Styrkir úr Klörusjóði afhentir

Mið­viku­dag­inn 12. júní voru af­hent­ir styrk­ir úr Klöru­sjóði en markmið sjóðs­ins er að stuðla að ný­sköp­un og fram­þró­un í skóla- og frí­stund­astarfi í Mos­fells­bæ.
Í sjóð­inn geta sótt kenn­ar­ar, kenn­ara­hóp­ar, að­r­ir fag­að­il­ar sem starfa við skóla/frístund í Mos­fells­bæ, einn skóli eða fleiri skól­ar/fag­að­il­ar í sam­ein­ingu sem og fræðslu- og frí­stunda­svið í sam­starfi við skóla.
Veitt­ir eru styrk­ir einu sinni á ári úr sjóðn­um. Heild­ar­fram­lag sjóðs­ins árið 2024 eru þrjár millj­ón­ir. Að þessu sinni hlutu eft­ir­far­andi verk­efni styrk úr sjóðn­um:

Verk­leg vís­indi, Varmár­skóli
Verk­efn­ið mun auka verk­lega kennslu í nátt­úru­grein­um í Varmár­skóla með fjöl­breyttu náms­efni sem auð­veld­ar kenn­ur­um að nálg­ast við­fangs­efn­in á skap­andi hátt. Með þess­um styrk að upp­hæð 500.000 kr. mun Varmár­skóli fjár­festa í náms­efni sem efl­ir kennslu í eðl­is­fræði og stærð­fræði.

Nám­skeið í mark­miða­setn­ingu fyr­ir
elstu nem­end­ur grunn­skól­ans, fé­lags­mið­stöðin Ból­ið í sam­starfi við náms- og starfs­ráð­gjafa grunn­skól­anna
Boð­ið verður upp á nám­skeið í sjálfs­efl­ingu og mark­miða­setn­ingu fyr­ir nem­end­ur í 10. bekk. Mark­mið­ið er að ung­menni vinni með eig­in gildi, styrk­leika, áhuga­svið, drauma og fram­tíð­ar­sýn. Inn­tak verk­efn­is­ins snýr að and­legri og fé­lags­legri vellíð­an ung­menna og fell­ur bæði und­ir for­vörn og heilsu­efl­ingu. Verk­efn­ið hlaut 600.000 kr. styrk.

Söng­ur á allra vör­um, leik­skól­inn Hlíð
Verk­efn­ið mun efla notk­un tón­list­ar til að stuðla að mál­þroska ungra barna. Tekin verð­ur upp söng­bók leik­skól­ans bæði í hljóð- og mynd­formi og efn­ið gert að­gengi­legt starfs­mönn­um, for­eldr­um og öðr­um áhuga­söm­um. Styrk­ur að upp­hæð 250.000 kr. er hugs­að­ur til að hefja vinn­una og koma verk­efn­inu af stað.
STEAM-kennsla á öll stig grunn­skól­ans, Helga­fells­skóli
Í verk­efn­inu verð­ur inn­leidd og efld STEAM-nálg­un í kennslu á öll­um stig­um grunn­skól­ans, og gæti hún náð til 5 ára leik­skóla­barna. Styrk­ur að upp­hæð 700.000 kr. verð­ur nýtt­ur til að kaupa bæði tæki og náms­efni til að efla kenn­ara og nem­end­ur í STEAM-kennslu og hvetja til skap­andi og gagn­rýn­inn­ar hugs­un­ar.

Aukin úti­kennsla, Leir­vogstungu­skóli
Í verk­efn­inu verð­ur út­bú­in að­staða á leik­skóla­lóð til að auka útinám með því að skapa útield­hús, vatna­braut og drullu­m­allsvæði. Markmið verk­efn­is­ins er að auka úti­kennslu, leikefni og leik­aðstæð­ur í úti­veru. Styrk­ur­inn að upp­hæð kr. 200.000 er hugs­að­ur til að koma verk­efn­inu af stað í vinnslu inn­an skól­ans í sam­starfi við for­eldra­sam­fé­lag­ið.

Flipp Flopp, Kvísl­ar­skóli
Verk­efn­ið mun styðja Kvísl­ar­skóla við að taka mik­il­vægt skref til að efla raun­grein­ar með kaup­um á smá­sjám, stuðn­ingi við kenn­ara og þró­un kennslu­hátta. Flipp flopp verk­efn­ið, sem hófst fyr­ir þrem­ur árum, hef­ur bætt kennslu­hætti og stuðlað að inn­leið­ingu leið­sagn­ar­náms í skól­an­um. Verk­efn­ið fékk styrk að upp­hæð 400.000 kr.

Frá fræi til af­urð­ar, leik­skól­inn Hlíð
Verk­efn­ið mun veita börn­um og starfs­fólki tæki­færi til að sá fræj­um og fylgjast með þeim vaxa og dafna. Þann­ig fá þau að upp­lifa hringrás nátt­úr­unn­ar og sjá hvern­ig eitt lít­ið fræ get­ur orð­ið að af­urð, kryddi, græn­meti, ávexti eða plöntu sem þau geta síð­ar not­ið. Styrk­ur­inn 350.000 kr. er hugs­að­ur til að koma verk­efn­inu af stað með t.d. gróð­ur­köss­um á lóð­inni.

