Lalli ljóshraði undirbýr jólabókaflóðið

Lárus okkar Jónsson, Lalli Ljóshraði, leikari og Mosfellingur númer 1, ætlar að taka slaginn í næsta jólabókaflóði ásamt félaga sínum, Guðjóni Inga Eiríkssyni. Bókin mun heita Jólasveinarnir í Esjunni og byggir á hugmynd Lalla sem hann viðraði við Guðjón fyrir um 30 árum síðan.
Guðjón gleymdi aldrei hugmynd Lalla og á vordögum 2021 fór hann að setja efnið saman í barnabók, án þess þó að Lalli vissi af. Þegar allt var orðið klappað og klárt fékk Lalli loksins að vita af þessu og datt þá andlitið bókstaflega af kappanum.
En hvað heitir bókin og um hvað er hún? Hún heitir Jólasveinarnir í Esjunni og fjallar um fótboltastrák, sem auðvitað heitir Lalli. Hann fer nauðugur með foreldrum sínum í göngu á Esjuna, dauðþreyttur eftir hörkuleik. Já, hann er bókstaflega með hangandi haus, en uppi við Stein, þar sem hann hvílir lúin bein, gerast ævintýrin og það svo um munar.
Meira verður ekki sagt hér og nú, en á Karolina Fund geta þeir sem vilja styrkja þetta bráðskemmtilega verkefni og eignast bókina stutt við það. Slóðin er: www.karolinafund.com/project/view/3891
Það eru Bossa Blossar sem hafa sett söfnunina af stað en þeir eru gamlir félagar úr fótboltanum í Aftureldingu á 9. áratugnum.