyrst sveitarfélaga til þess að veita 15 ára og eldri íbúum kost á að taka þátt í kosningunni um verkefni og er það nú orðið aldursviðmið hjá flestum öðrum sambærilegum verkefnum. Íbúar eru hvattir til þess að kynna sér þau verkefni sem lögð verða í dóm kjósenda og taka þátt í að velja verkefni sem koma til framkvæmda á næstu tveimur árum. Gert er ráð fyrir því að kostnaður við framkvæmd verkefnanna nemi allt að 35 milljónum króna á tímabilinu.

Endurminningar drengs sem réð sig sem kaupamann á Meltún

Meltúnshlaðið. Kýrnar á leið í fjósið til mjalta. Brúsapallurinn er til hægri við túnhliðið. Bragginn á melnum handan við Álafossveginn var í eigu Reykjalundar. Ljósmynd: Kristbjörn Egilsson, ágúst 1969.

Út er komin Meltúnsbók, Sumardvöl í Mosfellssveit 1962-1963 eftir Kristbjörn Egilsson.
Um er að ræða endurminningar drengs sem galvaskur réð sig sem kaupamann á bæinn Meltún í Mosfellssveit sumrin 1962 og 1963. Í bókinni er fágæt lýsing á lífi og starfi á nýbýli í hreppi sem var í örum vexti á sjöunda áratug 20. aldar. Horfinn heimur. Í ritinu er fjöldi ljósmynda sem ekki hafa birst áður.
Einnig er að finna í bókinni minningarbrot húsmóðurinnar í Meltúni, Sigríðar Þórmundsdóttur, sem hún skráði þegar hún var 85 ára. Þar fjallar hún m.a. um tímann þegar þau hjón staðfestust í Mosfellssveitinni og stofnuðu nýbýlið Meltún rétt eftir seinni heimstyrjöldina í skugga berklaveikinnar.
Meðfylgjandi er kafli úr bókinni en hana er hægt að nálgast í Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar eða í gegnum síma 8622728.


Meltúnshjónin

Ég var tvö sumur í Meltúni og dvaldi þar í bæði skiptin frá miðjum júní til ágústloka. Í Meltúni bjuggu Sigríður Þormóðsdóttir (55 ára) og Eiríkur E. F. Guðmundsson (55 ára) ásamt uppeldissyninum Sigmari Péturssyni (11 ára).
Sigríður var Borgfirðingur, fædd í Langholti, en alin upp á hinni fornu klausturjörð Bæ sem foreldrar hennar keyptu og bjuggu á mestan sinn búskap. Systkinin í Bæ urðu fjórtán og ellefu náðu fullorðinsaldri. Eiríkur var Vestfirðingur, fæddur í Botni í Súgandafirði og ólst þar upp. Systkinin urðu tíu. Eiríkur fór í Alþýðuskólann á Hvítárbakka þegar hann stóð á tvítugu og þar kynntist hann Sigríði, einni af heimasætunum í Bæ.

Berklarnir gera vart við sig
Þau giftust árið 1932 fyrir vestan. Hinn mikli vágestur berklarnir sem tröllreið íslensku samfélagi á þessum árum tróð sér inn í líf ungu hjónanna, bæði veiktust af berklum og lágu á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Veikindin voru langvinn og meðan Eiríkur lá á Vífilsstöðum fór Sigríður til móðursystur sinnar, Ingunnar Guðbrandsdóttur og Helga Finnbogasonar á Reykjahvoli. Þar með má segja að örlög þeirra væru ráðin hvað varðaði búsetu. Mosfellssveit varð þeirra sveit.
Þegar Eiríkur náði betri heilsu hóf hann vinnu hjá ullarverksmiðjunni á Álafossi og vann einnig á stórbýlunum Korpúlfsstöðum og Lágafelli, og svo í lausamennsku. Á þessum árum eignuðust Sigríður og Eiríkur lítið hús í landi Reykjahvols sem þau kölluðu Hverabakka og bjuggu þar í átta ár.

