Mikil þróun í hreyfingu á síðustu árum

Ólafur Ágúst Gíslason hefur starfað við íþróttakennslu nær óslitið frá árinu 1978. Hann hefur einnig starfrækt íþrótta- og leikjanámskeið, fótboltaþjálfun og kennt ungbarnasund og líkamsrækt í áratugi.
Hann segir þróunina í hreyfingu fyrir alla aldurshópa hafa verið öra síðustu ár en Ólafur hefur fylgst vel með á þeim sviðum með því að sækja ýmis námskeið bæði hér heima og erlendis.

Ólafur Ágúst er fæddur í Reykjavík, á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 1952. Foreldrar hans eru Erla Haraldsdóttir húsmóðir og Gísli Ólafsson læknir en þau eru bæði látin.
Ólafur á tvær systur, Arndísi f. 1946 og Hildi f. 1951.

Minn stærsti leikvöllur alla tíð
„Ég ólst upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík til 25 ára aldurs. Gamli Ármannsvöllurinn var rétt við heimili mitt og hann var minn stærsti leikvöllur alla tíð. Þar var farið í fótbolta, handbolta og stundaðar frjálsar á leikja- og íþróttanámskeiðum á sumrin, jafnvel spilað golf þegar best lét.
Ýmislegt var brallað úti í kálgörðunum sem voru handan við Laugarnesveginn. Þá voru þar engar byggingar en Sjálfsbjargarhúsin og Grand Hótel hafa nú risið á þessu svæði.“

Lærði ungur að spila golf
„Æskuminningarnar eru bundnar við alls konar leiki sem við krakkarnir fórum í. Við vorum langt fram á kvöld í fallin spýta, hlaupa í skarðið og hark og púkk með fimm aura peningum.
Ég lærði snemma að spila golf með pabba sem var fyrsti Íslandsmeistarinn í golfi árið 1940. Við fórum oft á gamla GR golfvöllinn í Öskjuhlíð en það var ekki mikið um að börn væru að spila golf á þessum tíma eða í kringum 1960.
Við systkinin fórum einnig mikið á skíði með foreldrum okkar í Úlfarsfell og Skíðaskálann í Hveradölum. Einnig eru góðar minningar bundnar við sumarbústað sem afi minn, Haraldur Árnason stórkaupmaður, byggði í Heiðarbæjarlandi á Þingvöllum. Við systkinin ásamt öðrum frændsystkinum dvöldum þar oft á sumrin með mæðrum okkar á meðan pabbi keyrði til vinnu í Reykjavík.“

Ævintýri út af fyrir sig
„Ég gekk í Laugarnesskólann, bæði í barna-og unglingadeild, og var með frábæran umsjónarkennara, Gróu Kristjánsdóttur. Mér þótti alltaf gaman að fara í skólann og hitta skólafélagana. Það var alltaf morgunsöngur í sal og maður lærði mörg lögin þar. Sundkennslan var í gömlu sundlaugunum sem voru alveg ævintýri út af fyrir sig, við vinirnir fórum oft í laugarnar.
Ég lauk gagnfræðaprófi frá Lindargötuskóla og fór þaðan í Verzlunarskóla Íslands. Á sumrin starfaði ég hjá skrúðgarðyrkjumeistara við að standsetja lóðir og fleira.“

Fór til Noregs í nám
Ólafur hóf störf hjá herrafataversluninni, Andersen&Lauth á Laugavegi árið 1970 og starfaði þar í þrjú ár. Þaðan fór hann til Noregs í lýðháskóla, Gauldal Folkehaugsskola í Melhus og var þar á íþróttabraut. Það var þar sem hann uppgötvaði hvað hann vildi starfa við í framtíðinni en það var að verða íþróttakennari.
Eftir að heim var komið þá fór hann aftur í Lindargötuskólann í uppeldis- og hjúkrunarnám en árið 1976 lá leiðin í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni.

