Sundnámskeið Tobbu vinsæl

Þorbjörg Sólbjartsdóttir útskrifast úr Háskóla Íslands árið 2012 sem íþrótta- og heilsufræðingur og kennir í Helgafellsskóla, þar vinnur hún sem umsjón­ar­kennari, sundkennari og er með sérkennslu í sundi og íþróttum.
Mosfellingur tók Þorbjörgu tali um sundkennslustarfið með börnunum og gefum henni nú orðið.

„Ég byrjaði að kenna sund með náminu mínu árið 2009, datt í raun í afleysingu sem varð lengri en ég átti von á. Ég átti ekki von á því þegar ég fór í námið að ég myndi sérhæfa mig eitthvað sérstaklega í sundi, enda hef ég engan afburðagrunn í því.
Þetta hefur líka kennt mér að það þarf ekki alltaf Íslandsmeistaratitil til að gera eitthvað vel. Ég á auðvelt með að ná til þessa aldurshóps og mér finnst það afskaplega gaman þar sem ég nýt þess að kenna börnum og þessi aldur 3-6 ára er alveg dásamlegur.“

Mikilvægt að börnin fái jákvæða upplifun í sundi
„Ég er með tvo hópa og kenni á fimmtudögum, hver hópur fær 30 mínútur í kennslu en ég skipti því þannig að þriggja og fjögurra ára börn eru saman og fimm og sex ára. Yngri hópurinn er með foreldra sína með sér ofan í lauginni en eldri börnin koma ein í laugina með mér.
Námskeiðin mín eru yfirleitt í átta vikur í senn en ég byrja á haustin þegar skólarnir byrja og kenni fram í byrjun júní. Það er svo mikilvægt að börn fái jákvæða upplifun í sundi en það getur verið stressvaldur hjá börnum að vera í vatni.“

Fyrstu skrefin í gegnum leik og söng
„Ég byrja alltaf námskeiðin mín á því að vinna með vatnsaðlögun en það geri ég í gegnum leiki og söng, svo bæti ég inn sundtökunum en ég styðst við fyrsta ­stig í sundi hjá eldri hópnum. Þau þjálfast líka í því að fara í gegnum búningsklefann en það getur verið svolítið mikið stökk fyrir þau að hafa ekki foreldra sína til að aðstoða sig þegar þau eru komin í fyrsta bekk.
Það er svo mikið öryggisatriði að geta lært að bjarga sér í vatni og því oftar sem börn fara í sund því meiri grunni byggja þau á til að geta bjargað sér ef þau lenda í erfiðum aðstæðum í vatni.“

Gott að hafa foreldrana með
„Ég reyni að gera upplifun þeirra eins jákvæða og ég mögulega get og styrki þau ef þau lenda í því að fá vatn ofan í sig eða í nefið sem þeim finnst auðvitað óþægilegt.
Ég kenni þeim að fylla lungun af lofti áður en þau kafa og nota orð eins og að fylla blöðruna sína (lungun), einnig nota ég orð eins og að róa með fótunum þegar ég kenni þeim bringusund og að láta hælana kyssast þegar þau eru að kreppa.
Ég man sjálf þegar ég byrjaði í sundkennslu, þá í fyrsta bekk, að ég skildi ekki hvað var að kreppa! Svona næ ég að umorða hlutina og gefa aðra merkingu svo að þau skilja hvað þau eiga að gera.
Ég hef virkilega gaman af því að sjá framfarirnar sem geta verið fljótar að koma, sérstaklega ef foreldrar eru duglegir að fara í sund samhliða námskeiðinu til að byggja á þekkingunni,“ sagði Þorbjörg að lokum.
Fjórar vikur eru eftir af námskeiðinu sem nú er í gangi og segist Þorbjörg taka glöð við nýjum börnum næsta haust en hún er með tvö námskeið fyrir áramót og tvö eftir áramótin. Skráningar á námskeiðin fara fram á facebook-síðunni hennar „Sundskóli Tobbu“.

KYNNING