Húsið reist á mel sem áður hýsti braggabyggð
Eftir stríðið gekkst hreppsnefnd Mosfellshrepps fyrir því að stofna til nýbýla á hreppsjörðum, einkum í landi Lágafells og Varmár. Eiríkur og Sigríður fengu land á Jónsteigi sem er á austurmörkum Varmárlandsins, nánar tiltekið á melnum sunnan við Álafossverksmiðjuna.
Árið 1947 stofna þau nýbýlið Meltún, flytja Hverabakkahúsið með sér, stækka það og endurbæta, byggja útihús og rækta upp melana sem bærinn heitir eftir. Samkvæmt leigusamningi við Mosfellshrepp frá árinu 1950 var Mel­túnslandið 5,1 ha. Árið 1957 bættust við 2,2 ha. Jörðin var því alls 7,3 ha.
Sigríður og Eiríkur höfðu búið í Meltúni í 38 ár þegar Eiríkur lést árið 1985. Eftir það bjó Sigríður þar ein uns hún fluttist á Hlaðhamra í Mosfellsbæ árið 1988.
Meltún var reist á mel sem hafði verið nýttur fyrir braggabyggð hernámsliðs. Ábúendur græddu upp melinn og breyttu í gjöful tún og beitiland. Nú hafa bæjarhúsin verið rifin og túnin byggð nýrri kynslóð húsa.

Ég vil hafa fallegt í kringum mig

Það var vel tekið á móti mér á fallegu heimili athafnakonunnar og fagurkerans Maríu Mörtu Sigurðardóttur í Helgafellshverfinu. Við fengum okkur sæti í betri stofunni og María bauð upp á kaffi og ljúffenga ostaköku.
María hefur starfað við innflutning á ýmiss konar varningi í gegnum tíðina en nú er hún að flytja inn falleg þurrblóm og strá í hinum ýmsu litum og gerðum. Hún segir þurrskreytingar mikið í tísku í dag bæði fyrir fyrirtæki og heimili.

María Marta er fædd í Reykjavík 3. október 1964. Foreldrar hennar eru þau María Matthíasdóttir og Sigurður Jónsson en hann lést árið 2003.
Systkini Maríu eru Sigurlína Guðfríður, Jón og Sigríður Hrönn og samfeðra eru þau Valdimar og Hjördís.

Afi sagði mér sögur úr sveitinni
„Ég ólst upp í Vesturbænum en bjó einnig við Nesveg á Seltjarnarnesi, á báðum þessum stöðum var gott að búa. Við mamma fórum oft til trillukarlanna við Ægisíðuna til að kaupa rauðmaga og svo var komið við í mjólkurbúðinni á leiðinni heim.
Ég var lánsöm því á æskuheimili mínu bjó föðurafi minn, ég á margar dýrmætar minningar úr æsku tengdar honum. Afi kenndi mér bænir og vísur og sagði mér sögur úr sveitinni, hann lést þegar ég var 16 ára.“

Alin upp á kristnu heimili
„Ég er alin upp á kristnu heimili, foreldrar mínir voru bæði með kristilegan bakgrunn úr æsku. Borðbænir voru hafðar fyrir máltíðir og sunnudagsmaturinn var vanalega í hádeginu. Heima í stofu var svo lítill sunnudagaskóli fyrir okkur systkinin.
Ég byrjaði skólagöngu mína í Mýrarhúsaskóla og fór síðan í Melaskólann. Tók stúdentspróf frá Kvennaskólanum og fór síðan til Kenýa og var þar í þrjá mánuði hjá systur minni og fjölskyldu sem voru þar sem kristniboðar.
Þegar ég kom heim fór ég að starfa hjá lyfjainnflutningsfyrirtæki í Garðabæ.“

Flutti úr foreldrahúsum
„Árið 1986 fór ég á árshátíð KFUM og K, þar kynntist ég yndislegum manni, Ásgeiri Markúsi Jónssyni, sem síðar varð eiginmaður minn, faðir barna minna og besti vinur. Ásgeir var búsettur í Mosfellsbæ, var ekkill, átti tvö börn og starfaði sem flugvélstjóri hjá Flugleiðum.
Árið 1987 flutti ég úr foreldrahúsum í Bugðutangann og þar bjuggum við Ásgeir okkur heimili til 28 ára. Ég tengdist yngra barni Ásgeirs, Gerði Rós, sterkum böndum enda áttum við sama heimili.“

