Við metum betur það sem við höfum í dag

Bjarki Sigurðsson viðskiptastjóri og Elísa Henný Arnardóttir hjúkrunarfræðingur hafa bæði glímt við eftirköst af COVID-19. Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræða þau um lífshlaup sín og hvernig veikindin hafa skert lífsgæði þeirra til muna.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru algengustu einkenni COVID-19 hiti, hósti, kvefeinkenni, slappleiki og skyndileg breyting á lyktar- eða bragðskyni, sumir smitast þó án þess að sýna einkenni. Flestir ná sér af sjúkdómnum án sérstakrar meðferðar en aðrir eru því miður ekki eins heppnir.
Hjónin Bjarki og Elísa Henný hafa bæði glímt við eftirköst af COVID-19 en þau greindust árið 2020. Síðan þá hefur bati þeirra verið hægur en með tímanum hafa þau fundið jafnvægi á líðan sinni og geta því stjórnað orkunni í rétta átt.

Bjarki fæddist í Reykjavík 16. nóvember 1967. Foreldrar hans eru þau Valgerður Ingibjörg Jóhannesdóttir húsmóðir og Sigurður Sverrir Guðmundsson vélstjóri.
Bjarki á tvær systur, Bryndísi Margréti f. 1959 og Berglindi f. 1971.

Elísa Henný fæddist í Reykjavík 18. maí 1968. Foreldrar hennar eru þau Björg Magnúsdóttir skrifstofukona og Örn Henningsson tryggingamiðlari.
Elísa á tvo bræður, Magnús Helga f. 1964 og Hjört Örn f. 1976.

Dásamlegt að alast þarna upp
Bjarki og Elísa Henný eru bæði uppalin í Fossvogshverfinu fyrir utan fimm ár sem Elísa var búsett í Breiðholti en hún hélt samt áfram skólagöngu sinni í Fossvogsskóla. Fossvogurinn var að byggjast upp á þessum tíma og því mikið um að barnafjölskyldur væru að koma sér fyrir. Fjöldi barna var því ávallt úti að leika sér og það var margt um að vera. Þau eru sammála um að þarna hafi verið dásamlegt að alast upp.
Bjarki og Elísa kynntust þegar þau voru 14 og 15 ára gömul í Réttarholtsskólanum. Bjarki segist hafa verið búinn að gjóa á hana augum áður en hún veitti honum athygli. Leiðir þeirra lágu síðan saman í partíi og þá tókust kynni með þeim fyrir alvöru.

Reyndasti leikmaður sögunnar
Þegar Bjarki var lítill strákur hafði hann lítinn áhuga á íþróttum en hann hjólaði mikið með félögum sínum og reyndi fyrir sér í knattspyrnu. Fjölskyldan fór mikið í útilegur og ferðalög á hans yngri árum og eins fór Bjarki í margar utanlandsferðir sjóleiðina með föður sínum en hann starfaði sem vélstjóri á millilandaskipum.
Áhugi hans á handbolta hófst þegar hann var sextán ára þegar skólabróðir hans Örnólfur Jónsson dró hann með sér á handboltaæfingu hjá Víkingi. Tveimur árum síðar var Bjarki valinn í æfingahóp landsliðsins og fór hann með þeim víða um heim.
Bjarki er einn reyndasti leikmaður í sögu íslenska karlalandsliðsins í handknattleik en ferill hans spannar um 30 ár. Hann var valinn til að taka þátt í Ólympíuleikunum í Seúl í Kóreu árið 1988, hann spilaði með landsliðinu á HM í Frakklandi 1989 þar sem þeir urðu heimsmeistarar, úrvalsliði á HM í Svíþjóð 1993 og eins spilaði hann á móti Egyptum sama ár með heimsliðinu.

Besta tímabilið með Aftureldingu
Bjarki átti möguleika á að gerast leikmaður stærstu liða í Evrópu en sökum þess að hann var samningsbundinn hér heima þá gat hann ekki farið. Þegar samningur hans losnaði 1997 þá fékk hann tilboð frá Drammen í Noregi sem hann gat ekki hafnað. Bjarki bjó eitt ár í Noregi, átti frábært tímabil og endaði næst markahæstur. Hann fékk síðan tilboð frá Aftureldingu sem hann tók og á þessum tíma varð liðið þrefaldur Íslandsmeistari svo það má segja að Bjarki hafi þarna spilað sitt langbesta tímabil, með sínu heimaliði.
Ég spyr Bjarka hvort hann stundi einhverjar íþróttir í dag? „Já, ég stunda hjólreiðar, golf og skíði á veturna og svo fer ég í ræktina við og við, maður þarf að hafa eitthvað fyrir stafni,“ segir Bjarki og brosir.

