Hestar þurfa ekki að kunna allt

Ragnheiður Þorvaldsdóttir reiðkennari og tamningakona hefur sérhæft sig í sirkusþjálfun síðastliðin 10 ár.

Ragnheiður er alin upp í Hvítárholti í Hrunamannahreppi og segir það forréttindi að hafa alist þar upp. Hestamennska er henni í blóð borin því fjölskylda hennar hefur ræktað hross í áratugi ásamt því að reka hestaleigu.
Ragnheiður starfar í dag við reiðkennslu og þjálfun hesta en auk þess hefur hún sérhæft sig í sirkusþjálfun sem hún segir að sé góð tilbreyting frá hinum hefðbundnu störfum.

Ragnheiður er fædd á Selfossi 27. janúar 1980. Foreldrar hennar eru þau Halla Sigurðardóttir fyrrverandi bóndi en starfar í dag sem matráðskona hjá Landstólpa og Þorvaldur Jón Kristinsson smiður.
Ragnheiður á tvær systur, Elínu Ósk Hölludóttur f. 1972 og Rakel Eyju Þorvaldsdóttur f. 1990.

Uppgötvuðu fornleifar í moldarhaugum
„Ég ólst upp í sveit á bænum Hvítárholti í Hrunamannahreppi og á kærar minningar úr sveitinni, ég tel það mikil forréttindi að hafa alist þar upp.
Sumarið sem ég var 10 ára stendur ofarlega í minningunni en það var óvenju sólríkt sumar. Ég og Birgitta frænka mín sem var í sveit hjá okkur eyddum sumrinu við hestagirðinguna daginn út og daginn inn. Við vorum oft klæddar nærbuxum einum fata með pils á höfðinu og þóttumst vera indjánar. Við óðum í skurðum, stöppuðum í drullu og uppgötvuðum fornleifar í moldarhaugum, þá aðallega gömul rollubein. Skemmtilegast fannst okkur þó að hanga upp á hestunum með engin reiðtygi,“ segir Ragnheiður og brosir af minningunni.

Krafturinn í hrossunum engum líkur
„Ég mun aldrei gleyma þegar ég fékk mér blund á Mána gamla en hann var á beit innan um alla hina hestana. Allt í einu fældust hestarnir og ég ranka við mér og næ að grípa í faxið og hestarnir rjúka á harða stökk eftir hólfinu endalöngu. Þetta er það trylltasta sem ég hef lent í, krafturinn í hrossunum var engum líkur og ég gat ekki gert neitt nema að halda mér á baki, enda ekki með neitt beisli.“

Útskrifaðist frá Hólum í Hjaltadal
„Ég gekk í Flúðaskóla og á fínar minningar úr skólanum. Við vorum fá í bekk, 12 nemendur þangað til í 8. bekk þá bættust við 6 krakkar úr nærliggjandi hreppum.
Ég fór síðan í FSU og útskrifaðist þaðan af hússtjórnarbraut, ég fór líka í Iðnskólann og lærði að teikna þar. Leið mín lá síðan í Hóla í Hjaltadal þaðan sem ég útskrifaðist hestafræðingur, leiðbeinandi og tamningakona. Árið 2006 fór ég aftur á Hóla í áframhaldandi nám og kláraði reiðkennarann.“

Giftum okkur öllum að óvörum
„Ég er gift Ara Hermanni Oddssyni, múrarameistara og hann er líka fimmfaldur járnkarl og ofurmenni. Við kynntumst á blindu stefnumóti árið 2000, vorum trúlofuð í 15 ár og giftum okkur svo 2015 öllum að óvörum í sameiginlegu afmæli okkar beggja. Við eigum þrjú börn, Kristján Hrafn f. 2003, Odd Carl f. 2007 og Sigríði Fjólu f. 2011.
Fjölskyldan hefur mjög gaman af því að ferðast og við förum mikið í veiðiferðir. Börnin hafa líka mikla hreyfiþörf eins og pabbi sinn, þau hjóla mikið á fjallahjólum með honum en fara svo í hestaferðir með mér.
Yngstu börnin eru á fullu með mér í hestunum og eru dugleg að ríða út og eru líka farin að keppa töluvert. Sá elsti er efnilegur í þríþraut og svo ætlar hann sér í Laugavegshlaupið í sumar.“

Hún er svona bredda í sér
„Ég starfa við að þjálfa hesta og kenna fólki og tel það mikil forréttindi að geta starfað við mitt aðaláhugamál. Undanfarin 10 ár hef ég sérhæft mig í sirkusþjálfun og blanda saman smelluþjálfun og 7 games með Pat Parelli. Ég hef þjálfað merina mína, Ósk frá Hvítárholti mest í þessu, hún er mikill karakter, stygg, með mikla hlaupaþörf og svona bredda í sér. Hún hefur sem betur fer mikið dálæti á nammi og ég tengi saman smelluþjálfun við nammið, þá er leikurinn auðveldari. Ég hef kennt henni allskonar kúnstir og við höfum komið fram í mörgum sýningum.“

100% traust ríkir
„Hann Svali minn er engum líkur, gæti kannski talist á smá einhverfurófi. Hann var ekki nema fjögurra vetra þegar ég kenndi honum að leggjast. Það er líka það eina sem hann kann og það er líka bara alveg nóg því hestar þurfa ekki að kunna allt. Fljótlega fór ég að prófa að velta honum á bakið og það var ekkert mál í rauninni því hann er svo afslappaður hestur að eðlisfari.
Það er ólýsanleg tilfinning að sitja á maganum á hestinum sínum með alla fætur upp í loft, þar ríkir 100% traust til að þetta sé hægt. Svali hefur komið fram á mörgum sýningum og þá oftast til þess að leggjast niður.
Ég hef líka tekið að mér verkefni í bíómyndum en síðasta mynd sem ég starfaði við var Batman myndin, Justice League, það var alveg magnað ævintýri að taka þátt í því.“

Þeysumst reglulega á Löngufjörum
„Ég held að flestir hestamenn séu sammála um máltækið, „kóngur um stund” sem lýsir best hvað hestamennska snýst um. Þegar sviti og tár gleymast í þjálfunarferlinu, hesturinn bætir við sig eða sýnir sínar bestu hliðar.
Það er líka gæsahúðatilfinning að vera á hraðskreiðum vígalegum gæðingi í stórbrotinni náttúru. Ég á einn svoleiðis hann Hrímni, við þeysumst reglulega um á Löngufjörum. En það er ekkert sem toppar að fara á fjall og smala kindum í Hrunamannaafrétt, það er vikuferðalag í fallegri náttúru með góðu fólki.“

Gef sjálfri mér tíma
„Hestarnir taka nánast allan minn frítíma en ég reyni samt að gefa sjálfri mér tíma og rækta eigin líkama. Ég hef prófað ýmislegt, æft bootcamp, hlaupið New York maraþon, gengið á Hvannadalshnjúk og tekið þátt í Íslandsmóti í hjólreiðum.
Ég tók grunnnámskeið í brasilískri glímu, tekið ýmis konar föndur og hannyrða maníu og málað myndir með olíu, svo hef ég líka óbilandi áhuga á garðrækt þannig að þú sérð að það vantar ekkert upp á áhugamálin,“ segir Ragnheiður og hlær er við kveðjumst.