Aldursmunurinn truflaði okkur aldrei
„Við Ásgeir giftum okkur 1987 og þrátt fyrir 21 árs aldursmun þá truflaði hann okkur aldrei, það var einstök ást á milli okkar sem óx með degi hverjum.
Það sem skipti okkur mestu máli í lífinu voru börnin okkar og þeirra farsæld en við eignuðumst þrjú börn. Davíð f. 1988 starfar í Dalsgarði í Mosfellsdal, Rakel f. 1990 er flugfreyja og förðunarfræðingur og Samúel f. 1996 starfar hjá Bakka í Mosfellsbæ og er nemi í Tækniskólanum. Þau voru öll á leikskólanum Hlaðhömrum og í Varmárskóla og ég verð ævinlega þakklát fyrir hversu vel var haldið utan um þau af einstaklega góðu starfsfólki á báðum þessum stöðum en eitt barna okkar þurfti meiri þjónustu en venjan er.
Ásgeir hóf störf hjá Cargolux 1989 og þá hófst tímabil í lífi okkar þar sem hann var mikið fjarverandi. Í Lúxemborg áttum við okkar annað heimili og við tengdumst borginni fljótt.
Vorið 2003 keyptum við okkur sumarbústaðaland við Hafravatn og byrjuðum á að setja niður tré og gera fínt í kringum okkur. Við keyptum síðan hús frá Danmörku og skiptum því út fyrir gamla bústaðinn. Sæluvíkin okkar eins og hún heitir er griðastaður og er uppfull af góðum minningum.“

Hann fól Drottni þetta verkefni
„Í maí 2008 hófst erfitt tímabil í lífi okkar þar sem Ásgeir greindist með krabbamein. Við tóku aðgerðir og lyfjameðferðir en við litum á þetta sem okkar sameiginlega verkefni eins og allt annað. Ásgeir sýndi einstakt æðruleysi í veikindum sínum og fól Drottni þetta verkefni eins og öll önnur í lífinu.
Hann lést 2015 og höggið var gríðarlegt og sorgin og söknuðurinn óbærilegur. Eftir stóð ég ung ekkja með börnin þrjú en það sem hjálpaði mér mest var hvað við hjónin höfðum talað mikið saman og ákveðið margt áður en hann lést.
Ég fékk einstakan kraft til þess að takast á við framhaldið og ákvað að standa upprétt gagnvart börnunum mínum og tengdabörnum. Við vorum umvafin fjölskyldu og vinum sem studdu okkur.
Með hækkandi sól kom inn í líf mitt ömmuprinsessa, Sigurbjörg María, sem hefur veitt mér mikla gleði. Ég hef líka verið lánsöm með börnin mín því þau hafa staðið þétt við bakið á mömmu sinni, bæði í gleði og sorg.“

Gekk í gegnum sömu lífsreynslu
„Þótt áföllin í lífi mínu hafi verið mörg þá hef ég líka upplifað mikla gleði og hamingju. Haustið 2015 kynntist ég góðum manni, Tryggva Þorsteinssyni sölustjóra, sem er ástin mín og kletturinn í lífi mínu. Á árum áður vissum við af hvort öðru í gegnum dætur okkar sem spiluðu saman knattspyrnu með Aftureldingu.
Tryggvi gekk í gegnum sömu lífsreynslu og ég en hann missti maka sinn, Jóhönnu Gunnlaugsdóttur, úr krabbameini. Hana þekkti ég og hún var vel gerð kona. Tryggvi og Jóhanna eignuðust eina dóttur, Kristínu.“

Útbjuggum myndavegg á heimilinu
„Við Tryggvi ákváðum að fara ekki hratt út í hlutina barnanna vegna og eins þurftum við tíma til að vinna úr sorginni. Við höfum staðið við hlið hvors annars og hjálpast að við að halda minningu Ásgeirs og Jóhönnu á lofti. Fyrir jólin útbjuggum við myndavegg á heimili okkar þar sem þau eru í miðjunni og út frá þeim koma myndir af okkur og börnunum okkar.
Við eigum saman vel gerðan og skemmtilegan hóp af glæsilegu ungu fólki sem eru börnin okkar, tengdabörnin Einar, Lovísa og Guðmundur og tvær dásamlegar ömmu- og afaprinsessur, þennan hóp köllum við söfnuðinn.“

