Börn vilja reglur og mörk

Það er óhætt að segja að Gróa Karlsdóttir þekki ungviðið í Mosfellsbænum betur en margur annar enda hefur hún starfað lengi sem skólaliði eða í 25 ár.
Gróa aðstoðar nemendur í leik og starfi og leiðbeinir þeim í umgengni og samskiptum þeirra við aðra nemendur og starfsmenn skólans. Hún segir starfið fjölbreytt og gefandi og það sé mikið ríkidæmi að fá tækifæri til að starfa með unglingum, sjá þau vaxa og dafna og takast á við lífið.

Gróa fæddist að Hálsi í Kjós 22. nóvember 1959. Foreldrar hennar eru þau Hulda Sigurjónsdóttir og Karl Andrésson, þau eru bæði látin.
Systkini Gróu eru Gestur Ólafur f. 1948, Sigurjón f. 1950, Ragnar f. 1953 d. 2000, Andrés f. 1961, Sólveig f. 1965 og Ævar f. 1971.

Oft líflegt á bæjarhlaðinu
„Ár bernskunnar í Kjósinni voru góð. Á Hálsi bjuggu pabbi og bræður hans tveir með fjölskyldum sínum, krakkaskarinn var því stór og oft líflegt á bæjarhlaðinu.
Ég flutti 7 ára að Eyrarkoti þar sem foreldrar mínir tóku við þjónustu Pósts og síma. Það var ávallt mannmargt í eldhúsinu í Eyrarkoti, mikill gestagangur. Í minningunni var allan daginn verið að elda, baka og vaska upp.
Ég var ekki gömul þegar ég fór að aðstoða þar við hin ýmsu verkefni. Eitt sinn var ég ein heima á meðan mamma og pabbi skruppu í bæinn, þá var pantaður matur fyrir tvo veghefilsstjóra en mamma sá um mat fyrir Vegagerðina og fleiri fyrirtæki þegar á þurfti að halda. Ég var ekkert að malda í móinn, náði í kjötbollur í frystinn og reddaði hádegismatnum.“

Skólastýran bað með okkur bænirnar
„Í Eyrarkoti var fjaran spennandi leikvöllur og sauðburðurinn skemmtilegasti tíminn. Eitt vorið var pabbi á sjúkrahúsi, ég og Addi bróðir vorum að reyna að bjarga okkur og þurftum að sækja kind með lömb niður á tún, hún var ansi stygg þannig að við tókum með okkur hlera sem við höfðum fyrir framan okkur svo hún myndi ekki stanga okkur og heim fór hún.
Ég var í barnaskólanum Ásgarði frá 7-12 ára og var í heimavist öll árin en í skólanum voru um 40 nemendur. Það var oft erfitt fyrir lítil hjörtu en starfsfólkið hugsaði vel um okkur og ég man að skólastýran kom alltaf á kvöldin og bað með okkur bænirnar.
Eftir skólatíma tóku við leikir bernskunnar sem sjaldan sjást núna. Fallin spýta, stórfiskaleikur, yfir, parís og teygjutvist. Þegar Laxáin var ísilögð skelltum við okkur á skauta. Endalaus ævintýri milli fjalls og fjöru.“

Frábær vetur að Varmalandi
„Í 7. og 8. bekk var ég í Álftamýrarskóla og bjó þá hjá Gesti bróður, þar aðstoðaði ég við að passa frændur mína. Síðan lá leiðin í Gaggó Mos og ég útskrifast þaðan 1976. Þar eignaðist ég mína bestu vinkonu, Helgu Guðjónsdóttur, það líður varla sá dagur að við heyrumst ekki eða hittumst yfir góðum kaffibolla.
Eftir grunnskóla lá leiðin í Húsmæðraskólann að Varmalandi og var það frábær vetur. Þar eignaðist ég margar góðar vinkonur og höfum við verið saman í saumaklúbbi síðan.“

Skelltu sér í heimsókn til Kína
Gróa er gift Lárusi E. Eiríkssyni rafverktaka en þau fluttu í Mosfellsbæ 1982. Börn þeirra eru Ólafía f. 1979, Karl Már f. 1982, Eiríkur f. 1983 og Magnús f. 1987.
„Ömmugullin mín eru orðin fimm, Ísmey, Leópold, Bjartur, Tómas, Már og Muni. Þau eiga stóran part í mínu hjarta og ég veit ekkert betra en að hafa þau hjá okkur. Við erum svo heppin að öll börnin okkar eru búsett í Mosfellsbæ,“ segir Gróa og brosir.
Gróa nýtur þess að eiga góðar samverustundir með fjölskyldu og vinum á ferðalagi um landið eða í sumarbústaðnum í Kjósinni og hún segir handavinnu líka notalegt áhugamál. Eftirminnilegasta ferð þeirra hjóna á erlendri grundu er heimsókn þeirra til vinahjóna í Shanghai í Kína. Þar skoðuðu þau meðal annars hinn sögufræga borgarmúr í Peking og hinn stórkostlega Terrakottaher í Xiam.
Gróa er líka í skemmilegum hópi kvenna sem nefnist Vatnadísirnar, þær stunda vatnsleikfimi tvisvar í viku undir stjórn Sigrúnar Másdóttur. Hún segist endurnærð á sál og líkama eftir hvern tíma.

