asd f

Veitingafélagið styrkir Reykjadal

asd f

Síðastliðið sumar var góðgerðarhelgi hjá Veitingafélaginu, sem er í eigu hjónanna Óla Vals og Ragnheiðar, þá í tilefni hálfrar aldar afmælis Óla Vals.
Ákveðið var að ánafna 50% af sölu á veitingastöðum félagsins til valdra góðgerðarfélaga. Auk Bankans bistro í Mosfellsbæ á félagið og rekur veitingastaðina Mandi og Hlöllabáta.
Reykjadalur í Mosfellsdal er eitt af þeim góðgerðarfélögum sem Veitingafélagið styrkti. „Okkur langaði að styðja við frábært starf Reykjadals sem tekur á móti fötluðum börnum og ungmennum í sumarbúðir og styttri vetrardvalir. Börn vina okkar hjóna hafa notið frábærra stunda í Reykjadal, auk þess er ég alin upp í Mosfellsbæ og fjölskyldan mín hefur sterkar taugar til Reykjadals,“ segir Ragnheiður Þengilsdóttir, sem einnig er mannauðsstjóri Veitingafélagsins.
Á myndinni eru Ragnheiður Þengilsdóttir f.h. Veitingafélagsins, Andrea forstöðumaður Reykjadals og Anna Lilja sem var mætt á jólaskemmtun í Reykjadal og tók á móti styrknum sem var uppá 726.782 krónur.