Hef alltaf haft áhuga á blómum
„Ég starfaði sem ritari í Lágafellsskóla í nokkur ár og svo hef ég lengi starfað við ýmiss konar innfluting. Núna er ég að flytja inn þurrblóm og strá í mörgum litum og stærðum. Þessar vörur eru mikið í tísku í dag bæði fyrir fyrirtæki og heimili. Ég hef einnig verið að gera samúðargjafir, skreyti trékrossa, geri vendi og leiðisskreytingar.
Ég hef mikla ánægju af að skreyta heimili mitt og vil hafa fallegt í kringum mig. Ég hef haft áhuga á blómum allt mitt líf og hef sótt nám í tengslum við þau. Ætli áhugi minn á þeim og að raða saman litum sé ekki hugmyndin að þessu öllu saman.
Ég vona að Mosfellingar taki mér vel og komi og skoði úrvalið hjá mér en hægt er að hafa samband við mig á stilkur.is. Ég kem til með að vera með sérstakt tilboð fyrir Mosfellinga út maí,“ segir María og brosir um leið og við kveðjumst.

Vilja koma málefnum langveikra og fatlaðra á framfæri

Anna Greta Ólafsdóttir skólastjóri Varmárskóla í settinu hjá Ágústu Fanneyju Snorradóttur.

Ágústa Fanney Snorradóttir kvikmyndagerðarkona rekur fyrirtækið Mission framleiðsla sem staðsett er í Háholti 14.
Ágústa hefur búið í Mosfellsbæ síðan í byrjun 2019 ásamt konu sinni og tveimur dætrum. Ágústa er menntuð í kvikmyndagerð og sjónvarpsframleiðslu frá skólanum COC í Kaliforníu. „Ég útskrifaðist 2013 og gerði þá heimildamyndina HUMAN TIMEBOMBS sem tekur á taugasjúkdóminum AHC, myndin hlaut fjölda verðlauna og mikla athygli,“ segir Ágústa sem stofnaði svo Mission framleiðslu árið 2017. „Eldri dóttir mín fæddist sama ár og ég stofnaði fyrirtækið og sú yngri kom í heiminn 17 mánuðum síðar í Kaliforníu þar sem við vorum búsettar á þeim tíma.
„Ég hef unnið með nokkrum fyrirtækjum hérna heima, framleitt og leikstýrt alls konar efni en ég starfa einnig sem tökumaður og klippari. Það er virkilega gaman að vera núna komin með Mission framleiðslu í gang og ekki skemmir fyrir að vera staðsett hér í dásamlega Mosfellsbæ.“

Margra ára samstarf við Góðvild
Ágústa er að framleiða ýmis myndbönd og kynningarefni og má þar nefna Spjallið með Góðvild sem sýndur er í hverri viku á vísir.is.
Þættirnir eru afurð margra ára samstarfs Ágústu og Sigurðar Hólmars Jóhannessonar sem er framkvæmdastjóri Góðvildar. „Þegar ég fékk það verkefni á vegum Góðvildar um að gera kynningamyndbönd fyrir félagið þá kviknaði þessi hugmynd að þáttunum. Ég fann að það var bara of mikið af hlutum sem þyrfti að ræða og koma hreyfingu á varðandi þennan málaflokk.
Inntak þáttanna er að koma mikilvægum málefnum langveikra og fatlaðra á Íslandi á framfæri. Við erum að vekja athygli á öllu sem við kemur þessum málaflokk, viðmælendur okkar spanna allan skalann, allt frá sjúklingum, foreldrum langveikra og fatlaðra barna til stjórnenda og stjórnmálamanna sem hafa meira með kerfið að gera.“

Anna Greta nýjasti viðmælandinn
„Þættirnir fóru að stað síðasta haust eru sýndir alla þriðjudaga á vísi, áhorfið hefur verið mikið og við fengið mikil viðbrögð.
Það er gaman að segja frá því að í nýjasta þættinum er viðmælandi okkar hún Anna Greta Ólafsdóttir skólastjóri Varmárskóla.
Anna Greta er sjálf með ADHD og henni er mikið í mun að skólakerfið mæti börnum á þeirra forsendum. Hún hefur góða og skýra sýn á skólakerfið á Íslandi og sterkar skoðanir á því hvernig við eigum að mæta börnum með námsörðugleika betur, hún er alveg frábær fyrirmynd,“ segir Ágústa að lokum og tekur fram að alla þættina má nálgast á Vísir.is.