Skólinn fékk nýtt nafn í haust
Fyrstu árin í Mosfellsbæ var Gróa heimavinnandi húsmóðir og dagmamma, hún segir að það hafi verið dásamlegt að hafa haft tækifæri til að vera heima með börnin fyrstu árin. Þá voru nokkrar nágrannakonur hennar einnig heima og úr varð náinn vinahópur sem heldur saman enn í dag.
Gróa hóf störf í eldri deild Varmárskóla árið 1994 en frá árinu 1996 hefur hún starfað samfellt sem skólaliði eða í 25 ár. „Í eldri deildinni eru 4 bekkjardeildir, 7.– 10. bekkur. Skólinn fékk nýtt nafn í haust og heitir nú Kvíslarskóli en yngri deildin hélt Varmárskólanafninu. Ég hef unnið þarna í gegnum tíðina með frábæru samstarfsfólki sem heldur hópinn í leik og starfi.“

Hafragrauturinn er vinsæll
Ég spyr Gróu í hverju starf hennar felist. „Starf mitt er mjög fjölbreytt, ég mæti fyrst á morgnana og helli upp á kaffi fyrir samstarfsfólkið. Síðan tek ég á móti börnunum ásamt stuðningsfulltrúum sem sjá um gæsluna með mér. Við aðstoðum einnig í matsalnum og hafragrauturinn er afar vinsæll get ég sagt þér. Það er frábært að allir hafi aðgang að góðum mat því þá líður öllum betur.
Ég sé líka um gæslu og eftirlit á göngum skólans og hef auga með nemendum sem lenda í eyðu. Ég veiti fyrstu hjálp ef slys eða óhöpp ber að höndum, sé um allan þvott og er kennurum innan handar og svo er margt fleira sem fellur til, hér er alltaf nóg að gera,“ segir Gróa og brosir.

Það þarf oft að líma plástra á sálir
„Ríkidæmið í þessu öllu saman er að fá tækifæri til að starfa með dýrmætu unglingunum okkar, fylgjast með þeim vaxa og dafna og takast á við lífið.
Börn vilja reglur og mörk en fyrst og fremst ást og umhyggju. Það þarf oft að líma plástra á sálir og sár og sárast af öllu er þegar einhver villist af leið og fetar ranga braut. Það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp börn, það er nú bara þannig,“ segir Gróa að lokum er við kveðjumst.

Gert ráð fyrir rekstrarafgangi 2022

Horft í átt að Helgafelli.

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2022 ber merki aukinna efnahagslegra umsvifa eftir það högg sem heimsfaraldur kórónuveirunnar er og þeirrar viðspyrnu sem Mosfellsbær hefur náð, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Á næsta ári verður unnið að hönnun og framkvæmd nýs leikskóla í Helgafellshverfi, byggingu nýs íþróttahúss í Helgafellsskóla og nýrrar þjónustubyggingar við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Þá verður að nýju hægt að halda viðburði í endurnýjuðum Hlégarði en húsið verður tilbúið í byrjun nýs árs. Árið 2022 verður fyrsta heila starfsár Úlfsins frístundaklúbbs fyrir fötluð börn og ungmenni, en áætlað er að starfsemin eigi sér stað allt árið um kring með heilsdagsplássum þegar um skólafrí er að ræða. Nú er þessi mikilvæga þjónusta komin heim en áður var þjónustan veitt utan sveitarfélagsins með tilheyrandi akstri.

Lækkun leikskólagjalda um 5%
Samkomutakmarkanir síðustu mánaða hafa skapað aðstæður hjá sveitarfélögum til þess að stuðla að aukinni notkun rafrænna leiða í þjónustu og Mosfellsbær mun nýta þau tækifæri í samvinnu við íbúa. Í heild verður framkvæmt fyrir um þrjá milljarða til að byggja upp innviði og efla samfélagið. Íbúar eru nú rúmlega 13.000 og mun fjölga um allt að 3,5% á næsta ári.
Í upphafi faraldursins var mörkuð sú stefna að tryggja óbreytta eða aukna þjónustu og byggja upp innviði án þess að ganga of langt í lántöku. Því er áformað að bæjarsjóður verði rekinn með 171 m.kr. afgangi á næsta ári og á sama tíma lækka bæði leikskólagjöld og álagningarprósentur fasteignagjalda. Lækkun leikskólagjalda nemur um 5% á árinu 2022.
Nú stendur yfir vinna við endurskoðun á skólastefnu Mosfellsbæjar sem við munum sjá í byrjun næsta árs. Þá er unnið að því að endurskoða aðalskipulag Mosfellsbæjar og mun þeirri vinnu ljúka fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils. Loks er unnið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Loks er lýðheilsu- og forvarnastefna í samþykktarferli.

Markmiðið var að ná viðspyrnu
„Markmið okkar í Mosfellsbæ við upphaf heimsfaraldursins var að ná viðspyrnu og verja þjónustu við íbúa,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Fjárhagsáætlunin ber þess skýr merki að þeim markmiðum er náð sem endurspeglar sterka stöðu sveitarfélagsins til að mæta tímabundnum fjárhagslegum áföllum.
Í fjárhagsáætlun ársins 2022 er gert ráð fyrir um 171 m.kr. afgangi af rekstri sveitarfélagsins. Þessi árangur næst ekki fyrir tilviljun heldur vegna þess að starfsfólki undir forystu bæjarstjórnar hefur tekist að laga rekstur sveitarfélagsins að breyttu fjárhagslegu umhverfi án þess að skerða þjónustu og jafnframt hefur verið bætt í þjónustuna í nokkrum tilfellum.
Vegna þessa árangurs getum við farið í frekari uppbyggingu m.a. á sviði fræðslumála og íþróttamála eins og fjárhagsáætlunin ber með sér þegar kemur að hönnun og byggingu nýs leikskóla í Helgafellshverfi, byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla og nýrrar þjónustubyggingar við íþróttamiðstöðina að Varmá,“ segir Haraldur.