Friðland við Varmárósa stækkað

Umhverfis- og auðlindaráherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hefur skrifað undir stækkun á friðlandinu við Varmárósa í Mosfellsbæ.
Með stækkuninni er svæðið sem friðlýsingin tekur til um 0,3 ferkílómetrar að flatarmáli (30 hektarar), sem er um þrisvar sinnum stærra svæði en áður var, og hefur það markmið að vernda náttúrulegt ástand votlendis og sérstakan gróður sem á svæðinu er að finna.
Varmárósar voru fyrst friðlýstir árið 1980 og friðlýsingin svo endurskoðuð árin 1987 og 2012, en svæðið hefur verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1978.

Verndargildi svæðisins
Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í því að þar er að finna fágæta plöntutegund, fitjasef (Juncus gerardii), sem vex þar í þéttum breiðum. Stækkað friðland Varmárósa nær einnig yfir mikilvægt fæðusvæði ýmissa fuglategunda og búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda.
Varmárósar eru annar af tveimur þekktum fundarstöðum fitjasefs hérlendis en tegundin hefur verið á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2018.
„Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur fylgst náið með þessu verkefni og stutt tillögur og vinnu umhverfisnefndar í hvívetna. Verndun og endurheimt votlendissvæða eru mikilvæg verkefni á sviði umhverfismála og samvinna Mosfellsbæjar við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og umhverfisstofnun í þessi verkefni hefur verið mjög farsæl.“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Fjölskrúðugt líf í fjöru og á landi
„Votlendissvæði hafa átt undir högg að sækja undanfarna áratugi. Ég tel mikilvægt að við náum að tryggja vernd þeirra og endurheimt og fagna því að finna hve ríkur vilji hefur verið af hálfu Mosfellinga til að stuðla að vernd þessa einstaka svæðis.
Friðlýsing svæðisins hefur fram til þessa og mun enn frekar hér eftir stuðla að því að íbúar og gestir svæðisins geti notið þess fjölskrúðuga lífs sem finna má í fjöru og á landi við þessa fallegu árósa,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritun friðlýsingarinnar.
Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar og umhverfisnefndar Mosfellsbæjar, ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins og fulltrúum Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins, en stækkunin hefur verið unnin í góðu samráði og samvinnu fulltrúa þessara aðila.

Sorgarferlið ansi flókið

Anan Lilja Marteinsdóttir og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir.

Vinkonurnar Anna Lilja Marteinsdóttir og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir eiga margt sameiginlegt. Þær heita báðar Anna, eru þrítugar, búa í Mosó, og búa báðar yfir þeirri reynslu að hafa misst maka sinn fyrir þrítugt. Þar af leiðandi hafa þær báðar verið nánasti aðstandandi þess sem missir.
Þær hafa verið vinkonur frá sextán ára aldri og fylgst að síðan þá. Á dögunum opnuðu þær vefsíðuna Tilstaðar.is þar sem hægt er að kaupa eins konar samúðargjöf eða box með litlum glaðningi fyrir þá sem eiga um sárt að binda.

Ómetanlegur vinskapur
„Vinskapur okkar er ómetanlegur og eins og við segjum oft, hefðum við ekki getað ímyndað okkur þegar við kynntumst 16 ára að við ættum eftir að vera í þessum sporum um þrítugt.
Ég missi minn maka skyndilega 2013 þá 23 ára gömul sem var mikið áfall. Ég var þarna að takast á við mikla sorg og í raun vissu vinkonur mínar ekki hvernig þær ættu að nálgast mig og margar af þeim að missa góðan vin. Hvað þær ættu að segja og hvað þær ættu að gera,“ segir Anna Sigga.

Fyrstu mánuðirnir í móðu
„Á þessum tíma voru ég og Jói maðurinn minn að reka Hvíta Riddarann og Anna Sigga og Þórhallur að vinna þar og við í miklum samskiptum bæði innan sem utan vinnustaðarins.
Þarna var ég í raun að upplifa mitt stærsta áfall í lífinu að missa góðan vin og reyna að vera til staðar fyrir Önnu Siggu. Þegar ég svo missi minn maka þá var mín fyrsta hugsun að leita til hennar. Ég fann það strax að hennar reynsla, eins hræðileg og hún var þá, hjálpaði mér að komast í gegnum fyrstu dagana. Fyrstu mánuðirnir eftir svona áfall eru í einhvers konar móðu en þegar frá líður þá er það algengt að fólk verði svolítið leitandi eftir einhvers konar þekkingu á sorgarferlinu,“ segir Anna Lilja.
Hún bætir við að hún hefði skilið betur stöðu aðstandenda með að vita lítið um það hvernig best væri að vera til staðar fyrir hana þegar sem hún hafði verið í þessum sporum þegar Anna Sigga missti sinn maka.

Dagarnir misjafnir
Þær segja ótrúlega dýrmætt að eiga hvora aðra að, þær leita til hvor annarrar um ráð og ræða mikið saman um sorgina og það að halda áfram með lífið. Þær segja sorgarferlið vera ansi flókið og dagarnir misjafnir, sumir ósköp venjulegir en aðrir svo erfiðir að þeir virðast óyfirstíganlegir.
„Við erum kannski búnar að eiga langt spjall og furðum okkur á því að vera tala um hluti sem þrítugar vinkonur ættu ekki að þurfa að ræða. En út frá öllum þessum samtölum og pælingum okkar kviknaði þessi hugmynd að boxunum því að við skynjum að fólk vill vera til staðar fyrir okkur en veit ekki hvernig.
Hugmyndin er að aðstandandi, vinahópur eða vinnufélagar geti keypt gjöf sem við sendum beint á viðtakanda. Gjöfin inniheldur fjögur lítil box með fallegum skilaboðum og litlum gjöfum sem allar eiga að stuðla að vellíðan,“ segja þær.

Að vera til staðar
„Þegar viðtakandi opnar boxið blasa við falleg skilaboð og hugmyndin er að þegar ástvinurinn á erfiða stund geti hann opnað einn kassa. Við vorum lengi að semja skilaboðin og vorum sammála um að syrgjandi þarf ekki á óvelkominni jákvæðni eða einhverju pirrandi peppi að halda heldur meira svona að þér má líða svona og það sé eðlilegt,“ segir Anna Sigga.
„Okkar saga er frávik, lífið á ekki að vera svona og við erum engir sérfræðingar eða með menntun á þessu sviði. Þetta er einungis framtak sem sprottið er af þessari sameiginlegu reynslu okkar og við teljum að vanti á markaðinn. Það er gott að geta miðlað okkar reynslu öðrum til góða,“ segir Anna Lilja að lokum og bendir á að auk heimasíðunnar Tilstaðar.is séu þær á Facebook og Instagram þar sem þær eru með bæði góð ráð og fræðslu.

