Leitin að hæsta tré bæjarins

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og bæjarblaðið Mosfellingur leita nú að hæsta trénu í Mosfellsbæ.
Síðastliðin 20 ár hefur verið mikill trjávöxtur á landinu og er staðfest að innan innan þessa sveitarfélags er að finna tré sem komin eru yfir 20 metra.
„Við viljum endilega sjá hvort við eigum ekki tré sem er farið að nálgast 25 metra eða jafnvel 30 metra sem samsvarar hæsta mælda tré á Íslandi en það er sitkagrenitré sem gróðursett var á Kirkjubæjarklaustri árið 1949,“ segir Björn Traustason formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar.
Gætum við jafnvel átt hæsta tré á Íslandi hér í Mosfellsbæ?

Bæjarbúar taki þátt við leitina
Til að finna hæsta tréð eru bæjarbúar beðnir um að senda Skógræktarfélaginu tilnefningar í sumar. Takið myndir af trjám sem þið teljið líklega kandídata og er mikilvægt að einhver standi við tréð þannig að hægt sé að meta út frá ljósmyndinni hversu hátt það er.
Það getur auðvitað verið erfitt að taka mynd í þéttum skógarlundi en þið gerið ykkar besta. Mikilvægt er að tilgreina staðsetningu á trénu og gaman væri að fá upplýsingar um trjátegund, hvenær það var gróðursett, af hverjum og af hvaða tilefni.
Hæstu 10 trén verða metin og í kjölfarið mæld með nákvæmum hætti af skógmælingafólki frá Skógræktinni. Sett verður upp merki við hæsta tréð og sagt frá verðlaunatrénu í Mosfellingi.

Myndir og upplýsingar um tré er hægt að senda á netfangið skogmos@skogmos.is til 10. ágúst.