 


HELSTU ÁHERSLUR:

  • Að afgangur verði af rekstri bæjarins þrátt fyrir að tekjur hafi lækkað vegna kórónuveirufaraldursins.
  • Að álagningarhlutföll fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði og atvinnurekstur lækki.
  • Að nýjum lóðum í Helgafellshverfi og á miðbæjarsvæði verði úthlutað fyrir fjölbreyttar íbúðargerðir.
  • Að gjaldskrár breytist í samræmi við breytingar á verðlagi og hækki því ekki að raungildi. Leikskólagjöld lækki um 5%.
  • Að hafin verði bygging nýs leikskóla í Helgafellshverfi og íþróttahúss við Helgafellsskóla.
  • Að hafin verði bygging þjónustubyggingar við íþróttamiðstöðina að Varmá.
  • Að dagvistunargjöld allra barna frá 12 mánaða aldri verði þau sömu óháð vistunarformi.
  • Að skuldir sem hlutfall af tekjum muni lækka og skuldaviðmiðið verður 100,8% af tekjum í árslok.
  • Að félagslegum íbúðum fjölgi.
  • Að hafnar verði framkvæmdir við stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra.

Ljós í nýjum jólagarði tendruð

„Jólaskreyttur garður á Hlégarðstúni þar sem fólk gerir sér ferð til að heimsækja staðinn og eiga góðar stundir.“
Þannig hljómaði ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó á árinu 2021.

Frábær hugmynd sem vekur hlýju
Jólagarðurinn var formlega opnaður þegar Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og börn í 4. bekk í Varmárskóla tendruðu ljósin í fyrsta sinn. Andlit barnanna ljómuðu ekki síður en garðurinn enda er fátt ævintýralegra en falleg jólaljós. „Við vonum að jólagarðurinn við Hlégarð veki hlýju í brjóstum bæjarbúa og þökkum kærlega fyrir þessa frábæru hugmynd,“ segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Samráðsverkefni íbúa og bæjarins
Okkar Mosó er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Hugmyndirnar geta tengst því að gera Mosfellsbæ betri, skapa eitthvað nýtt, efla hreyfingu, hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa til útivistar og samveru, bættrar lýðheilsu eða aðstöðu til leikja og skemmtunar.

Jana gefur kost á sér í 2. sæti

Jana Katrín Knútsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri sem fer fram 5. febrúar nk. Jana er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Jana hefur starfað innan heilbrigðis­kerfisins í um 13 ár og þar af 8 ár á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Í dag starfar hún sem sölu- og markaðsstjóri hjá Icepharma og var á lista Sjálfstæðis­flokksins í Suðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum fyrr á þessu ári. Jana er fædd og uppalin í Mosfellsbæ, er gift Magnúsi Pálssyni lögreglumanni hjá Ríkislögreglustjóra og saman eiga þau tvö börn, Anítu 11 ára og Loga Pál 6 ára. „Mig langar til að vera þátttakandi í áframhaldandi uppbyggingu í bæjar­félaginu ásamt öflugri liðsheild og er full af krafti og vilja til góðra verka í þágu bæjarbúa.“

Rúnar Bragi sækist eftir 3. sæti

Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi óskar eftir áframhaldandi stuðningi á lista Sjálfstæðismanna í prófkjöri sem fer fram 5. febrúar 2022 fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. „Hef ég mikinn áhuga og metnað á að starfa áfram að sveitarstjórnar­málum og fylgja eftir þeim fjöl­mörgu góðu málum sem hafa áunnist á þessu kjörtímabili. Ég tel að kraftar mínir og reynsla geti áfram nýst í þeirri miklu og spennandi uppbyggingu sem hefur verið og fram undan er í Mosfellsbæ.“ Rúnar er bæjarfulltrúi, formaður fjölskyldunefndar og öldungaráðs, ásamt því að sitja fyrir hönd Mosfellsbæjar í stjórn Strætó BS. Rúnar starfar sem framkvæmdastjóri Redder ehf. og er giftur Bylgju Báru Bragadóttur og saman eiga þau tvö börn.

Súrefni

Ég var úti í morgun með æfingahópnum. Við tökum daginn snemma tvisvar í viku og æfum úti, sama hvernig viðrar. Mér líður vel þegar ég æfi, bæði sjálfur og með öðrum og hvort sem ég er inni eða úti. Þessi tilfinning að hreyfa sig, liðka og styrkja er svo öflug, bæði fyrir líkama og sál.

En það er best að vera úti. Það gefur mér mesta orku. Og orkuskammturinn stækkar í góðum félagsskap. Margfaldast.