Besta platan

Heilsa er ekki bara að sofa, borða og hreyfa sig. Heilsa snýst um miklu meira. Viðhorf til lífsins til dæmis. Það er hægt að skrolla sig í gegnum lífið með neikvæð gleraugu á nefinu og finna öllu og öllum allt til forráttu. En það er líka hægt að fara hina leiðina, einbeita sér að því að gera hluti sem maður hefur gaman af. Þríeykið sem heldur úti hlaðvarpinu „Besta platan“ er í seinni flokknum.

Þeir Skálmaldarbræður Baldur og Snæbjörn og félagi þeirra, doktorinn Arnar Eggert, ræða saman í þessum hlaðvarpsþáttum um hljómsveit eða listamann og fara aðallega yfir þá plötu sem Snæbjörn leggur upp með að sé besta plata viðkomandi. Ég hef mikið verið að hlusta á þessi þætti undanfarið – yfirleitt þegar ég er að iðnaðarmannast eitthvað heima hjá mér. Vinnan flýgur áfram undir spjalli og stundum söng þessara herramanna. Það skín sterkt í gegn hvað þeir hafa gaman af því sem þeir eru að gera og að vera saman.

Það er sömuleiðis greinilegt að þeir tækla hvert viðfangsefni af virðingu og heiðarleika. Og gera oft grín að sjálfum sér fyrir að hafa þegar þeir voru yngri verið fullir af fordómum og fyrir að hafa „haldið með“ ákveðinni hljómsveit og litið niður á aðra af því að umhverfið sem þeir voru í nánast krafðist þess. Allir hafa þroskast upp úr því og eru óhræddir að viðurkenna hvað þeim þykir gott og skemmtilegt, sama hvaðan það kemur og hvað það heitir.

Það er ótrúlega heilsueflandi þegar covidið heldur áfram að stríða okkur, jörð skelfur eða logar og íslensku landsliðin okkar í fótbolta tapa öllu sem þau komast í, að slökkva á fréttum, útvarpi og umhverfinu eiginlega og velja sér í staðinn skemmtilegan þátt í „Bestu plötunni“. Við höfum alltaf val, við getum valið skemmtilegu leiðina í lífinu. Ég mæli með henni!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. apríl 2021

Hugmyndasöfnun stendur yfir fyrir Okkar Mosó 2021

Ærslabelgur á Stekkjarflöt og skilti á fellum bæjarins eru meðal þess sem komið hefur til framkvæmda í Okkar Mosó.

Nú er komið að þriðju hugmyndasöfnuninni vegna Okkar Mosó, samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa Mosfellsbæjar.
Verkefnið byggir á áherslum í lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar um samráð og íbúakosningar auk þess sem markmið verkefnisins er að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Okkar Mosó 2021 byggist á fyrri reynslu sambærilegra verkefna árin 2017 og 2019.

Hugmyndasöfnun til 6. apríl
Íbúar Mosfellsbæjar eru hvattir til að senda inn fjölbreyttar hugmyndir að góðum verkefnum í bænum. Hugmyndirnar geta tengst því að gera Mosfellsbæ betri, skapa eitthvað nýtt, efla hreyfingu, hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa til útivistar og samveru, bættrar lýðheilsu eða aðstöðu til leikja og skemmtunar. Gert er ráð fyrir að verja allt að 35 milljónum króna í þau verkefni sem fá flest atkvæði.
Til að komast áfram í kosningu þurfa hugmyndirnar sem sendar eru inn að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
• Nýtast hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
• Vera til fjárfestinga en ekki rekstrar.
• Auðveldar í framkvæmd.
• Varða umhverfi á bæjarlandi en ekki á landi í einkaeigu.
• Falla að skipulagi og stefnu Mosfellsbæjar.
• Vera í verkahring sveitarfélagsins.
• Kostnaður hugmyndar taki ekki stóran hluta af fjármagni verkefnisins.

Kosið verður um bestu hugmyndirnar
Hver hugmynd þarf að vera vel útskýrð og með nákvæma staðsetningu. Það auðveldar fólki að meta hugmyndina og hvort það vilja gefa henni atkvæði. Athugið að starfsmenn Mosfellsbæjar geta óskað eftir nánari skýringum á hverri hugmynd.
Hugmyndir að framkvæmdum á íþrótta-, sundlaugar- og skólasvæðum þarf að skoða sérstaklega.
Kosið verður um bestu hugmyndirnar dagana 31. maí til 6. júní.

Börn eru svo einlæg og hreinskilin

Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir leiðsögumaður og viðburðastjóri er félagsforingi Skátafélagsins Mosverja.

Hæ Dagga, kölluðu börnin úr öllum áttum er við Dagbjört, eða Dagga eins og hún er ávallt kölluð, fengum okkur göngutúr í bænum einn góðviðrisdaginn. Það sést langar leiðir að Dagga hefur unun af því að vera í návist barna, hún hefur lengi sinnt yngstu kynslóðinni hér í bæ bæði sem stuðningsfulltrúi og sem forstöðumaður Frístundasels.
Í dag sinnir hún drekaskátunum hjá skátafélaginu Mosverjum ásamt því að veita félaginu forstöðu. Náttúran er þeirra leikvöllur og börnunum er kennt að tengjast orkunni sem í henni býr.

Dagbjört fæddist í Reykjavík 7. desember 1973. Foreldrar hennar eru þau Guðrún Kristinsdóttir bókari og Brynjar Vatnsdal Dagbjartsson smiður.
Dagbjört á tvo bræður, þá Dagbjart Kristin f. 1971 og Þorleif Jón f. 1978.

Lékum okkur í skóginum alla daga
Dagbjört ólst upp í Hafnarfirði en fjölskyldan fluttist búferlum til Svíþjóðar þegar hún var sex ára. Þau bjuggu fyrst í Helsingborg en svo byggðu foreldrar hennar sér hús í miðjum skóginum á Hallandsásnum.
„Við systkinin lékum okkur frjáls í skóginum alla daga með fullt af villtum dýrum í kringum okkur. Ég upplifði mig svolítið eins og Ronju Ræningjadóttur þegar hún strauk að heiman. Afi okkar, Kristinn Hallsson kom oft í heimsókn til okkar í tengslum við fundi. Hann kom iðulega með stútfullar ferðatöskur af alls kyns góðgæti eins og Cheerios, harðfiski og öðrum íslenskum gersemum.
Ég gekk í skátana og lærði að lifa í náttúrunni, elska hana og virða. Náttúran hefur síðan verið minn griðastaður og þangað fer ég til að endurnæra mig. En með aldrinum verð ég að viðurkenna að það er samt alltaf gott að sofa í rúminu heima líka,“ segir Dagga og brosir.

