Guðrún Jónsdóttir sérfræðingur í heimilislækningum fékk heilablóðfall árið 2017 á heimili sínu í Svíþjóð
Líf Guðrúnar Jónsdóttur breyttist á örskotsstundu árið 2017 er hún fékk heilablóðfall á heimili sínu í Skåne í Svíþjóð. Hún var meðvitundarlaus í þrjár vikur, dvaldi á spítala í nokkra mánuði og glímir í dag við alvarlega fylgikvilla áfallsins eins og málstol og heilaþreytu.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir Guðrún um æskuárin, dvölina í Svíþjóð og hvernig fjölskyldan hefur tekist á við þessar breyttu og erfiðu aðstæður eftir að hún veiktist.
Guðrún eða Rúna eins og hún er ávallt kölluð fæddist í Reykjavík 19. mars 1978. Foreldrar hennar eru þau Steinunn Skúladóttir og Jón Gunnar Kristinsson starfsmaður Norðuráls á Grundartanga.
Guðrún er elst fjögurra systkina, Kristinn Svanur er fæddur 1979, Kolbrún Ósk er fædd 1981 og Þórey 1983.
Amma bjó í næsta húsi
„Ég ólst upp í Laugarneshverfinu og það var gott að alast þar upp. Ég á góðar minningar úr Laugarnesskóla og á yndislegar æskuvinkonur. Það voru ákveðin forréttindi að amma mín heitin, Þórey, átti heima við hliðina á okkur og heimili hennar var okkar annað heimili.
Við krakkarnir í hverfinu vorum heimalningar í Laugardalslaug, fórum stundum þrisvar sinnum á dag, skruppum bara rétt heim til að borða,“ segir Rúna og brosir.
Fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna
„Fjölskyldan flutti í Mosfellssveit árið 1991, að yfirgefa Reykjavík og flytja í sveit var smá sjokk en ég áttaði mig fljótlega á því að hérna vildi ég búa.
Ég fór í Gaggó Mos og svo í Menntaskólann í Reykjavík. Að loknu fyrsta ári fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna en hélt svo náminu áfram þegar ég kom heim og útskrifaðist 1999.
Með skólagöngunni starfaði ég á hinum ýmsu stöðum, vann út á Granda, í Nóatúni og svo kenndi ég spinning í World Class. Af og til vann ég líka í Dónald, sjoppu foreldra minna og eitt sumar vann ég á hóteli í Noregi.“
Gengur vikulega á Esjuna
Rúna hitti eiginmann sinn, Gunnar Davíð Gunnarsson Logistics Director hjá Controlant, á Sálarballi í Ingólfskaffi á gamlárskvöld 1997. Hún segir það hafa verið ást við fyrstu sýn en þau hafa verið saman síðan. Þau giftu sig í Laugarneskirkju 2007. Þau eiga þrjú börn, Steinunni Erlu f. 2006, Gunnar Darra f. 2009 og Guðmund Nóa f. 2011, sem öll eru í Lágafellsskóla.
„Áhugamál okkar fjölskyldunnar er einhvers konar útivist og hreyfing og einnig garðrækt. Við förum oft saman í fjallgöngur og svo skreppum við hjónin reglulega í göngutúra á kvöldin. Ég fer svo í ræktina í World Class og á hverjum sunnudagsmorgni fer ég og geng á Esjuna mína,“ segir Rúna og brosir.
Ákveðin í að verða læknir
Rúna var ung að árum þegar hún tók þá ákvörðum að verða læknir. Hún var alltaf forvitin um sjúkdóma og um líkamann að utan sem innan. Rúna er líka mikil félagsvera og elskar fjölbreytt og náin samskipti við fólk. Henni gekk alltaf vel í skóla svo það voru engir þröskuldar þar.
„Haustið 1999 elti ég æskudrauminn og hóf nám í læknisfræði og mér gekk vel í náminu. Á þriðja árinu fór ég í skiptinám til Danmerkur sem var mjög góð reynsla fyrir mig.
Ég átti góð ár í Háskóla Íslands og fékk lækningaleyfi árið 2007.“
Eftir hálft maraþon í Gautaborg 2015.
Fluttu til Svíþjóðar
Rúna ákvað að fara í sérnám í heimilislækningum, kláraði tvö ár hér heima en ákvað að taka seinni árin í Svíþjóð. Fjölskyldan flutti því búferlum árið 2012. Rúna útskrifaðist sem sérfræðingur árið 2014.
„Við bjuggum úti í átta ár, nánar tiltekið í Åhus á Skåne sem er tíu þúsund manna strandbær. Upphaflega stóð nú ekki til að vera svona lengi en við ílengdumst því þarna var gott að vera. Svíarnir eru samt töluvert ólíkir okkur, þeir ræða málin alltaf í þaula á meðan við Íslendingar erum minna fyrir málalengingar en meira fyrir að klára málin, það er heilmikill munur á þessu,“ segir Rúna og hlær.
