Lemon míní opnar á Olís

Undanfarnar vikur hafa endurbætur og breytingar átt sér stað á Olís Langatanga sem er hluti af umbreytingarferli og nýrri ásýnd allra stöðva.
Stöðin hefur fengið mikla upplyftingu þar sem básum hefur verið komið fyrir í matsalnum og hann aðeins stækkaður svo betur fari um sem flesta. Einnig hefur verið frískað upp á allar innréttingar sem gerir heildaryfirbragð léttara.
Þjónustustöðin hefur aukið á fjölbreytnina og opnað Lemon míní með hollari valkosti fyrir viðskiptavini. Lemon míní er aðeins minni útgáfa af Lemon en þar er í boði fjórar vinsælustu tegundirnar af samlokum og djúsum frá Lemon.
Lemon er ferskur og safaríkur matur og hentar vel þeim sem velja sér hollari kosti. Á sínum stað eru svo ávallt safaríkir hamborgarar frá Grill 66 eins og margir þekkja og frábært úrval af annarri smávöru sem og bílavörum.

Mæta ólíkum þörfum viðskiptavinanna
„Á síðasta ári var gerður samningur við TVG-Zimsen og eiga viðskiptavinir kost á að fá sendar pantanir til okkar til að sækja og í leiðinni tankað bílinn og fóðrað magann. Þannig kappkostum við að mæta ólíkum þörfum viðskiptavina okkar,“ segir Elsa Forberg verslunarstjóri Olís í Mosfellsbæ.
„Við bjóðum gamla og nýja viðskiptavini hjartanlega velkomna og hlökkum til að þjónusta þá áfram.“