Of þrjósk til að láta það gerast
„Sumarið 1985 fór ég til Íslands í fyrsta sinn síðan við fluttum og þá uppgötvaði ég hvað landið er frábrugðið Svíþjóð. Allt hraunið frá flugvellinum, fossarnir, fjöllin og lítið af trjám. Ég fékk að sjá Geysi gjósa það sumar og þá vaknaði ást mín á íslenskri náttúru.
Ég gekk í skóla í Svíþjóð öll mín grunnskólaár og flutti svo heim til Íslands 1989 en þá var ég búin að koma hingað nokkur sumur til að vinna. Ég var vel talandi á íslensku en hafði hvorki lært íslenska réttritun né málfræði. Það gekk því pínu brösulega í íslenskuáföngunum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég féll þó aldrei, var einfaldlega of þrjósk til að láta það gerast.“

Keyptu sér húsbíl
Dagga er gift Páli Sigurði Magnússyni vélfræðingi sem lengst af hefur starfað við sjómennsku en starfar í dag hjá Lambhaga. Þau eiga tvær dætur, Andreu Dagbjörtu f. 1998 og Guðrúnu Ísafold f. 2000
„Foreldrar okkar Palla kynntust í skátunum og við líka svo ósjálfrátt snýst líf okkar mikið um skátastarf. Við höfum líka gaman af því að ferðast og síðastliðið sumar keyptum við okkur húsbíl sem við skírðum Benna. Við erum dugleg að fara í göngutúra og skoða okkur um, að njóta frekar en að þjóta er okkar.“

Starfið var bæði gefandi og krefjandi
Dagga hefur starfað hjá ýmsum fyrirtækjum í gegnum tíðina, hún var í gróðurhúsavinnu í Hveragerði, var leikskólastarfsmaður í Hafnarfirði og svo var hún bókari og sölufulltrúi hjá rafverktaka annars vegar og bólstrara hins vegar. Hún var stuðningsfulltrúi í Lágafellsskóla og tók síðan við stöðu forstöðumanns Frístundaselsins.
„Eftir að ég hætti í skólanum þá fór ég að starfa hjá Bandalagi íslenskra skáta sem verkefnastjóri dagskrár- og fræðslumála, það starf var rosalega gefandi en líka krefjandi. Þar kynntist ég Ólafi Proppé fv. rektor Kennaraháskólans og hann hvatti mig til þess að fara í háskólanám sem ég og gerði. Ég tók diplómanám í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum og fyrst ég var komin á bragðið þá tók ég leiðsögumanninn í Leiðsöguskóla Íslands.“

Grunnurinn er alltaf sá sami
„Skátastarfið í Svíþjóð var svolítið frábrugðið því sem er hér þótt grunnurinn sé í raun alltaf sá sami. Að upplifa ævintýri og takast á við áskoranir í hópi vina sem þú treystir.
Eftir að ég flutti til landsins þá var það í skátunum sem ég eignaðist vini en ekki í skólanum og þá vini er ég enn í tengslum við.
Ég var búin að búa hér í Mosó í tvö ár þegar Gunnar Atlason fékk mig til að koma og aðstoða sig við yngstu skátana því þeim hafði fjölgað mikið. Hálfu ári síðar fór hann í önnur störf innan félagsins og ég tók því yfir með þau yngstu og er þar enn. Núna kallast þau drekaskátar en hétu áður ylfingar.“

Gaman að hitta börnin á förnum vegi
„Það eru nokkur hundruð börn sem hafa komið við hjá mér í skátastarfinu. Mörg hver eru komin með fjölskyldu sjálf og sum þeirra starfa enn með okkur. Það er svo gaman að hitta börn á förnum vegi sem eru ekki lengur hjá okkur, þau heilsa manni alltaf og jafnvel knúsa.
Fyrir nokkrum árum tók ég sæti í stjórn Mosverja og varð svo aðstoðarfélagsforingi en í dag starfa ég sem félagsforingi og hef verið það síðastliðin fimm ár. Félagsforingi er formaður stjórnar félagsins en með mér í stjórn eru sjö flottir sjálfboðaliðar sem deila með mér ábyrgðinni. Þá eru ekki taldir upp allir hinir foringjarnir sem starfa í félaginu, þetta væri sko ekki hægt án þeirra, þau eru á aldrinum 15-60 ára og öll jafn ung og frábær.“

Þau gera ekki greinarmun á fólki
Ég spyr Döggu út í börnin. „Börn eru svo einlæg og hreinskilin, það skiptir þau engu máli hvernig fólk er klætt eða hversu flottan bíl maður á. Þau gera ekki greinarmun á fólki eftir útliti heldur líta til hins innri manns og ef þú ert með gott hjarta þá færðu kærleikann frá þeim og virðinguna.
Börn þurfa að fá að vera forvitin og detta í mölinni og meiða sig, fara í drullupoll, klifra í trjám og læra að pissa úti. Þau þurfa einfaldlega að fá að njóta en ekki þjóta. Foreldrar gleyma þessu oft í amstri dagsins því það er allt of mikið að gera hjá þeim, vinnan, ræktin, félagslífið og áhugamálin. Stærri hús, flottari bíll, þetta kostar peninga og þá þarf að vinna meira sem þýðir minni tími fyrir börnin, þessi tími kemur ekki aftur og sumir foreldrar átta sig á þessu allt of seint, því miður,“ segir Dagga alvarleg á svip.

Við lærum á lífið sjálft
„Í skátunum kennum við börnunum að upplifa, takast á við áskoranir og setja sér markmið. Við lærum á lífið sjálft, hvernig við gerum það besta úr okkur sjálfum því öll geta tekist á við stærstu áskoranirnar í hópi vina sem þau treysta. Náttúran er okkar leikvöllur því þar tengjumst við svo vel orkunni sem í henni býr.
Það má í raun segja að í huga og hjarta sérhvers barns býr sá kraftur sem þarf til að breyta heiminum, svo einfalt er það,“ segir Dagga að lokum.

Ný heilsugæslustöð opnar 29. mars

Hörður Ólafsson fagstjóri lækninga og Dagný Hængsdóttir svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis.