 

Glímir við lúxusvandamál

Aron Daníel Arnalds er 23 ára uppalinn Mosfellingur sem alla tíð hefur haft mikinn áhuga á tónlist. Hann æfði á trommur í nokkur ár og nú síðustu 2-3 ár hefur hann gefið sér meiri tíma og kraft í að semja texta og lög.
„Ég finn að ég er tilbúinn með mitt sound,“ segir Aron en hann gengur undir listamannanafninu ADA.
„Ég sem texta og lög í samstarfi með „producer“ og er núna að fara gefa út mitt fyrsta lag þann 19. júlí, „Lúxus Vandamál“, í samstarfi við Yung Nigo Drippin sem er vel þekkt nafn í bransanum. Nafnið á laginu segir um hvað lagið snýst, lífstílinn og lúxusvandamálin sem fylgja honum.“
Aron Daníel leikur knattspyrnu með ÍR í Lengjudeildinni og er í námi í Háskólanum í Reykjavík.

Fullt af hugmyndum og mörg lög á lager
„Fyrsta demóið af „Lúxus Vandamál“ var gert sumarið 2023 og það vakti strax mikla eftirtekt hjá þeim sem fengu að heyra það. Svo hélt ég áfram að semja og búa til fleiri lög og alltaf var maður að bæta sig. Frá því í mars hef ég einbeitt mér að því að klára „Lúxus Vandamál“ og gera það fullkomið svo ég geti komið með sprengju inn í leikinn.
Í dag er ég með fullt af hugmyndum og á mörg lög á lager sem eru komin mislangt í sínu ferli. Þannig að ég er með efni sem ég get gefið út í framhaldinu og stefnan í dag er að gefa út EP svona „mini“ plötu seinna á árinu og langtímamarkmiðið er að gefa út stóra plötu á næsta eða þarnæsta ári.

Erna Sól­ey á Ólympíu­leikana

Mosfellingurinn Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarpari, hefur fengið boð um þátttöku á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóða­ólympíunefndin staðfesti svo um helgina.
Erna Sóley hefur verið iðin við keppnir síðustu vikur og mánuði og staðið sig afar vel. Hún sigraði meðal annars á Meistaramóti Íslands fyrr í mánuðinum og setti þar að auk Íslandsmet í leiðinni.

Ólympíuleikarnir hefjast í París 26. júlí
Fimm íslenskir kastarar áttu raunhæfa möguleika á því að enda meðal 32 efstu í sinni grein á stigalistanum og fá þar með sæti á Ólympíuleikunum en eftir að lokalistinn var uppfærður þá kom í ljós að ekkert þeirra náði því.
Erna Sóley var þar þó efst Íslendinga í 34. sæti eftir Íslandsmetið sitt um síðustu helgi. Hún var því bara tveimur sætum frá því að vinna sér inn Ólympíusæti.
Erna Sóley hefur ekki áður keppt á Ólympíuleikunum en hún verður fimmti keppandinn sem kemst inn á leikana fyrir Íslands hönd, en þeir hefjast í París í Frakklandi 26. júlí.

Birgir útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar

Birg­ir D. Sveins­son fyrrverandi skólastjóri Varmárskóla og stofnandi skólahljómsveitar Mosfellsbæjar var útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar við hátíðlega athöfn þann 17. júní.
„Ég er snortinn og þakklátur,“ sagði Birgir við afhendinguna en hann er heiðraður fyrir hans mikla framlag til tónlistar- og menningarlífs sem og uppeldismála í Mosfellsbæ.
Birgir D. Sveinsson er fæddur 5. apríl 1939 í Neskaupstað. Hann lauk landsprófi í Vestmannaeyjum og kennaraprófi árið 1960. Samhliða námi stundaði Birgir tónlistarnám og lék á blásturhljóðfæri. Birgir fluttist til Mosfellsbæjar að afloknu kennaraprófi og var kennari við Varmárskóla árin 1960-1977. Hann var yfirkennari 1977-1983 og skólastjóri Varmárskóla 1983-2000.

Þúsundir notið leiðsagnar Birgis
Birgir var fenginn til að kenna drengjum á blásturshljóðfæri haustið 1963 og úr varð drengjahljómsveitin, síðar Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, sem spilaði fyrst opinberlega við vígslu sundlaugarinnar að Varmá, þann 17. júní 1964. Skólahljómsveitin hefur starfað óslitið í 60 ár.
Þá stóð Birgir enn fremur að því að efna til tónlistarkennslu í barnaskólanum sama haust og það starf þróaðist í að stofnaður var tónlistarskóli í Mosfellssveit haustið 1966.
Birgir var stjórnandi Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar í 40 ár eða fram til ársins 2004. Hljómsveitin hefur þjónað tónlistarlegu uppeldi fjölda barna og ungmenna í Mosfellsbæ en jafnframt verið bæjarhljómsveit og komið fram við hin ýmsu hátíðlegu tækifæri.
Það eru þúsundir barna og ungmenna sem hafa notið leiðsagnar Birgis, sem kennara og tónlistarmanns og umsögn fyrrum nemenda er samhljóma um þau góðu áhrif sem Birgir hefur haft á þeirra þroskabraut. Birgir er sagður hafa verið einstakur kennari, þolinmóður, umhyggjusamur og hafa veitt sérhverju barni athygli sína.