Núna þegar kóvidið heldur áfram að djöflast í okkur og okkur er reglulega kippt niður á jörðina og send í smitgát, sóttkví eða einangrun er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að finna leiðir til þess ná okkur í endurnýjanlega orku. Endurnýjanlega orku fyrir okkur sjálf, það er ekki nóg að hugsa bara um bílinn.

Ég ætla ekki að skrifa hér að það sé ekki í boði núna að vera fúll og hengja haus. Það er auðvelt að segja það þegar maður þarf ekki að hafa áhyggjur af afkomu sinni heldur getur einbeitt sér að því að hafa vit fyrir öðrum. Ég ætla frekar að segja að ég sjálfur eins og aðrir sem hafa þurft endurskipuleggja (vinnu)lífið og tilveruna vegna kóvid og alls þess sem því fylgir, verðum að gera allt sem í okkar eigin valdi stendur til þess að passa upp á eigin heilsuhreysti og vellíðan. Það tekur enginn frá mér æfingarnar mínar, útiveruna mína, súrefnið mitt, orkuskammtinn minn. Enginn.

Það er misjafnt hvað gefur okkur orku. Hver og einn veit best hvað gefur mest. En við eigum það öll sameiginlegt mannfólkið að við þurfum hreyfingu og ferskt loft til þess að líða vel. Á hverjum degi. Prófaðu að fara – án símans – aðeins út á morgnana, í hádeginu og seinni partinn. Hreyfðu þig, kíktu í kringum þig, njóttu þess að vera frjáls og fá stóran orkuskammt.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. nóvember 2021

Ásgeir býður sig fram í 1. sæti

Ásgeir Sveinsson formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem verður haldið 5. febrúar næstkomandi.
„Það gengur vel í Mosfellsbæ,“ segir Ásgeir. „Ánægja íbúa mælist mikil og ég hef sinnt mörgum skemmtilegum og krefjandi störfum í farsælum og sterkum meirihluta D- og V-lista á því kjörtímabili sem nú er að líða. Ég hef brennandi áhuga á velferð Mosfellinga og Mosfells­bæjar. Víðtæk reynsla mín og þekking sem stjórnandi í viðskiptalífinu, vinna mín í bæjarstjórn auk mikillar reynslu af félagsmálum og mannauðsmálum eru meðal annars ástæður þess að ég vil leiða öflugan lista Sjálfstæðisflokksins til áframhaldandi góðra verka fyrir Mosfellsbæ.“

Kristín Ýr býður sig fram í 3.-4. sæti

Kristín Ýr Pálmarsdóttir gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer 5. febrúar 2022. „Ég er mikill Mosfellingur og hef ég alið upp börnin mín hér með manninum mínum honum Jónasi. Ég er lífsglöð og umhyggjusöm kona og vinir mínir segja að ég sé dugleg, traust og bjartsýn. Mér þykir mjög vænt um Mosfellsbæ og langar að taka þátt í að gera frábæran bæ enn betri.
Á þessu kjörtímabili hef ég verið varabæjarfulltrúi og varaformaður umhverfisnefndar. Ég gef kost á mér í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna.“

Hættir sem bæjarstjóri í vor

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn við bæjarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða í maí á næsta ári.  Þetta tilkynnti Haraldur á fjölmennum fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðsfélaganna í Mosfellsbæ í gærkvöldi.  Haraldur er oddviti Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ og hefur verið bæjarstjóri frá árinu 2007, setið í bæjarstjórn frá árinu 2002 og var varabæjarfulltrúi á árunum 1998 til 2002. 

„Ég var svona búinn að hugsa það með sjálfum mér fyrir fjórum árum að þetta yrði mitt síðasta kjörtímabil í bæjarstjórn Mosfellsbæjar en umfram allt hefur þetta verið afskaplega skemmtilegur og gefandi tími,“  segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Ég hef verið bæjarstjóri frá árinu 2007 sem er lengst allra sem gengt hafa þessu embætti í Mosfellsbæ.  Á þessum tíma hefur íbúum fjölgað um helming og þó ég segi sjálfur frá hefur alveg ótrúleg uppbygging átt sér stað hér á umliðinum árum. Mest um vert er að bæjarbúar eru stoltir af sínu sveitarfélagi, þeir standa vörð um samfélagið og sú þjónusta sem við veitum er í fremstu röð samkvæmt mælingum. Ekkert af þessu gerist fyrir tilviljun og ég vil þakka það góðri samvinnu innan meirihluta bæjarstjórnar og einnig okkar frábæra starfsfólki. Ég vil því nota þessi persónulegu tímamót til að þakka samstarfsfólki mínu, kjörnum fulltrúum, starfsfólki Mosfellsbæjar og öðrum fyrir farsælt samstarf.  Síðast en ekki  síst vil ég þakka íbúum Mosfellsbæjar fyrir að fá að vinna með þessu góða samfélagi í öll þessi ár, það hefur gefið mér mikið. En ég mun gegna starfi bæjarstjóra af trúmennsku þar til í vor þegar kjörtímabilinu lýkur“ 

Afturelding sér um dreifingu Mosfellings

Mosfellingur og ungmennafélagið Afturelding hafa gert með sér samning um dreifingu bæjarblaðsins. Mosfellingur kemur út að jafnaði á þriggja vikna fresti og er dreift frítt í hús í Mosfellsbæ.
Íslandspóstur hefur séð um dreifingu blaðsins í fjöldamörg ár en ákvað að hætta að dreifa ónafngreindum fjölpósti á síðasta ári í sparnaðarskyni. „Þá voru góð ráð dýr,“ segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. „Við leituðum til Aftureldingar og höfum átt mjög gott samstarf við félagið sem hefur nú verið innsiglað til næstu ára.“