Heilsugæsla Mosfellsumdæmis vinnur nú að því að flytja starfsemi sína úr Kjarnanum í Sunnukrika 3 og er ráðgert að opna á nýjum stað mánudaginn 29. mars. Síðar í apríl verður svo formlegri opnun með hátíðarbrag.
„Þetta verður algjör bylting á starfsaðstöðunni fyrir okkur,“ segir Dagný Hængsdóttir svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis. „Húsnæðið býður upp á tækifæri til að vinna betur í teymisvinnu og stöðin er hönnuð með það í huga að nánara samstarf verði milli hjúkrunarfræðinga og lækna.“

Plássið farið að há starfseminni
„Þetta verður mikil breyting fyrir starfsfólkið en ekki síður fyrir þá sem nýta sér þjónustuna,“ bætir Hörður Ólafsson við en hann er fagstjóri lækninga. Þjónustan verður betri og vinnuaðstaðan gjörbreytist. Þar af leiðandi getum við breytt öllu verklagi og bætt við fleira fólki eftir þörfum.“
Nýja heilsugæslustöðin er hugsuð til framtíðar með pláss til að geta vaxið enn frekar í takt við bæjarfélagið. Plássleysið var farið að há starfseminni í Kjarna. Gert er ráð fyrir að lágmarki 10 læknum og vonast er til þess að nýja stöðin verði eftirsóttur vinnustaður og sveitarfélaginu til sóma en gert er ráð fyrir að hægt verði að sinna 12−15 þúsund manns.

Staðan batnað að undanförnu
„Því er ekki að leyna að við höfum verið undirmönnuð af læknum en staðan hefur batnað mjög að undanförnu þótt við séum ekki alveg orðin fullmönnuð,“ segir Dagný og bætir við að flutningar á nýjan stað með bættri aðstöðu muni hjálpa þar mikið til.
„Við vorum að bæta við síðdegisvakt á föstudögum þannig að hún er nú starfrækt alla virka daga kl. 16-17. Á morgnana erum við með stutta hraðvakt kl. 8:00-9:30 með svipuðu fyrirkomulagi. Þá erum við einnig með skyndimóttöku allan daginn og fólk getur alltaf komið ef nauðsyn krefur. Einnig erum við með öfluga símaþjónustu og svo getur fólk auðvitað pantað sér tíma ef þannig ber undir.“

Flottasta heilsugæslan á landinu
Heilsugæslan hefur verið starfrækt í Kjarnanum í um 20 ár, frá því íbúafjöldi var um 5.000, þar til nú þegar bæjarbúar eru að verða 13.000. Það er því ljóst að húsnæðið sem nú þjónar umdæminu, 700 m², er löngu sprungið.
Nýja stöðin verður hinsvegar 1.220 m² og mun gjörbylta allri aðstöðu. „Það er ekki hægt að líkja þessu saman. Stöðin verður öll nútímalegri og vinnuaðstaða fyrir starfsfólk og aðkoma fyrir skjólstæðinga verður allt önnur. Þetta verður flottasta heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og líklega á landinu og það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum,“ segir Dagný Hængsdóttir svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis sem þjónar fyrst og fremst Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósarhreppi, en allir eru velkomnir á stöðina.
Í sama húsi í Sunnukrika 2 mun opna apó­tek og önnur heilsutengd þjónusta, Nettó, kjötbúð og þá verða einnig íbúðir fyrir 60 ára og eldri í turninum.

Varmárskóla skipt upp í tvo sjálfstæða skóla

Haustið 2020 fór fram ytra mati á Varm­árskóla á vegum Menntamálastofnunar. Í niðurstöðum þess mats komu fram vísbendingar um að skoða þyrfti nánar stjórnskipulag skólans.
Á fundi bæjarráðs hinn 4. júní 2020 samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra og framkvæmdastjóra fræðslu- og frístundasviðs að láta gera úttekt og mat á stjórnskipulagi Varmárskóla og á þeim grunni setja fram tillögur að breytingum ef tilefni væri til. Úttekt fór fram haustið 2020 og var fenginn til verksins Haraldur Líndal Haraldsson hjá HLH ráðgjöf.
Á fundi bæjarráðs hinn 14. janúar 2021 var úttekt á stjórnskipulagi Varmárskóla og tillögur að breytingum frá HLH ráðgjöf lagðar fram.

Kostir og gallar metnir
Í úttekt HLH ráðgjafar eru tilgreindir kostir og gallar núverandi fyrirkomulags í stjórnskipun skólans. Gallarnir voru metnir fleiri en kostirnir sem að mati úttektaraðila kölluðu á tillögur um breytt fyrirkomulag. Þrjár sviðsmyndir til breytinga voru settar fram. Sú sviðsmynd sem metin var best að mati úttektaraðila var að skipta skólanum upp í tvo sjálfstæða skóla með skólastjóra í hvorum skóla, ásamt stjórnunarteymi deildarstjóra.
Með slíkri skiptingu fengist markvissari fagleg og fjárhagsleg stjórnun á málefnum hvors skóla. Einnig var það mat úttektaraðila að skiptingin kalli ekki á aukinn rekstrarkostnað.
Dagana 14.-20. janúar fóru fram kynningar fyrir stjórnendur, starfsfólk og foreldra.

1.-6. bekkur og 7.-10. bekkur
Á fundi fræðslunefndar hinn 20. janúar lagði nefndin til í umsögn sinni að bæjarráð samþykkti þá tillögu að skólanum væri skipt upp í tvo sjálfstæða skóla. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að fulltrúar hagaðila ættu aðkomu að vinnu við framkvæmd skiptingarinnar.
Í skólaráði Varmárskóla var úttektin kynnt á fundi 19. janúar og umsögn barst 27. janúar. Fulltrúar í skólaráði veittu sín viðbrögð að höfðu samráð við þá sem þeir eru fulltrúar fyrir en fulltrúar foreldrafélagsins náðu ekki að fá viðbrögð innan þess tímaramma sem gefinn var.
Á grundvelli samantektar á niðurstöðu úttektaraðila, kynningum og umsögnum var samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 4. febrúar að Varmárskóla yrði skipt upp í tvo skóla, annars vegar grunnskóla fyrir 1.-6. bekk og hins vegar grunnskóla fyrir 7.–10. bekk frá og með 1. ágúst 2021.

Áskoranir

Vorið er að koma. Kannski er það komið? Maður spyr sig. Það er alla vega bjart yfir núna þegar þessar línur eru skrifaðar, sólin skín og fuglarnir syngja.

Núna er tíminn til að hrista aðeins upp í sér og finna sér skemmtilega áskorun fyrir sumarið. Eitthvað sem þú getur notað næstu vikur í að undirbúa og æfa fyrir. Þetta getur verið áskorun sem þú býrð sjálf/ur til. Eitthvað sem þig hefur lengi langað til að gera. Eitthvað sem þú gætir hugsanlega fengið aðra með þér í. Eða ekki. Kannski langar þig bara að gera þetta fyrir þig. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst um áskorunina þína. Það sem einum finnst spennandi finnst öðrum kannski tímasóun. Það sem einum finnst of létt, finnst öðrum nánast ómögulegt.