Sæmdur stórriddarakrossi 2005
Birgir var formaður Samtaka íslenskra skólahljómsveita í 20 ár en samtökin voru stofnuð í Mosfellsbæ. Hann var útnefndur heiðursfélagi samtakanna árið 2019. Birgir fékk viðurkenningu frá bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir frábær störf árið 1994.
Árið 2005 var Birgir sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir tónlistarkennslu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Náttúruíþróttabærinn

Mosfellsbær er hugsanlega það bæjarfélag á Íslandi sem er best fallið til þess að verða paradís þeirra fjölmörgu sem stunda náttúruíþróttir af einhverju tagi. Ég sé fyrir mér fjallahjólastíga í fellunum okkar fjölmörgu, miskrefjandi stíga þannig að allir geti fengið áskoranir við hæfi, reynsluboltar sem byrjendur. Stígarnir myndu tengjast þannig að hægt væri að fara í lengri ferðir. Þeir myndu líka tengjast yfir í Esjuna, sem má segja að sé nokkurs konar móðir fellanna okkar og þótt Esjan tilheyri strangt til tekið ekki Mosfellsbæ, er hún hluti af okkur. Við sjáum hana alla daga og heimsækjum hana oft. Mosfellingarnir Magne og Ásta hafa sýnt fram á í Reykjadal við Hveragerði hvernig er hægt að byggja upp fjallahjólastíga á umhverfisvænan hátt með því að nýta kindastíga, slóða eftir traktora og aðrar leiðir sem myndast hafa í gegnum árin. Stígarnir falla vel inn í umhverfið og koma í veg fyrir að fólk hjóli út um allar trissur. Fellin eru að sjálfsögðu líka frábær í gönguferðir og utanvegarhlaup.

Við höfum líka vötn og sjóinn og þar liggja mörg tækifæri. Vatnasport fer vaxandi víða um heim. Sund og sjóböð hafa aldrei verið vinsælli og sífellt fleiri fara reglulega á kajak eða á standbretti. Uppblásanleg standbretti eru bæði orðin ódýrari og betri en þau voru fyrir nokkrum árum. Það fer svo lítið fyrir þeim að það er meira að segja hægt að skella þeim á bakið (í þar til gerðri tösku) og hjóla með þau að næsta vatni eða sjó.

Við erum á réttri leið. Erum að halda viðburði sem hvetja fólk til þess að fara út og hreyfa sig í náttúrinni. Við erum með Tindahlaupið, Álafosshlaupið, KB þrautina, Drulluhlaupið, Fellahringinn og það nýjasta í flórunni, Hundahlaupið, sem haldið verður í fyrsta sinn í Mosfellsbæ í tengslum við Í túninu heima í ár. Njótum náttúrunnar!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. júlí 2024

Svartmálmshátíð haldin í Hlégarði

Svartmálmshátíðin Ascension MMXXIV verður haldið í fjórða sinn dagana 3.-6. júlí í Hlégarði, en var áður haldin undir formerkjum Oration Festival frá 2016-2018.
Hátíðin leggur ríka áherslu á íslenskan jafnt og erlendan svartmálm en ekki síður fjölbreytta og tilraunakennda tónlist.
Fram munu koma 30 hljómsveitir frá 13 löndum og meðal íslenskra hljómsveita verða Kælan Mikla og Misþyrming. Í erlendu deildinni verða hljómsveitir á borð við Oranssi Pazuzu, Emptiness, Afsky og Inferno svo dæmi séu tekin.
„Árið 2019 fór hátíðin einnig fram í Hlégarði í Mosfellsbæ og teljum við það hreinlega orðinn part af hátíðinni okkar enda hefur húsið mikið upp á að bjóða og er umhverfið í kring fullkomið til að njóta miðnætursólarinnar í fjalladýrð Mosfellsbæjar,“ segir Stephen Lockhart skipuleggjandi hátíðarinnar.

Ascension, Studio Emissary og Oration
Hljóðverið Studio Emissary er starfrækt í Mosfellsbæ þar sem upptökur og hljóðblöndun fyrir hvers kyns tónlist er framleidd.
Studio Emissary hefur gefið út plötur á borð við ‘Flesh Cathedral’ með hljómsveitinni Svartadauða ásamt plötunni ‘Apotic Womb’ með hljómsveitinni Sinmara. Báðar hljómsveitir hafa vakið eftirtekt á alþjóða vettvangi.
Forsprakki Studio Emissary, Oration og Ascension er Stephen Lockhart, oft betur þekktur sem Wann í hljómsveitinni Rebirth of Nefast .
Vinna hans í íslensku svartmálmsenunni hefur skapað tengsl, aukið áhuga erlendis frá á íslenskum svartmálm og ýtt Íslandi ofarlega á kortið þegar kemur að þessari undirtegund af tónlist.
Hafandi unnið við allt frá Sinfóníuhljómsveit Íslands og Biophilia, hljómplötu Bjarkar yfir í svartmálm er hæglega hægt að segja að hann hafi náð að skapa sér nafn og traust þess sem hann vinnur með af nákvæmni og ástríðu.
Oration er svo aftur á móti útgáfufyrirtæki stofnað af Stephen Lockhart og er systurfyrirtæki Studio Emissary.
Með samruna þessara beggja fyrirtækja varð til Oration Festival, hátíð sem ætluð var að sýna hljómsveitirnar sem að Studio Emissary hafði unnið með að plötum. Oration stækkaði hratt og örugglega og fór að aukast við erlendar hljómsveitir sem sóttu hátíðina og léku listir sínar. Hátíðin var rekin í þrjú ár og upp úr ösku Oration reis Ascension sem nú verður haldin í fjórða skipti.

Ég fæ að kafa ofan í ýmsa heima

Vivian Ólafsdóttir útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 og hefur síðan þá starfað sem leikkona. Hér á landi er hún hvað þekktust sem Stefanía í Leynilöggunni og svo lék hún hugrökku Kristínu í Napoleonsskjölunum en Vivian var tilnefnd til Edduverðlauna fyrir bæði þessi hlutverk.
Þessa dagana er hún að leika í bíómynd og fram undan eru svo tökur á þáttum en í báðum þessum verkefnum fer Vivian með aðalkvenhlutverkin.

