Bjarki ritar Árbók FÍ

Bjarki Bjarnason og Ólöf Sívertsen.

Bjarki Bjarnason rithöfundur á Hvirfli í Mosfelldal og Ferðafélag Íslands hafa undirritað samning um ritun árbókar félagsins 2026.
Bókin mun fjalla um Kjósarsýslu sem náði um aldir frá Elliðaánum inn í Hvalfjarðarbotn og upp á miðja Mosfellsheiði; innan sýslunnar voru þrír hreppar: Mosfellshreppur, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur.
Bjarki segir það mikið tilhlökkunarefni að takast á við þetta áhugaverða verkefni. „Í bókinni verður fjallað um Kjósarsýslu frá öllum sjónarhornum,“ segir hann, „um jarðfræði, náttúrufar, dýralíf, sögu og mannlíf í aldanna rás. Áður fyrr mynduðu íbúar í þessum hreppum félagsleg tengsl með ýmsum hætti, prestarnir á Mosfelli og Reynivöllum þjónuðu í kirkjunum á Kjalarnesi, bændur bundust samtökum og sýslungar tókust á í íþróttum, meðal annars í Sýsluglímu Kjósarsýslu. Karlakór Kjósarsýslu var til í eina tíð og unglingar af Kjalarnesi og úr Kjós sóttu skóla í Mosfellssveit og voru þá í heimavist. Og svo gnæfir Esjan yfir og allt um kring,“ bætir Bjarki við.
Árbók Ferðafélags Íslands er elsta ritröðin sem gefin er út á Íslandi, hún hefur komið út samfleytt frá árinu 1928, nú á dögum er bókin prentuð í 15 þúsund eintökum og dreift til félagsmanna.
Á ljósmyndinni eru Bjarki og Ólöf Kristín Sívertsen, forseti Ferðafélags Íslands, myndin var tekin í jólaskóginum í Hamrahlíð síðastliðinn sunnudag í tilefni af ákvörðun um þessi árbókarskrif.