Öll börn á unglingastigi hafa nú aðgang að tölvum

Frá afhendingu tölva í Varmárskóla.

Í síðustu viku tóku skólar í Mosfellsbæ á móti 360 Chromebook fartölvum til afnota fyrir nemendur í 7.-10. bekk í grunnskólum bæjarins.
Þá hafa einnig verið keyptir 200 iPadar til afnota fyrir nemendur í 1.–6. bekk. Um er að ræða stærsta einstaka áfangann í því átaki sem hefur staðið yfir síðustu misseri við að bæta tölvukost í grunnskólum bæjarins fyrir bæði nemendur og starfsmenn.

Þróunarvinna frá árinu 2019
Allt er þetta hluti af þróunar- og umbótavinnu á sviði upplýsingatæknimála grunnskóla bæjarins sem staðið hefur yfir frá árinu 2019. Frá því að síðast voru sagðar fréttir af verkefninu í Mosfellingi hefur ýmislegt átt sér stað.
Ráðgjafi var ráðinn síðasta haust til þess að styðja grunnskólana við að taka næstu skref í þróun upplýsingatæknimála. Unnin var greining og mat á tækjakosti skóla og á þeim grunni sett fram þarfagreining sem tók mið af stöðunni og þörfum skólanna. Í kjölfarið var gerður samningur um Seesaw aðgang fyrir alla nemendur í 1.-6. bekk og kennara þeirra og Google for Education fyrir nemendur á unglingastigi.

Dreift miðað við stöðu tækjaeigna
Þessum 360 fartölvum og 200 spjaldtölvum var dreift í skólana miðað við stöðu tækjaeignar í hverjum skóla og þess gætt að hún sé nú orðin sambærileg milli grunnskólanna.
Nemendur í 7.-10. bekk hafa nú hver og einn afnot að Chromebook í skólanun og í 1.-6. bekk verða um 1,6 nemendur um hvern iPad og auðvelt verður að fá bekkjarsett til afnota við verkefnavinnu.

Umbætur og þjálfun starfsfólks
Sett hefur verið á laggirnar upplýsingatækniteymi í hverjum grunnskóla, sérstök Seesaw og Google leiðtogateymi með þátttöku kennara og stjórnenda.
Allir grunnskólar geta nú hagnýtt Google for Education og hafa mörg námskeið verið haldin í grunnskólunum fyrir kennara um Google for Education umhverfið og Seesaw umhverfið auk sérsniðinna námskeiða fyrir leiðtogateymin sem síðan er ætlað að kenna í þeirra skólum og aðstoða aðra kennara.

Enn eitt stóra skrefið í skólaþróuninni
„Sú umbreyting á vinnubrögðum og fjárfesting í tækjum og hugbúnaði sem nú stendur yfir í skólum Mosfellsbæjar er enn eitt stóra skrefið í skólaþróun í Mosfellsbæ,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Kennarar og aðrir starfsmenn grunnskóla munu bera þessa umbreytingu áfram í samvinnu við nemendur og foreldra og ég hef þá trú að góður undirbúningur og röggsöm framkvæmd fræðslu- og frístundasviðs, starfsmanna og stjórnenda skólanna hafi skipt sköpum í þessu verkefni og muni skila okkur miklu til framtíðar litið. Framtíðin er núna,“ segir Haraldur.

Arnór Gauti til liðs við Aftureldingu

Arnór Gauti ásamt þjálfurunum Magnúsi Má og Enesi Cogic.