Ný fjáröflun ungmennafélagsins
Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar tekur í sama streng og fagnar þessari nýju fjáröflun félagsins. „Við erum með galvaska iðkendur innan okkar raða sem fara létt með þetta verkefni. Deildir félagsins hafa skipst á að bera út blaðið og verður það þannig áfram.“
Þessi skerta þjónusta hins ríkisrekna Íslandspósts þýðir að dreifbýlið situr eftir. Við bendum því góðfúslega á að hægt er að nálgast eintak á næstu bensínstöð, bókasafninu, íþróttamiðstöðvunum og fleiri fjölförnum stöðum í Mosfellsbæ. Svo er auðvitað hægt að lesa blaðið á netinu, www.mosfellingur.is.
Á myndinni má sjá Hönnu og Hilmar handsala samninginn.

Úr Lágafellsskóla í bandaríska flugherinn

Bræðurnir Gunnlaugur Geir Júlíusson 30 ára og Hilmar Þór Björnsson 23 ára sem báðir eru Mosfellingar og gengu í Lágafellsskóla, hafa báðir gegnt herskyldu í bandaríska flughernum.
„Afi okkar í móðurætt var bandarískur hermaður en amma okkar var íslensk, þess vegna erum við með tvöfalt ríkisfang. Mamma okkar, Natacha Durham, er að mestu leyti alin upp á Íslandi en bróðir hennar flutti til Bandaríkjanna og fór í herinn. Við vorum báðir mjög heillaðir af þessum frænda okkar alla okkar barnæsku og hann átti mjög flottan feril í hernum,“ segir Gulli eins og hann er kallaður.

Gengdi herskyldu í 6 ár
„Þegar ég var 18 ára og vissi ekki alveg hvaða leið mig langaði að fara í lífinu þá bauð hann mér að koma til sín og bauðst til að hjálpa mér að komast inn í herinn,“ segir Gulli. „Það er heilmikið ferli að sækja um, maður þarf að taka alls kyns próf og standast miklar kröfur á mörgum sviðum. Það tók mig um 9 mánuði að komast inn. Ég valdi það að sækja um í herlögregluna hjá flughernum sem var það sama og frændi minn hafði gert á sínum tíma.
Ég byrjaði á að fara í eins konar grunnþjálfun og í framhaldinu í herskólann í San Antonio í Texas. Í framhaldi af því þá gegndi ég herskyldu í 6 ár, á þeim tíma fór ég tvisvar sinnum til Afganistan, til Katar og Þýskalands. En í rauninni þá fólst mitt starf í almennum öryggisstörfum, sjá um öryggi á herflugvöllum, öryggi varðandi kjarnorkuvopn og þess háttar.
Eftir þessi 6 ár í hernum fór ég í háskóla í afbrotafræði og hef unnið sem fangavörður með náminu,“ segir Gulli sem nýverið flutti heim eftir 12 ára búsetu í Bandaríkjunum.

Býr á herstöð í Alaska
Yngri bróðirinn, Hilmar, hafði bæði frænda sinn og bróður sem fyrirmynd að fara þessa leið í lífinu. Þegar hann var 20 ára flutti hann til bróður síns í Texas sem aðstoðaði hann svo við að komast inn í flugherinn. „Það tók mig rúmlega ár að komast inn og ferlið var svipað og hjá Gulla, ég byrjaði í grunnþjálfun í Texas en fór svo til Flórída í 4 mánuði í skóla þar fyrir starfið mitt.
Ég er flugvirki og sérsvið mitt er öll vinna utan á vélunum, öll blikkvinna og málun á orrustuþotunum. Það er mjög sérhæft starf og efnin sem við notum eru mörg og sérstök og gera það meðal annars að verkum að vélarnar koma ekki fram á radar.
Í framhaldi af því þá var ég sendur til Alaska þar sem ég kem til með að vera næstu tvö árin. Eftir það verð ég sendur á aðra herstöð annars staðar í heiminum, en ég skrifaði undir 6 ára samning hjá hernum,“ segir Hilmar sem veit ekki hvað hann gerir eftir þann tíma. Atvinnumöguleikarnir eru miklir eftir þessa reynslu.

Eins og risastór fjölskylda
Bræðurnir eru sammála um að þessi reynsla geri þá að betri mönnum en að lífið innan herstöðvanna sé ekki ólíkt lífi í smábæjum. „Í raun er þetta eins og að búa í litlum bæjum ekki ósvipað og Mosó. Þarna er allt til alls og fólk stundar sína vinnu og sinnir vinum og fjölskyldu. Mitt starf fólst í almennum lögreglustörfum og Hilmars starf í almennum flugvirkjastörfum. Það er sérstök menning innan hersins sem margir sækja í,“ segir Gulli.
„Ég er mjög ánægður með að hafa farið þessa leið, ég er búin að eignast marga góða vini og á eftir að búa að þessari reynslu alla ævi. Þetta er eins og að tilheyra risastórri fjölskyldu,“ segir Hilmar að lokum sem er í stuttri heimsókn á Íslandi.