Vivian er fædd í Færeyjum 12. maí 1984. Foreldrar hennar eru Rita Didriksen og Ólafur Andrésson en hann lést árið 2011.
Vivian á fjögur systkini, Anní f. 1989, Örn Bjartmars f. 1995, Andra Snæ f. 2000 og Natan Mána f. 2001.

Hér hefur mér alltaf liðið best
„Ég átti mjög óhefðbundna æsku því við fluttum svo oft á milli staða, ég bjó aldrei lengur en tvö ár á hverjum stað og stundum skemur. Ég ólst upp á stórhöfuðborgarsvæðinu, úti á landi og í Þýskalandi. Mín rót er og verður samt alltaf í Mosfellsbæ, hér hefur mér alltaf liðið best enda bý ég hér í dag og er alls ekki á förum.
Ég á margar góðar æskuminningar, þegar við pabbi vorum að veiða á sumrin, þá sátum við saman á árbakkanum í algjörri þögn og borðuðum lakkrís. Dásamlegar gæðastundir með afa og ömmu á Laugabóli í Mosfellsdal og svo var það Akratúnið hjá Ingu vinkonu, ég var á tímabili heimalningur þar á bæ og það var margt brallað á Reykjum.“

Allt svo nýtt og spennandi
„Ég gekk í sjö grunnskóla, þrjá framhaldsskóla og útskrifaðist svo úr fjarnámi frá skóla í Þýskalandi. Þetta voru alls konar upp og niður upplifanir.
Ég man samt vel eftir 1. og 2. bekk í Varm­árskóla, mér leið virkilega vel í þeim skóla og á bara góðar minningar þaðan. Allt var svo nýtt og spennandi og fyrsti kennarinn minn hét Agnes.
Á sumrin starfaði ég í unglingavinnunni, sláturhúsi, skóbúð ömmu minnar og afa og undirfataversluninni Misty.“

Messi á frystitogara
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór Vivian beint á sjóinn, var messi á frystitogara. Afi hennar hafði verið skipstjóri í Færeyjum áður en þau hjónin fóru út í verslunarrekstur hér á landi.
„Afi var æðislegur og ég elskaði sjóinn svo ég hugsaði með mér, af hverju ekki að gerast bara skipstjóri eins og hann. Ég var hörkudugleg og vildi sanna mig og þegar ég var búin með mín störf sem messi fór ég oft niður í vinnslu og starfaði þar eins og aðrir hásetar. Þessi vinnustaður var að drukkna í eitraðri karlmennsku og ég var áreitt af mörgum en sem betur fer voru þarna nokkrir karlar sem þótti vænt um mig og vernduðu mig.
Ég fór í nokkur skipti í von um að komast að sem háseti, mér fannst ég vera búin að sýna það að ég gæfi þessum körlum ekkert eftir. Skipstjórinn tók samtalið og sagðist ekki geta gefið unglingsstúlku eftir það pláss sem fjölskyldumenn biðu eftir. Ég skildi það mæta vel og sagði þar með skilið við sjóinn, en var engu að síður smá sár.“

Skellti sér til Hollywood
„Eftir sjóævintýrið mikla fór ég til Kýpur og Beirút, fór að vinna á bar og ferðaðist mikið. En um tvítugt skellti ég mér til Hollywood og fór þar á námskeið í virtum leiklistarskóla í Santa Mon­ica. Þetta var skemmtilegur tími og þarna kynntist ég leikurum sem voru í svona „underground workshops“, þarna sá maður í raun líf strögglandi leikara.
Þegar ég kom heim tóku við ýmis ævintýri, ég flutti aftur til Þýskalands þar sem ég hafði alist upp um tíma. Ég fór í háskóla í Hannover og byrjaði að læra heimspeki og trúarbragðafræði en listin kallaði alltaf á mig,“ segir Vivian og brosir.

Maður er stanslaust að læra
Eftir að Vivian flutti aftur heim til Íslands hóf hún störf hjá Mosfellsbæ, var starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Bólsins, sá um tjaldsvæðið og var yfir skemmtinefnd 17. júní hátíðarinnar. Með þessum störfum var hún líka að stíga sín fyrstu skref sem leikkona. Hún hóf nám í Kvikmyndaskóla Íslands og útskrifast þaðan árið 2012. Frá útskrift hefur Vivian starfað sem leikkona og hefur tekið að sér hin ýmsu verkefni. Leikið í risaauglýsingum, tekið að sér aukahlutverk, en hún er hvað þekktust fyrir leik sinn í Leynilöggunni og Napóleonsskjölunum þar sem hún fór með stór hlutverk.
En af hverju leiklist? „Hjá mér er það þörfin fyrir að líkama sögur sem við viljum eða viljum ekki heyra eða sjá. Þetta er bæði líkamleg og andleg áskorun og maður er stanslaust að læra og vaxa. Ég fæ að kafa í hina ýmsu heima, kynnast alls konar fólki og gera ýmis konar sem er fyrir mörgum mjög skrítið, bæði óhefðbundið og jafnvel erfitt en þá finnst mér extra gaman,“ segir Vivian.