Íþróttirnar tóku alveg yfir
„Ég gekk í Fossvogs- og Réttarholtsskóla, á unglingsárunum var mikið um að vera og íþróttirnar farnar að taka yfir þannig að það fór kannski minna fyrir lærdóm á þeim tíma en með árunum þá fór maður að hafa meiri áhuga á námi. Á sumrin með skólanum starfaði ég hjá verktakafyrirtæki.
Frá Fjölbraut í Ármúla fór ég í Iðnskólann í Reykjavík í rafvirkjun, ég var mjög heppinn því ég fékk vinnu sem lærlingur hjá Rafver ehf. Eftir námið hélt ég áfram hjá þeim og starfaði sem rafvirki í nokkur ár, þetta var frábær tími með fagmannlegu fólki.
Leið mín lá síðan í Háskóla Íslands þar sem ég tók diploma í rekstrar- og viðskiptafræði og í dag starfa ég sem viðskiptastjóri hjá Jónar Transport.“

Fóru til að styðja sitt lið
Elísa fór mikið í skíðaferðir á sínum yngri árum með stórfjölskyldunni á skíðasvæði Víkings en í útilegur og jeppaferðir á sumrin. Fjölskylda hennar var líka dugleg að fara á fótbolta- og handboltaleiki hjá Víkingi en þau fóru til að styðja sitt lið. Elísa fór líka í Vindáshlíð og var dugleg í skátastörfunum sem krakki.
„Við fjölskyldan bjuggum í blokk í Fossvoginum með svo skemmtilegu fólki sem við höfum enn samband við og það eru reglulega haldin Keldulandspartý. Við krakkarnir í blokkinni vorum alltaf saman, vorum meira að segja með okkar eigið fótboltalið með sér búningum og allt, þetta eru svo skemmtilegar minningar,“ segir Elísa og brosir.

Það var bara svo gaman að vera til
„Ég gekk í Fossvogs- og Réttarholtsskóla og mér fannst yfirleitt mjög gaman í skólanum. Ég var samt pínu kvíðin og þorði aldrei að mæta ein í skólann, mátti aldrei mæta of seint og var mjög samviskusöm. Á sumrin með skólagöngunni starfaði ég í bæjarvinnunni, sem sendill og við afgreiðslustörf.
Mér fannst skemmtilegast á menntaskólaárunum í Menntaskólanum við Sund. Það var bara svo gaman að vera til, félagsskapurinn, tónlistin, allt dramað og hláturs­köstin, við vinkonurnar getum endalaust rifjað upp þessi góðu ár og hlæjum enn. Ég fór svo í Háskóla Íslands í hjúkrun og eftir útskrift þá hef ég starfað hjá Sjúkrasamlaginu, Heilsugæslunni í Mosfellsbæ og Landspítalanum. Í dag starfa ég á skurðstofunum í Orkuhúsinu.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum þótt ég hafi ekki verið að æfa sjálf. Ég er mikið fyrir útivist, hef stundað hlaup og gengið á fjöll. Ég hef verið í skokkhópum og eins hef ég skokkað mikið með mömmu minni og Sesselju vinkonu sem hefur alltaf hvatt mig, sama hvað. Það er svo gott að búa hér í Mosfellsbæ með öll þessi fell í kringum okkur, hér eru dásamlegar skokk- og gönguleiðir.“

Oft fjör á stóru heimili
Bjarki og Elísa giftu sig árið 1990, þau eiga fjögur börn, Örn Inga f. 1990, Kristinn Elísberg f. 1995, Bjarka Stein f. 2000 og Önnu Katrínu f. 2003.
„Við höfum verið dugleg í gegnum tíðina að fara í útilegur með krakkana, þau elskuðu að fara í þessar ferðir svo fellihýsið hefur komið að góðum notum. Við höfum líka stundað útivist mikið, hjólreiðar, farið í göngur og á skíði
Öll börnin okkar hafa stundað íþróttir og við höfum verið mikið með þeim í kringum þær. Horfum mikið á íþróttakappleiki saman, hittumst svo í Hjallahlíðinni, borðum góðan mat og förum í pottinn. Það er oft mikið fjör á stóru heimili, trúðu mér,“ segir Elísa og brosir.

Einkennin ekki mikil í fyrstu
Bjarki og Elísa Henný greindust bæði með Covid í október 2020 en þau eru meðal þúsunda annarra Íslendinga sem glíma við langvarandi veikindi af slíkri sýkingu.
Einkenni Bjarka voru ekki mikil í fyrstu en hann fékk hita á fyrsta degi en eftir nokkra daga hvarf svo lyktar- og bragðskynið.
Elísa segir að veikindin sjálf hafi ekki verið svo slæm í fyrstu, bara þessi venjulegu flensueinkenni, hiti, höfuðverkur og slappleiki. „Ég hef aldrei misst bragð- né lyktarskyn, Guði sé lof því ég elska að borða,“ segir Elísa og brosir.