Mosfellskt hugvit sem nær í kringum hnöttinn

Bjarki Elías Bjarkar Kristjánsson gekk til liðs við Controlant með hugbúnað sinn sem nýttur er af stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi.

Bjarki Elías hefur starfað lengi í tæknigeiranum. Í dag leiðir hann ásamt öðrum samfélagslegt og mikilvægt verkefni hjá Controlant sem snýr að rauntímavöktun á flutningi Pfizer bóluefnisins á heimsvísu.
Bjarki hóf störf þar fyrir um ári síðan, fyrst sem ráðgjafi en færði sig svo alfarið með hugbúnað sinn sem hann hefur verið að þróa undanfarin ár en búnaðurinn er nú nýttur af stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi.

Bjarki Elías er fæddur í Reykjavík 18. september 1974. Foreldrar hans eru þau Björk Bjarkadóttir fyrrum verkefnastjóri í ferðaþjónustugeiranum og Kristján Friðriksson fyrrum verksmiðjustjóri.
Bjarki á tvær systur, Kristínu Sólveigu lækni f. 1972 og Sesselju óperusöngkonu f. 1970.

Kjallarinn nýttist okkur vel
„Ég er alinn upp í Brekkutanganum en foreldrar mínir byggðu sér hús þar í kringum 1980 og þau búa þar enn. Það var vel rúmt um okkur þannig að kjallarinn var lengi vel stór geimur sem nýttist vel sem einhvers konar félagsmiðstöð fyrir okkur vinina.
Brekkutanginn var á þessum tíma í útjaðri bæjarins, heyskapur og folöld á túninu bak við hús sem náði alla leið til Reykjavíkur, þetta var góður staður til að alast upp.“

Vorum oft nálægt því að hrapa niður
„Leirvogurinn og Úlfarsfellið voru mín leiksvæði fyrstu árin í Mosfellssveit og þar lenti ég í ýmsum ævintýrum. Ég var frekar uppátækjasamur krakki og gerði ýmislegt sem væri ekki vel séð í dag.
Um 7 ára aldurinn gerði ég margar misheppnaðar atlögur að því að komast gangandi yfir Leirvoginn á fjöru. Ég velti því stundum fyrir mér í dag þegar ég spila golf á Hlíðarvelli og lít yfir voginn hvort gúmmítútturnar mínar sé kannski þarna enn. Það hurfu nefnilega ófáar ofan í sandleðjuna í þessum ævintýraferðum.
Eitt af því sem ég stundaði með félaga mínum var að sækja egg úr hömrum Úlfarsfells sem við seldum svo á elliheimilinu. Ef til vill voru sum þeirra stropuð en þau seldust alltaf strax fyrir fúlgur fjár að því okkur fannst a.m.k. Ég hugsa reglulega til þess þegar ég keyri Vesturlandsveginn undir Úlfarsfellinu, hve oft við félagarnir vorum nálægt því að hrapa niður.
Ég þakka fyrir að mín börn hafi ekki fetað í þessi spor mín,“ segir Bjarki og hlær.

Lenti í svörtu bókinni hans Birgis
„Ég byrjaði skólagöngu mína í Ísaksskóla en eftir að við fluttum í Mosfellssveitina þá fór ég í Varmárskóla. Ég naut mín vel þar en átti það til að lenda í „svörtu bókinni“ hans Birgis skólastjóra, eflaust allt vegna „misskilnings,“ segir Bjarki og brosir. „Ég hefði eflaust verið greindur sem ofvirkt barn í dag.
Ég hélt mér nokkurn veginn á mottunni í gaggó en komst þó að því að það væri ekkert sérlega vel séð að mæta á fjórhjóli í skólann. Sumarið eftir gagnfræðaskólann var ég messagutti á varðskipinu Tý, það var mikil lífsreynsla.
Ég stundaði handbolta með Aftureldingu og fyrsta árið mitt í meistaraflokki urðum við deildarmeistarar í 2. deild og komumst upp í 1. deild í fyrsta skipti í 37 ár, það var mikið ævintýri.“

Gaf manni nýja sýn á lífið
„Ég var upphaflega ekkert sérlega spenntur fyrir bóknámi og var staðráðinn í að verða bakari en vegna hvatningar frá foreldrum mínum og Gylfa skólastjóra þá breytti ég um stefnu og fór í Verzlunarskólann.
Ég fór svo í verkfræði og uppgötvaði þá fyrir alvöru tækniheiminn og möguleikana sem hann bauð upp á og fann vel að þar átti ég heima. Ég náði þó að sameina viðskipta- og tölvunarfræði í HR en einnig tók ég hluta af grunnnáminu í Cork á Írlandi.
Á háskólaárunum starfaði ég á sumrin í lögreglunni. Afi minn heitinn, Bjarki Elíasson, hafði verið yfirlögregluþjónn og síðar skólastjóri lögregluskólans. Það var því sjálfgefið að kanna þennan starfsvettvang sem vissulega gaf manni nýja sýn á lífið og tilveruna.“