Aðalatriðið varðandi áskorunina er að hún sé spennandi og þannig að þú þurfir að gera eitthvað aukalega til þess að ná henni. Hreyfa þig meira, sofa betur, borða hollar eða æfa öðruvísi. Ef þér dettur ekkert í hug, þá er ég með eina hugmynd að áskorun. KB þrautin verður haldin 22. maí næstkomandi. Eftir rúmlega 10 vikur. Þrautin er blanda af fellagöngu, utanvegarhlaupi og fjölbreyttum þrautum sem þátttakendur þurfa að komast í gegnum á leiðinni. Það þarf að bera hluti milli staða, klifra og skríða undir gaddavír svo nokkuð sé nefnt. Þetta er þraut fyrir alla, skemmtilegast er að taka þátt með vinum eða fjölskyldumeðlimum.

Það er líka hægt að tengja áskoranir við skemmtilega viðburði í lífinu. Það verður einn slíkur í minni fjölskyldu í lok ágúst. Ég er mjög spenntur fyrir þeim viðburði og er ekki einn um það. Konan mín byrjaði í síðustu viku á áskorun sem hún tengir við það sem mun gerast í lok ágúst. Áskorunin er æfingatengd og snýst um endurtekningar og vikufjölda. Lífið er ljúft, njótum þess!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. mars 2021

Golfið orðið að heilsársíþrótt

Golfklúbbur Mosfellsbæjar tók nýverið í notkun nýja og glæsilega inniaðstöðu á neðri hæðinni í íþróttamiðstöðinni Kletti.
Það er óhætt að segja að með því hafi aðstaða kylfinga í Golfklúbbi Mosfellsbæjar orðið allt önnur og býður klúbburinn nú upp á frábæra aðstöðu til golfiðkunar allt árið um kring.

Í íþróttamiðstöðinni er virkilega góð aðstaða til þess að æfa golf og er þar m.a.
– Tveir fullkomnir Trackman golfhermar
– 200 fermetra púttflöt
– Aðstaða til þess að slá í net
– Fyrirlestrarsalur fyrir iðkendur og þjálfara
Leitast er við að bjóða öðrum hópum aðstöðu í húsinu til almennrar útivistar og hreyfingar. Svæðið er tengt inn í stígakerfi Mosfellsbæjar og því skapast mörg skemmtileg tækifæri fyrir tengingar og fleiri íþróttir/útivist í hjarta Mosfellsbæjar.

Ótrúlega góð áhrif á starfið
„Það er óhætt að segja að þessa nýja aðstaða hafi strax haft alveg ótrúlega góð áhrif á starf Golfklúbbsins,“ segir Ágúst Jensson framkvæmdastjóri GM. „Það er stórt stökk að fara úr því að slá í net í vélaskemmu klúbbsins í eins glæsilega aðstöðu og raun ber vitni. Okkar krakkar og afrekskylfingar hafa svo sannarlega notið góðs af þessari aðstöðu og eyða þau miklum tíma þar sem er virkilega ánægjulegt.
Það hefur orðið talsverð aukning á iðkendum hjá okkur í GM, iðkendafjöldinn tók mikinn kipp í sumar og er virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir eru núna að æfa golf yfir vetrartímann einnig. Þar spilar okkar glæsilega aðstaða ansi stórt hlutverk.
Kylfingar í GM hafa einnig tekið þessari bættu aðstöðu fagnandi og nýta hana vel hvort sem það er til þess að koma í golfhermana okkar sem eru þétt bókaðir alla daga eða til þess að æfa og viðhalda golfsveiflunni.

Sprenging í golfinu
Það er alveg ljóst að sú aðstaða sem GM hefur upp á að bjóða í dag mun efla starf klúbbsins verulega. Golf í Mosfellsbæ er nú orðið að heilsársíþrótt.
Mikil aukning hefur orðið í golfinu undanfarin ár og var síðasta ár alveg einstakt og það má í raun segja að það hafi orðið sprenging í golfinu. Golf er frábær íþrótt fyrir alla fjölskylduna og hvetjum við ykkur Mosfellingar góðir að koma við hjá okkur og prófa þessa frábæru íþrótt,“ segir Ágúst.
Allar upplýsingar um GM má finna á heimasíðu klúbbsins, www.golfmos.is

Hundasnyrtistofan Dillirófa opnar í Kjarna

Valborg Óðinsdóttir og Anna Dís Arnarsdóttir á hundasnyrtistofunni.

Í desember síðastliðnum opnaði í Kjarnanum hundasnyrtistofan Dillirófa.
Það eru þær Anna Dís Arnarsdóttir og Valborg Óðinsdóttir sem eiga og reka stofuna. Þær eru báðar með áralanga reynslu og góða menntun sem hundasnyrtar.
„Ég hef starfað sem hundsnyrtir síðan 2008, ég hef sótt ótal námskeið og fór svo til Ítalíu að læra og hef verið duglega að sækja mér menntun bæði hérlendis og erlendis,“ segir Valborg sem sérhæfir sig meðal annars í púðluklippingum.

Allir hundar velkomnir á staðinn
Anna Dís er tölvunarfræðingur að mennt og hefur lært hundasnyrtinn hérlendis. „Ég starfaði lengi hjá Kátum hvuttum þar sem ég hlaut mikla reynslu og þjálfum. Ég hef verið lengi í hundunum og þá sértaklega að sýna mismunandi tegundir og hef með árunum lært mikið um feldumhirðu hunda,“ segir Anna Dís.
„Hingað eru allir hundar velkomnir, það er náttúrlega þannig að hver hundategund þarf mismunandi umhirðu en við bjóðum upp á alla almenna snyrtiþjónustu fyrir hunda. Við böðum og blásum, rökum og reytum, greiðum úr flækjum og gerum það sem þarf að gera og klóaklipping er alltaf innifalin.“

Góðar viðtökur í hundavænu samfélagi
Þær stöllur hafa innréttað og útbúið frábæra aðstöðu til hvers kyns snyrtinga fyrir alla tegundir af hundum. Auk þess eru þær með gott úrval af hágæða vörum fyrir feldumhirðu, sjampó, næringu, sprey og bursta.
„Við erum rosalega ánægðar hér, við höfum fengið góðar viðtökur og teljum að þessi þjónusta sé góð viðbót við annars hundavænt bæjarfélag. Við hlökkum mikið til að taka á móti Mosfellingum og nærsveitungum.“

Endurbætur á Hlégarði að hefjast

Horft úr móttöku í innri og ytri sal.

Umhverfissvið Mosfellsbæjar hefur á grundvelli heimildar bæjarráðs boðið út framkvæmdir við fyrsta áfanga endurbóta á innra rými Hlégarðs.
Verkefnið felur í sér heildstæða endurgerð fyrstu hæðar hússins. Hönnuðir skiptu framkvæmdum í fyrsta áfanga með eftirfarandi hætti: Uppbygging og endurnýjun stoðrýma svo sem salerna, bars og undirbúning burðavirks áður en gólf verða endurgerð á fyrstu hæð og salir innréttaðir að nýju í samræmi við fyrirliggjandi teikningar.