Með sjúkrabíl á bráðamóttökuna
„Eftir að ég greindist með Covid fór ég allt í einu að finna fyrir einkennum frá hjartanu sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður,“ segir Bjarki. „Ég fór með sjúkrabíl á bráðamóttökuna þar sem ég var rannsakaður í bak og fyrir og í ljós kom að ég er með hjartsláttartruflanir. Ég var settur á lyf og fór heim að rannsókn lokinni. Nú er ég undir eftirliti hjá hjartalækni sem metur stöðu mína hverju sinni.
Ég fæ slæm hjartaköst öðru hverju og það er ekki langt síðan ég fékk mitt versta kast. Ég svitna við minnstu áreynslu, hjartað pumpar hratt og svo ekkert og svo aftur hratt. Maður er orðinn næpuhvítur og með yfirliðstilfinningu, það er alveg hrikaleg vanlíðan á meðan þetta stendur yfir,“ segir Bjarki alvarlegur á svip. „Næstu daga á eftir líður manni eins og það sé búið að soga úr manni alla orku, svipað og maður hafi hlaupið heilt maraþon, maður er bara alveg búinn á því.
Vinnuveitendur mínir hafa sýnt þessu mikinn skilning á allan hátt, ég get unnið heima þegar ég þarf á að halda, fyrir það er ég mjög þakklátur.“

Ég hef það að leiðarljósi
„Mér var ráðlagt að fara rólega af stað sem ég gerði en fór svo til vinnu og fann að ég var enn slæm,“ segir Elísa. „Fékk einkenni eins og mikla mæði, höfuðverki, brjóstverki, heilaþoku, málstol, mikið orkuleysi, skjálfta, svima og svo ágerðist þetta bara með tímanum.
Ári seinna eða í október 2021 þá krassa ég algjörlega, fer á Reykjalund í endurhæfingu og miklar rannsóknir. Starfsfólk Reykjalundar reyndist mér vel en mér fannst mjög erfitt að vera komin í þá stöðu að þurfa að fara þangað inn. Mér fannst að margir aðrir þyrftu þess miklu frekar en ég. Læknirinn minn sagði við mig að batinn yrði hægur næstu árin og ég hef haft það að leiðarljósi.
Ég var í veikindaleyfi fram í maí og byrjaði þá í 50% vinnu en er núna komin í 80%, ég vinn ekki á miðvikudögum, það er heilagur hvíldardagur hjá mér.
Vinnuveitendur mínir og samstarfsfólk hafa sýnt mér mjög mikinn skilning og stuðning, þau hafa passað að ég fari ekki fram úr mér og fyrir það er ég þakklát. Það er sigur fyrir mig að geta unnið, sumir hafa ekki getað mætt aftur til starfa eftir Covid.
Það koma auðvitað dagar þar sem ég hef ekki getað mætt og þá finnst mér að ég hafi tapað.“

Allt hverfur innan úr mér
„Batinn er upp á við en hægur, einkennin sem ég hef enn eru verkir, þyngsli í brjóstkassa, höfuðverkur og mest orkuleysi. Þegar líður á daginn fer ég að tæmast að innan, allt hverfur innan úr mér og það er bara ekkert eftir. Ég þarf oft að taka verkjalyf og orkudrykki þegar ég kem heim sem ég gerði aldrei áður,“ segir Elísa.
„Ég hef verið að reyna að finna jafnvægi í þessu öllu saman frá því að ég greindist, er farin að stjórna orkunni því oft var það þannig að ef ég gerði of mikið einn daginn þegar mér leið vel þá þurfti ég að borga fyrir það með því að liggja í rúminu í þrjá daga. Hvíld og orkusparnaður er það sem virkar til að líða betur. Ég get ekki lengur skokkað eða hreyft mig eins og ég vil og auðvitað hefur það áhrif á andlegu hliðina.
Eftir svona veikindi lærir maður að meta betur það sem maður hefur og það sem maður getur notið, fjölskylduna, góða vini, frábæra og skemmtilega vinnu, jóga og fleira til. Við eigum líka þrjú yndisleg barnabörn sem gefa okkur svo mikið, ég vildi að ég hefði meiri orku með þeim.“

Höfum upplifað mikla góðsemi
„Við Bjarki þekkjum marga sem eru að glíma við mikla erfiðleika í lífinu svo okkur finnst við bara vera heppin miðað við okkar aðstæður. Við horfum bæði björtum augum á framtíðina og stefnum að bata en til þess þarf mikla þolinmæði. Standa með sjálfum sér, læra að slaka á og fá ekki móral yfir því að velja og hafna því sem maður gerir. Það getur verið svo erfitt að vera búin að plana eitthvað með fjölskyldu og vinum og þurfa svo að hætta við á síðustu stundu vegna veikindanna, þetta tekur virkilega á.
Við höfum upplifað svo mikla góðsemi og væntumþykju frá fólki, fjölskyldum okkar, vinum, samstarfsfólki og fleirum, við erum bara orðlaus. Við erum sannarlega rík að hafa allt þetta góða fólk í kringum okkur.“
Ég spyr hjónin í Hjallahlíðinni hvort þau vilji segja eitthvað að lokum. „Já, við óskum Mosfellingum öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári,“ og þar með kvöddumst við.