Afturelding hefur fengið sóknarmanninn öfluga Arnór Gauta Ragnarsson til liðs við sig fyrir átökin í Lengjudeildinni í fótbolta í sumar.
Arnór Gauti er að snúa aftur á heimaslóðir í Mosfellsbæ en hann kemur á lánssamningi frá Fylki. Arnór Gauti er 24 ára gamall og hefur spilað 68 leiki í Pepsi Max-deildinni á ferli sínum með Breiðabliki, ÍBV og Fylki.
„Það hefur verið uppgangur hjá Aftureldingu síðustu ár. Það er margt nýtt og mjög spennandi tímar fram undan. Liðið spilar virkilega skemmtilegan fótbolta og ég held að ég eigi eftir að smellpassa inn í þetta,“ sagði Arnór Gauti eftir að hafa skrifað undir hjá Aftureldingu.

Hjálpar okkur mikið í baráttunni í sumar
Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar fagnar komu Arnórs Gauta. „Við höfum lengi viljað fá Arnór Gauta aftur í rauðu treyjuna og nú loksins er það orðið að veruleika. Það er mikið fagnaðarefni að góðir leikmenn úr Mosfellsbæ hafi trú á því sem við erum að gera og vilji koma aftur á heimaslóðir og taka þátt í því. Ég er ekki í vafa um að Arnór Gauti á eftir að hjálpa okkur mikið í baráttunni í sumar.“
Það styttist í að fótboltasumarið hefjist en fyrsti leikur Aftureldingar er gegn Kórdrengjum á Fagverksvellinum við Varmá föstudagskvöldið 7. maí næstkomandi.

Ákvarðanir og afstaða

Í gærmorgun (þetta er skrifað á mánudagsmorgni) sat ég við eldhúsborðið og skipulagði vorið og sumarið út frá þeirri heimsmynd sem þá blasti við mér. Dagatalið var stútfullt af fótboltaleikjum, æfingum og viðburðum sem tengdust þessu tvennu. Tilhlökkunin var mikil. Núna rétt rúmum sólarhring síðar eru blikur á sóttvarnarlofti vegna þess að örfáir einstaklingar höfðu ekki dug í sér til þess að fara eftir okkar einföldu sóttvarnarreglum.

Ég er venjulega geðgóður, bjart­sýnn og skilningsríkur en ég skil ekki hvað þeir sem ferðast og fylgja ekki sóttvarnarreglum eru að hugsa. Það eru sóttvarnarreglur í öllum löndum heims og þeir sem geta skipulagt ferðalög ættu að geta skipulagt sóttkví líka. Ef ekki, ættu þeir ekki að ferðast. Ég ferðaðist sjálfur í febrúar og fannst sjálfsagt að fara eftir sóttvarnarreglum, heima og heiman.

Það skín hugsanlega í gegn að ég er smá súr yfir þessu og ekki í skapi til að smella fram „allir geta nú gert mistök“ frasanum. Þetta eru einfaldlega mistök sem enginn ætti að vera að gera núna þegar covidið er búið að hefta okkur svona lengi. EN, ég ætla samt ekki að vera fúll lengi eða láta þetta eyðileggja fyrir mér sumarið. Það er ekki búið – þegar þetta er skrifað – að breyta sóttvarnarreglum, en ég er viðbúinn og klár með Plan B ef það verður gert. Ég ætla að hafa nóg að gera og vera mjög aktívur næstu mánuði, það er ekki nokkur einasti möguleiki að ég ætli að leggjast í covid-dvala þegar sól er hæst á lofti.

Tilveran er dugleg þessa dagana að bjóða okkur upp á áskoranir og gleðitíðindi til skiptis. Það sem við getum gert er að stýra eigin viðbrögðum og athöfnum. Finna leiðir, sjá tækifæri og skipuleggja okkur þannig að við getum bæði notið góðra stunda og brugðist hratt við breyttum aðstæðum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. apríl 2021

