Reykjalundur lokar hluta húsnæðis vegna bágs ástands

Í byrjun desember lokaði endurhæfingarstöðin Reykjalundur hluta húsnæðis síns vegna bágs ástands bygginga heilbrigðisstofnunarinnar.
Var þetta gert í framhaldi af úttekt verkfræðistofu sem sýnir að óheilnæmt er fyrir sjúklinga og starfsfólk að dvelja í umræddum byggingum.

Viðamikil úttekt verkfræðistofu
Stjórnendur og starfsfólk Reykjalundar hafa um nokkurn tíma haft grun um að hluti húsnæðis Reykjalundar sé ófullnægjandi, annars vegar út frá veitingu heilbrigðis­þjónustu til viðkvæmra sjúklingahópa og hins vegar sem vinnuaðstaða starfsfólks. Þessar áhyggjur hafa undanfarin misseri verið kynntar fulltrúum Sjúkratrygginga, heilbrigðisráðuneytis og heilbrigðisráðherra sjálfum.
Viðamikil úttekt verkfræðistofunnar Verksýnar á húsnæðinu hófst síðasta sumar og staðfestir hún, því miður, grun um ófullnægjandi ástand þess. Þær byggingar sem þarf að loka eru báðar hæðir C-álmu, efri hæð F-álmu og smáhýsi sem staðsett eru á lóð Reykjalundar og hafa verið notuð til gistingar fyrir sjúklinga utan af landi. Jafnframt þarf að loka nokkrum afmörkuðum stöðum í A-, B- og G-álmum. Auk þessa verða nokkrar álmur settar í sérstaka hreinsun og regluleg aukaþrif þar sem ástandi er ábótavant en þó ekki talið heilsuspillandi.
„Reynt hefur verið eins og kostur er að sjá til þess að lokunin verði ekki til að draga úr starfseminni þó óneitanlega verði einhverjir hnökrar á þjónustu. Óvissa ríkir um hversu lengi lokunin mun vara, þar sem ekki eru fjármunir til staðar til að fara í þær umfangsmiklu lagfæringar sem nauðsynlegar eru,“ segir Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar.

Stjórnvöld meðvituð um stöðuna
Þjónustusamningur Reykjalundar við Sjúkratryggingar Íslands kveður á um að greiðslur samkvæmt honum megi einungis nýta í veitingu þjónustu við sjúklinga og felur ekki í sér sérstakar greiðslur til viðhaldsverkefna. SÍBS (eigandi húsnæðisins) hefur frá stofnun Reykjalundar árið 1945 greitt kostnað við uppbyggingu og viðhald.
Eftir því sem húsnæðið verður eldra og viðhaldsfrekara samhliða því sem tekjur af flokkahappdrætti SÍBS hafa minnkað, þá hrökkva þeir fjármunir ekki lengur til og því hefur einungis lágmarksviðhaldi verið sinnt á Reykjalundi í mörg ár.
Stjórnvöld hafa verið meðvituð um þessa stöðu og meðvituð um að húsnæðismál Reykjalundar væru langt frá því að vera sjálfbær. Þrátt fyrir það hefur ekki ennþá verið gengið frá framtíðarfyrirkomulagi húsnæðismála Reykjalundar.
„Við lokunina standa til boða færri rými fyrir sjúklinga utan af landi því hluti húsnæðisins sem lokað verður hefur verið nýttur fyrir gistingu sjúklinga sem ekki komast til síns heima á kvöldin.
Alls misstu 32 starfsmenn vinnuaðstöðu sína og hefur verið unnið að því að skipuleggja nýjar starfsstöðvar fyrir umrætt starfsfólk til bráðabirgða. Slíkt fyrirkomulag gengur þó ekki upp til langframa,“ segir Pétur Magnússon.

Engir fjármunir til staðar
„Það er von Reykjalundar að hægt verði að finna lausn sem tryggir samfellda og órofna þjónustu við sjúklinga til bæði skamms og langs tíma ásamt því að geta boðið upp á góða vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk.
Verið er að skoða möguleika á tímabundinni uppsetningu færanlegra húseininga eða flutningi tímabundið í annað laust húsnæði. Vandinn er hins vegar sá að engir fjármunir eru til staðar til að greiða fyrir leigu slíks húsnæðis, né til að hefja viðgerðir á núverandi húsnæði. Það ríkir því mikil óvissa um þá mikilvægu starfsemi sem fram fer á Reykjalundi.“