Fluttum til Danmerkur
Bjarki Elías er kvæntur Helenu Katrínu Hjaltadóttur aðstoðarskólastjóra Dalskóla. Börn þeirra eru Andri f. 1997, Matthildur Birta f. 2001, Lea Björk f. 2006 og Ari Kristján f. 2009. Þau eiga eitt barnabarn.
Bjarki hefur verið iðinn að sinna fjölmörgum áhugamálum í gegnum tíðina en segist ekki vera mikið fyrir afslöppun. Þegar fjölskyldan fer á ströndina þá er hann yfirleitt í sjónum á meðan. Yfir vetrartímann spilar hann fótbolta og körfubolta í hverri viku.
Fjölskyldan fer saman á skíði þegar tækifæri gefst en á sumrin hefur golfið tekið yfir, hann þakkar fyrir það að stór hluti fjölskyldunnar sé með honum í því sporti.
„Fyrir nokkrum árum tók ég Executive MBA gráðu við CBS í Kaupmannahöfn. Það var ævintýri sem fól í sér ferðir til Kaupmannahafnar aðra hverja helgi í tvö og hálft ár. Undir lok námsins fluttum við fjölskyldan út og dvöldum í borginni í nokkra mánuði.“

Hef gaman af að leysa þrautir
„Frá því að ég útskrifaðist hef ég starfað við nýsköpun. Ég hef alltaf haft gaman af því að leysa þrautir og vil helst vinna að einhverju sem hefur ekki verið leyst áður.
Ég hóf starfsferil minn hjá verkfræði­stofunni Hnit 1997 og hef því starfað í tæknigeiranum í rétt tæpan aldarfjórðung. Ég hef verið einstaklega heppinn með fjölbreytt viðfangsefni, ég náði að tvinna saman hugbúnaðarfræði við landupplýsingakerfi og staðsetningarháðar lausnir. Sem dæmi um viðfangsefni eru: Borgarvefsjá, fyrstu gagnvirku vefkortin á Íslandi, Sjónvarp Símans (IPTV), staðsetningareftir­litskerfi fyrir skip, bíla, þyrlur, flughermi, fólk og fleira til.“

Núverandi verkefni er einstakt
„Eftir rúman áratug í tæknigeiranum þá skipti ég um gír og fór yfir í stjórnendaráðgjöf og var í því í 12 ár. Fyrst hjá Capacent en síðar stofnaði ég eigið fyrirtæki með góðum félögum. Mitt sérfræðisvið er svokölluð viðskiptagreind þar sem viðskiptafræðin og upplýsingatæknin mætast. Það má segja að starfsferillinn minn fram að þessu hafi verið að undirbúa mig undir núverandi verkefni sem er einstakt og algjör forréttindi að vinna við.
Síðastliðið haust barst mér símtal frá stjórnendum Conrolant sem hefur heldur betur dregið dilk á eftir sér. Ég fór fyrst inn í Controlant sem ráðgjafi en færði mig svo alfarið þangað með mínar tæknilausnir sem ég hef verið að þróa undanfarin ár. Ég er að taka þátt í ótrúlega gefandi og samfélagslegu mikilvægu verkefni sem snýr að rauntímaflutningi Pfizer bóluefnisins á heimsvísu þannig að mosfellska hugvitið nær nú í kringum hnöttinn.
Á þessu ári hefur Controlant vaxið úr því að vera 70 manna fyrirtæki í að verða 300 manna. Fyrirtækið vinnur í dag náið með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum, flutnings­aðilum og matvælaframleiðendum í yfir 120 löndum svo framtíðin er björt,“ segir Bjarki að lokum er við kveðjumst.

Ull er gull! – Ístex 30 ára

Afmælisveisla í húsakynnum Ístex að Völuteigi. Gunnar Þórarinsson stjórnarformaður, Jón Haraldsson verksmiðjustjóri, Védís Jónsdóttir höfundur afmælisprjónabókarinnar Ístex 30 ára, Rebekka Kristjánsdóttir sölustjóri og Sigurður Sævar Gunnarsson framkvæmdastjóri Ístex.

Stórafmæli Ístex (Íslenskur textíliðnaður) var fagnað að Völuteigi föstudaginn 15. október. Íslenskur lopi er gífurlega vinsæll um þessar mundir og hefur spunaverksmiðjan í Mosfellsbæ ekki undan að framleiða. Myndast hafa biðlistar eftir vörum úr ullarbænum Mosfellsbæ. 
Íslenskur textíliðnaður hf. (Ístex hf.) var stofnað 15. október 1991 og á því 30 ára afmæli um þessar mundir. Ístex er ullarvinnslufyrirtæki sem vinnur að því að skapa sem mest verðmæti úr íslenskri ull. Hluthafar félagsins eru nú 2.485 talsins og flestir þeirra eða um 80% eru bændur eða eiga rætur í sauðfjárbúskap.
Fyrirtækið rekur ullarþvottarstöð á Blönduósi og spuna- og bandverksmiðju í Mosfellsbæ. Ullarvinnsla í Mosfellsbæ hefur staðið samfleytt frá árinu 1896, áður undir nafninu Álafoss.

