Nýr meirihluti – málefnasamningur í höfn

Oddvitarnir Anna Sigríður, Halla Karen og Lovísa handsala samstarfið.           Mynd/Hilmar

Í sveitarstjórnarkosningunum þann 14. maí fengu Framsókn, Samfylkingin og Viðreisn sex kjörna fulltrúa af ellefu og tóku flokkarnir ákvörðun um það að vel ígrunduðu máli að hefja meirihlutasamstarf enda mikill málefnalegur samhljómur með þessum þremur flokkum.
Oddvitar þessara þriggja flokka eru konur og þetta er í fyrsta sinn sem fjölflokka meirihluti í Mosfellsbæ er einungis leiddur af konum.

Áherslur þræddar inn í öll störf
Lýðheilsa, lýðræði, umhverfismál og nýsköpun eru leiðarstef í nýjum málefnasamningi og verða þessar áherslur ofnar inn í samþykkktir allra nefnda. Með þessu vill nýr meirihluti tryggja að þessi áhersluatriði verði ávallt í forgrunni í nefndarstarfi.
Nýr meirihluti ætlar sér líka að efla allt nefndarstarf og tryggja að lýðræðisleg umræða eigi sér stað inni í nefndunum. Þá verða unnar mun ítarlegri starfsáætlanir fyrir hverja nefnd en hingað til hefur tíðkast þar sem skilgreind verða þau sérstöku verkefni í málefnasáttmálanum sem hverri nefnd er ætlað að vinna að.

Framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild
Næstu fjögur árin verður unnið að því byggja upp framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild. Áhersla verður lögð á langtímaáætlanir, traust og uppbyggileg samskipti.
Það er leiðarljós nýs meirihluta í bæjarstjórn að leita breiðrar sáttar og samvinnu þvert á alla flokka í vinnu sinni fyrir Mosfellsbæ.
Það eru stór verkefni fram undan í Mosfellsbæ í flestum málaflokkum og leggur nýr meirihluti mikla áherslu á ábyrgan rekstur og gæði þeirrar þjónustu sem Mosfellsbær veitir. Stærsta uppbyggingarverkefni á höfuðborgarsvæðinu er í undirbúningi og að mörgu að hyggja hvað það varðar.
Umhverfis- og loftslagsmál eru mikilvægir málaflokkar hér eins og annars staðar. Nauðsynlegt er að Mosfellsbær sé framsækið sveitarfélag sem setur sér metnaðarfull markmið þegar kemur að því að efna skuldbindingar Íslands um kolefnishlutleysi og sjálfbærni.

Jöfn tækifæri og aukin þjónusta
Í málefnasamningnum er einnig að finna áætlanir um að skólar Mosfellsbæjar séu eftirsóttir til að læra og starfa í. Til þess þurfi meðal annars að styrkja stoðþjónustu skólanna og efla sjálfstæði skólastofnana. Skólahúsnæði sé heilsusamlegt og í gangi sé viðhaldsáætlun fyrir allar fasteignir í eigu bæjarins.
Rík áhersla verður lögð á að efla Mosfellsbæ sem heilsueflandi samfélag. Unnin verður heildstæð langtíma uppbyggingar- og viðhaldsáætlun fyrir Varmársvæðið svo það standist nútímakröfur.
Nýr meirihluti ætlar sér að ljúka innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á kjörtímabilinu og vill að farið sé að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eins verður unnin aðgerðaráætlun varðandi uppbyggingu sértækra búsetuúrræða. Þá verður lögð áhersla á áframhaldandi uppbyggingu faglegs starfs sem stuðlar að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu eldri Mosfellinga.
Lengri opnunartímar sundlauga, fjölgun nemenda í tónlistarnámi, fjölgun grenndarstöðva og endurskoðun á rekstrar­fyrir­komulagi Hlégarðs eru fleiri dæmi um aðgerðir í málefnasamningnum og stefnt er að því að leysa aðstöðumál leikfélagsins til lengri tíma.

Stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi
Atvinnumálum verður gert hærra undir höfði í nefndarstarfi bæjarins enda skiptir öflugt atvinnulíf miklu máli í hverju samfélagi. Meirihlutinn ætlar sér þess vegna að vinna atvinnustefnu fyrir bæjarfélagið á kjörtímabilinu og verður unnið markvisst að því að laða fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki til bæjarins.
Mikilvægt er að skipulag stuðli að öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi og til staðar sé miðbæjarskipulag sem laðar að sér verslun og þjónustu sem leggur grunn að kraftmiklu mannlífi.


Góður samhljómur Anna Sigríður Guðnadóttir oddviti Samfylkingarinnar
Fyrst vil ég þakka þeim kjósendum sem treystu Samfylkingunni fyrir atkvæði sínu. Ég er full tilhlökkunar og auðmýktar yfir þessu nýja hlutverki í meirihluta og ég veit að allt það góða fólk sem kemur að þessum meirihluta mun vanda sig í öllum sínum störfum og vinna vel saman enda mikill samhljómur á milli okkar. Þá viljum við sem meirihluti vinna að góðu samstarfi innan bæjarstjórnar allrar. Við munum taka til hendinni!


Munum vinna af heilindumHalla Karen Kristjánsdóttir oddviti Framsóknar

Ég vil byrja á því að þakka íbúum Mosfellsbæjar fyrir stuðninginn og það mikla traust sem þið sýnduð okkur í Framsókn. Það fylgir því mikil ábyrgð að vera komin í þessa stöðu og munum við leggja allt okkar í að standa undir henni. Ég bind miklar vonir við vinnu okkar í þessu meirihlutasamstarfi með Samfylkingu og Viðreisn auk samstarfsins í bæjarstjórninni í heild. Ég veit að við munum öll vinna af heilindum og metnaði fyrir ykkur bæjarbúa og bæinn í heild sinni. Rauði þráðurinn í gegnum allar nefndir verður lýðheilsa, lýðræði, nýsköpun og umhverfismál. Við þrjár ásamt okkar góða fólki tökum við keflinu full tilhlökkunar og ætlum að vanda okkur.


Nýir tímar fram undan – Lovísa Jónsdóttir oddviti Viðreisnar

Ég persónulega er mjög stolt af því að vera hluti af þessu nýja þríeyki og hlakka til samvinnunnar. Á heildina litið þá líst okkur mjög vel á samstarfið enda hefur það farið mjög vel af stað. Það er góð samvinna í hópnum og gleði og ég tel að bæjarbúar muni strax verða varir við nýjar áherslur. Við teljum það mikilvægt hvernig megináherslurnar í samstarfinu verða ofnar inn í allt starfið og þar með vonumst við til þess að geta innleitt meiri samvinnu milli nefnda.


Bæjarstjórn Mosfellsbæjar skipa:
Halla Karen Kristjánsdóttir (B)
Ásgeir Sveinsson (D)
Aldís Stefánsdóttir (B)
Jana Katrín Knútsdóttir (D)
Dagný Kristinsdóttir (L)
Sævar Birgisson (B)
Rúnar Bragi Guðlaugsson (D)
Anna Sigríður Guðnadóttir (S)
Örvar Jóhannsson (B)
Lovísa Jónsdóttir (C)
Helga Jóhannesdóttir (D)

Helstu nefndir og ráð:
Formaður bæjarráðs: Halla Karen Kristjánsdóttir (B)
Forseti bæjarstjórnar: Anna Sigríður Guðnadóttir (S)
Formaður fjölskyldunefndar: Ólafur Ingi Óskarsson (S)
Formaður fræðslunefndar: Aldís Stefánsdóttir (B)
Formaður íþrótta og tómstundanefndar: Erla Edvardsdóttir (B)
Formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar: Sævar Birgisson (B)
Formaður menningar- og nýsköpunarnefndar: Hrafnhildur Gísladóttir (B)
Formaður skipulagsnefndar: Valdimar Birgisson (C)
Formaður umhverfisnefndar: Örvar Jóhannsson (B)
Stjórn Sorpu bs.: Aldís Stefánsdóttir (B)
Stjórn Strætó: Lovísa Jónsdóttir (C)
Heilbrigðisnefnd: Bjarni Ingimarsson (B)