Vil geta haft jákvæð áhrif
„Ég á mér draum um að segja mínar eigin sögur, fjalla um málefni sem skipta mig máli og helst vil ég geta haft jákvæð áhrif á samfélagið mitt. Ég er bæði að skrifa kvikmyndaupplifun og uppspuna og líka sögur af raunverulegum atburðum, gamanþætti og þætti um heilsu Íslendinga.
Fyrir utan þetta allt saman þá stefni ég á erlendan markað og er Þýskaland þar í fyrsta sæti. Ég tala þýsku og gæti vel leikið þar eins og hér og það ætla ég mér að gera. Ég hef nú þegar tengst Þjóðverjum í gegnum störf mín hérna heima og eru þeir byrjaðir að banka upp á með spennandi verkefni. Þið fáið vonandi að sjá eitthvað af þeim í framtíðinni,“ segir Vivian og brosir.

Náttúran er svo dásamleg
Vivian á fjögur börn, Kolbrúnu Unu f. 2009, Dagnýju Esju f. 2012, Gunnar Óla f. 2017 og Natan Funa f. 2019.
Vivian er listmálari frá náttúrunnar hendi, hefur alla tíð verið teiknandi og málandi alveg frá því hún var ung. Hún var til að mynda fengin til að mála fimm risaverk fyrir handboltafélagið í Lemgo í Þýskalandi.
„Ég er mikil fjölskyldumanneskja og rík af vinum og elska að eiga góðar stundir með mínu fólki. Það gefur lífinu gildi að hafa gaman og hlæja saman og ég reyni að gera sem mest af því. Sem leikkona og einstæð móðir þá er ekki alltaf í boði að fara til útlanda eða að fara í kostnaðarsamar upplifanir, náttúran okkar hér heima er svo dásamleg og við fjölskyldan notum hana mikið, sérstaklega hér í bænum.“

Barnadjass í Mosó í annað sinn

Mosfellsku djasskrakkarnir.

Dagana 20.-23. júní verður hátíðin Barnadjass í Mosó haldin í annað sinn.
Flytjendurnir eru á aldrinum 7-15 ára og koma frá Mosfellsbæ, Ísafirði, Reykjavík, Noregi og Færeyjum. Börnin eiga þó rætur að rekja mun víðar, svo sem til Svíþjóðar, Kína, Póllands, Palestínu, Hollands, Nígeríu og víðar.
Haldnir verða fernir tónleikar: Opnunartónleikar 20. júní kl. 19:00 í Hlégarði, tvennir klúbbtónleikar í Húsi Máls og Menningar (Reykjavík) 21. júní kl. 16:00 og 17:00 og lokatónleikar í Hlégarði 23. júní kl. 16:00. Allar upplýsingar um hátíðina er að finna á facebooksíðu hátíðarinnar.

Námskeið fyrir áhugasamakrakka
Eins og í fyrra eru Djasskrakkar gestgjafar hátíðarinnar. Hljómsveitina skipa fimm mosfellskir krakkar: Helga Margrét Einarsdóttir, 9 ára á trommur, Edda Margrét Jonasdóttir, 10 ára á klarinett, Rakel Elaisa Allansdóttir, 10 ára á trompet, Emil Huldar Jonasson, 12 ára á píanó og Svandís Erla Pétursdóttir, 13 ára á saxófón.
Djasskrakkar bera hitann og þungann af tónleikahaldinu ásamt erlendum gestum hátíðarinnar. Einnig eru fjórir krakkar frá Ísafirði boðnir sérstaklega velkomnir en þau tóku þátt í fjölmennu og vel lukkuðu námskeiði í djass og spuna á Ísafirði í vetur.
Sú nýbreytni verður í ár að haldið verður námskeið fyrir áhugasama krakka í aðdraganda hátíðar. Þeir krakkar munu taka þátt á lokatónleikunum.

Frumflytja nýtt lag á hátíðinni
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr norski djasstónlistarmaðurinn Odd André Elveland. Honum til aðstoðar er japanska djasstónlistarkonan Haruna Koyamada.
Á Barnadjassi í Mosó í ár munu Djass­krakkar frumflytja nýtt lag eftir Karl Olgeirsson. „Það hefur verið gaman að fá að vinna með Kalla og krakkarnir hafa öðlast flotta reynslu í að vinna með tónskáldi og læra nýjar leiðir við spuna,“ segir Guðrún Rútsdóttir framkvæmdastjóri Barnadjass í Mosó.
Verkefnið er styrkt af Mosfellsbæ, Barnamenningarsjóði, Nordisk kulturkontakt og Kiwanisklúbbnum Mosfelli. Ókeypis er á alla tónleika hátíðarinnar.

Mosfellsbær úthlutar 50 lóðum við Úugötu

Mosfellsbær hefur opnað fyrir úthlutun lóða við Úugötu í Helgafellshverfi. Í boði eru 50 lóð­ir þar sem gert er ráð fyr­ir 30 ein­býl­is­hús­um, átta par­hús­um (16 íbúð­ir) og einu fjög­urra ein­inga rað­húsi. Úugata er í skjól­sæl­um suð­ur­hlíð­um Helga­fells og er eitt glæsi­leg­asta bygg­ing­ar­svæði höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Lóð­irn­ar sitja hátt í land­inu og það­an er mik­ið út­sýni. Í hverf­inu er lögð áhersla á fjöl­breytta byggð, vand­aða um­hverf­is­mót­un og góða teng­ingu við úti­vist­ar­svæði og ósnortna nátt­úru. Til­boð í lóð­ir skulu berast Mos­fells­bæ fyr­ir mið­nætti þann 19. júní. Nánari upplýsingar má finna á www.mos.is.