Strákarnir mínir björguðu mér
Árið 2017 fékk Rúna alvarlega heilablæðingu sem umturnaði lífi hennar og hennar nánustu en áfallið varð heima hjá henni í Svíþjóð í lok vinnudags.
„Ég fann fyrir höfuðverk og sagði við strákana mína sem þá voru 6 og 8 ára að ég ætlaði að leggja mig. Það leið ekki langur tími þar til þeir komu inn í svefnherbergi og vildu fá leyfi til að horfa á sjónvarpið en þeir náðu ekki sambandi við mig. Bræðurnir sóttu aðstoð til nágranna okkar sem var góðvinur okkar og læknir, þeir hreinlega björguðu mömmu sinni. Ég var svo lánsöm að sjúkrabíllinn kom fljótt á svæðið og ég var flutt fyrst til Kristianstad en síðan áfram til Lundar.“
Höfuðkúpan var sett í djúpfrystingu
„Ég var meðvitundarlaus í þrjár vikur og lá á spítala í nokkra mánuði. Ég fór í óteljandi aðgerðir, röntgen og fékk marga lyfjakokteila. Fyrsta aðgerðin fólst í að þræða æðarnar frá nára upp í heila til að komast að æðagúlpinum sem hafði sprungið og valdið blæðingu.
Þræðingin tókst en næstu daga var ég í lífshættu vegna mikils þrýstings. Þess vegna var stór hluti af vinstri helmingi höfuðkúpunnar tekinn af í annarri aðgerð í Lundi. Höfuðkúpan var sett í djúpfrystingu og í staðinn notaði ég hjálm til að hlífa heilanum. Það var erfitt að sofa með hann en það gekk. Eftir 5 mánuði var beininu loksins komið fyrir á sinn stað aftur. Ég var með lömun í hægri hlið líkamans um tíma og þurfti að notast við hjólastól í tvo mánuði.
Mitt í öllum þessum látum fékk eiginmaður minn alvarlega botnlangabólgu og var sendur í bráðaaðgerð á sjúkrahúsið í Kristianstad. Það má sannarlega segja að einhver hafi viljað láta reyna á stoðir fjölskyldunnar en við getum þakkað fyrir að sú aðgerð gekk vel.“
Fékk alvarlegt málstol
„Við eigum ótrúlega mikið af góðum ættingjum og vinum sem studdu við okkur í þessu ferli, eitthvað sem við verðum ævinlega þakklát fyrir. Foreldrar mínir og tengdaforeldrar hjálpuðu okkur mjög mikið.
Ég fékk alvarlegt málstol í kjölfar heilablæðingarinnar. Flestum þykir sjálfsagt að geta talað og tjáð sig og flestir hafa þörf fyrir samskipti við aðra. Fólk með málstol þarf að glíma við erfiðleika í tjáningu, skrift og lestri á hverjum degi en þetta hefur samt ekki áhrif á greind eða persónuleika fólks. Margir einangrast, forðast fólk og eru með kvíða og þunglyndi, þeir finna fyrir skömm og eiga erfitt með að tala í margmenni. Ég tengi við margt af þessu.“
Ég var reið út í kerfið
„Þegar læknirinn breytist í sjúkling þá þarf hann oft að taka á honum stóra sínum. Ég var skelfilegur sjúklingur, ég reif slönguna úr hálsinum nokkrum sinnum, reyndi að strjúka í hjólastól og var bara brjáluð í skapinu. Mínir nánustu ættingjar fengu alveg að finna fyrir því að ég var ekki sátt við málin.
Ég var reið út í spítalann, út í kerfið og aðgerðaleysið en það var enginn sem skildi mig. Það að hafa málstol var eitt og sér nógu erfitt en að vera með málstol án tungumáls var hræðilegt. Sem læknir þá réð ég öllu og skipaði öllum fyrir með sjálfstraustið í botni, sem sjúklingur var ég ósjálfbjarga, í raun einskis verð og með lélegt sjálfstraust.
Það var erfitt að sætta sig við orðinn hlut, það tók mig langan tíma en þegar ég var búin að sætta mig við örlögin þá varð ég betri sjúklingur, fór að treysta öðrum og þiggja aðstoð.“
Ég fékk aldrei séns í Svíþjóð
„Bráðaþjónustan í Lundi var rosalega góð, þar er mesta læknaþekking sem til er í heiminum. Þar starfar ung íslensk kona sem heilataugaskurðlæknir og það var hún sem skar mig upp.
Það sama er ekki hægt að segja um þjónustuna í endurhæfingunni í Skåne því hún var afar takmörkuð. Ég hitti t.d ekki talmeinafræðing fyrr en eftir þrjá mánuði og var útskrifuð of snemma úr sjúkraþjálfun, þeim þótti bara nóg að ég gæti gengið.