Handprjónaband úr íslenskri ull
Ístex kaupir ull beint frá bændum en félagið þvær og meðhöndlar um 99% af allri íslenskri ull. Ístex miðar að því að lágmarka umhverfisáhrif sín. Þvegin ull frá Blönduósi er vottuð samkvæmt OEKO-TEX 100 staðli. Markmið Ístex er að framleiða hágæða vörur úr íslenskri ull fyrir þá sem kjósa náttúrulegar, sjálfbærar og umhverfisvænar vörur.
Ístex í Mosfellsbæ framleiðir handprjónaband úr íslenskri ull og má þar nefna Álafosslopa, Einband, Jöklalopa, Léttlopa og Plötulopa. Áhugi fyrir Lopa í prjónaskap er gríðalegur. Prjónarar tengjast sterkum böndum við land, sögu og þjóð, ásamt fjölbreyttri og spennandi prjónauppskriftaflóru.
Þessi markaður hefur vaxið ört undanfarin ár bæði hérlendis og erlendis, en um 60% af sölu Ístex fer fram erlendis. Svipaða sögu er að segja um aðrar vörur úr íslenskri ull eins og ullarteppi, Lopidraumur sængurnar og Lopiloft ullareinangrun í fatnað.
Ístex gaf út á afmælisdeginum bókina Lopi 41 með 30 nýjum prjónauppskriftum eftir Védísi Jónsdóttir. Bókin stefnir í það að verða metsölubók, en meira en 1.500 eintök seldust fyrstu vikuna.

Fleiri myndir úr afmælisveislunni má finna í nýjasta tölublaði Mosfellings.

KR

KR hefur ekki verið mitt uppáhaldsíþróttafélag í gegnum tíðina. Það eru ýmsar og misgáfulegar ástæður fyrir því. En ég þekki marga ljómandi fína KR-inga, jú víst, þeir eru til og ég held að það sé mjög gaman að vera KR-ingur. Einfaldlega af því að það eru svo margir sem líta á þá sem andstæðinga númer eitt. Það getur ekki annað en gert KR-inga sterkari og aukið samheldni þeirra og samstöðu. En nóg um það, ég er ekki orðinn KR-ingur og verð það aldrei.

Ástæðan fyrir því að ég er að ræða þetta fornfræga félag í málgagni okkar Mosfellinga, er nýtt skipulag á KR-svæðinu sem var kynnt fyrir stuttu. Framtíðarsýnin í Vesturbænum er að tengja saman íþróttastarfsemi, íbúabyggð og ýmiss konar þjónustu við íbúa. Myndir segja oft meira en orð og myndin af framtíðarsvæði KR er einmitt þannig mynd. Mann langar næstum því að flytja í Vesturbæinn og gerast KR-ingur, næstum því …

Íþróttir og íþróttastarfsemi er ekki bara sprikl og læti. Í stórmerkilegri og nýútkominni bók Ágústar Einarssonar, Íþróttir hérlendis í alþjóðlegu samhengi, kemur fram að áhrif íþrótta til verðmætasköpunar á Íslandi sé um 4%, sem er umtalsvert. Framlag sjávarútvegs til verðmætasköpunar er í samanburði á bilinu 20% til 25%. Inni í þessum tölum er hvorki tekið tillit til forvarnahlutverks íþrótta né sjálfboðaliðastarfs. Íþróttir skipta okkur þannig öll máli, hvort sem við stundum þær reglulega eða ekki.

Það er stutt í sveitastjórnarkosningar. Hvernig væri að stofna nýtt afl, Íþróttaflokkinn, sem hefði það meginhlutverk að koma íþróttum inn í framtíðarskipulag Mosfellsbæjar á kröftugan hátt og þannig að eftir væri tekið? Ég sé fyrir mér Íþróttabæinn Mosfellsbæ með íþróttaþorp miðsvæðis og vel skipulögð íþróttasvæði í öllum hverfum. Allt tengt íbúðahúsnæði og þjónustu á einhvern hátt. Svona eins og vinir okkar í KR eru að stefna að.
Áfram Afturelding!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. október 2021

Bjóða upp á arabískan mat

Nýverið opnaði í Kjarnanum veitingastaðurinn Mr. Kebab. Það eru þeir Mustafa Al Hamoodi og Samer Houtir sem eiga og reka staðinn.
Þeir eru báðir ættaðir frá Palestínu en hafa búið á Íslandi um árabil. „Þegar við fórum í að leita að staðsetningu fyrir staðinn okkar þá var okkur bent á að það vantaði fjölbreytni í veitingahúsaflóruna í Mosfellsbæ. Við fengum fjöldan allan af áskorunum og sérstaklega frá Mosfellingum um að opna staðinn hér,“ segir Mustafa.

Fjölbreyttur arabískur matur
„Við bjóðum upp á arabískan mat en á matseðlinum hjá okkur eru hefðbundnir kebab réttir, vefjur, borgarar og fleira. Við notumst aðeins við fyrsta flokks hráefni og gerum allan mat og sósur frá grunni. Verðlagið hjá okkur er líka gott, við reynum að hafa það sem hagstæðast fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Samer en opnunartími staðarins er frá kl. 11 til kl. 22. Allar upplýsingar um Mr. Kebab má finna á heimasíðunni, Facebook og Instagram.

Vefjutilboð á þriðjudögum
„Nú þegar erum við með allar vefjur á matseðli á 1.000 kr. á þriðjudögum. Það hefur verið mjög vinsælt meðal Mosfellinga. Á næstunni bætast við hádegisverðartilboð og einnig ætlum við að vera með sérstök fjölskyldutilboð. Það er mánuður síðan við opnuðum, við höfum fengið mjög góðar viðtökur og það má eiginlega segja að þeir sem koma einu sinni koma aftur og aftur,“ segja þeir félagar að lokum og bjóða alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.