Sr. Guðrún Helga bætist í prestahópinn

Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir hefur verið ráðin prestur í Lágafellssókn í Mosfellsprestakalli. Prestarnir verða því þrír í stækkandi bæjarfélagi. Hún var vígð til prestþjónustu í Lágafellssókn annan í hvítasunnu frá Skálholtsdómkirkju.
Sr. Guðlaug Helga ólst upp á Hvols­velli og er dóttir hjónanna Guð­rúnar Árnadóttur og Guðlaugs Friðþjófssonar. Hún er gift Einari Þór Hafberg sérfræðingi í lifrarsjúkdómum og lifrarígræðslulækningum barna og þau eiga tvær dætur, Bryn­hildi Guðrúnu Hafberg 14 ára og Ísafold Örnu Hafberg 12 ára. Guðlaug Helga hefur síðastliðin tvö ár starfað hjá Lágafellssókn og haft umsjón með foreldramorgnum, eldri borgarastarfi og sem fermingarfræðari.

Stríð og friður

Við fengum heimsókn í vikunni. Yuri, Victoria og Margret, yngri dóttir þeirra, eru á landinu og kíktu til okkar. Þau eru frá Rússlandi. Ég kynntist Yuri fyrir mörgum árum þegar ég vann hjá Útflutningsráði Íslands og hann hjá sendiráði Íslands í Moskvu. Við unnum talsvert saman, ferðuðumst með íslensk fyrirtæki til staða sem ég hefði líklega annars aldrei komið til. Kasakstan, Kamchatka og Vladivostok eru nokkur dæmi. Þau fjölskyldan fluttu síðan til Íslands, bjuggu fyrst á Ásbrú í Reykjanesbæ og síðan í Hafnarfirði. Yuri vann við að kaupa og selja togara og Victoria hjá IKEA. Síðan fluttu þau aftur til Rússlands með dætrum sínum, en hafa alltaf haft sterka tengingu við Ísland og hafa komið hingað nokkuð reglulega. Við kynntumst vel gestrisni þeirra og velvilja þegar við fengum, ásamt vinafjölskyldu okkar í Mosfellsbæ, að gista í sumarbústað þeirra hjóna í útjaðri Moskvu þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór þar fram árið 2018. Þau hugsuðu vel um okkur, sýndu okkur fjölskylduvæna staði í Moskvu og gerðu ferðalagið ógleymanlegt í okkar huga.

Þau eru ekki í stríði. Þau vilja frið. En þau stýra ekki Rússlandi og hafa lítil áhrif á gang mála. Við gleymum því oft í umræðunni að íbúar þeirra landa sem eru í stríði vilja það fæstir – hvort sem landið sem þeir tilheyra er að ráðast inn í annað land eða er undir árás. Mér fannst Yuri lýsa þessu vel þegar við ræddum stöðuna. Hann sagði – Rússland og Úkraína voru fyrir ekki svo löngu bræður, svo vinir, svo nágrannar, nú óvinir.

Fólk er bara fólk. Hvaðan sem það kemur. Við hugsum flest eins. Viljum eiga góða fjölskyldu, góða vini og búa í góðu samfélagi. Og góða nágranna sem okkur lyndir við – það vilja fæstir vera í stríði við nágranna sína. Talandi um góða nágranna – takk Lára og Gústi!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. júní 2024

Mosfellskirkju lokað vegna rakaskemmda og myglu

Sóknarnefnd Lágafellssóknar hefur tekið ákvörðun um að loka Mosfellskirkju tímabundið.
Ástæðan er sú að rakaskemmdir og mygla fannst þegar verkfræðistofan Efla var fengin til að kanna ástand kirkjunnar.
„Nefndin bað um úttekt á ástandi kirkjunnar, kirkjan er komin til ára sinna og ljóst er að hún þarfnast mikils viðhalds,“ segir Ólína Kristín Margeirsdóttir formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar.
„Niðurstöður Eflu voru meðal annars að það eru víðtækar rakasemmdir og að það þurfi að fara í gagngerar endurbætur á byggingunni. Við tókum þá ákvörðun að loka Mosfellskirkju tímabundið á meðan verið er að taka ákvörðun um hvað skuli gera. Það er ljóst að þessar framkvæmdir eru kostnaðarsamar og það þarf að vera til peningur fyrir því sem þarf að gera. Báðar kirkjurnar okkar eru komnar til ára sinna og því mikill viðhaldskostnaður til staðar.
Nýverið var skipt um þak á Lágafellskirkju og ljóst er að fljótlega þarf að skipta þar um glugga og fleira,“ segir Ólína að lokum og nefnir að jafnvel þurfi að stofna til söfnunar meðal almennings fyrir framkvæmdum Mosfellskirkju.

Tónlist gefur manni svo mikið

Hulda Jónasdóttir hlaut tónlistarlegt uppeldi frá blautu barnsbeini og hefur tónlistin fylgt henni æ síðan. Á heimili hennar var mikið hlustað á blús, djass og klassíska tónlist og gömlu góðu íslensku lögin voru einnig í hávegum höfð.
Árið 2016 skellti Hulda sér í nám í viðburðastjórnun og stofnaði sitt eigið fyrirtæki í kjölfarið, Gná tónleikar. Nú skipuleggur hún og viðburðastýrir tónleikum og ýmsum öðrum viðburðum af öllum stærðum og gerðum.