Sjúkratryggingakerfið samþykkti ekki að ég ætti rétt á að fá ákafa talþjálfun á móðurmáli mínu. Hreint út sagt má segja að ég hafi lent í ákveðnum fordómum hjá Tryggingastofnun í Svíþjóð þrátt fyrir að vera sænskur ríkisborgari. Ég fékk ekki að fara í ökupróf og þurfti að koma til Íslands á Grensásdeild til þess að fá það í gegn.
Ég fékk aldrei séns í Svíþjóð hvað endurhæfingu varðar og mér leið eins og ég væri í fangelsi.“
Skilningur og skipulag á öðru stigi
„Við fluttum til Íslands 2019 og ég var rosalega þakklát fyrir að vera komin heim. Viðmótið sem ég fékk á Tröppu, Grensás og Reykjalundi var frábært, skilningur og skipulag á allt öðru stigi en ég hafði áður kynnst. Ég var 10 vikur í talþjálfun á Grensás og eitt ár í endurhæfingu á Reykjalundi. Ég er endalaust þakklát fyrir það góða starfsfólk sem þar starfar.“
Heilinn getur aðlagast
Flestir einstaklingar með heilaskaða eru með heilaþreytu sem er ósýnileg fötlun, hún er alvarlegur fylgikvilli eftir áföll. Mjög skert lífsgæði í einkalífi sem og í starfi.
Fólk þreytist óeðlilega hratt, stundum af litlu tilefni og það á erfitt með að vera í hávaða, mikilli birtu og að viðhalda athygli og einbeitingu. Heilaþreytan er breytileg og er oft betri að morgni en verri þegar líða tekur á daginn.
„Heilaþreytan pirrar mig mjög mikið, ég þarf að hvíla mig tvisvar til þrisvar á dag, mikilvægt er að ofreyna sig ekki og finna jafnvægi milli virkni og hvíldar,“ segir Rúna alvarleg á svip. „Ég hélt að heilinn hjá fullorðnum væri fullmótaður og að ekki væri til meðferð við skemmdu svæði í heila en í dag veit ég betur. Heilinn getur aðlagast því hann finnur leið fram hjá færnisskerðingu sinni. Því miður er ekki til nein töfralausn en með réttri og ákafri þjálfun verða framfarir.
Þegar ég var í læknanámi þá áttaði ég mig strax á hvað lífið er oft ósanngjarnt. Mér er oft hugsað til sjúklinganna minna hvernig þeir tóku á hlutunum með æðruleysi og jákvæðu hugarfari, oft á tíðum við ómögulegar aðstæður. Þetta hjálpar mér í dag því ég á enn langt í land.“
Hann talaði fyrir mig í tvö ár
„Krakkarnir okkar eru búnir að vera rosalega duglegir í veikindunum, við vorum með gott net ættingja og vina sem hélt þétt utan um þau á erfiðustu stundunum. Það besta var að láta þau halda áfram að fara í skólann, sinna tómstundum og hitta vini sína.
Yngri strákurinn fékk áfallastreituröskun því hann kom ásamt bróður sínum að mér meðvitundarlausri. Hann vaknaði oft með martraðir, fékk ofsakvíða þegar hann sá sjúkrabíl og var alltaf að leita að mér og spyrja hvort allt væri ekki örugglega í lagi. Það gekk betur með þann eldri, því þeir eru svo ólíkir.
Ást og umhyggja, gott spjall, samvera og mikið knús bjargaði krökkunum. Þetta var líka mikið áfall fyrir Gunna minn, hann hefur staðið sig eins og hetja, hann er kletturinn minn. Hann talaði fyrir mig í tvö ár í Svíþjóð því sænskan mín var horfin.
Stærsta verkefnið okkar er að rækta fjölskylduna og mæta áskorunum í lífinu eins og þær bera að, við ætlum að takast á við þetta saman.“
Ég er mjög sátt í dag
Ég spyr Rúnu hvernig hún horfi til framtíðar? „Líf mitt tók stóra U-beygju og kastaði mér í djúpu laugina, ég hef náð að komast upp á yfirborðið á ný með hjálp margra, einnig með hreyfingu, hollu mataræði og góðum svefni. Nú er bara að synda í átt að bakkanum, gefast aldrei upp og vera með í lífinu, láta engan segja sér annað.
Ég er mjög sátt í dag og afar þakklát fyrir að hafa getað byrjað að vinna aftur sem læknir, fyrir mér er það mesti sigurinn. Mér líður hreinlega eins og ég hafi klifið Mount Everest í hjólastjól, slík hefur brekkan verið. Ég byrjaði mjög rólega en hef smátt og smátt aukið við mig eins og orkan leyfir og það hefur gengið vel.
Það eru forréttindi að starfa með góðu starfsfólki á Heilsugæslunni í Árbæ, ég hlakka alltaf til að komast í vinnuna,“ segir Rúna og brosir er við kveðjumst.