Sjálfboðaliðar á ritaraborðinu síðastliðin 40 ár

Mosfellingarnir Ingi Már Gunnarsson og Gunnar Ólafur Kristleifsson hafa unnið ötult sjálfboðaliðastarf fyrir Aftureldingu síðastliðin 40 ár.
Þeir félagar hafa gengt ýmsum störfum fyrir félagið en þeirra aðalstarf hefur þó verið að sinna ritara- og tímavörslu fyrir handboltadeildina.
„Íþróttahúsið var tekið í notkun 4. desember 1977, ég held að fyrsta klukkan hafi komið í húsið 1978 en það var Búnaðarbankinn í Mosfellsbæ sem gaf Aftureldingu klukkuna, en síðan er nú komin nýr og fullkomnari búnaður í húsið. Við höfum meira og minna sinnt þessu starfi síðan. Við tókum báðir dómarapróf hjá HSÍ í kringum 1980 og dæmdum mikið fyrir félagið og ég dæmdi líka í efstu deild á Íslandi,“ segir Ingi Már.

Æfðu báðir með Aftureldingu
„Við vorum náttúrlega báðir að æfa hérna bæði handbolta og fótbolta og spiluðum fyrir félagið, svo þróast þetta út í það að við tökum að okkur dómgæslu og svo ritara- og tímavarðastörf.
En síðan árið 2000 þá má eiginlega segja að við höfum verið á ritaraborðinu fyrir stákana og svo núna síðust árin líka í kvennaboltanum,“ segir Gunnar. En þeir félagar segja að þetta gefi þeim mikið, að þeir hafi kynnst mörgu skemmtilegu fólki í kringum þetta starf en fyrst og fremst finnst þeim þetta rosalega gaman.

Boðið á heimsmeistaramótið í Katar
Síðastliðin 15 ár hafa þeir Ingi Már og Gunnar starfað á ritaraboðinu fyrir HSÍ á landsleikjum og öllum stórum leikjum sem HSÍ sér um. „Það hefur líka verið sjálfboðaliðastarf en árið 2015 þá var okkur boðið á vegum HSÍ á HM til Katar. Það var í raun þannig að allar þátttökuþjóðirnar fengu að bjóða 20 manns á mótið og hvert sérsamband hafði frjálst val um það hverjum þeir buðu. HSÍ tók þá ákvörðun að bjóða sjálfboðaliðum sem höfðu unnið fyrir sambandið og nokkrum styrktaraðilum.
Þetta var ógleymanleg ferð en þarna vorum við á fimm stjörnu hóteli með öllu inniföldu, vorum keyrðir fram og til baka á alla leiki og dekrað við okkur á allan hátt,“ segir Ingi Már.

Höfum gaman af þessu ennþá
„Það má eiginlega segja að þetta hafi verið bestu launin eða viðurkenningin sem við höfum fengið fyrir okkar sjálfboðaliðastarf, þetta var algjörlega ógleymanlegt ævintýri.
Maður hefur verið tengdur handbolta og Aftureldingu meira og minna alla ævi og það hefur verið gaman að fylgjast með og upplifa allar þessar breytingar sem hafa verið hér á Varmársvæðinu á þessum tíma.
Við höfum nú stundum grínast með það hvort að það sé ekki kominn tími til að hleypa að yngri og ferskari mönnum, en á meðan við höfum gaman af þessu þá höldum við áfram,“ segir Gunnar að lokum.

Rótarýklúbbur Mosfellssveitar 40 ár

Sex af stofnfélögum ásamt forseta klúbbsins.

Rótarýklúbbur Mosfellssveitar átti 40 ára afmæli 17. mars og var haldinn glæsileg afmælisveisla hjá Vigni Kristjánssyni í veislusal í Lágmúlanum. 50 gestir mættu og komust færri að en vildu, vegna sóttvarnarreglna.
Meðal gesta voru sex stofnfélagar, Guðmundur Bang, Hilmar Sigurðsson, Davíð Atli Oddsson, Georg Tryggvason, Örn Höskuldsson og Sveinn Frímannsson. Á myndini má sjá stofnfélagana ásamt Elísabetu S. Ólafsdóttur forseta Rótarýklúbbs Mosfellsbæjar.
Söngvaranir Davíð Ólafsson, Stefán Helgi Stefánsson ásamt Helga Má Hannessyni skemmtu gestum eins og þeim einum er lagið.
Rótarý er alþjóðleg hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu sem stendur fyrir mannúðar- og menningarstarfi, stuðlar að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetur til góðvildar og friðar í heiminum.