Góðir tímar á Laugarvatni
„Ég átti dásamlegan tíma á Laugarvatni en þar kynntist ég konunni minni, Guðríði Ernu Jónsdóttur frá Patreksfirði en við útskrifuðumst bæði sem íþróttakennarar árið 1978. Við fluttum til Fáskrúðsfjarðar sama ár og kenndum þar í tvö ár. Við fluttum síðan í bæinn og ég hóf störf sem íþróttakennari í Garðaskóla í Garðabæ og kenndi þar nánast óslitið til 2018 eða í 38 ár. Erna byrjaði á sama tíma í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og Varmárskóla og kenndi til 2021.
Ég hef einnig verið fótboltaþjálfari á sumrin á nokkrum stöðum úti á landi. Á árunum 1984-1990 sá ég um íþrótta-og leikjanámskeið í Mosfellsbæ ásamt Ölfu Regínu og svo var ég með Íþróttaskóla Stjörnunnar frá 1991-1994. Í Garðaskóla hafði ég umsjón með Skíðaklúbbi Garðalundar ásamt öðrum í yfir 30 ár. Frá 1989 hef ég starfað með líkamsrækt fyrir karla í Garðabæ, líkamsrækt B&Ó, og er enn að. Allt að 60 þátttakendur koma saman tvisvar í viku í hreyfingu og í körfubolta.
Hreyfing og alhliða líkamsþjálfun er nauðsynleg hverjum manni og þróunin í hreyfingu fyrir alla aldurshópa hefur verið ör síðustu árin. Ég hef reynt eftir fremsta megni að fylgjast vel með á þeim sviðum með því að sækja ýmis námskeið bæði hér heima og erlendis.“

Það gafst meiri tími með þeim þar
Óli og Erna eiga saman þrjú börn, Brynju Rós f. 1987 stöðvarstjóra hjá Íslandspósti, Þórdísi f. 1989 sjúkraþjálfara og Gísla f. 1994 viðskiptafræðing en þau búa öll í Mosfellsbæ. Barnabörnin eru tvö.
Árið 1998 skelltum við Erna okkur í nám í Osló í íþróttaháskólann þar. Ég segi alltaf að þar hafi ég kynnst börnunum mínum betur því það gafst meiri tími með þeim þar heldur en hér heima, vegna vinnu, þetta var ótrúlega skemmtilegur tími.
Við fjölskyldan reynum að hittast sem oftast, förum í ferðalög, útilegur, sumarbústaðaferðir og skíðaferðir erlendis.“

Hættir eftir frábær ár á Reykjalundi
„Áður en við fórum frá Noregi skellti ég mér í ungbarnasundkennslu og var þar með námskeið um vorið. Árið 2001 byrjaði ég svo með ungbarnasund á Reykjalundi sem er ætlað fyrir börn frá 3 mánaða aldri til 2 ára og nú er ég að hætta á þeim starfsvettvangi eftir 22 ár. Þarna hef ég haft frábæra aðstöðu í gegnum árin.
Að kenna ungbarnasund hefur verið mjög gefandi, frábær samvera bæði með foreldrum og ekki síst litlu krílunum sem eru orðin allt að fimm þúsund í gegnum tíðina. Það eru mikil forréttindi að fá að vinna með börnum og fyrir það er ég þakklátur.
En er Óli búinn að finna arftaka? „Já, hann heitir Fabio La Marca og hann kemur til með að halda áfram með námskeiðin. Ég er ótrúlega ánægður með að fá hann Fabio því ég treysti honum til allra góðra verka,“ segir Óli og brosir.

Ætla að njóta lífsins
Ég spyr Óla að lokum hvað hann ætli að fara að taka sér fyrir hendur? „Nú ætla ég hreinlega að njóta lífsins og sinna áhugamálunum, fara í líkamsrækt, hjóla, fara í fjallgöngur og göngutúra og svo ætla ég að snúa mér meira að golfinu með konunni sem er að byrja fyrir alvöru.
Markmið mitt er að njóta þess að vera hraustur, hafa gaman af hlutunum og verja sem mest af tímanum með fjölskyldunni minni og vinum.“ Með þeim orðum kvöddumst við.