Gætt að hönnun Gísla Halldórssonar
Menningar- og nýsköpunarnefnd fól starfsmönnum sveitarfélagsins í maí 2019 að velja arkitektastofu til að vinna tillögur að breytingum á innra rými Hlégarðs.
Leitað var til arkitektastofunnar Yrki arkitektar sem hafði áður unnið tillögur að breytingum á innra rými Hlégarðs. Húsið er hannað af Gísla Halldórssyni arkitekt og var arkitektum meðal annars falið að gæta sérstaklega að heildaryfirbragði hússins í samhengi við höfundareinkenni byggingarinnar og sögu. Samhliða yrði tryggt að breytingar yrðu til að auka notagildi hússins.

Menningarstefna – skapa rými
Í menningarstefnu Mosfellsbæjar er fyrsti áhersluflokkurinn sá að Mosfellsbær skapi rými og aðstöðu til menningarstarfsemi.
Þær tvær aðgerðir sem voru fremstar í forgangsröðuninni eru annars vegar að Hlégarður verði miðstöð menningarlífs í Mosfellsbæ og hins vegar að lokið verði við að útfæra áætlun um breytingar á Hlégarði, hanna þær og skipta þeim upp í áfanga til næstu fjögurra ára. Þessar tvær aðgerðir eru þannig komnar á góðan rekspöl.

Hljómsveitin Eilíf sjálfsfróun gefur út sína aðra plötu

Mosfellska hljómsveitin Eilíf sjálfsfróun gaf út aðra plötu sína þann 18. febrúar.
Eilífa sjálfsfróun skipa þeir Halldór Ívar Stefánsson, Árni Haukur Árnason, Davíð Sindri Pétursson og Þorsteinn Jónsson en platan sem þeir tóku upp og unnu sjálfir frá grunni nefnist Með fullri uppreisn og inniheldur 10 lög.

Stofnað sem grín
Eilíf sjálfsfróun var stofnuð í byrjun árs 2019 í partíi. „Þetta nafn kom upp sem eitthvert grín í partíi og okkur fannst það bara of fyndið til að sleppa því að stofna hljómsveit.“
Markmiðið var einfalt, að spila tónlist og hafa gaman. Strákarnir hafa fylgt þessu markmiði á ýmsu vegu en eftir að hafa starfað í einungis nokkrar vikur skráði sveitin sig til leiks í Músíktilraunir við góðar undirtektir og var kosin áfram til úrslita af áhorfendum í sal.
Eftir árangurinn í Músíktilraunum gáfu þeir út sína fyrstu plötu nokkrum mánuðum seinna. Platan einkenndist af lögum eins og Einræðisherrar götunnar, sem fjallar um óbeit hljómsveitarmeðlima á vagnstjórum Strætó og 12 ár and counting, sem vísar í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsvána.

Lög úr ýmsum áttum
Erfitt er að skilgreina hvaða stefnu tónlist nýju plötunnar fylgir en hún einkennist af meiri tilraunamennsku en fyrri platan. „Eftir að hafa gefið út hreina pönkplötu langaði okkur að prófa meiri tilraunastarfsemi. Við vorum, til dæmis, rosalega heillaðir af hugmyndinni um að gera pönk með synth-um í stað gítars.“ Efni laganna heldur þó sama sniði, en þau fjalla öll á einn eða annan hátt um gremju og ergelsi, en þó alltaf með skoplegum undirtón.
„Kosturinn við að spila pönktónlist er að það eru engar skorður. Það gefur okkur frelsi til þess að prófa nýja hluti. Til dæmis er eitt lag á plötunni ábreiða af ítölsku þjóðlagi með ádeilutexta og annað raf-techno-pönk. Þessi tilraunastarfsemi er virkilega góð til að læra að verða betri, bæði í að semja tónlist og taka hana upp.“

Kjallarinn er algjör snilld
Platan er unnin og tekin upp af þeim sjálfum í Kjallaranum, tónlistaraðstöðu Bólsins fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ. „Kjallarinn er algjör snilld, það er geggjað að hafa aðgang að ókeypis æfingaraðstöðu og hann gerir okkur kleift að taka upp tónlistina og gefa hana út.“
Plötuna Með fullri uppreisn má finna á Spotify 18. febrúar, en þangað til má nálgast tvo singla af plötunni sem þegar hafa verið gefnir út. Strákarnir bíða svo spenntir eftir að geta farið að halda tónleika á ný eftir langa bið.

Fáum vonandi að njóta jöklanna sem lengst

Listakonan Steinunn Marteinsdóttir opnar um helgina sýningu í Listasal Mosfellsbæjar í tengslum við 85 ára afmæli sitt.
Sýningin nefnist JÖKULL -JÖKULL en Snæfellsjökull hefur lengi verið henni hugleikinn eða allt frá því hún fluttist að Hulduhólum árið 1969. Þar hefur hún búið og starfað síðan og sér jökulinn út um stofugluggann.

Minna um fyrirhuguð veisluhöld í ár
Jökullinn hefur eftir því sem ár hafa liðið sótt í sig táknvísan mátt og ef til vill orðið Steinunni eins konar aflvaki og kjölfesta í listsköpun, að tákni um eitthvað háleitt, einhvern æðri mátt ef svo mætti að orði komast, að tákni um þrá, ákall og markmið. Á seinni árum hefur auk þess sótt að listakonunni vitneskja um og ótti við að jöklar séu að hverfa, það hefur með öðru leitt til þess að sjá má í verkum hennar áhyggjur af þeim usla sem mannfólkið veldur á náttúrulegu umhverfi sínu og vilja til að spyrna við fótum.
Myndirnar á sýningu urðu til á árunum 1986 til 2019. Fyrstu myndirnar vann Steinunn í Kjarvalsstofu í París, gestavinnustofu sem ætluð er til dvalar fyrir íslenska listamenn.
Steinunn ætlaði að halda afmælispartý í Listasalnum en vegna Covid fer minna fyrir veisluhöldunum. Sýningin mun standa í mánuð frá 12. febrúar til 12. mars og eru allir velkomnir.

Íslendingar taki sig saman í andlitinu í umhverfismálum
Á sýningunni verða um 20 myndir, bæði vatnslita- og olíumyndir. Margar myndanna eru í einkaeigu en nokkrar verða þó til sölu.
Steinunn hélt síðast sýningu fyrir 5 árum þegar hún ákvað að gefa sjálfri sér bók í afmælisgjöf um verk sín.
„Þegar ég sæki innblástur hringla stundum orð Laxness í hausnum á mér: Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt. Vonandi fáum við að njóta jöklanna sem lengst. Það væri óskandi að Íslendingar tækju sig saman í andlitinu í umhverfismálum með sömu samstöðu og við höfum gert í Covid. Það er allt hægt.

Fann farveg fyrir sköpunargleðina

Hanna Margrét Kristleifsdóttir skartgripahönnuður hannar sína eigin skartgripalínu, Bara Hanna.

