Fyrsti Mosfellingur ársins

Þann 2. janúar kl. 23:24 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2023.
Það var fallegur og hraustur drengur, foreldrar hans eru þau Hafdís Elva Einarsdóttir og Freysteinn Nonni Mánason.
„Við vorum voða glöð að hann skyldi ná 2023, við héldum jafnvel að hann myndi fæðast þann þriðja en hann var komin í heiminn klukkutíma eftir að við komum niður á Landspítala. Fæðingin gekk vel og hann er mjög vær og góður og allt hefur gengið vel,“ segir Hafdís Elva.
Drengurinn er annað barn foreldra sinna en fyrir eiga þau dótturina Marínu Birtu sem er rúmlega þriggja ára. Fjölskyldan hefur búið í Mosfellsbæ í tvö ár og líkar vel.
„Við erum bæði utan af landi og langaði að búa í úthverfi höfuðborgarinnar eða minna samfélagi. Við erum alveg rosalega ánægð með þessa ákvörðun og þjónustuna hér í bænum,“ segir Freysteinn Nonni.
Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með drenginn.