Fastefli og BL kaupa athafnasvæði við Tungumela

Íris Ansnes framkvæmdastjóri hjá BL og Óli Valur Steindórsson framkvæmdastjóri Fasteflis undirrita. Fyrir aftan: Jón Þór Gunnarsson og Erna Gísladóttir eigendur BL og Ellert Jón Björnsson fjármálastjóri Fasteflis.

Á dögunum hittust forsvarsmenn Fasteflis og BL á Barion Mosó og undirrituðu samstarfssamning um kaup og þróun á rúmlega 38 hektara landsvæði við Tungumela í Mosfellsbæ. Svæðið er ætlað fyrir fjölbreytta athafnastarfsemi.
Aðspurður sagði Mosfellingurinn Óli Valur Steindórsson framkvæmdastjóri Fasteflis um verkefnið: „Á mýmörgum fundum sjálfboðaliða Aftureldingar var og er mikð rætt um þörfina að fjölga styrktaraðilum en góður fjöldi vel rekinna fyrirtækja er grundvöllur þess.
Það hafa verið viss vonbrigði með fyrsta hluta uppbyggingar Tungumela hversu fá fyrirtæki hafa lagt leið sína þangað en mikill hluti svæðisins hefur verið nýttur undir byggingu á geymslum. Það er því kærkomið tækifæri sem okkur hefur nú fallið í skaut, að leiða og þróa uppbyggingu á þessu svæði og taka þátt í að auðga flóru fyrirtækja í bæjarfélaginu en það er vonandi að við fáum góðan stuðning og samstarf frá bæjaryfirvöldum við það,“ segir Óli Valur.

Spennandi framtíðarstaðsetning fyrir BL
Íris Ansnes framkvæmdastjóri hjá BL bætti jafnframt við að Tungumelar væri spennandi svæði til framtíðar fyrir BL en félagið væri að skoða mögulega framtíðarstaðsetningu fyrir starfsstöðvar félagsins. „Að því sögðu býður verkefnið sem slíkt upp á gríðarmikla möguleika fyrir fyrirtæki sem eru að huga að og þurfa að færa sína starfsemi úr Reykjavík í náinni framtíð og eru Tungumelar góður kostur ef vel er á málum haldið,“ segir Íris Ansnes.
Áhugavert verður að fylgjast með þessu verkefni.


Fastefli er móðurfélag Upprisu og Hlöllabáta (Barion).
BL er rótgróið bílaumboð sem varð til við sameiningu Ingvars Helgasonar og B&L árið 2011.