Það má sannarlega segja að áhugamál Hönnu Margrétar Kristleifsdóttur séu margvísleg en áhugi hennar á listsköpun er eitt af því sem stendur upp úr.
Hún sinnir leiklist af kappi en árið 2007 kynntist hún skartgripagerð og fór í framhaldi í nám í almennri hönnun og þaðan í fjarnám í Institute of art and design í New York og útskrifaðist þaðan 2016.
Hanna Margrét hannar sína eigin skartgripalínu í dag sem er bæði litrík og falleg.

Hanna Margrét fæddist í Reykjavík 12. apríl 1972. Foreldrar hennar eru þau Margrét Ólafsdóttir húsmóðir og listmálari og Kristleifur Guðbjörnsson lögreglumaður og langhlaupari en þau eru bæði látin.
Systkini Hönnu eru þau Guðbjörn f. 1960 d. 2005, Gunnar f. 1965 og Unnur f. 1967.

Dekkinn eyðilögðust á endanum
„Ég var tveggja ára þegar við fjölskyldan fluttum í Arkarholtið, þetta var bara sveit þá en svo þéttist byggðin smám saman.
Ég er fædd með klofinn hrygg og lærði því að ganga með hækjur en síðar þá slasaðist ég og eftir það hef ég verið í hjólastjól. Þá þurfti að gera viðeigandi breytingar á heimilinu eins og að lagfæra hurðir og fleira.
Systkini mín voru dugleg að passa mig og ég fór oft með þeim út í kerrunni. Þegar Gunni bróðir var fenginn til að fara í búðina fyrir mömmu og með mig í kerrunni þá fór hann aldrei beina leið. Hann fór í hvern einasta drullupoll og í allar þær torfærur sem hann fann enda eyðilögðust dekkin á endanum,“ segir Hanna og hlær að minningunni.

Ég grét með honum
„Ég var alin upp við að vera sjálfstæð og flestir vinir mínir í æsku voru ófatlaðir. Við lékum okkur saman í götunni í fallin spýta og fleiri leikjum en ef við fórum í fótbolta þá var ég í marki.
Eitt sinn vorum við krakkarnir að leika út í garði og einn strákurinn sem bjó í götunni var ekki sammála mér um eitthvað svo ég varð reið og sló hann með hækjunni. Hann fór þá að gráta og grét svo hátt að ég grét með honum.“

Mamma barði í borðið
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Fyrstu árin flakkaði ég á milli bekkja sem ýmist voru á fyrstu eða annarri hæð. Mamma barði í borðið og sagði að það gengi ekki þetta flakk á milli hæða og eftir það var ég alltaf í sama bekknum.
Ein helsta skemmtun hjá strákunum í bekknum mínum í barnaskóla var að kalla á eftir mér „Hanna hækjuspenna“ því ég var svo oft með tígó í hárinu. Þeir kölluðu þetta ekki af neinni illmennsku, þeim fannst bara svo gaman að sjá viðbrögðin hjá mér. Ég nefnilega elti þá á eftir og reyndi að ná þeim, sem mér fannst mjög gaman.“

Lít eftir ungu stúlkunum
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Menntaskólann við Hamrahlíð og lauk stúdentsprófi frá félagsfræðibraut. Með skólanum starfaði ég á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar sem þá var á 2. hæð í Hlégarði og svo starfaði ég líka í íþróttahúsinu að Varmá.
Ég hóf síðan nám í Háskóla Íslands á félagsráðgjafabraut en færði mig svo yfir í djáknann. Ég fór líka í förðunarnám hjá No Name árið 2003.
Árið 1997 hóf ég störf í íþróttamiðstöðinni að Varmá, þar var ég í tíu ár og vann við hin ýmsu störf. Ég var svo hjá Símanum í ár en í dag starfa ég sem baðvörður hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Ég lít aðallega eftir ungum stúlkum í 4.-6. bekk úr Laugarnesskóla þegar þær koma í íþróttir.
Ég er líka leiðbeinandi hjá Herbalife en ég fór í það eftir að ég kynntist vörunum sjálf.“

Kynntust í Halaleikhópnum
„Ég gekk í Halaleikhópinn 2002 en það er áhugaleikfélag fatlaðra og ófatlaðra sem stofnað var 1992 og er með aðsetur í Sjálfsbjargarhúsinu. Við störfum undir kjörorðinu Leiklist fyrir alla. Ég hef verið formaður félagsins sl. tvö ár en félagið er rekið af félagsfólkinu sjálfu sem gengur í öll verk og hefur engan starfsmann á launum.
Ég kynntist Þresti mínum Steinþórssyni árið 2005 í Halaleikhópnum en vinur hans, Jón Eiríksson, dró hann með sér á æfingu því það vantaði tæknimann. Hann endaði þó á sviði og lék eitt atriði á móti mér þegar við settum upp Kirsuberjagarðinn.“

Vissum að þetta myndi ekki ganga upp
„Þegar við Þröstur byrjuðum að vera saman þá bjó hann í risíbúð á Hofteigi í Reykjavík. Þegar ég kom í heimsókn þá þurfti hann að lyfta mér upp á útitröppurnar og svo upp brattann stigann inni. Við vissum að það myndi ekki ganga upp að búa saman þarna,“ segir Hanna og skellir upp úr.
„Við leigðum okkur íbúð í Sóltúni í 14 ár en keyptum okkur svo íbúð í Helgafellshverfi og hér líður okkur vel, það er svo gott að búa í Mosfellsbæ. Þröstur kynnti mig fyrir bogfimi en hann var búinn að stunda hana í mörg ár hjá ÍFR en hann starfar þar. Ég hef reyndar lítið getað stundað bogfimina eins og ég hefði viljað vegna anna hjá Halaleikhópnum.“

Hélt ég væri með tíu þumalputta
„Áhugamál mín fyrir utan leiklistina er hvers konar listsköpun og þá helst skartgripahönnun og ljósmyndun. Ég kynntist skartgripagerð 2007 og fann þá farveg fyrir sköpunargleðina en fram að því hélt ég að ég væri með tíu þumalputta. Ég fór í nám í almennri hönnun í Tækniskólanum og er líka búin að fara á ótal námskeið.
Ég reyndi fyrir mér í gullsmíði en varð síðan að gefa hana upp á bátinn og leita að öðrum farvegi fyrir skartgripagleði mína. Ég fann fjarnám í skóla í New York, Institute of art and design, beat and wire working, og þaðan fékk ég diploma árið 2016.
Nú er ég að hanna og búa til mína eigin skartgripalínu og hef verið að selja hana að heiman frá mér en ég þyrfti vissulega að finna því annan farveg.
Hönnunarlínan mín heitir Bara Hanna og fyrir áhugasama þá set ég reglulega inn myndir á samfélagsmiðla eins og Facebook ­(Bara Hanna) og Instagram (bara_hannas­jewelry),” segir Hanna brosandi að lokum er við kveðjumst.