Hulda er fædd á Sauðárkróki 1. janúar 1963. Foreldrar hennar eru Erla Gígja Þorvaldsdóttir matráður og tónlistarkona og Jónas Þór Pálsson málarameistari, leiktjaldasmiður, trommari og listmálari en hann lést árið 2016. Þau hjónin settu mikinn svip á menningarlíf Skagfirðinga hér á árum áður.
Hulda á tvö systkini, Björn f. 1953 skipstjóra og Þórdísi f. 1957 húsmóður.

Naut þess að hlusta
„Ég er alin upp á Sauðárkróki, þeim ­fallega bæ og þar var ákaflega ljúft og gott að alast upp. Ég eignaðist marga góða vini sem enn í dag eru meðal minna bestu vina. Við lékum okkur mikið úti í náttúrunni og brölluðum margt skemmtilegt.
Ég var mjög ung þegar ég byrjaði að hlusta á tónlist, pabbi hlustaði á djass og blús en mamma meira á karlakórana og gamla íslenska tónlist. Saman hlustuðu þau svo á klassíska tónlist þannig að tónlistarvalið hjá þeim var mjög fjölbreytt.
Ég átti gamlan plötuspilara og naut þess að hlusta, var sjö ára þegar ég eignaðist mína fyrstu vínylplötu, plötu með Bessa Bjarnasyni leikara þar sem hann söng vísur Stefáns Jónssonar. Ég var líka aðdáandi Svanhildar Jakobsdóttur og eignaðist margar plötur með henni.“

Ómissandi partur af aðventunni
„Jólastemmingin á Króknum þegar ég var að alast upp var einstök. Aðalgatan var hlaðin skemmtilegum verslunum og það var gaman að ganga á milli þeirra og kaupa jólagjafir.
Ég var svo heppin að afi minn, Þorvaldur Þorvaldsson, rak verslunina Vísi á þessum árum og þar fékk skólastelpan vinnu fyrir jólin. Afi setti alltaf jólasvein út í glugga og var hann ómissandi partur af aðventunni hjá Króksurum.
Ég man sérstaklega stemminguna á Þorláksmessukvöldi þegar opið var til miðnættis, þá komu margir við í búðinni hjá afa. Sumir til að kaupa í jólamatinn, aðrir til að kaupa jólagjafir og sumir til að fá sér hressingu, eina Spur Cola og Smakk súkkulaði áður en haldið var áfram. Eftir lokun var svo farið til Huldu ömmu sem beið með nýsteiktar kleinur og ískalda mjólk.
Ég kem alltaf til með að bera hlýjar og góðar tilfinningar til Sauðárkróks“, segir Hulda og brosir.

Hóf störf í Noregi
„Hulda gekk í barna- og gagnfræðaskólann á Sauðárkróki og átti þar góð ár. Á sumrin þegar hún hafði aldur til þá starfaði hún í sjoppu, fiski og í versluninni hjá afa og svo hjálpaði hún föður sínum með bókhald en hann rak málningarfyrirtæki og var oft og tíðum með marga menn í vinnu.
Eftir útskrift úr gaggó 1980 fór ég til Noregs og hóf störf á SAS hóteli. Mig langaði til að prófa að vinna einhvers staðar annars staðar en á Íslandi og læra nýtt tungumál í leiðinni.
Þegar ég kom heim aftur þá fór ég í Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki og útskrifaðist sem stúdent 1984. Ég flutti svo til Reykjavíkur og leigði um tíma með vinkonu minni. Ég hóf nám í snyrtifræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og útskrifast þaðan árið 1988, í framhaldi starfaði ég svo við förðun í Íslensku óperunni.“

Gaman að skoða nýja staði
Hulda kynntist eiginmanni sínum, Garðari Hreinssyni smiði, á balli með Geirmundi árið 1983. Þau keyptu sér íbúð í Mosfellsbæ en fluttu fljótlega í Mosfellsdalinn þar sem þau byggðu sér hús og þar búa þau enn. Börn þeirra eru Hreindís Ylva f. 1989 skrifstofustjóri, leikari og söngkona og Yngvi Rafn f. 1991 smiður og tónlistarmaður. Barnabörnin eru tvö Arey Hólm og Sóley Herdís.
„Hesta og hundahald hefur alltaf fylgt okkur fjölskyldunni. Okkur finnst einnig mjög gaman að ferðast og skoða nýja staði, við Garðar höfum verið dugleg að fara með börnin alveg frá því þau voru lítil. Eftir að þau fluttu að heiman þá hittumst við alltaf reglulega og borðum saman. Okkur finnst líka mjög gaman að skreppa saman í sumarbústaðaferðir og svo eru leikhús og tónleikaferðir í miklu uppáhaldi fyrir jafnt stóra sem smá fjölskyldumeðlimi.“

Ákvað að stíga skrefinu lengra
Hulda hefur unnið ýmis konar störf í gegnum tíðina, í fiski, verslunarstörf, bókhaldi, bankastörf og er í dag þjónustufulltrúi í Lágafellsskóla. En hvernig skyldi hafa staðið á því að hún fór út í það að halda tónleika? „Þetta byrjaði í rauninni allt með styrktartónleikum, frænka mín og maðurinn hennar voru búin að vera mikið veik og höfðu lítið getað unnið. Mér datt því í hug að hóa saman listafólki og halda tónleika fyrir þau.
Í kjölfarið fylgdu nokkrir styrktartónleikar, þar á meðal fyrir tvo Mosfellinga. Þetta gekk allt svo ljómandi vel og var svo skemmtilegt að ég ákvað að stíga skrefinu lengra. Ég ákvað að skella mér í nám í viðburðastjórnun og stofna fyrirtæki í kringum þetta allt saman, Gná tónlist. Þessi verkefni mín eiga hug minn allan og ég er að skipuleggja og viðburðastýra tónleikum og viðburðum af öllum stærðum og gerðum. Ég hafði reyndar alla mína skólagöngu alltaf verið í árshátíðar-, skemmti- og tónlistarnefndum svo þetta er greinilega eitthvað sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga á.“

