Flipp flopp í skapandi skólastarfi

Sævaldur Bjarnason kennari í Kvíslarskóla.

Flipp flopp í skapandi skólastarfi er heiti á nýju þróunarverkefni sem hefur verið unnið að í Kvíslarskóla í vetur.
Sævaldur Bjarnason, kennari í Kvíslarskóla, kom með hugmyndina að verkefninu og vann í að koma því á laggirnar ásamt hópi kennara í skólanum. Flipp flopp dagar hafa verið mánaðarlega næstum allt skólaárið við frábærar undirtektir nemenda og kennara.

Hvernig varð hugmyndin að Flipp flopp til?
Hún varð fyrst til eftir að það kom gagnrýni frá Menntamálastofnun að kennsluhættir væru heldur einhæfir í skólanum. Stjórnendur skólans sáu tækifæri í þessu og þegar ákveðið var að skipta skólanum upp í tvo skóla ákváðu þeir að láta á þetta reyna, prófa verkefnið og sjá hversu langt við kæmumst með að breyta kennsluháttum og reyna að búa til fleiri verkefni sem nemendur tengdu meira við með fjölbreyttara námsmati. Þá tók ég við boltanum og úr varð þessi hugmynd.
Húsnæði skólans býður ekki upp á mikla möguleika á teymiskennslu en okkur langaði til að prófa okkur áfram með okkar útgáfu af því. Þegar skólinn fór frá því að vera Varmárskóli – eldri deild yfir í Kvíslarskóla þá ákváðum við að nýta tækifærið og endurskoða kennsluna og skólabraginn og gera tilraun með að gera endurbætur til að efla nýjan unglingaskóla í bænum.
Kennararnir tóku vel í þessar pælingar og höfðu mikinn áhuga á að færa sig frá hefðbundinni bókarkennslu yfir í nútímalegri kennsluhætti með fjölbreyttum verkefnum og verkefnaskilum. Aðalnámskrá var nýtt í öll verkefnin og lykilhæfni grunnskólanna. Hvert Flipp flopp þurfti þannig að hafa markmið sem tengdist lykilhæfni grunnskólanna.

Hvaðan kemur nafnið Flipp flopp?
Við vildum hvorki kalla þetta þemadaga né verkefnadaga. Það er náttúrulega fullt af svipuðum verkefnum í gangi í öðrum skólum eins og sprellifix, uglur og smiðjur. Við erum með teymi utan um þetta nokkrir kennarar. Við veltum upp hugmyndum í kringum þetta, okkur fannst þetta frekar flippað allt saman að fara af stað með eitthvað svona og einhvernvegin varð þetta nafn til Flipp flopp.

Hversu oft eru Flipp flopp dagar í skólanum?
Tveir Flipp flopp dagar eru haldnir mánaðarlega og snúa að vinnulagi þar sem nokkrar námsgreinar eru samþættar að hverju sinni. Áhersla er lögð á nýstárleg vinnubrögð af hálfu nemenda og kennara auk samspils upplýsingatækni og kennslufræðilegra hugmynda í námi, hugmynda á borð við verkefnamiðað nám, þemanám, þrautalausnanám, hönnunarmiðað nám og samvinnunám.

Hvernig hafa nemendur og kennarar tekið dögunum?
Flestum nemendum hefur þótt þetta mjög skemmtilegt, það er svo gaman að brjóta aðeins upp hversdagsleikann og hafa kennsluna öðruvísi. Við leggjum mikla áherslu á hópefli, reynum að þétta hópinn og gera eitthvað saman. Að mínu mati er miklu betri og skemmtilegri stemmning í skólanum síðan við byrjuðum með þetta.
Kennararnir hafa almennt verið mjög jákvæðir en þetta krefst þess að maður þarf að undirbúa sig öðruvísi en fyrir venjulega kennslu og oftast í öðrum fögum en maður ert vanur að kenna.

Myndiru vilja breyta einhverju á næsta ári?
Nei, bara fínpússa verkefnin og lagfæra þessa hnökra sem við urðum vör við. Sum verkefnin litu kannski vel út á blaði en heppnuðust svo ekki nóg vel í framkvæmd.
Við erum því bara spennt að takast á við nýtt skólaár með alls konar Flipp flopp dögum og að gera enn betur en í fyrra.