Núið

Ég er að vinna í núinu. Það er ekki einfalt. Kollurinn fer svo auðveldlega á flakk. Ég fer að hugsa um það sem ég ætla að gera, það sem er fram undan, það sem væri gott að myndi gerast og það sem væri minna gott að myndi gerast. En þegar ég næ að róa hugann og njóta þess sem ég er að gera án þess að velta á sama tíma fortíð eða framtíð fyrir mér þá færist yfir mig ró og friður, athyglin verður dýpri og ég skynja hluti betur.

Samhliða því að vinna í núinu er ég að vinna í breytingum. Ár 2024 er fyrir mér ár breytinga. Þessar breytingar krefjast þolinmæði, úthalds, seiglu og jákvæðs viðhorfs. Það er hollt að setja sjálfan sig í þannig aðstæður reglulega, að geta tekist á við þær áskoranir sem breytingar hafa í för með sér.

Ein leið til að tengja núið og breytingar saman er flæði. Að taka ákvarðanir, gera eitthvað en leyfa svo hlutunum að gerast í stað þess að vera of ákaftur í að ýta þeim áfram með afli. Anda inn um nefið og út um það líka. Það er heldur ekki einfalt fyrir mig, ég er ekki mjög þolinmóður að upplagi. Svo það er hollt fyrir mig að vinna í því líka, flæðinu. Flæði eins og ég túlka það, snýst um að koma hreyfingu á hluti, gára vatnið, en svo leyfa vatninu að renna þangað sem það á að renna og á þann hátt sem það á að renna.

Janúar er góður mánuður, einn af mínum uppáhalds. Lífið verður eðlilegt aftur eftir viðburðaríkan desember og það er upphafs- og bjartsýnisorka í loftinu. Evrópumót í handbolta spillir ekki fyrir – ég spái því að Steini okkar Mosfellinga verði kallaður inn í liðið um mitt mót og verði í kjölfarið ein af stjörnum mótsins.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. janúar 2024