Þetta vatt svo upp á sig
„Ég hef verið að heiðra gömlu góðu söngvarana okkar, Erlu Þorsteinsdóttur, Helenu Eyjólfsdóttur, Hauk Morthens, Mjöll Hólm og Svanhildi Jakobsdóttur og hafa tónleikarnir farið fram í Hofi á Akureyri og í Salnum í Kópavogi.
Fyrstu alvöru tónleikarnir sem ég skipulagði voru tónleikarnir, Út við himinbláu sundin, þetta áttu bara að vera einir tónleikar en þeir gengu svo vel að þeir urðu fimm talsins. Þetta vatt svo upp á sig og í kjölfarið fylgdu alls kyns tónleikar og viðburðir m.a. sjómannatónleikar og fleiri heiðurstónleikar.“

Hvað er hægt að biðja um meira
„Síðustu tónleikar sem ég hélt voru til heiðurs sjálfum Gunnari Þórðarsyni, Himinn og jörð. Gunnar og fjölskylda hans heiðruðu okkur með nærveru sinni og voru afar sátt, hvað er hægt að biðja um meira?“ segir Hulda og brosir. „Við náum vonandi að endurtaka þessa tónleika því færri komust að en vildu. Fólki finnst gaman að heyra þessa gömlu góðu íslensku lög.
Ég hef líka verið að aðstoða aðra við að skipuleggja alls kyns viðburði og nú síðast Rotarý á Íslandi með klassíska tónleika svo eitthvað sé nefnt. Á teikniborðinu eru svo fleiri tónleikar. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi starf sem ég elska,“ segir Hulda að lokum er við kveðjumst.

Ásgeir Jónsson nýr formaður Aftureldingar

Á aukafundi aðalstjórnar Aftureldingar þann 2. maí var Ásgeir Jónsson kjörinn nýr formaður félagsins. Þá voru þau Níels Reynisson og Hildur Bæringsdóttir einnig kjörin í stjórn.
Ásgeir leysir Birnu Kristínu Jónsdóttur af hólmi sem hefur gengt formennsku síðustu sex ár og Níels og Hildur koma inn í stað Sigurðar Rúnars Magnússonar og Reynis Inga Árnasonar.
Fyrir sitja einnig í aðalstjórn þau Hrafn Ingvarsson varaformaður, Geirarður Long, Inga Hallsteinsdóttir og Hildur Pála Gunnarsdóttir.

Styrktarmótið Palla Open haldið í fjórða sinn

Samstarfshópurinn við Hlíðavöll: Óskar Þór arkitekt, Ágúst framkvæmdastjóri GM, Andrea, Hildur og Bergljót frá Reykjadal, Vífill Björnsson arkitekt og Palli Líndal.

Fjórða árið í röð hafa Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Palli Líndal ákveðið að taka höndum saman og halda Palla Open styrktarmótið í golfi.
Í ár verður mótið haldið til styrktar sumarbúðunum í Reykjadal. Verkefnið hófst með Palla Open á síðasta ári þar sem átti að nota styrktarfé, sem var yfir þrjár milljónir, til að útbúa 20 fermetra búningsklefa fyrir einstaklinga með miklar sérþarfir. Þessi búningsklefi átti að vera með tilheyrandi sérbúnaði.
Eftir að verkefnið fór af stað og arkitektarnir Óskar Þór Óskarsson og Vífill Björnsson fóru að skoða málið fórum menn að velta fyrir sér hvort að þessi breyting á gömlu húsnæði myndi ganga. Áhættan við að fara í þessar breytingar þótti of mikil vegna óvissu um breytingar á gömlu húsnæði.
Í framhaldi af þessu var ákveðið í samráði við sumarbúðirnar í Reykjadal, Golfklúbb Mosfellsbæjar og Palla Líndal að safna fyrir endurbótum á búningsklefum fyrir sundlaugina í Reykjadal og séraðstöðu fyrir einstaklinga með miklar sérþarfir.
Verkefnið hefur því stækkað töluvert eða frá því að fara úr 20 fermetrum í rúmlega 120 fermetra rými. Eins má áætla að kostnaður við þetta verkefni aukist töluvert og má ætla að hann verði um 12-15 milljónir. Það er þegar byrjað að leita að samstarfsaðilum að þessu verkefni sem eru vonandi tilbúnir að leggja styrktarfé á móti styrkjarfé Palla Open sem verður á milli 6-7 milljónir.

Stefnir í metþátttöku
Á Palla Open í fyrra mættu til leiks 244 kylfingar og var þetta stærsta golfmót GM á síðasta ári. Eins var þetta næst stærsta golfmót á Íslandi í fyrra. Í ár stefnir aftur í metþátttöku.
Palla Open verður haldið laugardaginn 8. júní á Hlíðarvelli og er þátttökugjald 7.500 kr. Fyrsta holl verður ræst út kl. 7.
Blik Bistro verður með sérstakt tilboð á steikarhlaðborði fyrir þátttakendur mótsins og verður hægt að skrá sig á það um leið og þátttakendur skrá sig á mótið. Eins verða góð tilboð á öðrum veigum.
Skráning í mótið fer fram í gegnum golfboxið.