Framleiðir sitt eigið fæðubótarefni

Mosfellingurinn Daníel Ingi Garðarsson er ungur athafnamaður sem hóf framleiðslu á fæðubótarefnum á síðasta ári.
„Upphafið að þessu var að ég fór sjálfur í hormónamælingu og greinist með of lágt testósterón og vantaði góðan búster fyrir testó en fann engan hér á landi og ákvað að búa til minn eigin og svo þróaðist þetta út frá því,“ segir Daníel sem segir lágt testósterón og ófrjósemi hjá ungum karlmönnum vera vaxandi vandamál í vestrænum heimi.

Framleitt í Matís
Daníel er mikill grúskari og hefur mikinn áhuga á indverskri og kínverskri læknisfræði, grúskar mikið í rannsóknum og er í líftækninámi sem stendur.
„Öll línan mín er framleidd hér á landi í Matís og ég nota einungis hágæða hráefni í fæðubótarefnin mín sem ég flyt inn sjálfur. Ég er með 6 vörur og ætla mér að breikka línuna í framtíðinni. Svo hef ég mikinn áhuga á að skoða íslenskar jurtir og vinna með þær í framtíðinni.“

Framleiðir undir nafninu Ingling
„Sem barn las ég mikið Íslendingasögurnar og ein af mínum uppáhalds sögum er Ynglingasaga en allir Íslendingar geta örugglega rakið ættir sínar þangað.
Sagan fjallar um afkomendur guðsins Freys sem er guð frjósemi og fannst mér þetta smellpassa. Og lógóið mitt er Ynglingarúnin. Svo er það líka skemmtilegt að ég heiti Ingi að öðru nafni,“ segir Daníel og hlær.

Ætlar sér stóra hluti
„Virknin í jurtunum sem ég er með, eins og til dæmis Ashwagandha sem hefur notið mikilla vinsælda á síðastliðnum árum, er að koma á hormónajafnvægi, virkar vel á streitu og álag og fleira. Markmið mitt er að bæta heilsu og vellíðan allra Íslendinga.
Vörurnar er hægt að fá á heimasíðunni minni www.ingling.is, Mamma veit best og í Urðarapóteki,“ segir Daníel að lokum og hvetur allar Mosfellinga til að skoða síðuna sína og kynna sér fæðubótarefnin sem hann býður upp á.